Fréttayfirlit

Sigurjón flugstjóri kveður Landhelgisgæsluna

Laugardagur 29. maí 2004. Meðfylgjandi mynd tók Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður í hófi sem Sigurjón Sverrisson og Sigurður Ásgeirsson héldu í Borgartúni af því tilefni að Sigurjón er að hætta störfum sem flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni og Sigurður er að taka við flugstjórastarfi. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd: Sigurður Ásgeirsson flugstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri og Sigurjón Sverrisson fráfarandi flugstjóri.

Kýpverskt flutningaskip strandað við Þorlákshöfn - Varðskip á leiðinni og þyrluáhöfn í viðbragðsstöðu

Miðvikudagur 26. maí 2004. Landhelgisgæslan hefur sent varðskip í átt að kýpverska skipinu Hernes sem er strandað norðan við innsiglinguna í Þorlákshöfn.  Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu. Enn sem komið er hefur ekki verið óskað eftir aðstoð en ekki er talið að áhöfnin sé í hættu.  Hernes er flutningaskip með fullan farm af vikri.  Það er tæp 5000 tonn og rúmlega 110 metra langt.  Skipið var á leið frá Þorlákshöfn er það strandaði og var ferðinni heitið til Álaborgar.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Varðskipið Týr dró flutningaskipið Hernes úr strandi

Miðvikudagur 26. maí 2004.   Varðskipið Týr náði að draga vikurflutningaskipið Hernes úr strandi við innsiglinguna í Þorlákshöfn um kl. 23:20 í kvöld.   Eins og kunnugt er strandaði flutningaskipið Hernes við innsiglinguna í Þorlákshöfn upp úr hádeginu í dag og sendi Landhelgisgæslan þegar varðskipið Tý áleiðis til Þorlákshafnar. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var einnig í viðbragðsstöðu fram á kvöld.   Lóðsinn frá Vestmannaeyjum kom á strandstað á undan varðskipinu og var byrjaður að toga í flutningaskipið kl. 19.  Taugin slitnaði en var komið aftur yfir í Hernes og reyndi lóðsinn að toga í skipið til kl. 21.  Þá óskaði skipstjóri Hernes fyrst formlega eftir aðstoð varðskips Landhelgisgæslunnar.   Um kl. 21:30 var hafist handa við að koma taug úr varðskipinu yfir í flutningaskipið. Dráttarbáturinn Ölver frá Þorlákshöfn aðstoðaði við að flytja dráttarleggi og dráttartrossu yfir í skipið og hafði tekist að koma taug á milli varðskipsins og Hernes kl. 23.  Þá tengdi lóðsinn frá Vestmannaeyjum sig við stefni varðskipsins til að aðstoða við að halda því í réttri togstefnu.  Laust eftir kl. 23 hóf varðskipið að toga í Hernes og losnaði það af strandstað kl. 23:20. Allhvasst var á svæðinu og veltubrim.    Eins og fram hefur komið var Hernes að halda af stað til Álaborgar í Danmörku er það strandaði við Þorlákshöfn.  Varðskipið Týr er enn með Hernes í togi en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið þar sem verið er að kanna ástand skipsins.    Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Þoka hamlaði björgunaraðgerðum er áhöfn TF-SIF gerði tilraun til að sækja hjartveikan mann um borð í spænskan togara

Þriðjudagur 25. maí 2004. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, gerði tilraun til að sækja hjartveikan mann um borð í spænska togarann Esperanza Menduina í morgun en ekki tókst að hífa manninn um borð í þyrluna vegna þoku og slæms skyggnis. Þyrlan kom að togaranum kl. 8 í morgun en varð frá að hverfa. Hún kom aftur til Reykjavíkur klukkustund síðar en þá var ákveðið að gera aðra tilraun seinna um daginn.  Læknir í áhöfn þyrlunnar var í stöðugu sambandi við skipstjóra spænska togarans og komst að þeirri niðurstöðu að ástand sjúklingsins hefði lagast það mikið að óhætt væri að láta skipið sigla með hann til Reykjavíkur án frekari aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Skipið kom til Reykjavíkur kl. 18:20. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Sjúkraflug vegna hjartveiks skipverja um borð í Sigurbjörgu ÓF-1

