Fréttayfirlit

TF-LIF sótti slasaðan mann um borð í frönsku skútuna Tara

Fimmtudagur 29. júlí 2004.   Sjóbjörgunarmiðstöðin í Gris Nes í Frakklandi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rúmlega eitt eftir miðnætti í nótt og tilkynnti að maður hefði slasast um borð í frönsku skútunni Tara. Skútan var þá stödd 117 sjómílur norð-norð-austur af Siglunesi. Maðurinn hafði misst tvo fingur og hafði áhöfn skútunnar ráðfært sig við franskan lækni sem taldi nauðsynlegt að koma manninum tafarlaust á sjúkrahús.   Að höfðu samráði við lækni í áhöfn TF-LIF var áhöfn hennar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 2:10.  Flug að skútunni tók u.þ.b. tvær klukkustundir og gekk greiðlega að ná manninum um borð í þyrluna.  Áhöfn skútunnar setti hinn slasaða um borð í slöngubát til að auðvelda hífingu.   TF-LIF lenti flugvellinum á Akureyri kl. 5:40 og flutti lögreglan manninn á fjórðungssjúkrahúsið.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 7:30 í morgun.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd: Friðrik Höskuldsson stýrimaður í flugdeild/ Franska skútan Tara og slöngubáturinn sem hinn slasaði var hífður upp úr.

Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði árangurslaust að ferðahópi eftir neyðarkall frá endurvarpa á Háskerðingi

Fimmtudagur 29. júlí 2004. Í morgun barst neyðarkall frá ferðahópi að því er talið er frá endurvarpa á Háskerðingi í Kaldaklofsfjöllum vestan við Torfajökul.  Samband við hópinn rofnaði áður en tekist hafði að fá upplýsingar um staðsetningu hans.  Lögreglan á Hvolsvelli óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar til að finna ferðahópinn sem sendi út neyðarkallið en talið er að um sé að ræða 20 franska ferðamenn.  Talið er hugsanlegt að fólkið sé með matareitrun. Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 13:48 og fór hún í loftið kl. 14:31.  Þá hafði lögreglan tilkynnt að engar frekari upplýsingar hefðu fengist um ferðahópinn. Eftir að þyrluáhöfnin hafði leitað árangurslaust í skálum við Álftavatn, Hettufell og í Emstrum var haldið til Vestmannaeyja til að taka eldsneyti. Þaðan flaug þyrlan til leitar að nýju kl. 18:15.  Reynt var að ná sambandi við ferðahópinn með því að kalla út af og til á tíðninni sem neyðarkallið barst á.  Að sögn Benónýs Ásgrímssonar flugstjóra þurfti þyrlan að fljúga í 10 þúsund feta hæð til þess.  Fjölmargir aðilar á svæðinu frá Hellu austur í Hólaskjól og norður í Landmannalaugar svöruðu köllum frá þyrlunni en enginn kannaðist við að hafa sent út hjálparbeiðni. Þyrlan fékk þar næst upplýsingar um að ferðahópurinn væri hugsanlega á leið frá Hólaskjóli í Jökulheima og var þá flogið niður fyrir skýin til að reyna leit að nýju. Seinna kom í ljós að sá ferðahópur var kominn á áfangastað og hafði ekki sent út neyðarkall. TF-SIF lenti á Hvolsvelli kl. 19:45 og gaf áhöfn hennar lögreglu skýrslu um leit þyrlunnar.  Þar næst var haldið til Reykjavíkur þar sem þyrlan lenti kl. 20:40. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari leit með þyrlu. Eins og kunnugt er hefur verið mikil þoka í Vestmannaeyjum og flug þangað legið niðri í dag svo að þjóðhátíðargestir verða að komast sinnar leiðar sjóleiðis.  Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru af TF-SIF og áhöfn hennar á flugvellinum í Vestmannaeyjum áður en þyrlan hélt að nýju af stað til leitar að týnda ferðahópnum. Að sögn Friðriks Höskuldssonar stýrimanns í áhöfn TF-SIF var skyggni á austanverðu leitarsvæðinu sambærilegt og sjá má á myndunum. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Kona lést eftir bílveltu við Valdalæk í Vestur-Húnavatnssýslu. Samferðarkona hennar flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús í Reykjavík

Miðvikudagur 21. júlí 2004. Kona lést og önnur slasaðist alvarlega eftir bílveltu við Valdalæk í Vestur-Húnavatnssýslu um tíuleytið í gærkvöldi. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:02 og lét vita af bílslysi  við Valdalæk  á Vatnsnesi við Húnafjörð.  Ekki var vitað hversu alvarlegt slysið væri en lögregla og læknir voru á leiðinni á staðinn.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út.  Skömmu síðar var tilkynnt að þrír farþegar væru alvarlega slasaðir. TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 22:29 og lenti á slysstað kl. 23:16.  Þá var ein kona látin.  Slösuð samferðarkona hennar var flutt á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík og lenti þyrlan þar kl. 00:21 eftir miðnætti í nótt. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Viðbúnaður vegna skotelda mótmælendahóps

Þriðjudagur 20. júlí 2004.Tilkynning barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:24 í gær um að neyðarblys hefði sést út af Gróttu á Seltjarnarnesi.  Stjórnstöðin óskaði þegar eftir því við strandarstöðvarnar að þær kölluðu út til skipa á svæðinu.  Slysavarnarfélagið Landsbjörg var einnig beðið um að senda björgunarbát þangað.  Kl. 13:40 var upplýst að mótmælahópur hjá Perlunni hefði skotið upp neyðarblysum.  Eftir það var allur viðbúnaður afturkallaður enda hafði eftirgrennslan ekki borið árangur og líklegast að um sömu blysin hefði verið að ræða.Samkvæmt reglugerð um skotelda nr. 925/2003 er almenn notkun og sala á skoteldum til almennings óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Ljóst er að eingöngu er heimilt að nota neyðarblys þegar hætta er á ferðum.

Ný sjókort

Komin eru út 3 ný sjókort og 2 uppfærð sjókort.   Nýju kortin hjá Sjómælingum Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslunnar, eru kort nr. 37 Hjörsey – Stykkishólmur (1:100 000), kort nr. 81 Stokksnes – Dyrhólaey (1:300 000) og kort nr. 426 Ólafsvík – Stykkishólmur (1:50 000). Uppfærðu kortin eru kort nr. 31 Dyrhólaey – Snæfellsnes (1:300 000) og kort nr. 44 Norðurflói (Breiðafjörður) (1:70 000).   Kort 37 nær yfir norðanverðan Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og inn sunnanverðan Breiðafjörð að Stykkishólmi. Kortið byggist á nýjum mælingum sem gerðar voru á sjómælingabátnum Baldri og að hluta til á varðskipinu Ægi.   Tvö önnur kort flokkast sem ný kort, þ.e. kort 81 og 426. Kort 81 leysir gamla kort 81 af hólmi. Mörk þess hafa breyst töluvert. Kort þetta byggist m.a. á gögnum sem fengust með  fjölgeislamæli Hafrannsóknastofnunar.   Mörk korts 426 færast einnig, en helsta breytingin er sú að nýjar mælingar leysa af hólmi eldri mælingar sem voru allt frá 1907 og náðu yfir stærstan hluta kortsins.   Ný útgáfa af kortum 31 og 44 komu einnig út. Kort 31 var uppfært með nýjustu mælingum sem til eru af svæðinu, ásamt því að skipt var um landupplýsingar, þ.e. hæðarlínur, byggð og vegi, en þessar upplýsingar koma m.a. frá Landmælingum Íslands, Reykjavíkurborg og öðrum þéttbýlisstöðum sem eru á kortinu.   Kort 44 er elsta sjókortið sem gefið er út af stofnuninni. Það kom fyrst út 1915 (Udgivet af det kongelige Sökort – Arkiv, Köbenhavn 1915.  Endurprentað hjá Íslensku sjómælingunum, Reykjavík 1961).  Nýjar mælingar voru settar inn umhverfis Elliðaey og á Bjarneyjarflóa í átt til Flateyjar. Þetta er síðasta sjókortið sem í eru teiknaðar myndir af miðum og eitt af fimm  kortum sem enn er í notkun frá dögum danskrar sjókortagerðar við Ísland. Öll voru þau upphaflega gerð með koparstungu.   Þessi sjókort eiga eftir að auka öryggi sjófarenda við strendur Íslands.   Sjöfn Axelsdóttir og Þórður Gíslason kortagerðarmenn báru hitann og þungann af gerð korta 37 og 426 ef frá er talin áhöfn sjómælingabátsins Baldurs.     Nýtt sjókort nr. 37 Hjörsey – Stykkishólmur.   Dæmi um mið í korti 44

Mæðgin flutt með þyrlu á sjúkrahús eftir bílveltu í Langadal

Þriðjudagur 20. júlí 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16:20 og tilkynnti um umferðarslys við bæinn Hólabæ í Langadal rétt hjá Blönduósi. Tvær konur og tvö börn voru í bílnum og var talið að önnur konan væri talsvert slösuð.  Bíllinn hafði oltið.  Tveimur mínútum síðar tilkynnti Neyðarlínan að læknir á staðnum óskaði eftir þyrlu. Áhöfn TF-LIF var þá við æfingar með áhöfn varðskipsins Ægis á Eyjafirði.  Tekið var eldsneyti á Akureyri og haldið þaðan kl. 16:56.  Lent var á Blönduósi kl. 17:25 og þar var slasaða konan ásamt syni sínum tekin um borð.  TF-LIF fór frá Blönduósi kl. 17:46 og lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 18:32. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Slasaður skipverji á Mánabergi ÓF-42 fluttur með þyrlu til Reykjavíkur

Mánudagur 19. júlí 2004. Skipstjórinn á Mánabergi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:45 í gærkvöldi og óskaði eftir samtali við vakthafandi þyrlulækni vegna skipverja sem hafði slasast á hendi.  Skipið var þá að veiðum við 200 sjómílna lögsögumörkin á Reykjaneshrygg. Læknir í áhöfn TF-LIF taldi nauðsynlegt að sækja manninn með þyrlu enda var ljóst að það tæki skipið sólarhring að sigla með hann til næstu hafnar.  Skipstjórinn var beðinn að sigla í átt til Reykjavíkur og láta vita þegar hann væri kominn í 150 sjómílna fjarlægð frá borginni.  Það gerði hann kl. 3:20 í morgun en þá átti hann eftir að sigla í klukkustund til að ná þeirri staðsetningu. TF-LIF fór í loftið kl. 4:27 og var komin að skipinu kl. 5:31.  Sigmaður sótti hinn slasaða og gekk hífing vel.  Þyrlan lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 6:49 en þar beið sjúkrabíll sem flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.    

Annað tundurdufl kemur upp með veiðarfærum Brettings

Sunnudagur 18. júlí 2004.   Klukkan 16:28 í gær hafði skipstjórinn á togaranum Brettingi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna hlutar, hugsanlega tundurdufls, sem komið hafði upp með veiðarfærum skipsins er það var að veiðum í svokölluðum Rósagarði út af SA-landi.  Upplýsingunum var þegar komið til vakthafandi sprengjusérfræðings sem hafði síðan samband við skipstjóra togarans.  Eftir stutt samtal var hægt að staðfesta að um sprengjuhleðslu úr bresku tundurdufli væri að ræða.  Til að gæta fyllsta öryggis var skipstjóranum ráðlagt að halda til hafnar.  Tveir sprengjusérfræðingar fóru með flugvél til Egilsstaða og þaðan til Fáskrúðsfjarðar en þangað var togarinn væntanlegur.    Klukkan 23:45 kom Brettingur inn á fjörðinn og sprengjusérfræðingarnir voru teknir um borð með léttbát frá togaranum.  Strax kom í ljós að um 135 kílógramma sprengjuhleðslu úr bresku tundurdufli var að ræða.  Tunna sprengjuhleðslunnar var illa farin, opin að hluta og sprengiefnið bert og óvarið.  Þó svo að forsprengjan væri ekki til staðar var hluti af sprengiefni hennar enn í hólfi forsprengjunnar.  Of hættulegt þótti að reyna að fjarlægja það sem eftir var af forsprengjunni um borð í togaranum og var því haldið til hafnar þar sem sprengjuhleðslan var tekin í land í samvinnu við lögregluna á staðnum.  Lögreglan lokaði hafnarsvæðinu og fylgdi síðan sprengjuhleðslunni á öruggt svæði utar í firðinum þar sem hægt var að eyða henni.  Sprengjuhleðslan var síðan brennd, sem er venjuleg aðferð fyrir svo mikið magn af TNT sprengiefni, þar sem sprenging, sérstaklega í þröngum firði mundi valda óþægindum fyrir íbúa fjarðarins vegna höggbylgju og hávaða.   Brettingur kom með svipað dufl, nokkuð stærra, til Seyðisfjarðar 2. júlí sl. og hafði áhöfnin á orði þegar þeir héldu aftur til veiða hvort þeir væru ekki búnir með tundurduflakvótann í ár eða hvort sprengjusérfræðingarnir vildu ekki bara koma með ef ske skyldi að þeir fengju þriðja duflið.   Rósagarðurinn var kallaður svo af skipstjórum þýskra kafbáta vegna hins mikla fjölda tundurdufla sem þar var lagt.  Umfangsmiklar tundurduflalagnir Breta fóru fram á árunum 1940 til 1943 sem hluti af hinni svokölluðu SN aðgerð, þar sem yrir 90 þúsund tundurduflum af ýmsum gerðum var lagt í sjó á svæðinu.   Sjá meðfylgjandi kort af tundurduflalögnum út af SA-landi og myndir af tundurduflinu sem kom upp með veiðarfærum Brettings.   Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar            

Maður slasaðist eftir bílveltu í Norðurárdal og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík

Sunnudagur 18. júlí 2004. Neyðarlínan tilkynnti kl. 10:12 að bílslys hefði orðið við Fornahvamm í Norðurárdal.  Upplýsingar um slysið voru óljósar en talið var að fólk væri fast í bílnum og jafnvel óttast að bíllinn hefði farið út í ána. Þyrluáhöfn var þegar kölluð út og var ákveðið að stýrimaður í áhöfn þyrlunnar tæki með sér köfunarbúnað ef á þyrfti að halda. Beiðni um þyrlu var afturkölluð kl. 10:30 eftir að læknir var kominn á staðinn og í ljós kom að ökumaðurinn var einn í bílnum og ekki alvarlega slasaður.  Beiðni um þyrlu var síðan endurtekin kl. 10:47 en þá hafði komið í ljós að maðurinn var meira slasaður en talið var í fyrstu. TF-SIF fór í loftið kl. 10:55 og var komin á slysstað kl. 11:23.  Haldið var með hinn slasaða til Reykjavíkur þar sem þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 11:53. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Óskað eftir þyrlu vegna sundmanns

Sunnudagur 18. júlí 2004. Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:25 og lét vita að lögreglan óskaði eftir þyrlu vegna manns sem hafði sést stinga sér til sunds frá Sæbraut.  Talið var að hann synti í átt að Engey en ekki sást til hans lengur. Þyrluáhöfn var þegar kölluð út með bráðaútkalli. Um 10 mínútum síðar var beiðni um þyrlu afturkölluð þar sem lögreglan hafði fundið manninn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Ung stúlka lést í umferðarslysi á Bíldudal - Sjúkraflug TF-SIF á Hjallaháls vegna hjartveikrar konu

Fimmtudagur 15. júlí 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 18:27 og tilkynnti um bílslys á Bíldudal. Ekið hafði verið á unga stúlku og var hún talin alvarlega slösuð. TF-SIF fór í loftið kl. 18:45 og lenti á Bíldudal kl. 19:34. Þegar þyrlan kom á staðinn var stúlkan úrskurðuð látin. Lögreglan á Patreksfirði óskaði þá eftir þyrlu til að flytja konu frá Hjallahálsi milli Djúpafjarðar og Þorskafjarðar en hún var með einkenni frá hjarta.  TF-SIF fór frá Bíldudal kl. 19:47 og lenti á Hjallahálsi kl. 20:07. Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 21:04  en þar beið sjúkrabíll sem flutti konuna á sjúkrahús. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.  

