Fréttayfirlit: nóvember 2003

Landhelgisgæslan auglýsir stöðu þyrluflugmanns lausa til umsóknar

Föstudagur 28. nóvember 2003. Um þessar mundir starfa níu flugmenn hjá Landhelgisgæslunni og um næstu áramót losnar ein staðan þar sem einn flugmaðurinn hættir störfum fyrir aldurs sakir. Í auglýsingu kemur fram að óskað er eftir þyrluflugmanni.  Um er að ræða fullt starf í vaktavinnu.  Staðan tilheyrir flugdeild stofnunarinnar og heyrir stjórnunarlega beint undir yfirflugstjóra.  Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf um næstu áramót. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gilt JAA atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu með blindflugsáritun ásamt því að hafa lokið bóklegu ATPL námi.  Æskilegt er að viðkomandi sé einnig handhafi atvinnuflugmannsskírteinis á flugvél.  Jafnframt skulu umsækjendur hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi.  Umsækjendur skulu hafa gott vald á íslensku og ensku. Launakjör ákvarðast af kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra atvinnuflugmanna.  Umsóknum ber að skila til starfsmannastjóra Landhelgisgæslu Íslands, Seljavegi 32, 101 Reykjavík á umsóknareyðublöðum sem þar fást.  Einnig má nálgast umsóknareyðublöðin á vefslóð Landhelgisgæslunnar.  Umsóknum skal skilað fyrir 10. desember 2003.  Nánari upplýsingar um starfið veitir Björn Brekkan flugmaður í síma 545-2000. Nauðsynlegt er að endurnýja eldri umsóknir.  Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.    

Þyrla flutti sjúkling frá Ólafsvík til Reykjavíkur

Föstudagur 28. nóvember 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11:02 og gaf samband við lækni á Ólafsvík sem óskaði eftir þyrlu til að sækja alvarlega veikan mann. Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út með bráðaútkalli. TF-SIF fór í loftið kl. 11:35 og var stefnan tekin á Rif.  Lent var á flugvellinum þar kl. 12:09  en þar beið sjúklingurinn í sjúkrabíl.  Haldið var til Reykjavíkur 10 mín. síðar og lent við flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll kl. 12:53.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.Landhelgisgæslu Íslands

Skipstjóri dæmdur ábyrgur vegna vanmönnunar skips þar sem stýrimaður og vélstjóri höfðu ekki gild atvinnuréttindi

Fimmtudagur 20. nóvember 2003. Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 3. janúar á þessu ári þar sem skipstjóri var sakfelldur fyrir að hafa látið úr höfn á skipinu V ,,vanmönnuðu vegna þess að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri höfðu eigi gild atvinnuréttindi".  Með því braut hann nánar tilgreind ákvæði laga 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.  Talið var að refsiheimildir laganna væru nægilega skýrar og að skipstjórinn hefði unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir.  Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 100 þúsund krónur í sekt.  Einnig var hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, 150 þúsund krónur og allan áfrýjunarkostnað málsins. Upphaf málsins var það að skipstjórinn hélt til veiða föstudaginn 3. maí 2002.  Varðskip Landhelgisgæslunnar, Óðinn, kom að skipinu að togveiðum á Reykjaneshrygg viku síðar.  Fóru stýrimaður og háseti varðskipsins um borð í togarann til eftirlits og komu þá framangreindar sakir í ljós.  Í Hæstaréttardóminum segir:  Óumdeilt er að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri V höfðu ekki gild atvinnuréttindi þegar landhelgisgæslan kom að skipinu að veiðum á Reykjaneshrygg 10. maí 2002. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi ber skipstjóri eftir 1. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 meðal annars ábyrgð á því að skip hans sé „nægilega mannað“. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1995, ber skipstjóri á íslensku skipi „fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.” Nær ábyrgð skipstjóra samkvæmt þessu ákvæði bæði til framkvæmdar laganna sjálfra og annarra laga, sem fjalla um starfsskyldur hans, svo sem laga nr. 113/1984, laga nr. 43/1987 og siglingalaga. Ber skipstjóri þannig eftir b. lið I. 4. gr., 6. gr. og 13. gr. laga nr. 112/1984 með áorðnum breytingum og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 113/1984 ábyrgð á því að tilskilinn lögmæltur fjöldi lögskráðra stýrimanna og vélstjóra með gild atvinnuréttindi séu í hverri veiðiferð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er á það fallist að refsiheimildir samkvæmt 22. gr. laga nr. 112/1984 og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 113/1984 séu nægilega skýrar og að ákærði hafi unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og eftir þeim lagaákvæðum, sem í ákæru greinir. Verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða og sakarkostnað staðfest. Dómurinn í heild sinni er birtur á heimasíðu Hæstaréttar en hann er nr. 219/2003.

Sjúkraflug með veikan mann frá Kárahnjúkum til Reykjavíkur

Mánudagur 17. nóvember 2003. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar kl. 14:52 í dag vegna alvarlega veiks manns í Kárahnjúkavirkjun.  Læknir á svæðinu taldi nauðsynlegt að sækja manninn með þyrlu.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út, bráðaútkalli, og fór þyrlan í loftið kl. 15:18.   Lent var við Kárahnjúkavirkjun um kl. 16:40.   Ákveðið var að flytja manninn til Akureyrar og var lent við fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri kl. 17:28. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkraflug TF-LIF vegna bílslyss í Þjórsárdal

Laugardagur 15. nóvember 2003. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í Reykjavík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:30 í morgun og óskaði eftir þyrlu vegna manns sem hafði slasast eftir bílveltu í Þjórsárdal.  Læknir á slysstað taldi það nauðsynlegt.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið hálftíma síðar eða kl. 7:01.  Lent var á Skeiðarvegi kl. 7:22 en þar beið sjúklingur í sjúkrabíl.  Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi  kl. 7:51. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Minningarathöfn um áhöfn björgunarþyrlunnar TF-RÁN

Laugardagur 8. nóvember 2003. Í dag var haldin minningarathöfn um þá sem fórust með björgunarþyrlunni TF-RÁN í Jökulfjörðum fyrir tuttugu árum. Með þyrlunni fórust Björn Jónsson flugstjóri, Þórhallur Karlsson flugstjóri, Sigurjón Ingi Sigurjónsson stýrimaður og Bjarni Jóhannesson flugvirki. Athöfnin hófst kl. 11 við Öldurnar við Fossvogskapellu, en nafn  Björns Jónssonar flugstjóra hafði verið sett á eina ölduna, þar sem jarðneskar leifar hans hafa ekki fundist. Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti bæn og að athöfn lokinni var viðstöddum boðið í móttöku í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Aðstandendum hinna látnu var sérstaklega boðið til minningarathafnarinnar.  Starfsmenn Landhelgisgæslunnar mættu einkennisklæddir og vottuðu fyrrum starfsfélögum virðingu sína.