Mánudagur 24. maí 2004. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF sótti í kvöld hjartveikan skipverja um borð í togarann Sigurbjörgu ÓF-1 sem var að grálúðuveiðum djúpt vestur af Látrabjargi. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 14:46 eftir að skipstjóri hafði látið vita af hjartveikum manni um borð og læknir hafði metið nauðsynlegt að sækja manninn.  Skipið var þá statt 195 sjómílur frá Reykjavík eða 105 sjómílur frá Bjargtöngum. Stóra þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðgerð og því var TF-SIF notuð að þessu sinni. Þar sem um langt flug var að ræða var nauðsynlegt að koma við á Rifi til að taka eldsneyti.  TF-SIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 15:22 og lenti á Rifi kl. 15:54. Þaðan var haldið kl. 16:13 eftir að eldsneyti hafði verið sett á vélina. Búið var að hífa sjúklinginn um borð kl. 17:26 og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 19:13 eftir millilendingu á Rifi þar sem aftur varð að taka eldsneyti.  Á Reykjavíkurflugvelli beið sjúkrabíll sem flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Nýjar myndir af El Grillo - Sjómælingabáturinn Baldur vitjar heimahaganna

Föstudagur 21. maí 2004.   Sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar, Baldur, er nú kominn á Austfjarðasvæðið annað árið í röð til að ljúka við dýptarmælingar á hafsvæðinu frá Glettinganesi að Hlöðu vegna endurútgáfu á sjókorti nr. 73.  Það kort nær yfir firðina og hafsvæðið austur af þeim.  Áætlað er að ljúka mælingum síðsumars.  Þá tekur við úrvinnsla mælingagagna og síðan endurútgáfa kortsins á næsta ári.   Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra sjómælingadeildar kom sjómælingabáturinn til hafnar á Seyðisfirði sl. þriðjudag þar sem settur var upp flóðmælir til að fylgjast með sjávarföllum á meðan á mælingum stendur.  Þessi viðkoma á Seyðisfirði er ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að við þetta tækifæri vitjaði Baldur heimahaganna í fyrsta skipti í 13 ár og 10 daga.  Baldur var smíðaður í Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1990-1991, nýsmíði nr. 30 og því næstsíðasta skipið sem þar var smíðað.  Hann var sjósettur og gefið nafn 13. apríl 1991 og eftir nokkrar viðbætur við bryggju á Seyðisfirði var haldið til Reykjavíkur 8. maí 1991.   Sumir sem komu að smíði Baldurs á sínum tíma notuðu tækifærið og skoðuðu hann að nýju, þ.á.m. forsvarsmenn Vélsmiðjunnar. Útliti bátsins hefur ekki verið mikið breytt á þessum 13 árum en á honum hafa verið gerðar endurbætur í því skyni að gera hann nýtanlegri fyrir verkefni sjómælingadeildar.   Þegar haldið var aftur út frá Seyðisfirði var rennt yfir flakið af olíuskipinu EL Grillo sem liggur á botni fjarðarins á um 50 m dýpi rétt utan við bryggjurnar.  Fjölgeislamælir bátsins var látinn ganga og eru gögnin sem náðust af flakinu ótrúlega skýr og sýna vel greiningarhæfni og notagildi mælisins á þessu sviði, þ.e. að finna hluti á hafsbotni.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd LHG: Baldur við bryggju á Seyðisfirði 18. maí 2004.  Hinum megin í firðinum má greina húsnæði Vélsmiðju Seyðisfjarðar, þaðan sem bátnum var rennt út fyrir rúmlega 13 árum. Mæligögn frá Reson fjölgeisladýptarmæli sem hafa verið unnin í úrvinnsluforriti og gefa góða mynd af El Grillo á botni Seyðisfjarðar.  Mælirinn er í eigu hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins en Landhelgisgæslan er með sérstakan samning um notkun á tækjabúnaði frá þeirri stofnun.  Vel má greina allar útlínur skipsins en hafa ber í huga að það er endurvarp hljóðs sem framkallar þessar myndir.

Sjúkraflug með hjartveikan mann frá Rifi til Reykjavíkur

Miðvikudagur 19. maí 2004.   Læknir á Ólafsvík hafði samband gegnum Neyðarlínuna og óskaði eftir þyrlu til að flytja hjartveikan mann á sjúkrahús í Reykjavík.  Eftir að læknir í áhöfn TF-SIF hafði fengið upplýsingar um ástand mannsins kl. 11:49 var ákveðið að kalla út áhöfn þyrlunnar.     TF-SIF fór í loftið kl. 12:33 og lenti á Rifi kl. 13:12 þar sem sjúkrabíll beið með manninn.  Tíu mínútum síðar hélt þyrlan aftur af stað til Reykjavíkur og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 13:57.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti manninn á Landpítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Slasaður skipverji sóttur um borð í togarann Guðmund í Nesi

Þriðjudagur 18. maí 2004. Skipstjóri togarans Guðmundar í Nesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:23 í dag og tilkynnti að skipverji hefði slasast á hendi við vinnu sína. Skipið var þá statt rúmlega 100 sjómílur vestur af Látrabjargi.  Læknir í þyrluáhöfn hafði þegar samband við skipið og gaf upplýsingar varðandi lyfjagjöf og sáraumbúðir.  Talið var réttast að sækja manninn með þyrlu.  Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 14:47 og var togaranum siglt í átt til Reykjavíkur.  Viðgerð hafði staðið yfir á TF-SIF og var óvíst hvort næðist að klára hana í tæka tíð. Þess vegna var varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli tilkynnt um slysið og þyrluáhöfn beðin um að vera í viðbragðsstöðu. Um kl. 15:20 var TF-SIF tilbúin og fór hún í loftið kl. 16:13.  Þá var togarinn staddur 108 sjómílur frá Öndverðarnesi og var óskað eftir að hann héldi í átt að Rifi. TF-SIF lenti á Rifi kl. 16:51 og tók eldsneyti.  Þar næst var haldið að skipinu og hinn slasaði hífður um borð í þyrluna. TF-SIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 19:50 og þar beið sjúkrabíll sem flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Mannbjörg varð þegar trillan Hafbjörg sökk við Drangsnes

Mánudagur 17. maí 2004. Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 2:02 og lét vita að heyrst hefði neyðarkall frá trillunni Hafbjörgu ST-77 norð-austur af Drangsnesi. Um borð í trillunni væru tveir menn og hún væri að sökkva.Stjórnstöð kallaði þegar út þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar, bráðaútkalli, og fór þyrlan í loftið kl. 02:44. Upplýsingum var einnig komið til varðskipsins Ægis sem þegar hélt áleiðis til trillunnar.Um kl. 3:02 bárust þær upplýsingar frá lögreglunni á Hólmavík að búið væri að bjarga mönnunum og sneri þyrlan þá við og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 3:25.  Varðskipið Ægir var einnig upplýst. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sjúkraflug í norska úthafskarfaveiðiskipið Nordstar

Laugardagur 15. maí 2004. Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um ellefuleytið í gærmorgun og óskað eftir aðstoð vegna slasaðs skipverja um borð í norska úthafskarfaveiðiskipinu Nordstar.  Skipverjinn var slasaður á hendi, líklega handarbrotinn. Skipið var statt á karfamiðunum á Reykjaneshrygg.Skipstjóri Nordstar var beðinn um að halda í átt til Reykjavíkur og í samráði við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var ákveðið að bíða með að sækja hinn slasaða þar til skipið væri komið í 150 sjómílna fjarlægð frá landinu. Stóra þyrla Landhelgisgæslunnar,TF-LIF,  er nú í viðgerð og hámarksdrægni TF-SIF frá landinu er 150 sjómílur.TF-SIF fór í loftið kl. 20:55 og lenti í Keflavík um níuleytið til að taka eldsneyti.  Þaðan var haldið u.þ.b. klukkustund síðar og flogið til skipsins sem var þá statt 140 sjómílur vestur af Keflavík. Hífingu var lokið kl. 23:42 og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 00:44. Þar beið sjúkrabíll og flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Viðbúnaður vegna bátsins Manga sem óttast var um í morgun

Föstudagur 14. maí 2004.Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 9 í morgun og tilkynnti að báturinn Mangi SH-616 hefði dottið út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu klukkustund áður. Báturinn fór frá Stykkishólmi kl. 7:30 til veiða og hafði ekki svarað kalli í talstöð eða farsíma. Ekki var vitað um aðra báta á svæðinu.Tilkynningarskyldan kallaði út björgunarsveitir og ákvað stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aðsenda þyrlu og varðskip á staðinn. Reiknað var með að þyrlan yrði þar kl. 10:10 og varðskipið kl. 11.Rétt áður en þyrlan kom á staðinn barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynning um að báturinn hefði fundist við Stangarsker og allt væri í lagi.Áhöfn TF-SIF og varðskipsins Ægis voru þegar látnar vita og lenti þyrlan í Reykjavík kl.10:51.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti hjartveikan mann frá Stykkishómi til Reykjavíkur

Sunnudagur 9.maí 2004. Læknir á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:04 og óskaði eftir aðstoð vegna hjartveiks manns sem þurfti að komast á sjúkrahús í Reykjavík. Ástand hans var þannig að ekki þótti fært að flytja hann með sjúkrabíl.Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 12:07 og fór þyrlan í loftið kl. 12:36. Í millitíðinni var þyrlulæknir í sambandi við lækninn í Stykkishólmi til að fá upplýsingar um ástand sjúklingsins. TF-SIF lenti í Stykkishólmi kl. 13:06 og var komin aftur til Reykjavíkur kl. 13:55.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar og þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sjúkraflug til Vestmannaeyja

Sunnudagur 9. maí 2004. Læknir í Vestmannaeyjum hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:23 og óskaði eftir aðstoð vegna bráðveikrar stúlku sem þurfti að flytja á sjúkrahús í Reykjavík. Læknirinn taldi ekki fært að flytja stúlkuna með sjúkraflugvél.Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 17:24 og fór þyrlan í loftið kl. 17:49. Lent var á flugvellinum í Vestmannaeyjum kl. 18:17. Tíu mínútum síðar hélt þyrlan aftur af stað til Reykjavíkur með sjúklinginn og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 18:59.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Björgunaræfingin Bright Eye

Miðvikudagur 5. maí 2004. Í gærdag tók Landhelgisgæslan þátt í sameiginlegri æfingu björgunarstjórnstöðva og björgunarflokka við Norður-Atlantshaf en æfingin er haldin árlega og gengur undir nafninu Bright Eye.  Að þessu sinni stilltu Íslendingar og Færeyingar saman strengi sína.  Æfingin gekk út á að finna tvo gúmmíbjörgunarbáta sem varðskip Landhelgisgæslunnar hafði sett út nálægt miðlínunni milli Íslands og Færeyja í fyrradag.  Það var svo hlutverk áhafnar Fokker flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, og færeyska varðskipsins Brimils að finna bátana. Um borð í TF-SYN var fimm manna áhöfn Landhelgisgæslunnar og þrír menn frá flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík sem höfðu það hlutverk að vera útverðir, þ.e. að svipast um eftir björgunarbátunum sem leitað var að. Markmiðið var einnig að þjálfa samskipti milli björgunarstjórnstöðvanna í Þórshöfn í Færeyjum og björgunarstjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Eftir talsverða leit tókst áhöfn TF-SYN að finna björgunarbátana. Seinna í þessum mánuði verða tveir seinni hlutar æfingarinnar haldnir og þá bætast við björgunaraðilar frá Grænlandi, þ.e. dönsku herstöðinni í Grönnedal og flugstjórnarmiðstöðinni í Syðri Straumsfirði og síðast en ekki síst björgunarstjórnstöðinni í Bodoe í Noregi.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Ung kona flutt með þyrlu á sjúkrahús eftir bílveltu við Kirkjubæjarklaustur

Þriðjudagur 4. maí 2004. Ung kona slasaðist alvarlega í bílveltu  rétt við Kirkjubæjarklaustur í gærkvöldi.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, flutti hana á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Lögreglan á Kirkjubæjarklaustri hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð vegna slyssins. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 20:22 og fór þyrlan í loftið kl. 20:49.  Sjúkrabíll hélt af stað með hina slösuðu og beið þyrlunnar á flugvellinum á Skógum.   TF-LIF lenti þar kl. 21:27 og var konan flutt yfir í þyrluna.  TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 22:14. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Havsel kom til Akureyrar í morgun - Þakkarskeyti barst frá björgunarstjórnstöðinni í Bodoe í Noregi

Þriðjudagur 4. maí 2004. Norska selveiðiskipið Havsel kom til Akureyrar kl. 10 í morgun. Í fyrradag var mikill viðbúnaður vegna skipsins en þá hafði komið gat á það eftir að það rakst á hafís.  Þar sem mikill leki kom að skipinu var talið að áhöfnin væri í hættu.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og tvær þyrlur varnarliðsins voru í viðbragðsstöðu á Ísafirði, reiðubúnar að bjarga áhöfninni, en til þess kom þó ekki þar sem skipverjum tókst að gera við skipið til bráðabirgða.  Til stendur að klára viðgerðina við bryggjuna á Akureyri. Björgunarstjórnstöðin í Bodoe í Noregi sendi Landhelgisgæslunni skeyti þar sem öllum björgunaraðilum sem unnu við að aðstoða skipið voru færðar þakkir, þó sérstaklega björgunarstjórnstöð Landhelgisgæslunnar (MRCC Reykjavik) , herskipinu Vædderen, áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar og áhöfn bandarísku þyrlanna.  Anne Holm Gundersen framkvæmdastjóri björgunarstjórnstöðvarinnar í Bodoe, sem undirritar skeytið, segir einnig að þetta sanni gildi sameiginlegra æfinga og vinnu þessara aðila á æfingum sem haldnar hafa verið árlega sl. áratugi á Norður-Atlantshafi undir heitinu Bright Eye.  Slíkar æfingar eru til að þjálfa samhæfingu björgunarstjórnstöðva og aðgerða þeirra á þessu björgunarsvæði. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.
Síða 1 af 2