Fréttayfirlit: maí 2004 (Síða 2)

Einn maður lést og fimm slösuðust í vélsleðaslysi í Eyjafirði - Björgunarsveitir og Landhelgisgæslan fluttu slasaða á sjúkrahús

Mánudagur 3. maí 2004. Einn maður lést og fimm slösuðust í vélsleðaslysum í Eyjafirði í gær. Björgunarsveitir á Norðurlandi fluttu þrjá slasaða á sjúkrahús en þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo þeirra og flutti til Akureyrar. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 16:50 í gær vegna sex vélsleðamanna sem lent höfðu í slysi í Gönguskarði sem liggur á milli Garðsárdals og Fnjóskadals.  Þyrlan var þá stödd á Ísafirði tilbúin að halda af stað í átt til selveiðiskipsins Havsel sem leki hafði komið að 355 sjómílur norð-norð-austur af Akureyri.  TF-LIF fór fljótlega af stað í átt að slysstaðnum en þegar til kom var veður of slæmt svo þyrla gæti athafnað sig á vettvangi.  Þá var haldið til Akureyrar þar sem áhöfnin beið eftir að aðstæður bötnuðu. Um kl. 4:30 í morgun fór þyrlan frá Akureyrarflugvelli en þá hafði veður lagast nokkuð. Fyrst var náð í slasaðan mann sem var í björgunarsveitarbíl ofarlega í Garðsárdal og hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.  Síðan var annar slasaður maður sóttur en hann var í snjóbíl björgunarsveitarmanna á svæðinu.Björgunarsveitum tókst að sækja aðra slasaða og koma þeim á sjúkrahús.  Eftir að búið var að flytja alla slösuðu vélsleðamennina fór TF-LIF þrjár ferðir á slysstað til að sækja björgunarsveitarmenn sem verið höfðu að störfum frá því kl. 17 daginn áður og flutti þá til Akureyrar. TF-LIF hélt aftur til Reykjavíkur kl. 9 í morgun. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Viðbúnaður vegna leka í norska selveiðiskipinu Havsel

Sunnudagur 2. maí 2004. Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 4:53 og tilkynnti að leki hefði komið að norska selveiðiskipinu Havsel sem þá var statt 145 sjómílur austnorðaustur af Scoresbysundi eða 355 sjómílur norð-norð-austur af Akureyri.  Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.Áhöfn Havsel, alls 13 manns, höfðu fyrst ekki við lekanum, en skipið var fast í ís og stöðugt lak inn í vélarrúm þess.  Næsta skip sem vitað var um var annað norskt selveiðiskip, Polarfangst, en það var einnig fast í ís um 150 sjómílur frá Havsel.  Um kl. 5:46 var tilkynnt að búið væri að finna hvaðan lekinn kæmi og skipverjar reyndu að komast fyrir hann. Veður á svæðinu var slæmt, norðan níu vindstig og éljagangur.  Orion flugvél norska hersins var send í átt til skipsins snemma í morgun.  Þá var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út og var TF-LIF í biðstöðu á Ísafirði til kl. 17:30 auk tveggja varnarliðsþyrlna.  TF-SYN var einnig í biðstöðu í Reykjavík til að fylgja TF-LIF til öryggis ef hún þyrfti að bjarga áhöfn Havsel. Samkvæmt samstarfssamningi Landhelgisgæslunnar við danska herinn var óskað eftir því að danska herskipið Vædderen færi í átt til Havsel og tilkynnt var að norska varðskipið Tromsö væri einnig á leið til þess.  Viðgerð á Havsel var lokið kl. 17:40 en ákveðið var að láta skipið halda í klukkustund í átt til Íslands til að athuga hvort viðgerðin héldi.  Að þeim tíma liðnum var viðbúnaðarástandi aflétt. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlafulltrúi
Síða 2 af 2