Fréttayfirlit: september 2002 (Síða 2)

Ítalska herskipið SAN GIUSTO heimsækir Ísland

Föstudagur 6. september 2002. Ítalska herskipið SAN GIUSTO kemur til Reykjavíkur mánudaginn 9. september nk.og verður til fimmtudagsins 12. september. Skipið verður sýnt almenningi nk. mánudag frá kl. 15 til 17 og þriðjudag og miðvikudag frá kl. 14 til 17. Skipherra SAN GIUSTO er Paolo Sandalli en auk áhafnar er þar 41 yfirmaður í þjálfun og 135 liðsforingjaefni úr herskólanum í Livorno. Samtals eru 428 sjóliðar um borð og þar af 34 konur. Skipið er ekki einungis notað í hernaðarlegum tilgangi.  Það er vel búið björgunarskip sem hefur verið mikið notað í þágu almannavarna í Evrópu að undanförnu.  Áhöfn skipsins mun meðal annars nota tækifærið og kynna sér starfsemi Landhelgisgæslunnar á meðan á heimsókninni stendur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Flutt með þyrlu eftir fall í klettum

Fimmtudagur 5. september 2002. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning frá lögreglunni í Borgarnesi kl. 12:30 í dag um að stúlka hefði fallið í klettum í Hvalfirði og slasast en upplýsingar um staðsetningu voru misvísandi.  Óskað var eftir að þyrla yrði í viðbragðsstöðu.  Þyrluáhöfn var gert viðvart en beiðnin var afturkölluð af Neyðarlínunni stundarfjórðungi síðar.  Um eittleytið hafði Neyðarlínan samband að nýju og var nú aftur óskað eftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Um kl. 13:14 barst síðan beiðni frá lögreglunni um að þyrlan sækti hina slösuðu austan við Botnsskála í Hvalfirði.  TF-SIF fór í loftið kl. 13:38 og var komin á slysstað kl. 13:55.  Byrjað var á því að flytja sex björgunarsveitarmenn upp á fjall þar sem þrír unglingar voru í sjálfheldu en björgunarsveitarmennirnir sáu um að koma þeim á öruggan stað.  Síðan var slasaða stúlkan hífð upp úr fjallshlíðinni en þá höfðu björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins búið um hana á svokölluðu hryggspjaldi.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 14:51. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Þrír menn fluttir með þyrlu eftir köfunarslys

Miðvikudagur 4. september 2002. Í gærkvöldi, kl. 21:22 hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna þriggja manna sem höfðu lent í köfunarslysi í Kleifarvatni. Áhöfn TF-LÍF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið 15 mínútum síðar. Hún var komin á slysstað 25 mínútum eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust upplýsingar um slysið. Einn kafarann var mjög þungt haldinn og hafði læknir á slysstað veitt honum hjálp og undirbúið hann undir flutning. Hann hafði orðið loftlaus á 56 metra dýpi og þurfti að hraða sér upp á yfirborðið með þeim afleiðingum að hann fékk svokallaða kafaraveiki. Grunur lék á að félagar hans væru einnig veikir og voru þeir allir þrír fluttir með TF-LÍF á Landspítala Háskólasjúkrahús en þar lenti þyrlan kl. 22:08. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Dragnótarbátur staðinn að ólöglegum veiðum

Þriðjudagur 3. september 2002. Varðskip stóð dragnótarbát að ólöglegum veiðum á Breiðarfirði um hádegisbilið í gær. Báturinn hafði engar aflaheimildir og hvorki almennt veiðileyfi né dragnótarveiðileyfi.  Þá kom í ljós er löggæslumenn frá varðskipinu höfðu farið um borð að enginn yfirvélstjóri var á bátnum.  Skipstjóri bátsins fékk fyrirmæli um að halda til hafnar á Flateyri þar sem lögregla tók á móti honum um áttaleytið í gærkvöldi.  Málið hefur verið kært til sýslumannsins á Patreksfirði. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Rannsókn á flugvélarflaki heldur áfram

Þriðjudagur 3. september 2002.   Landhelgisgæslan hefur haldið áfram rannsókn á flugvélarflakinu sem fannst í síðustu viku í Skerjafirði og hefur m.a. verið í sambandi við norska sendiráðið og Northrop flugvélaverksmiðjurnar í Kaliforníu sem smíðuðu vélina. Einnig hefur Landhelgisgæslan fengið gögn frá upplýsingamiðstöð NATO varðandi vopnabúnað flugvélarinnar.    Landhelgisgæslan hefur staðfest að flakið er af sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB og virðist hún hafa farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af.  Ekki hefur enn tekist að staðfesta hvort líkamsleifar eru í vélinni en staðfest er að flugstjórnarklefi er lokaður.    Samkvæmt norskum heimildum gætu verið lík þriggja manna í flakinu en Landhelgisgæslan á von á upplýsingum varðandi það frá breskum yfirvöldum  þar sem flugvélin var undir breskri yfirstjórn á stríðsárunum.   Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekki tekist að finna aðrar merkingar á vélinni en norska einkennisliti undir vængjum og númer á olíukæli sem sent hefur verið til Northrop í Kaliforníu.    Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum.  Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið.   Köfunarbann verður áfram í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða.  Gerðar hafa verið ráðstafanir til að fylgst sé með umferð yfir flakinu.     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands
Síða 2 af 2