Fréttayfirlit

Nætursjónaukar notaðir í fyrsta skipti við sjúkraflug Landhelgisgæslunnar

Fimmtudagur 28. nóvember 2002. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar notaði nætursjónauka við störf sín í fyrsta skipti í gærkvöldi er farið var í sjúkraflug til Vestmannaeyja. Undanfarið hefur þyrluáhöfnin verið að æfa notkun sjónaukanna á kvöldæfingum en þetta er í fyrsta skipti sem sjónaukarnir eru notaðir í sjúkraflugi. Neyðarlínan hafði samband við Landhelgisgæsluna um kl. 17 í gær vegna konu í barnsnauð í Vestmannaeyjum sem nauðsynlega þurfti að komast á sjúkrahús í Reykjavík. Sjúkraflugvél var ekki tiltæk í Vestmannaeyjum og ófært fyrir flugvél að lenda þar vegna veðurs. Þyrluáhöfn var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 17:33.  Þyrlan kom til Vestmannaeyja kl. 18:15 og fór þaðan aftur kl. 18:35.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:11 en þaðan var konan flutt með sjúkrabifreið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.  Nætursjónaukarnir nýttust mjög vel í fluginu og er áhöfnin sammála um að þeir auki mjög öryggi í flugi að kvöld- og næturlagi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sjúkraflug TF-LÍF til Hafnar í Hornafirði

Fimmtudagur 28. nóvember 2002. Í dag kl. 17:09 hringdi læknir frá Höfn í Hornafirði í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði aðstoðar vegna veiks manns.  Flugvöllurinn á Höfn var lokaður vegna mikils hliðarvinds og því ekki hægt að flytja hann með sjúkraflugvél. Stjórnstöð gaf lækninum samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og kl. 17:48 eftir að læknar höfðu borið saman bækur sínar var afráðið að sækja sjúklinginn með þyrlu.  Áhöfn TF-LÍF var stödd í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs æfingaflugs með nætursjónauka og gat því brugðist skjótt við.  TF-LÍF fór í loftið kl. 18:04 og var lent á Höfn kl. 20:13 en flugið tók rúma tvo tíma vegna mikils mótvinds.  Þyrlan fór í loftið frá Höfn kl. 20:48 og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 22:21 þar sem sjúkrabifreið beið sjúklingsins og flutti hann á sjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Þyrla sækir veikan sjómann

Þriðjudagur 19. nóvember 2002. Hringt var frá nótaskipinu Sighvati Bjarnasyni um kl. 13:43 í dag og óskað eftir að þyrla sækti veikan sjómann um borð.  Skipið var þá að síldveiðum í Víkurál vest-norð-vestur af Látrabjargi.  Þyrluáhöfn var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 14:15.  Sighvati Bjarnasyni var siglt á fullum hraða í átt að Snæfellsnesi til móts við þyrluna.  TF-LÍF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 16:35 þar sem sjúklingnum var komið undir læknishendur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Dómstólar vega og meta gildi fjareftirlitskerfis fiskiskipa

Þann 3. desember næstkomandi verður tekið fyrir í Hæstarétti mál ákæruvaldsins gegn norska loðnuskipstjóranum Lovde Gjendemsjö en 12. nóvember 2001 var hann dæmdur í Héraðsdómi Austurlands til að sæta upptöku á afla að verðmæti 4,5 milljónir og greiða 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð vegna ólöglegra veiða innnan íslensku fiskveiðilögsögunnar N-V af Horni.    Það sem er óvenjulegt við dóm Héraðsdóms Austurlands var að Lovde var ekki staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi eins og segir í dóminum, heldur byggðist ákæran á gögnum sem fengin voru úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi.  Gögnin bárust frá Noregi til Landhelgisgæslunnar. Með gervihnattatækni senda skipin sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu til stjórnstöðvar í Noregi. Samkvæmt gagnkvæmum samningi milli Noregs og Íslands um fjareftirlit, fær Landhelgisgæslan upplýsingar frá Noregi um leið og norsk skip fara inn fyrir lögsögumörk Íslands.    Er dæmt var í málinu var ekki vitað um sambærilega dóma erlendis enda er sjálfvirkt fjareftirlitskerfi tiltölulega nýtt af nálinni.  Þó höfðu borist fréttir frá Noregi um að skip hefði verið svipt veiðileyfi vegna upplýsinga úr fjareftirlitskerfi, en skipstjórinn sagðist hafa veitt afla sinn á tilteknum stað á tilteknum tíma en samkvæmt upplýsingum úr fjareftirlitskerfi var skipið  þá statt í höfn. Landhelgisgæslan hefur  einnig haft spurnir af svipuðum málum í Portúgal.   Nú er staðfest að dómur hefur gengið annars staðar en á Íslandi um gildi fjareftirlitskerfisins sem sönnunargagns um ferðir fiskiskipa. Í frétt á heimasíðu NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration)  er sagt frá úrskurði sem kveðinn var upp í Bandaríkjunum 5. desember 2001 gegn skipstjóra bandaríska skipsins Indipendence, Lawrence M Yacubian, en úrskurðað var á grundvelli upplýsinga úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi.    Haft var eftir stjórnanda hjá NOAA að stofnunin reiði sig sífellt meira á gervihnattatækni til að fylgjast með veiðum nálægt lokuðum veiðisvæðum.  Ákærandi frá NOAA sem fór með málið sagði að þessi úrskurður setji mikilvægt fordæmi með því að staðfest er að VMS-kerfið (Vessel Monitoring System), sem hörpudiskveiðiskipum á svæðinu er skylt að nota, er nákvæm og áreiðanleg tækni sem hefur möguleika á að framleiða sönnunargögn um ferðir skipa sem unnt er að leggja fram í dómstólum.  Sjá frétt á heimasíðu NOAA:   http://www.publicaffairs.noaa.gov/releases2001/dec01/noaa01r153.html     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Skip staðið að meintum ólöglegum veiðum á Faxaflóa

