Fréttayfirlit

Slösuð kona flutt með þyrlu til Reykjavíkur eftir bílslys á Snæfellsnesi

Sunnudagur 29. febrúar 2004. Læknir á Ólafsvík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 7:03 í morgun og óskaði eftir þyrlu til að sækja konu sem lent hafði í bílslysi á Snæfellsnesi.  Eftir að þyrlulæknir hafði rætt við lækninn á Ólafsvík var talið nauðsynlegt að sækja hina slösuðu.  Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 7:13 og fór þyrlan í loftið kl. 7:46.  Lent var á Rifi kl. 8:22 og þaðan haldið með hina slösuðu kl. 8:32.  TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 9:17. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.      

Varðskipið Týr sigldi með Mánafoss í drætti frá Vestmannaeyjum til Akureyrar með viðkomu í Reykjavík

Fimmtudagur 26. febrúar 2004.   Mánafossi, skipi Eimskips, hlekktist á er skipið var á leið út úr höfninni í Vestmannaeyjum 18. febrúar sl.  Haft var samband við Landhelgisgæsluna og óskað eftir að varðskip drægi Mánafoss til hafnar í Reykjavík þar sem kanna átti skemmdirnar.   Varðskipið Týr var þá statt út af Reykjanesi og var haldið til Vestmannaeyja þegar formleg beiðni barst.  Týr kom til hafnar í Vestmannaeyjum að kvöldi fimmtudagsins 19. febrúar.  Veður var þá þokkalegt en ákveðið var að bíða til morguns með að draga skipið þar sem bógskrúfa Mánafoss var óvirk vegna bilunar í ljósavél og viðgerðarmenn voru að störfum.   Morguninn eftir var ákveðið að losa 1000 tonn af farmi úr skipinu og koma honum í annað skip Eimskips.  Því var lokið um fjögurleytið föstudaginn 20. febrúar.  Að því loknu hélt varðskipið Týr með Mánafoss í drætti áleiðis til Reykjavíkur.  Veðurútlit var sæmilegt en skipin hrepptu slæmt veður á leiðinni.  Ferðin tók alls 36 stundir og komu skipin til hafnar í Reykjavík að morgni sunnudagsins 22. febrúar.   Í Reykjavík voru skemmdir á Mánafoss kannaðar og niðurstaðan varð sú að skipið þyrfti að fara í slipp á Akureyri.  Þá var óskað eftir því að varðskipið Týr drægi Mánafoss þangað.  Sú ferð hófst seinnipart mánudagsins 23. febrúar.  Veður var hagstætt miðað við árstíma og tók ferðin alls 47 klst. Skipin komu til Akureyrar kl. 16:30 í gær.   Sjá meðfylgjandi myndir sem skipverjar á varðskipinu Tý tóku er skipin voru á leið inn Eyjafjörð.  Eins og sjá má er talsverður stærðarmunur á skipunum en varðskipið Týr er 70 metra langt og 10 metra breitt en Mánafoss er 100 metra langur og 19 metra breiður.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.      

Þyrla sótti vélsleðamann sem slasast hafði á Snæfellsjökli

Laugardagur 21. febrúar 2004. Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 13:24 og upplýsti að læknir á Ólafsvík óskaði eftir þyrlu til að sækja mann sem hafði slasast á vélsleða á Snæfellsjökli. Maðurinn hafði þá verið fluttur með jeppa til Ólafsvíkur. TF-SIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var á eftirlitsflugi yfir Faxaflóa og var þegar haldið í áttina að Rifi.  Þyrlan lenti þar á flugvellinum kl. 13:46 og hafði hinn slasaði verði fluttur þangað í sjúkrabíl.  Þyrlan hélt aftur til Reykjavíkur kl. 13:56 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 14:27. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.    

Sjúkraflug vegna alvarlegs umferðarslyss við Bifröst

Föstudagur 20. febrúar 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:39 í dag og tilkynnti um alvarlegt umferðarslys á þjóðveginum sunnan við Bifröst.  Tveir jeppar höfðu skollið saman með þeim afleiðingum að tvær ungar stúlkur létust og fleiri slösuðust.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór hún í loftið kl. 15:55.  Þyrlan lenti á slysstað kl. 16:13 og voru fimm manns sem lent höfðu í slysinu fluttir til Reykjavíkur.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 16:58. Áhöfn TF-SIF, minni þyrlu Landhelgisgæslunnar, var einnig kölluð út en hætt var við flugtak þegar nánari upplýsingar bárust frá slysstað sem gáfu til kynna að ekki væri þörf fyrir hana. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sjúkraflug til Blönduóss vegna bílslyss

Miðvikudagur 18. febrúar 2004.Bílslys varð við Blönduós á áttunda tímanum í kvöld og tilkynnti Neyðarlínan stjórnstöðLandhelgisgæslunnar um það.TF-LIF fór í loftið kl. 20:06 og voru tveir læknar í áhöfn þyrlunnar að þessu sinni þarsem kvöldæfing með nætursjónauka hafði verið fyrirhuguð.  Þyrlan lenti á Blönduósflugvellikl. 21:16 þar sem hin slösuðu biðu í sjúkrabíl.  TF-LIF fór aftur í loftið kl. 21:58 meðþrjú slösuð innanborðs.  Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 23:19.Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkraflug TF-LIF til Patreksfjarðar

Mánudagur 16. febrúar 2004. Læknir á Patreksfirði hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á laugardagskvöldið og óskaði eftir aðstoð vegna sjúklings sem flytja þurfti á sjúkrahús í Reykjavík.  Sjúkraflugvél frá Ísafirði gat ekki flogið til Patreksfjarðar vegna veðurs. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 20:40 og fór vélin í loftið kl. 21:27.  Lent var á Patreksfirði kl. 22:27 þar sem sjúklingur var fluttur um borð í þyrluna og fór hún í loftið að nýju kl. 22:36.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 00:15 á sunnudag og var sjúklingur fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkraflug vegna slasaðs skipverja um borð í togveiðiskipinu Eykon RE-19

Mánudagur 16. febrúar 2004. Um kl. 2 í nótt var hringt í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá togveiðiskipinu Eykon RE-19 og óskað eftir þyrlu til að sækja skipverja sem slasast hafði á fæti.  Skipið var þá statt 27 sjómílur vestur af Garðskaga.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 2:43.  Vegna veðurs og sjólags reyndist erfitt að koma sigmanni um borð í Eykon og var bátnum haldið inn fyrir Garðskaga til að byrja með.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LIF hafði rætt við skipstjóra um ástand slasaða skipverjans var tekin ákvörðun um að skipið myndi sigla til Keflavíkur þar sem sjúkrabíll sækti hann. Var áhætta talin of mikil til að reyna hífingu að nýju með hliðsjón af því að hinn slasaði var ekki í lífshættu.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 3:53. Eykon kom til Keflavíkur með hinn slasaða kl. 7:30 í morgun og var hann fluttur á sjúkrahúsið í Keflavík. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Hafa eytt 60 tonnum af sprengjum - Hlutu viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag

Föstudagur 13. febrúar 2004.   Í nýlegri frétt frá danska hernum er sagt frá því að sex menn í dönsku herdeildinni sem starfar í Írak hafi fengið viðurkenningu fyrir einstakt framlag þeirra við skyldustörf. Í herdeildinni eru 600 hermenn og þar af fengu fjórir Danir viðurkenningu og tveir íslenskir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sem starfa með herdeildinni, þeir Adrian King og Jónas Þorvaldsson.   Það var breski hershöfðinginn Andrew Stewart, sem er yfirmaður fjölþjóðaherliðsins í suðaustur Írak, sem afhenti þeim innrömmuð viðurkenningarskjöl með orðunum ,,You have made a diffrence” eða ,,ykkar framlag var mikilvægt”.  Hann flaug til Camp Eden með þyrlu til að kveðja dönsku herdeildina sem verður leyst af í þessum mánuði.  Hershöfðinginn hrósaði dönsku herdeildinni og lýsti stolti yfir að hafa starfað með henni síðustu fjóra mánuðina í Írak.   Adrian King og Jónas Þorvaldsson koma aftur til starfa hjá Landhelgisgæslunni um mánaðarmótin febrúar-mars en hefja för sína til Íslands 19. febrúar nk.  Dvöl þeirra í Írak hefur verið viðburðarík og mikilvægt framlag til uppbyggingar og mannúðarmála í Írak.  Þeir hafa eytt 60 tonnum af sprengjum á meðan á dvöl þeirra hefur staðið, t.d. eyddu þeir 180 sprengjum í gær, og alls hafa þeir sinnt 80 útköllum.    Meðfylgjandi eru myndir frá athöfninni þegar Adrian og Jónas tóku á móti viðurkennningarskjölunum. Einnig er mynd af Adrian að ræða við Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana sem heimsótti herdeildina í byrjun febrúar en Jónas stendur hjá í hlífðarbúningi sem sprengjusérfræðingar nota við störf sín.   Sjá á frétt frá afhendingu viðurkenningaskjala á heimasíðu danska hersins: http://www.hok.dk/more.php?id=507_0_1_0_C   Sjá frétt af sprengjueyðingu í mannúðarskyni þar sem mynd er af Jónasi og Adrian og þeir sagðir vera danskir Írakshermenn: http://www.hok.dk/more.php?id=503_0_1_0_C   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd LHG: Jónas tekur við viðurkenningarskjali. Mynd LHG: Adrian tekur við viðiurkenningarskjali Mynd LHG: Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana ræðir við Adrian King.

Veikt barn á Patreksfirði sótt með þyrlu

Föstudagur 13. febrúar 2004. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug til Patreksfjarðar í dag til að sækja veikt barn.  Ekki þótti fært að senda barnið með sjúkraflugi Íslandsflugs til Reykjavíkur þar sem læknir varð að fylgja því en aðeins var einn læknir á vakt í héraðinu og gat því ekki farið með í sjúkraflugið. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 11:59 og fór þyrlan í loftið kl. 12:25. Veðrið hafði verið slæmt um morguninn en hafði gengið niður svo að flugið gekk vel. Lent var við enda brimvarnargarðsins á Patreksfirði kl. 13:21 þar sem barnið var flutt um borð í þyrluna í fylgd foreldra. TF-LIF flaug frá Patreksfirði kl.13:28 og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:40. Þar beið sjúkrabifreið sem flutti barnið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Slasaður sjómaður sóttur út á haf - Vel heppnuð samvinna áhafna varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fimmtudagur 12. febrúar 2004.Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:54 í gær og tilkynnti að maður um borð í loðnubátnum Svani RE-45 hefði fengið þungt höfuðhögg og að óskað væri eftir þyrlu til að sækja hann. Báturinn var þá að veiðum á loðnumiðunum fyrir austan land.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út.  Einnig var haft samband við varðskipið Ægi sem var statt á loðnumiðunum skammt frá Svani RE.  Varðskipið sigldi þá þegar í átt að Svani RE og var komið að loðnubátnum kl.18:10.  Þá fóru stýrimenn um borð í Svan til að kanna ástand hins slasaða.  Þeir voru í beinu sambandi við lækni í áhöfn þyrlunnar og gerðu fyrstu ráðstafanir í samráði við hann. Um kl. 18:26 var ákveðið í samráði við þyrluáhöfn að flytja hinn slasaða um borð í varðskipið.  Varðskipsmenn fluttu hann á milli með léttbát og var hann kominn um borð í Ægi kl. 19:07.  Vel gekk að flytja hinn slasaða á milli skipa. Í framhaldi af þessu hélt varðskipið á 18 sjómílna hraða í VSV-átt til móts við þyrluna.TF-LIF var komin að varðskipinu kl. 21:08 og gekk vel að hífa hinn slasaða um borð í þyrluna. Að sögn Benónýs Ásgrímssonar yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar var flugveður slæmt. Ísing var í lofti, talsverð ókyrrð og allmikill sjór. Það skipti sköpum að hægt var að hífa manninn um borð við þessar aðstæður að búið var að flytja hann um borð í varðskipið áður en þyrlan kom á staðinn.Næst var ferðinni heitið til Hafnar í Hornafirði til að taka eldsneyti og var lent þar kl.22:07.  Þaðan var haldið kl. 22:30 og lent við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi kl. 00:10.Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Ískönnunarflug Landhelgisgæslunnar

Fimmtudagur 12. febrúar 2004.   Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fór í ískönnunarflug í dag.  Komið var að ísröndinni innan við efnahagslögsöguna á Dhorn-banka vestur af Bjargtöngum en þar var hann í formi nýmyndunar. Ísröndinni var fylgt  til N-Austurs þar til hún sveigði út úr efnahagslögsögunni norður af Straumnesi.   Að sögn Auðuns F. Kristinssonar yfirstýrimanns í flugdeild Landhelgisgæslunnar var ísinn nokkuð þéttur en ekki mikið um stóra ísfleka.  Gisnar ísrastir voru meðfram ísbrúninni.  Hægviðri var á svæðinu en þokubakkar við ísröndina.   Hægt er að nálgast skýrslu Landhelgisgæslunnar og kort af ísnum með upplýsingum um nákvæma staðsetningu hans á heimasíðu veðurstofunnar.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Tómas Helgason flugstjóri TF-SYN tók í ískönnunarfluginu í dag.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.      

Landhelgisgæslan og Varnarliðið gera samning um samræmdar verklagsreglur vegna þyrluflugs með nætursjónauka

Miðvikudagur 11. febrúar 2004. Í gær gerði Landhelgisgæslan samning við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um samræmdar verklagsreglur vegna þyrluflugs með nætursjónaukum. Þegar flugdeild Landhelgisgæslunnar hóf notkun nætursjónauka í þyrluflugi var ljóst að hafa varð náið samráð við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þyrlur beggja aðila fljúga oft og tíðum á óhefðbundnum flugleiðum þar sem flugumsjón nær ekki að fylgjast með þeim og við vissar aðstæður verður að slökkva á siglingarljósum þyrlanna til að trufla ekki nætursjónaukana. Báðum aðilum var því ljóst að semja varð samræmdar verklagsreglur til að koma í veg fyrir að hætta skapaðist. Á fyrri hluta síðasta árs hófust viðræður um hvernig staðið skyldi að gagnkvæmum tilkynningum um nætursjónaukaflug, bæði flug sem ákveðið er með fyrirvara og björgunar- eða sjúkraflug sem ákveðið er í skyndi. Einnig varð að komast að samkomulagi um hvernig fjarskiptasambandi skyldi komið á milli þyrla Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins ef til þess kæmi að þyrlurnar væru samt sem áður á flugi í grennd við hvor aðra. Eftir að sumarið gekk í garð og ekki var þörf á notkun nætursjónauka um nokkurt skeið frestaðist að ganga frá samkomulagi um samræmdar verklagsreglur. Þegar haustaði og skyggja tók að nýju var unnið eftir reglunum sem búið var að semja. Það var þó mikilvægt formsatriði að ganga frá skriflegri undirritun en hún fór fram í höfuðstöðvum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Einnig var farið yfir ýmsa þætti reglnanna og gengið úr skugga um að báðir aðilar túlkuðu þær á sama veg. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar voru Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda, Benóný Ásgrímsson flugrekstrarstjóri og yfirflugstjóri, Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð, Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri sem sér um samskipti við Varnarliðið og Thorben Lund yfirstýrimaður í flugdeild. Frá Varnarliðinu voru John J. Waickwicz flotaforingi og yfirmaður Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, Thomas Thompson ofursti, næstæðsti yfirmaður Varnarliðsins, Steven Dreyer ofursti, næstæðsti yfirmaður flughersins í Keflavík, David Duke yfirmaður þyrlusveitar Varnarliðsins, Jarrod Stundahl samskiptafulltrúi Varnarliðsins við Landhelgisgæsluna og Kevin L. Smith ofursti, yfirmaður deildar Varnarliðsins sem sér um skipulag og stefnumörkun og Toby Myers undirforingi í aðgerðadeild. Sjá meðfylgjandi myndir sem Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri tók við undirritun samningsins. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Kevin L. Smith ofursti, yfirmaður deildar Varnarliðsins sem sér um skipulag og stefnumörkun og Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda undirrita samninginn. Í baksýn eru Steven Dreyer ofursti, næstæðsti yfirmaður flughersins í Keflavík, David Duke yfirmaður þyrlusveitar Varnarliðsins og Jarrod Stundahl samskiptafulltrúi Varnarliðsins við Landhelgisgæsluna. Benóný Ásgrímsson flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar og Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar standa við samningaborðið þar sem Smith ofursti og Sigurður Steinar Ketilsson yfirmaður gæsluframkvæmda ganga frá pappírsmálum.  

Sjúkraflug til Vestmannaeyja

Mánudagur 9. febrúar 2004. Læknir á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:30 og óskaði eftir flutningi á bráðveikum sjúklingi sem þurfti að komast sem fyrst á sjúkrahús í Reykjavík.  Eftir samráð við lækni í áhöfn TF-SIF var ákveðið að sækja sjúklinginn með þyrlu. TF-SIF fór í loftið kl. 16:26 og lenti rúmri klukkustund síðar í Vestmannaeyjum.  Þaðan fór þyrlan kl. 17:50 og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 18:32. Þar beið sjúkrabíll og flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús. Þetta er í annað skiptið á fjórum dögum sem þyrla Landhelgisgæslunnar fer í sjúkraflug til Vestmannaeyja en annar sjúklingur var sóttur þangað síðastliðinn föstudag. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Sjúklingur fluttur með þyrlu frá Vestmannaeyjum

Föstudagur 6. febrúar 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16:02 og gaf samband við lækni á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.  Hann óskaði eftir þyrlu til að sækja sjúkling sem hafði misst meðvitund. Læknir í áhöfn TF-LIF taldi eftir samráð við lækninn í Vestmannaeyjum að sjúklingurinn væri of veikur til að fara með sjúkraflugvél og því var afráðið að flytja hann með þyrlu. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 16:05 og fór hún í loftið kl. 16:34.  Flogið var sjónflug til Vestmannaeyja þar sem þyrlan lenti kl. 16:59.  Þar beið sjúklingurinn í sjúkrabíl tilbúinn til flutnings og var haldið með hann frá Vestmannaeyjum kl. 17:06.  TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:45. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Kræklingagirðing hirt úr sjó til að tryggja öryggi sjófarenda

Fimmtudagur 5. febrúar 2004.   Störf áhafna varðskipa eru af margvíslegum toga.  Nýlega fékk áhöfn varðskipsins Ægis það verkefni að ná upp kræklingagirðingu sem sett hafði verið út í Hvammsvík haustið 2001.  Að sögn Halldórs Nellett skipherra á Ægi höfðu eigendur girðingarinnar ætlað að láta hana vera í sjó í 2 ár og safna kræklingi sem síðan átti að nýta.  Girðingin er um 100 metra löng, þ.e. höfuðlínan, og var hún fest með fjórum akkerum.    Fyrsta veturinn gekk allt vel en seinni veturinn lagði fjörðinn og þegar hvessti reif ísinn girðinguna út á fjörð og flæktist hún þá öll og skapaði siglingahættu t.d. fyrir olíuskip sem sigla reglulega um þetta svæði.   Girðingin er gerð samkvæmt skoskri fyrirmynd og hefði getað þjónað sínu hlutverki vel ef ísinn hefði ekki komið til.  Eigendur girðingarinnar eru ekki af baki dottnir og ætla jafnvel næst að fara að dæmi Kanadamanna sem sökkva girðingum sínum þegar sjó fer að leggja.   Vel gekk að hífa girðinguna um borð í varðskipið.  Hún var þó talsvert þung og öll í flækju. Síðan var siglt með hana til Akraness þar sem hún var tekin í land í höfninni.    Sjá meðfylgjandi myndir sem varðskipsmenn tóku þegar verið var að hífa girðinguna um borð.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.    

Björgunarsveitarmenn í heimsókn hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar

Mánudagur 2. febrúar 2004. Nýlega heimsótti áhöfn björgunarbátsins Ásgríms S. Björnssonar og sjóflokkur björgunarsveitar Ársæls flugdeild Landhelgisgæslunnar og kynnti sér starfsemi hennar og tækjakost.  Það voru þeir Auðunn F. Kristinsson stýrimaður og sigmaður og Steinn Kjartansson aðstoðarmaður flugvirkja sem tóku á móti hópnum og fræddu mannskapinn um hlutverk deildarinnar og sögðu frá áhugaverðum björgunarleiðöngrum og atvikum liðinna ára.  Sami hópur hefur heimsótt stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, höfuðstöðvar og varðskip á síðastliðnu ári í þeim tilgangi að fræðast um starfsemi Landhelgisgæslunnar og vera þannig betur undir það búinn að starfa henni við hlið í aðgerðum.   Góð samvinna hefur verið milli Landhelgisgæslunnar og áhafnar björgunarbátsins og sjóflokksins.  Ekki spillir fyrir að sumir starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru fyrrverandi og jafnvel núverandi félagar í björgunarsveitinni.  Eins eru nokkrir félagar sveitarinnar fyrrverandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar og þekkja því vel til starfshátta hennar.   Daginn sem heimsóknin átti sér stað hafði áhöfn björgunarbátsins aðstoðað áhöfn TF-LÍF við þjálfun í notkun björgunarnets sem ætlað er til að ná mönnum úr sjó.  Björgunarbáturinn var hafður tiltækur ásamt áhöfn ef eitthvað færi úrskeiðis en það er nauðsynleg öryggisráðstöfun við slíkar aðstæður.   Ásgrímur Ásgrímsson     Dagmar Sigurðardóttir deildarstjóri                    fjölmiðlafulltrúi   Mynd: Landhelgisgæslan/Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri: Hópurinn á vegum björgunarsveitarinnar Ársæls ásamt þeim Auðunni F. Kristinssyni stýrimanni/sigmanni og Steini Kjartanssyni aðstoðarmanni flugvirkja.  Myndin er tekin við þyrluna TF-LIF í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll.   Mynd: Landhelgisgæslan/Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri: Auðunn F. Kristinsson stýrimaður/sigmaður og fyrrverandi félagi í björgunarsveitinni sýnir félögum úr sjóflokk björgunarsveitarinnar Ársæls björgunarnetið sem flugdeild Landhelgisgæslunnar ráðgerir að taka í notkun.
Síða 1 af 2