Fréttayfirlit: mars 2003

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti veikan mann um borð í togskipið Freyju RE-38

Föstudagur 28. mars 2003.   Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 5:35 vegna veiks skipverja um borð í Freyju RE-38.  Eftir að læknir í þyrluáhöfn hafði fengið upplýsingar um ástand mannsins var ákveðið að sækja hann með þyrlu.   Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 5:43 og fór í loftið kl. 6:26. Skipið var þá statt 5 sjómílur vestur af Sandgerði.  Þyrlan kom að Freyju kl. 6:41 og var sjúklingurinn hífður um borð í börum.   Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 7:05 en þaðan var maðurinn fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands

Málfundir um öryggismál sjómanna

Föstudagur 28. mars 2003. Málfundir um öryggismál sjómanna verða haldnir víða um land á árinu.  Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig varða öryggi sjómanna eru hvattir til að mæta á fundina og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fyrsti fundurinn verður haldinn í húsnæði Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík mánudaginn 31. mars nk. frá kl. 20 til 22:30. Sjá dagskrá fundarins.  Aðrir fundir verða á Snæfellsnesi í apríl, á Ísafirði í maí og á Akureyri, Eskifirði og í Vestmannaeyjum í haust. Dagskrá þeirra verður auglýst síðar. Landhelgisgæslan er meðal þeirra stofnana og félagasamtaka sem skipuleggja fundina.  Þeir eru haldnir í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.  Aðrar stofnanir og félagasamtök sem standa að fundunum eru:  Samgönguráðuneyti, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Landsamband íslenskra útvegsmanna. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

TF-SIF flutti slasaðan vélsleðamann til Akureyrar

Laugardagur 22. mars 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um tvöleytið í dag og tilkynnti um vélsleðamann sem hafði slasast á Lágheiði nálægt Ólafsfirði.  Læknir á staðnum óskaði eftir þyrlu til að sækja hann.  Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 14:43. Slasaði vélsleðamaðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri en þar var lent kl. 16:25.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands

Svissneska ríkissjónvarpið í heimsókn hjá Landhelgisgæslunni

Föstudagur 21. mars 2003. Svissneska ríkissjónvarpið hefur verið í sambandi við Landhelgisgæsluna undanfarið vegna kvikmyndunar á sjónvarpsþætti um Ísland. Höfðu sjónvarpsmennirnir sérstakan áhuga á að kynna sér björgunarstörf Landhelgisgæslunnar.  Umfjöllunin um Ísland verður í þættinum Rondo Mondo í sumar.  Þættirnir eru sýndir á besta tíma á laugardagskvöldum og er áhorf mikið.  Að þessu sinni verður ein og hálf klukkustund helguð Íslandi.  Svissneska sjónvarpsstjarnan Dani Fohrler tekur viðtöl við ýmsa aðila hér á landi, m.a. tók hann viðtal við Halldór Nellett skipherra hjá Landhelgisgæslunni um borð í varðskipinu Óðni.  Í dag tekur hann viðtöl við Þórólf Árnason borgarstjóra Reykjavíkur og söngkonuna Emilíönu Torrini. Svissneska sjónvarpsfólkið lét vel af dvölinni á Íslandi.  Þau fóru m.a. til Hveragerðis, að Gullfossi og Geysi, gistu að Skógum og héldu sem leið lá til Hafnar í Hornafirði með viðkomu í Vík, Jökulsárlóni og fleiri áhugaverðum stöðum. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd/Svissneska Ríkissjónvarpið:  Halldór Nellett skipherra og Dani Forhler sjónvarpsstjarna leggja á ráðin áður en viðtalið er tekið. Mynd/Svissneska Ríkissjónvarpið: Halldór Nellett skipherra, Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi, Dani Forhler sjónvarpsstjarna sem tók viðtalið og Chris Egger framkvæmdastjóri þáttanna Rondo Mondo.  Þátturinn um Ísland verður sýndur 7. júní í sumar.  