Þriðjudagur 12. nóvember 2002. Varðskip stóð skipstjóra dragnótarbáts að meintum ólöglegum veiðum á Faxaflóa um kl. 18 í dag.  Skipið var að veiða skarkola með dragnót sem var með of smáa möskva samkvæmt mælingum varðskipsmanna.  Skipinu var gert að sigla til hafnar í Reykjavík þar sem lögreglan tók á móti því og gerði viðeigandi ráðstafanir. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Landhelgisgæslan heldur námskeið á sviði sprengjueyðingar fyrir öryggisverði Varnarliðsins

Mánudagur 11. nóvember 2002. Í síðustu viku hélt sprengjudeild Landhelgisgæslunnar námskeið á sviði sprengjumála fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Sprengjusérfræðingur frá Landhelgisgæslunni hélt fyrirlestra um starfsemi sprengjudeildarinnar, helstu tegundir sprengja og sýnd voru dæmi um afleiðingar þeirra. Sýndar voru bílasprengjur en tveir ónýtir bílar voru sprengdir í loft upp á æfingasvæði Varnarliðsins og bréfasprengjur prófaðar svo eitthvað sé nefnt.  Tilgangurinn með þessum námskeiðum er að styrkja samstarf Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins á sviði sprengjueyðingar en Landhelgisgæslan sér um sprengjumál á varnarsvæðinu samkvæmt samningi milli Íslands og Bandaríkjanna. Einnig er vakin athygli á hugsanlegri hættu á hryðjuverkum og skemmdarverkum og hvernig er réttast að bregðast við ef grunur leikur á að slík hætta sé yfirvofandi.  Námskeið á sviði sprengjumála eru haldin reglulega fyrir öryggisverði og lögreglu Varnarliðsins.  Nýleg dæmi úr heimsfréttunum sýna hversu alvarlegar afleiðingar sprengjuárásir geta haft og eru öryggisráðstafanir mikilvægur og óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi hersins á varnarsvæðinu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Sprengjusérfræðingur frá Landhelgisgæslunni sýnir afleiðingar bílasprengju. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar veittu þjálfun í meðferð handsprengja. Starfsmenn Varnarliðsins og slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli fræðast um bílasprengjur

Feðgar fluttir með þyrlu til Reykjavíkur eftir gröfuslys í Ólafsvíkurenni

Mánudagur 11. nóvember 2002. Neyðarlínan hafði samband við Landhelgisgæsluna í morgun vegna manns sem hafði slasast er vélskófla sem hann stjórnaði lenti úti í sjó við Ólafsvíkurenni.  Óskað var eftir þyrlu í viðbragðsstöðu.  Lögreglan á Ólafsvík hringdi kl. 11:04 og óskaði eftir að þyrlan sækti manninn á Rif.  TF-LÍF fór í loftið tæpum tuttugu mínútum síðar og sótti manninn og son hans sem var talsvert þrekaður eftir að hafa lent úti í sjó er hann reyndi að bjarga föður sínum. Þyrlan lenti með feðgana hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi kl. 13:18. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Sprengjusérfræðingar kallaðir út vegna torkennilegs kassa í flugskýlinu á Keflavíkurflugvelli

Föstudagur 1. nóvember 2002. Torkennilegur kassi fannst á gólfi flugskýlisins á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli um tvöleytið í dag.  Samkvæmt varúðarreglum var svæðið rýmt og kallað á sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar auk lögreglu og slökkviliðs á Keflavíkurflugvelli.  Tveir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar komust að raun um að engin hætta var á ferðum þar sem kassinn reyndist tómur þegar að var gáð. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands