Fréttayfirlit

Sprengjuæfing með öryggisvörðum og lögreglu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudagur 31. mars 2004. Nýlega héldu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengjuæfingu með öryggisvörðum og lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Slíkar æfingar eru haldnar með reglulegu millibili fyrir starfsfólk á flugvellinum og eru nauðsynlegur liður í þjálfun öryggisstarfsmanna og lögreglu til að bregðast við hugsanlegum hryðjuverkum. Sjá meðfylgjandi myndir sem Gunnar J. Ó. Flóvenz öryggisfulltrúi flugfélagsins Bluebird Cargo tók af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar á meðan á æfingunni stóð. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd:  Þáttakendur á námskeiðinu fylgjast með hluta æfingarinnar. Mynd:  Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar undirbýr notkun vélmennis við störf sín. Mynd:  Sprengjusérfræðingar og lögreglumenn vinna saman að því að skipuleggja aðgerðir vegna yfirvofandi hættu. Mynd: Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar undirbúa sig og ná í verkfæri til að nota í næsta verkefni. Mynd:  Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar rannsakar grunsamlega hluti inni á flugvallarsvæðinu.

Banaslys í Akraneshöfn

Þriðjudagur 30. mars 2004. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 15:22 vegna slyss í Akraneshöfn en þar hafði fólksbíll farið út af bryggjukantinum og lent í höfninni með tvær manneskjur innanborðs. TF-LIF fór í loftið kl. 15:31 með tvo kafara frá Landhelgisgæslunni og fjóra frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Lent var á sementsbryggjunni á Akranesi kl. 15:37 en bíllinn hafði farið fram af henni. Um kl. 15:49 höfðu kafarar náð tveimur manneskjum upp á  yfirborðið, hjónum sem verið höfðu í bílnum, en þau voru úrskurðuð látin skömmu síðar.  Kafarar höfðu einnig sett taug í bílinn og var búið að hífa hann upp á bryggjuna kl. 16. Lögregla rannsakar tildrög slyssins. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.                

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem lent hafði í bifreiðarslysi við Vatnsfellsvirkjun

Sunnudagur 28. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti í dag mann sem lent hafði í bifreiðarslysi við Vatnsfellsvirkjun og flutti hann á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.   Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:43 og tilkynnti að alvarlegt umferðarslys hefði átt sér stað við Vatnsfellsvirkjun sem er við suðurenda Þórisvatns.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LIF í loftið kl. 15:18.    Þegar þyrlan lenti við Vatnsfellsvirkjun var læknir kominn á staðinn og var maðurinn fluttur um borð í þyrluna í fylgd aðstandanda sem einnig lenti í slysinu en slapp ómeiddur.  Þyrlan fór í loftið frá slysstað kl. 16:30 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:20.   Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sjúkraflug TF-SIF vegna bílslyss á Hrútafjarðarhálsi

Laugardagur 27. mars 2004.   Lögreglan á Blönduósi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:28 gegnum Neyðarlínuna vegna umferðarslyss á Hrútafjarðarhálsi.  Læknir á staðnum óskaði eftir þyrlu til að sækja mann sem hafði slasast.    Áhöfn TF-SIF var þegar kölluð út, með bráðaútkalli, og fór þyrlan í loftið kl. 7 í morgun.  Lent var á þjóðveginum efst í Norðurárdal um kl. 7:30 þar sem sjúkrabíll beið með hinn slasaða.  Tíu mínútum síðar var haldið aftur af stað til Reykjavíkur og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 8:15.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkraflug til Ísafjarðar

Föstudagur 26. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag veikt ungabarn til Ísafjarðar og flutti það ásamt móður þess til Reykjavíkur.   Læknir á Ísafirði hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á fimmta tímanum í dag og óskaði eftir aðstoð vegna veiks ungabarns.  Eftir samráð við lækni í áhöfn TF-LIF var ákveðið að sækja barnið.   TF-LIF fór í loftið kl. 17:41 og var komin til Ísafjarðar kl. 19:35.  Þar var barnið flutt um borð ásamt móður þess og var haldið aftur af stað til Reykjavíkur kl. 19:57.   Þyrlan lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 21:35 en þar beið sjúkrabíll sem flutti móður og barn á Landspítalann við Hringbraut.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Varðskipið Týr flutti slasaðan sjómann til Hafnar í Hornafirði

Sunnudagur 21. mars 2004. Skipstjórinn á netabátnum Erlingi SF-65 tilkynnti kl. 15:15 á alþjóðlegri neyðarrás skipa, rás 16, að hann væri með slasaðan skipverja um borð. Hönd hans hafði klemmst á netaspili. Báturinn var þá staddur út af Tvískerjum. Óskað var eftir aðstoð varðskipsins Týs við að koma skipverjanum til Hafnar í Hornafirði en þar beið sjúkraflugvél sem flytja átti hann til Reykjavíkur. Léttbátur varðskipsins Týs var notaður til að flytja skipverjann, stýrimann netabátsins, um borð í varðskipið. Um borð í léttbátnum var lærður sjúkraflutningsmaður úr áhöfn varðskipsins.  Búið var að flytja stýrimanninn um borð í varðskipið Tý kl. 15:34. Er varðskipið var komið út af Hornafirði kl. 17:35 var léttbátur sendur frá varðskipinu með stýrimanninn til Hafnar en þangað kom léttbáturinn kl. 17:50.   Þar beið sjúkrabíll sem flutti hinn slasaða út á flugvöll. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.      

TF-LIF flutti slasaða vélsleðakonu á sjúkrahús

Laugardagur 20. mars 2004. Um kl. 19:00 gaf Neyðarlínan samband við Flugbjörgunarsveitina sem var við æfingar nálægt skálanum Strút norðan Mýrdalsjökuls.  Þar hafði kona lent í vélsleðaslysi en ekki var talið ráðlegt að flytja hana landleiðina þar sem hún hafði hlotið hryggáverka. TF-LIF fór í loftið kl. 19:33 og var komin á slysstað kl. 20:17   Þá voru Flugbjörgunarsveitarmenn búnir að undirbúa hina slösuðu undir flutning. Þyrlan fór frá slysstað með hina slösuðu kl. 20:26 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 21:05. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Baldvin Þorsteinsson EA-10 á leið til Noregs

Fimmtudagur 18. mars 2004. Stjórnendur Samherja hafa nú ákveðið að láta norska dráttarbátinn Normand Mariner draga Baldvin Þorsteinsson EA-10 til Noregs þar sem skemmdir á skipinu verða kannaðar og lagfærðar. Sjá meðfylgjandi mynd sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók af skipunum í gær. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Björgun Baldvins Þorsteinssonar heppnaðist í nótt

Miðvikudagur 17. mars 2004. Björgun fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar úr strandi heppnaðist í nótt.  Um miðnættið byrjuðu ýtur í landi og norski dráttarbáturinn Normand Mariner að snúa skipinu.  Það tók um 20-25 mínútur og gekk vel. Að því loknu var byrjað að toga í skipið.  Dráttarbáturinn togaði með 170 tonna álagi þegar mest var. Baldvin Þorsteinsson losnaði af sandrifinu utan við ströndina rétt fyrir kl. tvö í nótt.  Útgerð Baldvins Þorsteinssonar, Samherji, hefur lagt mikið fé og vinnu í að bjarga skipinu og hefur Landhelgisgæslan átt gott samstarf við útgerðina.  Að vonum ríkti mikil gleði á strandstað í nótt.  Dráttarbáturinn er á leið til Eskifjarðar með Baldvin Þorsteinsson í togi. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

TF-SIF flutti tildráttartaug yfir í norska björgunarskipið að nýju

Þriðjudagur 16. mars 2004.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug austur á strandstað Baldvins Þorsteinssonar kl. 7 í morgun og lenti þar um áttaleytið.    Fyrsta verkefni þyrlunnar var að flytja fjóra skipverja um borð í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu var hafist handa við að ferja tildráttartaug frá landi yfir í dráttarskipið Normand Mariner.  Það gekk vel eins og í fyrra skiptið og tók alls 30 mínútur. Varðskip var á staðnum og voru léttbátar þess til reiðu ef eitthvað brygði út af. Þeir voru einnig notaðir til dýptarmælinga fyrir norska dráttarskipið.   Þar næst voru þrír skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson.  Að síðustu var flogið yfir svæðið og myndir teknar af skipinu til að auðveldara væri að ákveða í hvaða átt væri heppilegast að draga skipið.   Áhöfn þyrlunnar beið nokkra stund til að sjá hvort taugin sem búið var að flytja héldi og að því loknu hélt þyrlan af stað til Reykjavíkur.  TF-SIF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 13:50.   Sjá myndir sem Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki/spilmaður í áhöfn TF-SIF  tók er flogið var yfir strandstað í morgun.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.    

Ekki tókst að bjarga fjölveiðiskipinu Baldvin Þorsteinssyni á flóðinu í nótt

Mánudagur 15. mars 2004. Björgun Baldvins Þorsteinssonar misheppnaðist í nótt þar sem festingar gáfu sig og slitnaði á milli skipanna.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók á strandstað 13. og 14. mars sl.    Mynd: Dráttarbáturinn Normand Mariner og fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson í gær er verið var að draga tógið í land í gær. Mynd: TF-SIF yfir Normand Mariner með tógrúllu sem verið var að ferja um borð í skipð. Myndin var tekin 13. mars sl.      

Maður lést eftir slys við Kárahnjúkavirkjun

Mánudagur 15. mars 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að maður hefði slasast eftir grjót féll á hann. Ákveðið var að senda TF-SIF á vettvang eftir að þyrlulæknir hafði fengið upplýsingar um ástand mannsins. Þyrlan fór í loftið kl. 4:17 en var afturkölluð kl. 4:28 er tilkynnt var að maðurinn væri látinn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Reynt verður að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu í kvöld

Sunnudagur 14. mars 2004. Áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur haldið til í Vík í Mýrdal frá því sl. föstudag og hefur sinnt margvíslegum verkefnum á strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10. Í morgun fór TF-SIF í loftið frá Vík kl. 6:45 og var haldið beint á strandstað við Meðallandsfjörur.  Til að byrja með var einn stýrimaður fluttur frá varðskipi yfir í norska dráttarbátinn Normand Mariner og maður frá Hampiðjunni, sem verið hafði við vinnu um borð í dráttarbátnum, fluttur í land.  Stýrimaðurinn var fluttur um borð í dráttarskipið til að sjá um samskipti við þyrluna TF-SIF. Þar næst voru 5 skipverjar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu dró TF-SIF tildráttartaug frá dráttarbátnum í land.  Það verkefni tók um 40 mínútur og var lokið kl. 9:30.  Þetta er nokkuð flókin aðgerð sem ekki hefur verið framkvæmd áður hér við land og gekk afskaplega vel að mati áhafnar TF-SIF. Næst voru 5 skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson en skipverjarnir hafa unnið við að festa aðaldráttartaugina í skipið og undirbúa það undir björgun. Nú er björgunarstóll tengdur við skipið og hluti af skipverjum verður fluttur í land með honum áður en reynt verður að draga skipið á flot. Eftir að skipverjarnir höfðu verið fluttir um borð í Baldvin Þorsteinsson flutti TF-SIF lensidælur um borð í skipið en þær geta komið að gagni ef losa þarf loðnu úr lestum skipsins eða ef leki kemur að því. Að lokum var farin ein ferð út í dráttarbátinn með búnað og stýrimaður frá varðskipinu fluttur aftur til baka.  TF-SIF lenti í Vík kl. 13:50 og var komin til Reykjavíkur kl. 15:17.   Þyrla Varnarliðsins hefur einnig tekið þátt í undirbúningi björgunarinnar, bæði í gær og fyrradag en þá voru þyrlurnar að flytja búnað út í dráttarskipið bæði frá landi og frá varðskipunum. Tvö varðskip Landhelgisgæslunnar eru á strandstað og munu þau aðstoða við björgunarstörf. Áhafnir þeirra hafa tekið þátt í undirbúningi fyrir björgun m.a. með því að leggja til dráttarbúnað sem notaður var til að koma aðaldráttartaug norska skipsins í land.  Einnig hafa áhafnir varðskipanna séð um dýptarmælingar fyrir dráttarskipið.  Léttbátur varðskipsins hefur m.a. verið notaður í þeim tilgangi.  Væntanlega verður byrjað að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu sem verður um ellefuleytið í kvöld. Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Erlendsson flugvirki í áhöfn TF-SIF tók í dag.  Á þeim má sjá Baldvin Þorsteinsson EA-10 á strandstað, norska dráttarbátinn Normand Mariner og á síðustu myndinni sjást varðskipin og dráttarbáturinn úr þyrlunni þegar þyrlan er að flytja tildráttartaugina í land.     Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlafulltrúi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, og þyrla Varnarliðsins notaðar á strandstað á Meðallandsfjörum

Föstudagur 12. mars 2004. Í morgun kom í ljós að bilun er í kringum afísingarbúnað í stélskrúfu TF-LIF og því er líklega ekki hægt að nota hana frekar í tengslum við björgun fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10.  Það fer þó eftir því hversu langan tíma björgunarstörfin taka.Búið er að senda gírkassa vélarinnar af stað til Noregs þar sem fyrirtækið Astec Helicopter Service sér um lagfæringar.  Ekki er legið með varahluti af þessu tagi hér á landi enda eru þeir mjög dýrir og nauðsynlegt að sérfræðingar frá viðurkenndri viðhaldsstöð geri við þá, þ.e. viðhaldsstöð sem framleiðandi gírkassans hefur viðurkennt.  Sennilega tekur viðgerð a.m.k. fjóra daga. Gírkassin sem slíkur kostar 37-38 milljónir en ekki er ljóst hversu kostnaðarsöm viðgerð á honum verður.  Landhelgisgæslan er með samning við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um gagnkvæma aðstoð og upplýsingagjöf og samþykkti Varnarliðið strax að senda þyrlu í verkefnið á strandstað á Meðallandsfjörum í stað TF-LIF.  Tvær þyrlur verða því á svæðinu, TF-SIF og þyrla Varnarliðsins.  Verkefni þeirra verða m.a. að flytja búnað og línur milli skipa. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd: flugvirkjar við vinnu í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Myndin er tekin í fyrra er 500 tíma skoðun TF-SIF stóð yfir.

Strand Ingimundar SH-335

Föstudagur 12. mars 2004. Neyðarlínan gaf samband við skipstjóra Ingimundar SH-335  kl. 19:39 og tilkynnti að skipið væri strandað við Vesturboða í mynni Grundarfjarðar en ekki væri óskað eftir aðstoð þyrlu.   Togarinn Hringur SH-535 var þá staddur í 2.6 sjómílna fjarlægð og hélt þegar í átt að Ingimundi.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lét Tilkynningarskylduna og Reykjavíkurradíó þegar vita.  Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:02. Þá hafði skipstjóri Hrings tilkynnt að ekki væri um neyðarástand að ræða og að hann hefði sjósett léttbátt til að halda í átt að Ingimundi.  Á svæðinu var sunnanátt og vindhraði um 13 metrar á sekúndu.  Einnig lét Tilkynningarskyldan vita að björgunarbáturinn Björg frá Rifi, harðbotnabátur frá Ólafsvík og togbáturinn Helgi SH-135 væru á leið á strandstað. Um kl. 20:08 lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita að Ingimundur væri farinn að hreyfast af strandstað og sex mínútum síðar lét Tilkynningarskyldan vita að Ingimundur væri laus af strandstað og málið því leyst. Skipstjóri Ingimundar hafði samband kl. 20:37 og lét vita að skipið væri á leið frá Grundarfirði til Njarðvíkur og að skipið virtist ekki hafa orðið fyrir skemmdum. Fyrirhugað var að togarinn Hringur fylgdi Ingimundi út Breiðafjörð til vonar og vara. Varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lagði á það áherslu að vel væri fylgst með hugsanlegum skemmdum á Ingimundi.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Ellefu skipverjar Baldvins Þorsteinssonar fluttir með þyrlu um borð í skipið

Miðvikudagur 10. mars 2004. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í dag 11 skipverja Baldvins Þorsteinssonar um borð í skipið til að kanna aðstæður og undirbúa það undir björgunaraðgerðir. Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn TF-LIF tók við það tækifæri. Talið var óhætt að senda hluta áhafnarinnar niður í skipið til að undirbúa það fyrir flutning og kanna ástand þess.  Þyrlan var skammt undan.     Flugbjörgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar reiðubúin með tankbílinn svo hægt sé að bæta eldsneyti á þyrluna eftir þörfum.  Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að hafa lítið eldsneyti á þyrlunni til að létta hana og þá er mikilvægt að hafa eldsneytisbirgðir í grenndinni.
Síða 1 af 2