Landhelgisgæslan gerir samning um kortagerð af Malavívatni

Föstudagur 21. mars 2003. Forstjóri Landhelgisgæslunnar og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar undirrituðu í dag samstarfssamning við Mælingastofnun Malaví um aðstoð Landhelgisgæslunnar við dýptarmælingar og kortagerð af Malavívatni. Samningurinn gildir til ársloka 2004. Starfsmenn sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar hafa unnið að verkefninu í tæp fjögur ár.  Upphaflega gerðu Þróunarsamvinnustofnun og Landhelgisgæslan samning um hluta verkefnisins árið 2000 eftir að gerð hafði verið forkönnun á umfangi þess.  Samningurinn sem gerður var í dag er um framhald verkefnisins.  Það er Þróunarsamvinnustofnun sem fjármagnar það.    Forstjóri Landhelgisgæslunnar og forstöðumaður sjómælingasviðs stofnunarinnar eru nú staddir í Monkey Bay í Malaví í boði Þróunarsamvinnustofnunar þar sem samningurinn var undirritaður. Við sama tækifæri afhentu þeir yfirvöldum Malaví tvö kort af Malavívatni sem eru afrakstur vinnu undanfarinna ára.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands Mynd Landhelgisgæslan/ Annað tveggja korta af Malavívatni sem sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar hefur unnið að.

Eldsneytistankur af orustuflugvél fannst við Þórshöfn

Lögreglan á Þórshöfn hafði samband við Landhelgisgæsluna sl. sunnudag og tilkynnti um stóran torkennilegan hlut sem hafði rekið á land í nágrenni Þórshafnar.  Eftir rannsókn kom í ljós að um var að ræða varaeldsneytistank fyrir Tornado orustuflugvél.  Tankurinn er 3.5 metra langur og getur rúmað 1500 lítra af flugvélaeldsneyti.    Starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar gerðu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ekki stafaði hætta af tankinum og afhentu hann síðan lögreglunni á Þórshöfn.  Tankurinn verður  seinna sendur með varðskipi til Reykjavíkur.   Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu samband við breska flugherinn vegna tanksins en þar á bæ voru menn afar áhugasamir og vildu sækja hann strax.  Þar fengust nákvæmar leiðbeiningar um tæknileg atriði og öryggisráðstafanir sem gera þarf vegna tanksins.    Það er mönnum ráðgáta hvernig tankurinn lenti í sjónum en það hefur gerst fyrir minna en tveimur árum ef marka má merkingar á honum.  Það getur hafa gerst vegna óhapps eða sem ráðstöfun til að bregðast við hættu í flugi. Hjá breska flughernum er nú verið að rannsaka hvað olli því að tankurinn endaði á ströndum Íslands.    Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands     Mynd/Landhelgisgæslan: Varaeldsneytistankur af Tornado orustuflugvél í fjörunni í nágrenni Þórshafnar.

Tveir skipverjar björguðust eftir að Röst SH-134 sökk út af Snæfellsnesi

Miðvikudagur 19. mars 2003. Tveir menn náðu að komast í björgunarbát eftir að báturinn Röst SH-134 sökk út af Svörtuloftum á Snæfellsnesi í dag.  Ekki voru fleiri í áhöfn bátsins.  Þeim var síðan bjargað um borð í grænlenska loðnuskipið Siku sem statt var í grenndinni.  Björgunarsveitarmenn á björgunarskipinu Björg á Rifi sóttu mennina og sigldu með þá til hafnar. Flugstjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16: 50 og tilkynnti að flugvél á norð-vesturleið hefði numið neyðarsendingar innst í Breiðafirði.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF,  var þegar kölluð út og Flugmálastjórn beðin að senda flugvél sína, TF-FMS, strax af stað til leitar.  TF-LÍF fór í loftið kl. 17:39.   Leitarsvæðið var gríðarlega stórt í fyrstu en skömmu eftir að TF-FMS fór frá Reykjavík kl. 17:30 nam hún neyðarsendingar og gat miðað þær út.  Á sama tíma námu gervihnettir sendingarnar og gáfu staðsetningar út af Snæfellsnesi. Laust fyrir kl. 18 tilkynnti TF-FMS um björgunarbát út af Svörtuloftum við Snæfellsnes.  Skammt frá björgunarbátnum voru tvö loðnuskip, Sighvatur Bjarnason og grænlenska skipið Siku en TF-LÍF var skammt undan.    Áhöfn Siku bjargaði tveimur mönnum úr gúmmíbjörgunarbátnum en þeir reyndust vera skipverjar af m/b Röst SH-134 sem hafði sokkið. Mennirnir voru heilir á húfi en fleiri skipverjar höfðu ekki verið um borð í m/b Röst.  Þegar ljóst var að ekkert amaði að mönnunum var þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar snúið til Reykjavíkur .   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands      

Þyrla og varðskip héldu til aðstoðar áhöfn Gunnhildar

Þriðjudagur 18. mars 2003.Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 8:16 og tilkynnti að báturinn Gunnhildur ST-29 væri með í skrúfunni og væri að reka að landi við Hafnir.  Áhöfn TF-LÍF var þegar kölluð út og tók þyrlan á loft kl. 8:37.  TF-LÍF var komin á staðinn kl. 8:48 og leit þá út fyrir að bátinn væri að reka frá landi.  Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar komu björgunarsveitarmenn á Zodiac-bát fyrst að Gunnhildi og tóku hana í tog en síðar kom björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein, og dró Gunnhildi til hafnar.  Varðskipi Landhelgisgæslunnar sem statt var í grendinni var einnig gert viðvart og var því þegar siglt á fullri ferð í átt að Höfnum.  Þyrlu og varðskipi Landhelgisgæslunnar var snúið til baka þegar Reykjavíkurradíó tilkynnti að hættan væri liðin hjá.  Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Um eftirlit varðskipsáhafna Landhelgisgæslunnar

Í Fréttablaðinu 7. mars sl. er haft eftir skipstjóra og útgerðarmanni m/b Bjarma BA-326 að varðskipsmenn Landhelgisgæslunnar hafi komið 18 sinnum um borð í skipið án sjáanlegra ástæðna og að Fiskistofa hafi “sigað” varðskipum Landhelgisgæslunnar á Bjarma.Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hafa löggæslumenn á varðskipum farið þrisvar sinnum um borð í Bjarma til skoðunar síðan í nóvember 2001.  Í öll skiptin var gild ástæða fyrir því að farið var um borð.Fiskistofa “sigar” ekki varðskipum á skip og báta.  Landhelgisgæslan hefur með  höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi samkvæmt 1. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 25/1967. Löggæslumenn á varðskipum Landhelgigæslunnar fara um borð í á fjórða hundrað skipa í íslenskri lögsögu á ári.  Samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar er mjög gott og vinna þessir aðilar náið saman vegna málefna er varða stjórnun fiskveiða.   Önnur ummæli sem útgerðarmaður og skipstjóri Bjarma hefur eftir starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í framangreindri frétt eiga ekki við rök að styðjast.      Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd/Árni Sæberg: varðskip á siglingu.

Björgunarsveitarmenn fundu vélsleðamenn sem saknað hafði verið á Langjökli. TF-LÍF tók þátt í leit og flutti vélsleðamennina til Reykjavíkur

Mánudagur 10. mars 2003. Björgunarsveitarmenn fundu í morgun tvo vélsleðamenn sem leitað hafði verið að á Langjökli.  TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, hafði einnig tekið þátt í leitinni og flaug með vélsleðamennina tvo til Reykjavíkur. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning kl. 14:46 sunnudaginn 9. mars um að leit væri að hefjast að þremur vélsleðamönnum á Langjökli.  Á svæðinu var kafald og lítið skyggni og því ekki talið hentugt að senda þyrlu til leitar.  Björgunarsveitarmenn fundu einn mannanna heilan á húfi laust fyrir miðnætti sl. nótt. Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafði samband við stjórnstöð kl. 4:08 í morgun og óskaði eftir þyrlu til leitar um morguninn.  Laust fyrir kl. 5 var stjórnstöð síðan tilkynnt að björgunarsveitarmenn hefðu fundið sleða annars mannsins. Óskað var eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar flytti mann með leitarhund á svæðið. TF-LÍF fór í loftið kl. 7:45 og var björgunarsveitarmaður með leitarhund um borð.  Vegna aðstæðna á jöklinum var ekki talið líklegt að hundurinn kæmi að gagni og fór hann því aldrei til leitar á jöklinum. Um kl. 10:45 höfðu björgunarsveitarmenn samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og fóru fram á að Landhelgisgæslan hefði milligöngu um að óska eftir aðstoð og búnaði slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokallaðrar Orion-sveitar, sem er björgunarsveit slökkviliðsins.    Heimild fékkst frá yfirstjórn Varnarliðsins.  Þá var þyrlusveit Varnarliðsins einnig í viðbragðsstöðu vegna leitarinnar. TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli til eldsneytistöku kl. 11 eftir leit um morguninn.  Hálftíma síðar hafði Slysavarnarfélagið Landsbjörg samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að mennirnir væru fundnir heilir á húfi en kaldir og hraktir.  Þeir fundust  milli Jökulkróks og Fögruhlíðar sem er skammt inn af Þjófadölum.  Óskað var eftir þyrlu til að sækja þá. TF-LÍF hélt aftur af stað frá Reykjavík kl. 11:46 að sækja mennina og lenti með þá við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 13:12 í dag. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Landhelgisgæslan/flugdeild.  Myndirnar voru teknar við Jökukrók í dag er áhöfn TF-LÍF sótti vélsleðamennina tvo.

Þyrla sótti slasaðan vélsleðamann

Laugardagur 8. mars 2003. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag vélsleðamann sem hafði orðið fyrir slysi við Þverbrekknamúla í Kjalhrauni.  Um kl. 16:56 var haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskað eftir aðstoð vegna slasaðs manns við Þverbrekknamúla í Kjalhrauni.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út.  Maðurinn hafði verið á ferðalagi með hópi vélsleðamanna og fallið af sleðanum og slasast. TF-SIF fór í loftið kl. 17:30 og var komin á slysstað kl. 18:22.   Þaðan var haldið til Reykjavíkur kl. 18:37 og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 19:11 þar sem hinum slasaða var komið undir læknis hendur.  Vélsleðamennirnir voru vel búnir og höfðu meðferðis gervihnattasíma sem þeir gátu notað til að kalla eftir aðstoð.  Flug TF-SIF gekk ágætlega þrátt fyrir snjókomu og lélegt skyggni á slysstað. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands  

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar héldu kynningu fyrir Rauða krossinn

Nýlega hélt Landhelgisgæslan kynningu fyrir starfsfólk Rauða krossins um hættur sem stafa af sprengjum, t.a.m. jarðsprengjum, efna- og sýklavopnum og þær varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna slíkrar hættu.  Kynningin var liður í fræðslu fyrir verðandi sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins m.a. vegna yfirvofandi stríðs í Írak.   Kynningin stóð yfir í 3 klukkustundir og fólst m.a. í því að sýndar voru ýmsar tegundir sprengja og jarðsprengja og margvísleg verkfæri sem nota má til að verjast þeim.  Tilgangur kynningarinnar var að gera fólk meðvitaðara um hætturnar, kynna mismunandi tegundir sprengja, áhrif þeirra og varúðarráðstafanir vegna efna- og sýklavopna.   Í flestum tilfellum er sprengjusvæðum stjórnað af herjum, bæði á stríðstímum og eftir stríð, og ljóst er að fyrst og fremst er horft á hernaðarlegan tilgang og markmið við stjórnun þeirra.  Skipulögð hreinsun sprengjusvæða er yfirleitt framkvæmd af herjum en oft í samráði við Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir sem hafa það að markmiði að standa fyrir slíkri hreinsun.  Vandamál vegna jarðsprengja og annarra virkra sprengja vegna stríðsátaka eru umtalsverð.  Stór svæði í heiminum eru ónothæf til landbúnaðar og jafnvel á Íslandi eru 70-100 sprengjum, síðan í seinni heimstyrjöldinni og síðar, eytt á hverju ári.   Þrátt fyrir að Rauði krossinn hafi þá stefnu að setja starfsfólk sitt ekki vísvitandi í hættu, er óhjákvæmilegt að eftirstríðs hjálp fer fram undir kringumstæðum þar sem ýmis hætta er til staðar, m.a. virkar sprengjur sem skildar hafa verið eftir eða jarðsprengjur.  Það er von Landhelgisgæslunnar að kynning sem þessi geri starfsmenn Rauða krossins meðvitaðari um mögulegar hættur sem fylgja störfum þeirra og geri þá hæfari til að takast á við sjálfboðaliðastörf í þágu mannúðar.   Meðfylgjandi myndir voru teknar af starfsmönnum sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar á kynningunni.  Þar má sjá sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar ræða við starfsfólk Rauða krossins og einnig er mynd af sýnishornum af jarðsprengjum.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands