Fréttayfirlit

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði sex manna áhöfn norsks flutningaskips

Þriðjudagur 31. desember 2002 kl. 6:40.   Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði 6 manna áhöfn norska flutningaskipsins Icebear kl. 5:37 en þá var skipið að sökkva 73 sjómílur suð-austur af Dalatanga.  Þyrlan TF-LÍF kom með skipbrotsmennina til Hafnar í Hornafirði kl. 6:36.   Kl. 00:48 hafði loftskeytastöðin í Reykjavík samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að norska flutningaskipið Icebear væri að sökkva 95 sjómílur suð-austur af Dalatanga. Um sama leyti barst stjórnstöðinni tilkynning um málið frá björgunarstjórnstöðinni í Stavanger. Sex menn voru um borð og voru þeir að fara í björgunarbúninga um það leyti og komin 30° slagsíða á skipið.       Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 01:48.  Fyrst var flogið til Hafnar í Hornafirði þar sem nauðsyn bar til að taka eldsneyti áður en haldið var út á haf.   Áhöfn Icebear hafði komið sér í björgunarbát er TF-LÍF kom á svæðið og var hann á reki 1 sjómílu frá skipinu sem þá var statt 73 sjómílur suð-austur af Dalatanga.  Um kl. 5:37 voru allir mennirnir komnir um borð í TF-LÍF en þá var komin 40-50° slagsíða á skipið.  Ástand áhafnar var gott að sögn stýrimanns / sigmanns í áhöfn TF-LÍF.  Veður var ágætt á svæðinu.   Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hafði Icebear lagt af stað frá Neskaupstað í fyrradag með saltsíldarfarm áleiðis til Finnlands.  Skipstjóri Icebear er íslenskur en áhöfnin frá Litháen.  Björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað og varðskip Landhelgisgæslunnar eru á leið að skipinu.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Landhelgisgæslan hefur móttekið 1500 Schengen-tilkynningar á árinu

Mánudagur 30. desember 2002.   Dómsmálaráðuneytið fól Landhelgisgæslu Íslands að annast móttöku tilkynninga frá skipum vegna Schengen upplýsingakerfisins með reglugerð um vakstöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda í mars á síðasta ári. Landhelgisgæslan annast móttöku upplýsinga frá öllum skipum og bátum sem koma erlendis frá og eru á leið til Íslands.   Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur frá gildistöku reglugerðarinnar í mars 2001 afgreitt um 2700 tilkynningar um komur skipa til Íslands, þar af um 1500 á árinu 2002. Í tilkynningunum eru upplýsingar um komu til landsins, áhöfn og farþega um borð í skipunum.  Samkvæmt reglugerðinni ber Landhelgisgæslunni að framsenda tilkynningarnar til Ríkislögreglustjóra.    Heilmikil vinna hefur farið í að leiðbeina skipstjórum um hvernig tilkynningarnar eiga að vera og fá leiðréttingar frá þeim eða umboðsmönnum þeirra þegar þegar tilkynningar hafa ekki verið í samræmi við lög og reglur. Í sumum tilfellum eru þessar tilkynningar mjög viðamiklar enda hafa komið hingað farþegaskip með yfir 3000 manns um borð.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands        

Spænsk eftirlitsflugvél skoðuð

Föstudagur 27. desember 2002.   Nýlega kom hingað til landsins eftirlits- og herflutningavél af gerðinni Casa C-295 en þetta er nýjasta tegund eftirlitsflugvéla EADS flugvélaverksmiðjanna á Spáni.  Flugvélin var á leið úr kynningarferð í Bandaríkjunum en strandgæslan þar í landi gekk nýverið frá kaupum á 25 slíkum vélum.  Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar bauðst að kynna sér vélina á meðan viðdvöl hennar stóð.   Casa C-295 er sérstaklega hönnuð sem eftirlits- leitar- og herflutningaflugvél.   Hún hefur mikla burðargetu, 12 klst. flugþol, góða fluggetu og afragðs stuttbrautareiginleika enda þarf hún fulllestuð aðeins um 844 metra langa flugbraut til flugtaks og 680 metra til lendingar.  Aftan á vélinni er stór innkeyrsluhurð ( rampur ) sem hægt er að opna á flugi.  Hún auðveldar mjög lestun og losun á stærri hlutum eins og börum, björgunarbátum, vélsleðum, brettum, bílum og öðrum björgunarbúnaði.   Vélin er vel búin tækjum og má nefna: a)  360° ratsjá sem getur fylgst með ( plottað ) allt að 100 skipum í einu. b)  FLIR / TV ( Innrauðri myndbands upptökuvél ), þ.e. sambyggð innrauð myndavél og myndbandstökuvél.  Þetta gerir áhöfninni kleift að fylgjast með skipum úr nokkuri fjarlægð hvort sem er að degi eða nóttu og er hægt að lesa nafn og númer meðalstórs togara í 4-6 sml. fjarlægð. c)  Mengunarratsjá, sem skynjar olíu í sjó sem mannsaugað nemur ekki, auk þess sem ratsjáin reiknar út áætlað magn olíu í sjónum. d)  Fullkominni siglingartölvu. e)  Gervihnatta-fjarskiptatæki.   Þessum tækjum er stjórnað af siglingarfræðingum og fjarskiptamönnum á þremur til fjórum borðum aftarlega í vélinni.   Aftan við stjórnborðin eru sérhannaðir kúptir gluggar fyrir ,,útkíksmenn" sem veita sérstaklega gott útsýni úr vélinni.  Þetta eykur verulega útsýni í leitarflugi og um leið afkastagetu vélarinnar.  Þá er vélin búin tæki sem skýtur blysum.  Í þessari útfærslu er hvíldar- og eða farþegarými fyrir sex til átta manns.  Allur búnaður vélarinnar er í færanlegum einingum þannig að auðvelt er að breyta henni eftir eðli verkefna.  Til að mynda má setja í hana sæti fyrir allt að 71 mann eða 24 börur.   Casa er nokkuð þekkt merki á sviði eftirlits- og strandgæsluflugvéla og meðal þjóða sem nota Casa til strandgæslu eru Svíar, Pólverjar, Spánverjar og Bandaríkjamenn að ógleymdum nágrönnum okkar Írum sem eru með fjórar Casa C-235 til strandgæslu í lögsögu sinni sem er þó töluvert minni en 200 sml. fiskveiðilögsaga okkar Íslendinga.   Að mati starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem skoðuðu Casa-vélina er hún álitlegur kostur fyrir stofnunina þegar farið verður að huga að endurnýjun Fokker-flugvélar Landhelgisgæslunnar sem er orðin 27 ára gömul.  Casa-vélin eyðir t.d. helmingi minna eldsneyti og tækjabúnaðurinn er eins og best verður á kosið.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands      

Veiðar erlendra skipa í íslensku efnahagslögsögunni árið 2002

Föstudagur 27. desember 2002. Landhelgisgæslan hefur eftirlit með veiðum allra erlendra fiskiskipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Skipunum er yfirleitt gert að vera búin fjareftirlitsbúnaði sem tilkynnir sjálfvirkt staðsetningu skipanna á klukkustundar fresti til stjórnstöðva heimalanda sinna.  Upplýsingar um staðsetningu skipanna eru síðan sendar sjálfvirkt til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar um leið og þau sigla inn í íslenska efnahagslögsögu.  Gagnkvæmir samningar um fjareftirlit eru nú í gildi milli Íslands, Færeyja, Grænlands, Noregs og Rússlands. Auk þess tilkynna skipin daglega um veiddan afla, komur og brottfarir úr fiskveiðilögsögunni.   Um 150 erlend fiskiskip tilkynntu stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um afla árið 2002, samtals um 206.330 tonn. Þar af tilkynntu bresk skip um 1141 tonn, þýsk um 522 tonn, færeysk um 105.972 tonn, grænlensk um 42.167 og norsk skip um 56.529 tonn.   Af afla færeysku skipanna voru um 70.095 tonn kolmunni og 31.855 tonn loðna en Færeyingar eru ekki búnir með loðnukvótann sinn á vertíðinni. Færeyskum skipum var heimilt að veiða samtals 5000 tonn af botnfiskafla í íslenskri fiskveiðilögsögu árið 2002 en þau tilkynntu um 4.022 tonna botnfiskafla.   Af afla norsku skipanna voru 56.130 þúsund tonn loðna. Norskum skipum sem höfðu leyfi til línuveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi var heimilt að veiða samtals 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu m.v. afla upp úr sjó. Auk þess var þeim heimilt að veiða alls 125 tonn af öðrum tegundum. Norsku línuskipin tilkynntu samtals um 399 tonna heildarafla.   Skipum frá Evrópusambandinu var heimilt að veiða 3000 lestir í lögsögunni. Þau tilkynntu 1663 tonna afla, þ.e. bresk og þýsk skip.   Norskum skipum var heimilt að veiða 94.200 tonn af síld innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á árinu 2002, færeyskum skipum 46.420 tonn og rússneskum skipum 3.700 tonn. Engar tilkynningar um síldarafla hafa borist á árinu.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands.  

Biskup Íslands flutti jólaguðspjallið í árlegum jólahádegisverði starfsmanna Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 20. desember 2002. Biskup Íslands flutti jólaguðspjallið fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar er þeir komu saman til árlegs jólahádegisverðar í veitingahúsinu Naustinu í hádeginu í dag.  Frá því að Hafsteinn Hafsteinsson gerðist forstjóri Landhelgisgæslunnar árið 1993 hefur sá siður haldist að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hittast einkennisklæddir í hádegismat rétt fyrir jólin og þá er venjan að jólaguðspjallið sé flutt.  Að þessu sinni veitti biskup Íslands Landhelgisgæslunni þann heiður að flytja jólaguðspjallið fyrir starfsmenn.  Þegar dagsetning er valin til að halda jólaveisluna er jafnan höfð hliðsjón af því að varðskipsáhafnir sem verða úti á sjó yfir jólahátíðina geti komið til veislunnar.  Að þessu sinni var boðið uppá hangikjöt með kartöflum rauðkáli og uppstúf og möndlugraut í eftirrétt.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Tíu milljóna gjöf í sjóð til kaupa á nætursjónaukum

Föstudagur 13. desember 2002. Landhelgisgæslunni barst í dag minningargjöf sem nemur 10 milljónum króna í sjóð sem stofnaður var vegna söfnunar fyrir nætursjónaukum, nauðsynlegum fylgibúnaði og þjálfun flugáhafna til notkunar á sjónaukunum.  Gefendur óskuðu nafnleyndar að svo stöddu. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Austurlands þar sem sjálfvirkt fjareftirlit var viðurkennt sem sönnunargagn

Fimmtudagur 12. desember 2002.   Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Austurlands í máli ákæruvaldsins gegn norska loðnuskipstjóranum Lovde Gjendemsjö sem kveðinn var upp 12. nóvember 2001. Fyrir Hæstarétti undi ákærði sakfellingu samkvæmt héraðsdómi en krafðist þess að refsing yrði lækkuð þar sem hann hélt því fram að brot hafi verið framin af gáleysi en ekki ásetningi.   Landhelgisgæslan telur að hér sé um tímamótadóm að ræða. Þetta er í fyrsta skipti sem skipstjóri er sakfelldur án þess að hafa verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi og styrkir það Landhelgisgæsluna varðandi áframhaldandi samvinnu við erlend ríki um fiskveiðieftirlit með sjálfvirku fjareftirlitskerfi.   Upphaf málsins var að Lovde veiddi á skipi sínu Inger Hildur 600 tonn af loðnu norðvestur af Horni og sagðist hafa veitt hana innan grænlensku fiskveiðilögsögunnar. Benti hann á afladagbók skipsins sem sýndi staðsetningar innan grænlensku lögsögunnar. Reyndar hafði hann skráð eina staðsetningu innan íslensku lögsögunnar í afladagbókina en hélt því fram að sú staðsetning hafi verið skráð fyrir misgáning.  Hann hafi raunverulega verið staddur innan grænlensku lögsögunnar á þeim tíma.  Landhelgisgæslan taldi hins vegar, eftir að varðskipið Ægir stöðvaði Inger Hildur á athugunarstað austur af landinu, og staðsetningar voru bornar saman við gögn úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi, að allur aflinn hafi verið veiddur innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Á sama athugunarstað komu tvö önnur norsk loðnuveiðiskip, Torson og Tromsöyebuen, og sýndu athuganir varðskipsmanna í samráði við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að sama máli gegndi um þau.   Varðskipið Ægir færði loðnuskipin þrjú til Seyðisfjarðar þar sem sýslumaðurinn á Seyðisfirði gaf út ákæru á hendur skipstjórunum.  Var hver um sig dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð kr. 2.500.000 til Landhelgisssjóðs Íslands og til upptöku andvirðis ólögmæts afla í Héraðsdómi Austurlands 12. nóvember 2001. Afli Inger Hildur var metinn kr. 4.500.000, afli Torson kr. 7.125.000 og afli Tromsoyebuen kr. 6.375.000.  Einnig var hver um sig dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar að fjárhæð kr. 150.000. Aðeins einn skipstjóranna áfrýjaði til Hæstaréttar en hinir tveir náðu ekki að áfrýja innan lögboðins frests.   Í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti var sérstaklega fjallað um gögn úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi sem sönnunargögn.  Þar segir:    ,,Hafa verður í huga í máli þessu, að ákærði hefur ekki verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi, heldur byggist ákæra á gögnum sem fengin eru frá hinu sjálfvirka fjareftirlitskerfi."   Ljóst er að samvinna Landhelgisgæslunnar og erlendra stjórnstöðva um sjálfvirkt fjareftirlit gerir fiskveiðieftirlit Landhelgisgæslunnar markvissara að því leyti að auðveldara verður að hafa uppi á þeim skipum sem fara inn í fiskveiðilögsögu Íslands án þess að senda lögboðnar tilkynningar um staðsetningu og afla.  Hins vegar kemur sjálfvirka fjareftirlitskerfið ekki í staðinn fyrir eftirlit varðskipa því að nauðsynlegt er að varðskipin séu til staðar og elti brotlegu skipin uppi og færi þau til hafnar.     Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands  Mynd Landhelgisgæslan: Ægir á siglingu.

Sjúkraflug vegna umferðarslyss á Holtavörðuheiði

Sl. föstudag, 29. nóvember, hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:43 vegna umferðarslyss á Holtavörðuheiði en þar var unglingsstúlka alvarlega slösuð og þrír aðrir minna slasaðir.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 23:15.  Rúmum hálftíma síðar var lent á þjóðveginum við slysstað og stúlkan sótt. Þaðan var farið í loftið kl. 23:56 og lent kl. 00:29 við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Höfðingleg gjöf til kaupa á nætursjónaukum

Mánudagur 2. desember 2002. Bræðurnir Leifur Jónsson, Jón, Ríkharður og Ólafur Magnússynir hafa gefið eina milljón og tvö hundruð og fimmtán þúsund krónur í söfnun Landhelgisgæslunnar fyrir nætursjónaukum. Gjöfin er til minningar um móður þeirra Kristínu Finnbogadóttur, og látna bræður þeirra, þá Finnboga og Pálma Magnússyni.  Bræðurnir eiga það allir sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið skipstjórar. Leifur hafði orð fyrir þeim bræðrum er gjöfin var afhent.  Hann sagði þá lengi hafa langað til að veita einhverju málefni lið til minningar um móður þeirra og bræður.  Þeim hafi fundist vel við hæfi að gefa fé til fjármögnunar nætursjónaukum hjá Landhelgisgæslunni enda minnast þeir móður sinnar þannig að hún hafi ávallt lagt sig fram um að aðstoða aðra og veita þeim hjálp og liðsinni sem á þurftu að halda. Þá voru bræður þeirra heitnir, þeir Finnbogi og Pálmi, skipstjórar en sjónaukarnir auka öryggi og geta skipt sköpum við björgun sjófarenda að nóttu til og í slæmu skyggni. Leifur minntist þess er hann var formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Hellissandi og varð vitni að því er áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF bjargaði áhöfn Barðans, samtals 9 manns, er skipið hafði strandað við Hólahóla á Snæfellsnesi árið 1987.  Björgunarsveitarmönnum fannst hart að geta ekki gert neitt til hjálpar og horfa upp á stýrishúsið fyllast af sjó og mennina í bráðri hættu.  Tilfinningin breyttist er þeir sáu TF-SIF koma fljúgandi í suðvestanveðri og éljagangi. Það voru þeir Leifur, Jón og Ríkharður sem afhentu gjöfina en Ólafur var á sjó og gat því ekki verið viðstaddur. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands