Fréttayfirlit

Afli erlendra skipa í íslensku fiskveiðilögsögunni árið 2003

Miðvikudagur 31. desember 2003.   Landhelgisgæslan hefur eftirlit með veiðum allra erlendra fiskiskipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Að jafnaði setja íslensk stjórnvöld það skilyrði að erlendu skipin séu búin fjareftirlitsbúnaði sem tilkynnir sjálfvirkt staðsetningu skipanna á klukkustundar fresti til stjórnstöðva heimalanda þeirra.  Upplýsingar um staðsetningu skipanna eru síðan sendar sjálfvirkt til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar um leið og þau sigla inn í íslensku efnahagslögsöguna.  Gagnkvæmir samningar um fjareftirlit eru nú í gildi milli Íslands, Færeyja, Grænlands, Noregs og Rússlands.  Auk þess tilkynna skipin daglega um veiddan afla, komur og brottfarir úr fiskveiðilögsögunni.   Um 149 erlend fiskiskip tilkynntu stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um afla árið 2003 og var aflinn samtals 169.757 tonn en á sama tíma í fyrra höfðu erlendu skipin veitt 206.330 tonn.  Munurinn liggur helst í því að minna veiddist af loðnu í ár en í fyrra.  Bretar veiddu á árinu 1.279 tonn, Þjóðverjar 1.307 tonn, Færeyingar 135.468 tonn, Norðmenn 1.472 tonn og Grænlendingar 30.230 tonn.  Tekið skal fram að þessar tölur eru samkvæmt tilkynningum skipanna til Landhelgisgæslunnar en löndunartölur til Fiskistofu veita nákvæmari upplýsingar.   Tíu skip frá Evrópusambandinu höfðu leyfi til botnfiskveiða.  Afli bresku skipanna samanstóð að mestu leyti af karfa eða 1.073 tonn, og þorski, um 100 tonn.  Þjóðverjar veiddu mest af karfa, 1.147 tonn og þorski, um 60 tonn.    Alls höfðu 95 norsk skip leyfi til veiða í efnahagslögsögunni.  Þar af höfðu þrjú leyfi til línuveiða og 92 leyfi til loðnuveiða.  Afli Norðmanna var að mestu loðna eða 865 tonn en einnig veiddu þeir talsvert af keilu eða 315 tonn.  Mikill munur er á loðnuafla Norðmanna samanborið við árið 2002 en þá veiddu þeir alls 56.130 tonn af loðnu.   Fimmtíu færeysk skip höfðu leyfi til línu- og handfæraveiða.  Þau fengu alls 4000 tonn af mismunandi tegundum botnfisks.  Einnig höfðu 10 færeysk skip leyfi til veiða á kolmunna og loðnu. Þau veiddu 95 þúsund tonn af kolmunna og 36 þúsund og fimm hundruð tonn af loðnu.   Grænlendingar höfðu eitt loðnuveiðileyfi og eitt botnfiskveiðileyfi. Þeir veiddu 27 þúsund tonn af loðnu og 3000 tonn af botnfiski.   Einnig höfðu fimm japönsk túnfiskveiðiskip leyfi til veiða hér við land en þau tilkynna sinn afla til Hafrannsóknarstofnunar.   Yfirlit yfir afla erlendra skipa sem hér er vitnað til nær til kl. 13 þriðjudaginn 30 desember en þá var aðeins eitt erlent skip að veiðum í íslensku efnahagslögsögunni, breska skipið Norma Mary, sem talið er að landi afla sínum í Færeyjum.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlafulltrúi

Sjómælingaverkefni á Suðurnesjum

Mánudagur 29. desember 2003. Nýlega voru sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar í mælingaleiðangri á Suðurnesjum.  Verið var að staðsetja alla hafnarvita og innsiglingavita/merki á svæðinu frá Vogum að Helguvík vegna endurútgáfu á korti nr. 361 sem er hafnarkort fyrir hafnirnar við Stakksfjörð.  Það getur oft og tíðum verið brösótt fyrir sjómælingamenn að komast að vitum og ljósum.  Þau eru á húsþökum, uppi í háum möstrum og á endum flughálla og stórgrýttra hafnargarða svo eitthvað sé nefnt.  Þegar mælingamennirnir voru staddir í Vogum blasti það við þeim að eitt innsiglingaljósið var á gafli fiskvinnsluhúss en þak þess var bratt og hált vegna snjókomu og í alla staði mjög óárennilegt að reyna að komast með GPS staðsetningartæki þangað.  Sjómælingamenn höfðu tekið eftir körfubíl ásamt áhöfn sem var að störfum í bænum. Datt þeim í hug að athuga hvort stjórnendur körfubílsins væru reiðubúnir að veita smá aðstoð í þágu öryggismála sjófarenda.  Þarna reyndust tveir starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja vera á ferð og voru þeir ekkert nema liðlegheitin.  Það sem eftir fylgdi var einhver sú þægilegasta aðstaða sem mælingamennirnir hafa notið við sambærileg verkefni.  Þeim var lyft upp að ljósinu þar sem staðsetningartækinu var komið fyrir og það látið hnita sig inn í 15 mínútur.  Á meðan var beðið inni í hlýjum bílnum.  Að því loknu var tækið sótt á sama hátt.  Sjómælingamennirnir kunna þessum hjálpsömu og greiðviknu starfsmönnum Hitaveita Suðurnesja bestu þakkir fyrir aðstoðina. Á meðfylgjandi myndum, sem Björn Haukur Pálsson sjómælingamaður tók, má sjá Ásgrím Ásgrímsson deildarstjóra sjómælingadeildar að störfum ásamt starfsmanni Hitaveitu Suðurnesja. E.t.v. hafa börnin í Vogunum talið að þar væru jólasveinar á ferð enda sennilegast að menn sem athafna sig á húsþökum í desember séu í þeirri starfsgrein. Dagmar Sigurðardóttir  /  Ásgrímur Ásgrímsson fjölmiðlafulltrúi                deildarstjóri sjómælingadeildar  

Skipstjóri Breka dæmdur fyrir fiskveiðibrot

Mánudagur 21. desember 2003. Skipstjóri Breka VE-61 var nýlega dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að hafa sunnudaginn 10. ágúst 2003 verið á togveiðum með fiskvörpu á Stokknesgrunni, á svæði sem er 7.5 sjómílur innan línu, þar sem allar togveiðar með vörpu án smáfiskaskilju eru bannaðar.  Við rannsókn varðskipsmanna af v/s Ægi kom í ljós að varpa togarans var ekki búin smáfiskaskilju eins og reglur segja til um. Taldist brot þetta varða við reglugerð um verndun smáfisks við tog- og dragnótarveiðar fyrir Suðausturlandi og lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Skipstjórinn var dæmdur til að greiða kr. 600 þúsund kr. í sekt í Landhelgissjóð og var gert að sæta upptöku veiðarfæra að andvirði kr. 50 þúsund kr. og upptöku afla að fjárhæð kr. 249.450.  Einnig var hann dæmdur til að greiða verjanda sínum 80 þús. krónur í málsvarnarlaun.  Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði gekkst greiðlega við broti sínu og var lagt til grundvallar að um gáleysisbrot hafi verið að ræða. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Jólasveinar ferðast með þyrlu - Myndir frá jólatrésskemmtun starfsmannafélags LHG

Miðvikudagur 17. desember 2003. Hér má sjá myndir sem Reynir Brynjarsson flugvirki hjá Landhelgisgæslunni tók á jólatrésskemmtun starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar um síðustu helgi en hún var haldin í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli. Eins og sjá má á myndunum notuðu jólasveinarnir mjög nútímalegan ferðamáta og komu í þyrlu, þó ekki þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Það voru þeir Gáttaþefur og Stekkjastaur sem komu að þessu sinni.  Gáttaþefur sá um gamanmál og síðan dönsuðu þeir báðir við börnin í kringum jólatréð.  Börnin skemmtu sér konunglega. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Sjómælingar Íslands verða sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands

Þriðjudagur 16. desember 2003. Í tilkynningu til starfsmanna sem forstöðumaður Sjómælinga Íslands gaf nýlega út segir:   ,,Frá og með næstu áramótum verður nafnið Sjómælingar Íslands lagt niður.  Í stað þess kemur nafnið Landhelgisgæsla Íslands - Sjómælingasvið. Sjómælingar Íslands hafa allt frá árinu 1982 verið reknar sem deild innan Landhelgisgæslu Íslands og eru þessar breytingar gerðar til að skýra betur stöðu Sjómælinga sem hluta af  Landhelgisgæslu Íslands.  Kennitala Sjómælinga Íslands hefur verið lögð niður.  Innan sjómælingasviðs eru svo mælingadeild og kortadeild." Breytingar þessar birtast m.a. á þann hátt að útgefin kort og rit á vegum stofnunarinnar verða framvegis merkt Landhelgisgæslu Íslands, sjómælingasviði, en ekki Sjómælingum Íslands. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Skipverji bjargaðist er bátur hans sökk - Þyrla hélt af stað til bjargar

Sunnudagur 14. desember 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 18:04 og upplýsti bátur hefði sent út neyðarkall gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi (STK) Tilkynningarskyldunnar og hann væri í miklum háska. Gefin var upp staðsetning bátsins en hann var staddur á Breiðafirði.  Mínútu síðar lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð vita að um væri að ræða fiskibátinn, Hólmarann SH-114, búið væri að ræsa út björgunarsveit og að bátur í grennd væri á leið á staðinn.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út með bráðaútkalli kl. 18:07 og fór TF-LIF í loftið kl. 18:40.  Tilkynningarskyldan lét vita kl. 18:52 að búið væri að bjarga manninum upp í nærstaddan bát.  Eini skipverjinn sem var um borð hafði bjargað sér í gúmmíbát og var bátur hans, Hólmarinn, sokkinn kl. 18:54. Staðfest var að engir fleiri hefðu verið um borð. Þá var þyrlunni snúið í átt til Reykjavíkur og lent þar kl. 19:13.  Þyrlan átti aðeins 10 mínútna flug eftir á slysstað þegar upplýst var að manninum hefði verið bjargað heilum á húfi um borð í bátinn Ársæl SH, og ekki væri þörf aðstoð hennar lengur. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Skipstjóri staðinn að veiðum án veiðileyfis

Laugardagur 13. desember 2003.  Handhafar löggæsluvalds í áhöfn varðskipsins Óðins stóðu skipstjóra að meintum ólöglegum veiðum í gærdag. Er varðskipið kom að skipinu var áhöfnin að netaveiðum. Varðskipsmenn komust að því við venjulegt eftirlit að skipið hafði ekki veiðileyfi.  Skipstjóra var gert að halda þegar til hafnar á Ísafirði þar sem lögreglan tók við rannsókn málsins. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar farnir til starfa í Írak

Föstudagur 12. desember 2003. Eftirfarandi tilkynning birtist á vef utanríkisráðuneytisins í dag: Utanríkisráðunneytið hefur gert um það samkomulag við Dani að Íslenska friðargæslan leggi til tvo sprengjusérfræðinga til starfa í Írak. Mennirnir tveir sem tiheyra sprengjudeild Landhelgisgæslunnar eru þegar farnir á vettvang. Hlutverk þeirra er að eyða og gera óvirkar sprengjur sem ógna öryggi almenningis í Írak og hamlar uppbyggingarstarfi í landinu. Vegna verkefnisins sóttu þeir sérstaka viðbótarþjálfun til Danmerkur og munu þeir starfa með danskri sérfræðingasveit að verkefninu.  

Jólaveisla Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 12. desember 2003. Árleg jólaveisla Landhelgisgæslunnar var haldin í hádeginu í dag.  Flestir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, að frátöldum fjarverandi varðskipsáhöfnum, mættu í Borgartún 6 og gæddu sér á hangikjöti með öllu tilheyrandi og fengu jólagraut (ris a la mande) með möndlugjöf í eftirrétt.  Áður en hádegisverður var snæddur var jólaguðspjallið lesið. Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður var svo heppinn að fá möndlugjöfina að þessu sinni en hann sá einnig um að taka meðfylgjandi myndir úr jólaveislunni.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlafulltrúi Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð, Steinn Kjartansson aðstoðarm. á flugvelli,  Hilmar Þórarinsson yfirflugvirki, Ragnar M. Georgsson fulltrúi, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri ásamt Gunnari Bergsteinssyni fyrrverandi forstjóra.  Páll Halldórsson fyrrverandi flugstjóri, Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/fjölmiðlaftr., Kristján Þ. Jónsson skipherra, Sigríður Sverrisdóttir starfsmannastjóri, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra, Magnús Gunnarsson fjármálastjóri. Pétur Steinþórsson flugstjóri, Sigurjón Sverrisson flugstjóri, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri og Sigríður Sverrisdóttir starfsmannastjóri. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri afhendir Jóni Páli Ásgeirssyni stýrimanni möndlugjöfina.

Ægir í viðgerð og Óðinn gerður út

Fimmtudagur 11. desember 2003. Um þessar mundir er verið að endurnýja pústkerfi aðalvéla í varðskipinu Ægi en það bilaði nýlega.  Það hafði þó þjónað sínum tilgangi vel enda upphaflegt kerfi frá því á árinu 1968 er skipið kom til landsins. Einnig er verið að yfirfara akkeris- og dráttarvindur varðskipsins og setja upp nýjan gervihnattafjarskiptabúnað af gerðinni Inmarsat Fleet. Þetta er nýjasta útgáfa af Inmarsat-fjarskiptabúnaði og felur hún í sér margvíslega nýja möguleika í fjarskiptum þar sem skipin verða sítengd með háhraðatengingu við innranet Landhelgisgæslunnar. Tilgangurinn með því er að auka upplýsingastreymi frá stjórnstöð stofnunarinnar til varðskipa þegar skipin eru við gæslustörf utan drægis farsímakerfa en þau hafa hingað til hafa verið notuð til gagnaflutninga. Sem dæmi má nefna upplýsingaflæði frá svæðastofnunum, svo sem Norð-Austur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC) í London.  Þegar varðskipin stunda eftirlit á fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC eru sendar til þeirra upplýsingar um staðsetningar, afla og athafnir allra þekktra skipa á svæðinu. Á meðan viðgerð varðskipsins Ægis stendur yfir er varðskipið Óðinn gert út. Óðinn var gerður haffær í maí á þessu ári svo hægt væri að nota hann ef á þyrfti að halda, þ.e. ef hin varðskipin biluðu eða af öðrum ástæðum. Á meðfylgjandi mynd, sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Tý tók í dag, er verið að setja upp undirstöður fyrir loftnetskúlur fjarskiptabúnaðarins um borð í varðskipinu Ægi. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlafulltrúi.

Fundur um öryggismál sjómanna haldinn í Reykjavík

Mánudagur 1. desember 2003. Eins og fram hefur komið á vefsíðu Landhelgisgæslunnar hafa nokkrar stofnanir, ráðuneyti og félög staðið fyrir málfundum um öryggismál sjómanna víða um land á þessu ári í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna.  Fyrsti fundurinn var haldinn í Grindavík 31. mars. Næsti fundur verður haldinn á Hótel Sögu í Reykjavík fimmtudaginn 4. desember nk. kl. 15:00.  Fundarstjóri verður Friðrik Jón Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ.  Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig varða öryggismál sjómanna eru hvattir til að mæta á fundinn. Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda flytur erindi fyrir hönd Landhelgisgæslunnar um framtíðarsýn stofnunarinnar varðandi fyrirkomulag leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur. Sjá dagskrá fundarins. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.