Fréttayfirlit: september 2002

Aron ÞH-105 sökk í morgun- TF-LÍF send til aðstoðar

Mánudagur 30. október 2002. Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:20 í morgun vegna rækjubátsins Arons ÞH-105 en þá var kominn leki að bátnum og hann á reki 26 sjómílur norður af Grímsey.  Því var komið á framfæri að dælu vantaði um borð í bátinn.  Fimm mínútum síðar hafði Tilkynningarskyldan samband að nýju og lét vita að verið væri að athuga með dælur í Grímsey og að hraðbátur myndi sækja þær.  Um kl. 6:30 fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þær upplýsingar frá Tilkynningarskyldunni að veður á svæðinu væri gott, hægviðri og þokkalega bjart.  Áhöfn Arons var á þessum tímapunkti bent á að láta nærstadda báta draga bátinn í átt að landi en vitað var að annar bátur var í 2 sjómílna fjarlægð frá honum. Útgerðarmaður Arons hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:35 og óskaði eftir að varðskip drægi Aron að landi en það var ekki mögulegt þar sem ekkert varðskip var í grenndinni. Þær upplýsingar fengust frá Tilkynningarskyldunni kl. 6:36 að slagsíða væri komin á bátinn og að 2 bátar væru á leið til hans, Svanur og Sæþór.  Verið var að athuga með björgunarbát frá Siglufirði og bát frá Grímsey með dælur.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 6:41 og fór hún í loftið kl. 7:20.  Um borð í þyrlunni voru tvær dælur sem fyrirhugað var að koma um borð í Aron.  Níu mínútum eftir flugtak barst tilkynning um að Aron væri kominn á hliðina og að allir skipverjar hefðu bjargast um borð í SæÞór EA-101.  Sökk báturinn stuttu síðar. Sæþór EA-101 var kominn að Aroni hálftíma áður en báturinn sökk og var haft eftir skipstjóra hans að áhöfn Arons hafi ekki verið hætta búin. Um kl. 7:35 var TF-LÍF snúið við og lenti hún við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 8:00. Aron er 127 brúttólesta togbátur, smíðaður í Danmörku árið 1989 og var keyptur til Íslands árið 1998.  Hann var gerður út af Knarrareyri á Húsavík. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Sjómælingar Íslands - Nýjar útgáfur, sjókort og flóðtöflur

Mánudagur 30. september 2002. Sjómælingar Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslu Íslands, hafa gert nýjar útgáfur af eftirfarandi sjókortum: Nr. 32.  Alviðruhamrar - Vestmannaeyjar 1:100 000Nr. 33.  Selvogur - Vestmannaeyjar 1:100 000Nr. 35.  Fuglasker 1:100 000 Nr. 321. Vestmannaeyjar 1:50 000 Kortin eru öll á svokallaðri WGS-84 (World Geodetic System) viðmiðun.  Í korti nr. 32 eru nýjar mælingar sem gerðar voru með fjölgeislamælinum um borð í Árna Friðrikssyni.  Með nýju útgáfunum falla eldri útgáfur af þessum kortum úr gildi. (Sjá kortaskrá) Sjávarfallatöflur 2003 eru komnar út en þær sýna útreiknuð sjávarföll fyrir fjórar hafnir við Ísland þ.e. Reykjavík, Ísafjörð, Siglufjörð og Djúpavog. Þetta er 50. árgangur sjávarfallataflna en Sjómælingar Íslands hófu útgáfu flóðspár fyrir Reykjavík um 1953 en flóðspár voru fyrst gerðar fyrir Ísafjörð, Siglufjörð og Djúpavog árið 1991. Ennfremur er Sjávarfallaalmanak 2003 komið út en það sýnir sjávarföll í Reykjavík myndrænt. Sjá meðfylgjandi töflu og kort. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Mynd 1:  Kort nr. 32 af hafsvæðinu frá Alviðruhömrum til Vestmannaeyja. Mynd 2:  Sjávarfallatöflur fyrir árið 2003. Mynd 3: Sjávarfallaalmanak fyrir árið 2003.  

Björgunaræfing við Miðbakkann og varðskip til sýnis í tilefni öryggisviku sjómanna

Laugardagur 28. september 2002. Það var mikið um dýrðir við Miðbakkann á Reykjavíkurhöfn um eittleytið í dag en þá hófst björgunaræfing þar sem áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, æfði björgun úr sjó.  Voru menn bæði hífðir úr björgunarskipinu ÁSGRÍMI sem er í eigu slysavarnarfélagsins Landsbjargar og einnig úr sjónum.  Björgunaræfingin setti svip sinn á miðbæinn í dag. Á sama tíma var varðskipið ÆGIR til sýnis við Miðbakkann og kom talsverður fjöldi gesta um borð.  Skólaskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Sæbjörg, var einnig við Miðbakkann og bauð Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík kökur og kaffi til sölu um borð. Var mál manna að sá viðurgjörningur væri betri en fínasta fermingarveisla.  Er björgunaræfingunni lauk mátti sjá skip danska sjóhersins, Vædderen, sigla úr Reykjavíkurhöfn. Öryggisvika sjómanna lýkur með ráðstefnu um öryggismál sjómanna fimmtudaginn 3. október.  Ráðstefnan verður haldin að Borgartúni 6, 4. hæð og er aðgangur ókeypis.  Enn er hægt að skrá sig til þáttöku hjá samgönguráðuneytinu í síma 545-8200 eða á vef samgönguráðuneytisins fyrir 1. október nk.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s ÆGI tók á Miðbakkanum í dag. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands      

Fallbyssuæfingar á Ægi og Tý

Fimmtudagur 26. september 2002. Í septembermánuði hafa áhafnir varðskipanna ÆGIS og TÝS æft notkun fallbyssa um borð í skipunum undir styrkri stjórn sprengjusérfræðings Landhelgisgæslunnar.  Slíkar æfingar eru haldnar með reglubundnu millibili.  Æfingunum lauk með því að skotið var af fallbyssunum úti á Faxaflóa og var mikil samkeppni milli skipsáhafnanna um hvor þeirra væri betur þjálfuð og ætti bestu skytturnar.  Æfingarnar gengu mjög vel og var óvenjulega hátt hlutfall skota sem hittu beint í mark þrátt fyrir breytilegt veður og sjólag. Fallbyssurnar, sem eru af gerðinni Bofors L60 með 40 mm. hlaupvídd, geta skotið 120-160 skotum á mínútu eða tveimur til þremur skotum á sekúndu á skotmörk í allt að þriggja kílómetra fjarlægð frá varðskipinu.  Til að skjóta af byssunni þarf þriggja manna byssuáhöfn auk yfirmanns í brú sem gefur upplýsingar um fjarlægð og stefnu á skotmarkið og veitir heimild til að skjóta. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi   Linda Ólafsdóttir háseti á Ægi undirbýr næsta skot.

Samningur um lögsögumörk milli Íslands og Færeyja í höfn - Landhelgisgæslan sér um tæknilega endurskoðun grunnlínupunkta

Miðvikudagur 25. september 2002. Í dag var gengið frá samkomulagi milli Íslands og Færeyja um lögsögumörk á umdeildu hafsvæði milli landanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Anfinn Dallsberg forsætisráðherra Færeyja undirrituðu samkomulagið í Þórshöfn í Færeyjum. Deilt hafði verið um þá ákvörðun Íslendinga að nota Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við afmörkun miðlínu á hafsvæðinu milli Ísland og Færeyja þegar Íslendingar færðu fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur árið 1975. Gerðu Dönsk stjórnvöld fyrirvara við þá ákvörðun Íslendinga á sínum tíma og viðurkenndu ekki Hvalbak sem grunnlínupunkt.  Samkomulagið gerir ráð fyrir að lögsögumörk á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja, þar sem fjarlægð milli grunnlína er minni en 400 sjómílur, afmarkist af miðlínu.  Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er sagt frá hvernig umdeilda svæðinu er skipt en það er samtals 3.650 km² að stærð: ,,Í samkomulaginu felst að nyrðri hluti umdeilda svæðisins, sem liggur norðan 63° 30´ og nemur um tveimur þriðju hlutum af svæðinu í heild, skiptist þannig milli aðila að Ísland fær 60% í sinn hlut en Færeyjar 40%. Syðsti hluti umdeilda svæðisins, sem liggur sunnan 63° 30´ og nemur um þriðjungi af svæðinu í heild, skiptist hins vegar jafnt á milli aðila. Vegna sérstakra aðstæðna á syðsta hluta svæðisins var um það samið að aðilar heimili fiskiskipum hvors annars veiðar á sínum hluta svæðisins og verður því í raun um sameiginlegt nýtingarsvæði landanna tveggja að ræða. Á þessum hluta svæðisins er að finna rækjuhóla sem hvorki er að finna í næsta nágrenni til vesturs né austurs og myndi það gera fiskiskipum beggja aðila erfitt fyrir að stunda rækjuveiðarnar ef aðgangur þeirra að svæðinu yrði takmarkaður. Stefnt er að því að formlegur afmörkunarsamningur, sem muni ná til allrar lögsögulínunnar milli landanna, verði gerður haustið 2003 að lokinni tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum hvors lands um sig." Því er lýst yfir í í 2 lið samkomulagsins að því sé ætlað að endurspegla hversu góðir nágrannar og vinir Íslendingar og Færeyingar eru.  Formlegur afmörkunarsamningur verður að öllum líkindum gerður á næsta ári þegar tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum verður lokið.  Það eru Sjómælingar Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslu Íslands, sem annast tæknilega endurskoðun grunnlínupunkta.  Stefnt er að því að ljúka henni næsta sumar en þá er ætlunin að endurskoða grunnlínupunkta frá Langanesi að Surtsey. Sjá meðfylgjandi mynd af skiptingu hins umdeilda hafsvæðis.  Samninginn í heild sinni er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Mælst til að öll skip þeyti skipslúðra í eina mínútu

Miðvikudagur 25. september 2002. Á morgun, fimmtudaginn 26. september hefst öryggisvika sjómanna sem stendur til 3. október en hún hefst með setningarathöfn kl. 11 með því að samgönguráðherra, formaður samgöngunefndar Alþingis og siglingamálastjóri taka þátt í björgunaræfingu í frífallandi björgunarbát af flutningaskipi frá Eimskipum.  Að því loknu setur samgönguráðherra öryggisvikuna formlega um borð í Sæbjörgu, skólaskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Í fréttatilkynningu á vef samgönguráðuneytisins segir að mælst sé til þess að öll skip þeyti skipslúðra í eina mínútu í upphafi öryggisvikunnar, þ.e. kl. 11.  Sjá dagskrá og skráningareyðublað á heimasíðu samgönguráðuneytisins. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Kostnaðarsöm leit að báti sem sinnti ekki tilkynningarskyldu

Laugardagur 21. september 2002. Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir kl. sex í morgun og óskaði eftir aðstoð við leit að trillunni Katrínu GK-17 í fyrstu dagsbirtu.  Trillan hafði tilkynnt sig út frá Reykjavík kl. 18:50 í gær.  Hafði eigandi trillunnar lánað hana mönnum sem sögðust vera á leið í siglingu til Grundarfjarðar en þeir ætluðu m.a. að skemmta sér við skotveiði og veiði með sjóstöng á leiðinni.  Áhöfn trillunnar hafði ekki tilkynnt sig aftur til Tilkynningarskyldu íslenskra skipa og ekki var hægt að ná í áhöfnina með farsíma eða á annan hátt. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fór í loftið kl. 7:12 og hélt út yfir Syðra og Vestra Hraun og þaðan siglingarleið að Malarrifi.  Frá Malarrifi fylgdi þyrlan fjöru að Öndverðarnesi og fór þaðan til Grundarfjarðar. Frá Grundarfirði hélt þyrlan 2 sjómílur vestur fyrir að Malarrifi og strönd var fylgt þaðan inn Mýrar.  Þá var haldið frá Akranesi að Garðskaga og síðan 6 sjómílur fyrir jökul og 4 sjómílur til baka að Malarrifi.  Þaðan var flogið suður af Búðargrunni til Reykjavíkur. Um kl. 12:25 hafði Tilkynningarskylda íslenskra skipa samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að Katrín GK-17 væri fundin við Vestmannaeyjar og að skipverjar væru heilir á húfi.  Hafði þyrlan þá samtals flogið 4 klukkustundir í leit að trillunni en kostnaður Landhelgisgæslunnar fer fyrir 1 og hálfa milljón króna. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Leitað að neyðarsendi

Mánudagur 23. september 2002. Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11 í morgun vegna daufra neyðarsendinga sem farþegaflugvél frá flugfélaginu SAS hafði numið 20 sjómílur austur af Hornafirði.  Stuttu síðar nam önnur farþegaflugvél, stödd norður af Hornafirði, einnig daufar neyðarsendingar.  Í framhaldi af þessu voru ferðir skipa og flugvéla við Suðausturland kannaðar. Ekkert óvenjulegt kom í ljós við þá athugun.  Þrátt fyrir þetta var talið nauðsynlegt að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, til leitar og einnig var óskað eftir flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS.  Vél Flugmálastjórnar fann síðar sendinn í sjónum um 32 sjómílur suð-suðaustur af Hornafirði kl. 14:08.  Þyrlu Landhelgisgæslunnar var í framhaldi af því beint á staðinn.  Náði sigmaður taki á neyðarsendinum og kom honum um borð í þyrluna kl. 15:23 þar sem slökkt var á honum.  Auðséð var að sendirinn hafði verið talsvert lengi í sjónum.  Í ljós kom að hann var skráður á bát sem seldur var í brotajárn til Noregs árið 1996.  Líklegt er talið að neyðarsendirnn hafi verið settur í annan bát á sínum tíma án þess að breyta skráningarnúmeri hans.  Vegna þessa er ekki hægt að vita frá hvaða báti neyðarsendirinn er og það getur reynst afdrifaríkt þegar hættuástand skapast. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Varðskip á leið til bjargar norskum rækjutogara

Föstudagur 20. september 2002. Áhöfn norska rækjutogarans Volstad Viking varð vör við það um þrjúleytið í fyrrinótt að lestir skipsins höfðu fyllst af sjó en þetta virðist hafa gerst all skyndilega.  Skipið var þá statt 80 sjómílur frá strönd Austur Grænlands.  Áhöfninni var bjargað um borð í annan norskan rækjutogara, Sæviking, sem nú er á staðnum.  Fulltrúar norsku útgerðarinnar og tryggingafélags skipsins hér á landi höfðu samband við Landhelgisgæsluna í gær og óskuðu eftir aðstoð við að draga skipið til hafnar.  Í framhaldi af því var ákveðið að senda varðskip á staðinn og er gert ráð fyrir að það verði komið að skipinu annað kvöld. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sjúkraflug TF-LÍF til Ísafjarðar

Miðvikudagur 18. september 2002.   Læknir á Ísafirði hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gegnum Neyðarlínuna rúmlega átta í gærkvöldi. Hann óskaði eftir að fá samband við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar vegna alvarlega veiks sjúklings.  Læknarnir töldu nauðsynlegt að flytja sjúklinginn með þyrlu Landhelgisgæslunnar.   Þeir töldu það öruggara og fljótlegra en að senda manninn með sjúkraflugvél en sjúkraflugvél Íslandsflugs var stödd í Reykjavík.    Þyrluáhöfn var kölluð út kl. 20:16 og fór TF-LÍF í loftið kl. 20:57.  Lent var á Ísafirði kl. 22:03 og var sjúklingur kominn á gjörgæslu Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 23:29.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi  

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti veikan sjómann frá Vestmannaeyjum

Laugardagur 14. september 2002. Beiðni barst frá Flugfélagi Vestmannaeyja kl. 5:09 um morguninn og óskað eftir að Landhelgisgæslan tæki að sér sjúkraflug með veikan sjómann en ekki reyndist unnt að senda hann með flugvél þar sem blindþoka var á flugvellinum og hann því lokaður.  Eftir að aðstæður höfðu verið kannaðar var þyrluáhöfn kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 6.  Lent var á Eiðinu í Vestmannaeyjum kl. 6:44 en þar var 1,5 km. skyggni og skýjahæð um 150 fet. Lent var með sjúklinginn við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 7:30 en þar beið hans sjúkrabíll sem flutti hann á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Kvennalandsliðið í knattspyrnu gengur til liðs við Landhelgisgæsluna

Mánudagur 16. september 2002. Auglýsingar kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa vakið mikla athygli fyrir frumlegheit og margir hafa beðið spenntir eftir auglýsingu þeirra fyrir leik gegn Englendingum í heimsmeistarakeppninni sem fram fer í dag kl. 17 á Laugardalsvelli. Að þessu sinni gerði Auglýsingastofan Gott fólk auglýsingu fyrir þær um borð í varðskipinu ÓÐNI en henni er ætlað að minna á að Íslendingar sigruðu Breta í þorskastríðunum og nú fyrirhugað að endurtaka leikinn með bolta að vopni í stað klippanna frægu. Sjá meðfylgjandi auglýsingamynd.  Fleiri myndir má finna í dálkinum „myndasafn“ á heimasíðunni en þær tók starfsmaður Landhelgisgæslunnar á meðan myndatökur stóðu yfir um borð í varðskipinu ÓÐNI. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sprengja fannst í Þorlákshöfn

Föstudagur 13. september 2002.   Í vikunni fann Davíð Davíðsson torkennilegan hlut grafinn í sand er hann var að vinna á golfvellinum í Þorlákshöfn.  Hann grunaði strax að hluturinn gæti verið hættulegur.   Davíð hafði samband við Landhelgisgæsluna og komu sprengjusérfræðingar þaðan og staðfestu að hér væri um að ræða sprengju sem notuð var í seinni heimstyrjöldinni til að merkja staðsetningu kafbáta.  Sprengjan inniheldur kemíska blöndu sem hefur þá eiginleika að gefa frá sér ljós og reyk þegar hún springur.  Hún er 50 cm. að lengd og 11 cm. í þvermál.    Sprengjum sem þessum var varpað úr flugvélum og þegar þær lentu á hafinu gáfu þær frá sér hvítan reyk og gulan loga í u.þ.b. sex mínútur.  Þær voru notaðar í margskonar tilgangi en þó venjulega til þess að merkja staðsetningu kafbáta til að undirbúa sprengjuárás annarrar flugvélar. Efni sem notuð eru í slíkar sprengjur geta kviknað sjálfkrafa undir vissum kringumstæðum og gefa frá sér eitrað fosfórgas þegar þær brenna.    Sjá meðfylgjandi mynd af af sprengjunni.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægðu hana og eyddu henni.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Köfunarbann við flugvélarflakið í Skerjafirði enn í fullu gildi

Þriðjudagur 10. september 2002. Í gær fóru kafarar Landhelgisgæslunnar niður að flaki Northrop-flugvélarinnar á botni Skerjafjarðar.  Þeir hreinsuðu sand og leir frá flakinu og könnuðu skemmdir á því.  Ekki hefur enn tekist að staðfesta hvaða Northrop-vél er um að ræða en köfunarbann er áfram í gildi þar til annað verður tilkynnt. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Bakpoki í strætisvagnaskýli reyndist ekki innihalda sprengju

Mánudagur 9. september 2002. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út um tvöleytið í dag vegna grunsamlegs bakpoka sem skilinn hafði verið eftir í strætisvagnaskýli á varnarsvæðinu í Keflavík. Þrír sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn en herlögreglan sá um að loka svæðinu í a.m.k. 200 metra radíus frá strætisvagnaskýlinu og þurfti að rýma nærstödd hús. Bakpokinn var skotinn í sundur af vélmenni í eigu Landhelgisgæslunnar og kom þá í ljós að engin sprengja var í honum. Svæðið hefur verið opnað á ný. Nú fer senn að líða að 11. september og eru mjög strangar öryggiskröfur viðhafðar á varnarsvæðinu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sjúkraflug með slasaðan skipverja af seglskútu

Föstudagur 6. september 2002. Björgunarstjórnstöðin í Clyde á Skotlandi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 19:40 í gærkvöldi vegna sendingar frá neyðarbauju 240 sjómíliur S-A af Vestmannaeyjum. Einnig hafði farþegaflugvél Flugleiða numið neyðarsendinguna á leið sinni til Írlands.  Kl. 20:26 tilkynnti björgunarmiðstöðin í Clyde að þaðan yrði send Nimrod leitarflugvél til að kanna málið.  Áhöfn leitarflugvélarinnar kom auga á skútuna ,,ORBIT 2" á þeim stað sem neyðarsendingarnar höfðu borist frá kl. 22:54 og þaðan sást skotið rauðu neyðarblysi.  Er flugvélin náði sambandi við skútuna kom í ljós að um borð var slasaður skipverji en mastur skútunnar hafði brotnað og fallið á hann. Hann var fótbrotinn og grunur um innvortis meiðsl. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir því við Varnarliðið að það sendi þyrlu eftir hinum slasaða en það var talið heppilegast þar sem eldsneytisflugvél fyrir þyrlur er nú stödd á Keflavíkurflugvelli og líkur voru á að Landhelgisgæslan þyrfti að sinna öðru neyðarkalli.  Á þessum tíma bárust óvenjulega mörg neyðarköll norður af landinu en þau reyndust vera fölsk.  Líkur benda til að þau hafi borist frá herskipum og flugvélum sem eru á æfingum þar. Varnarliðið sendi tvær þyrlur og eina eldsneytisflugvél til að sækja skipverja ORBIT 2.  Um borð í henni reyndust vera tveir menn, slasaði skipverjinn sem er breskur og skipstjórinn sem er kanadískur en hann var með lítils háttar ofkælingu.  Þar sem skútan var löskuð voru báðir mennirnir hífðir um borð í þyrlu Varnarliðsins. Svo heppilega vildi til að norski togarinn KORALLE var á svæðinu og tók hann skútuna í tog á meðan á björgunaraðgerðum stóð.  Eftir því sem best er vitað er skútan nú á reki mannlaus. Héldu þyrlurnar og eldsneytisflugvélin með skipverjana frá skútunni um kl. 8:20 í morgun og eru væntanlegar á Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 10:20. Sjá meðfylgjandi mynd af seglskútunni ORBIT 2 sem tekin var frá varðskipinu TÝ í maí á þessu ári. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands
Síða 1 af 2