Tvö útköll vegna slasaðra ferðamanna og beiðni um björgun kajakræðara

Þriðjudagur 6. júlí 2004.Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 vegna konu sem hafði slasast við að falla af vélsleða á sunnanverðum Langjökli.  Hún var talin vera mjaðmagrindarbrotin.  Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 15:56 og fór þyrlan í loftið kl. 16:23.  Það tók um hálftíma að komast á slysstað og var þyrlan komin að Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi með hina slösuðu kl. 17:28. Tæpri klukkustund síðar, kl. 18:25, hringdi læknir á Patreksfirði og óskaði eftir þyrlu í viðbragðsstöðu vegna konu sem hafði fótbrotnað í Látrabjargi.  Lögreglan á Patreksfirði lét vita kl. 19 að björgunarsveitarbíll væri á leiðinni en skyggni væri ekki gott.  TF-SIF fór í loftið kl. 19:04 og lenti í Látravík um kl. 20 en ekki var hægt að lenda á slysstað vegna þoku.  Björgunarsveitarmenn komu með konuna til Látravíkur u.þ.b. hálftíma síðar og hélt þyrlan af stað til Reykjavíkur kl. 20:40.  Skömmu síðar var tilkynnt um mann sem hafði fallið úr kajak og lent í sjónum út af Knarrarnesi á Mýrum og óskað eftir að þyrlan bjargaði honum.  Þá var TF-SIF u.þ.b. 13 sjómílur frá staðnum en þegar hún kom á vettvang hafði maðurinn bjargast um borð í nærstaddan bát.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 22. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Færeyjaferð Ægis

Mánudagur 5. júlí 2004.   Nýlega var varðskipið Ægir við gæslustörf á Austfjarðarmiðum og var stefnan tekin á Færeyjar til að taka vistir og olíu.  Að sögn Halldórs Nellett skipherra á varðskipinu Ægi fór áhöfnin í stutta skoðunarferð um Þórshöfn og nágrenni.  Meðal annars var skoðuð fallbyssa sem talið er að sé af breska herskipinu Hood sem þýska orrustuskipið Bismarck sökkti vestur af Íslandi í maí 1941.  Byssan varðveittist þar sem hún hafði verið tekin af skipinu áður en það sökk.  Einnig voru tvær steinkirkjur frá 11. og 13. öld skoðaðar í bænum Kirkjubæ skammt frá Þórshöfn.   Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru í ferðinni.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Fallbyssan, sem talið er að sé af breska herskipinu Hood, skoðuð í Þórshöfn. Áhöfn Ægis fyrir framan steinkirkju frá 13. öld í Kirkjubæ nálægt Þórshöfn. Halldór Nellett skipherra skoðar Guðbrandsbiblíu sem Íslendingar gáfu kirkjunni.   Pálmi Jónsson 2. stýrimaður á Ægi naut sín vel í predikunarstólnum og messaði yfir skipsfélögum sínum.  Rúnar Jónsson yfirvélstjóri hlustaði andaktugur á.     Gönguferð um Skansinn í Þórshöfn.  

Skipstjórar vanrækja að hlusta á neyðarbylgju á rás 16 - Öryggi sjófarenda ábótavant af þeim sökum

Laugardagur 3. júlí 2004 Umhugsunarefni er hversu margir skipstjórar láta hjá líða að hlusta á rás 16, sem er neyðarbylgja fyrir skip og báta og öllum sjófarendum ber skylda til að hlusta á.  Óhætt er að segja að það dragi verulega úr öryggi sjófarenda.Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu þess varir rétt fyrir kl. þrjú í gærdag að verið var að grennslast fyrir um sómabátinn Eskey og nærstaddir bátar beðnir um að veita upplýsingar um ferðir hennar.  Varðstjórarnir höfðu þegar samband við Tilkynningarskylduna og þá kom í ljós að Eskey hafði dottið út úr tilkynningarskyldukerfinu um kl. 11:41 og tilraunir til að ná sambandi við bátinn höfðu ekki borið árangur.  Síðast var vitað um bátinn 19 sjómílur norðvestur af Rifi á Snæfellsnesi.Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð kl. 15 og fór TF-SIF í loftið hálftíma síðar.  Þá var björgunarbáturinn Björg frá Ólafsvík einnig á siglingu í átt að svæðinu.  Er þyrlan kom á svæðið þar sem síðast var vitað um Eskey sáust nokkrir smábátar að veiðum.  Tilkynningarskyldan hafði þá óskað eftir því við báta á svæðinu að þeir hæfu leit en ekkert fararsnið var á þessum bátum.  Í ljós kom að Eskey var einn þessara báta.Eftir að þyrlan hafði sveimað yfir Eskey skamma stund hafði skipverji á honum samband gegnum talstöð og spurðist fyrir um hvort verið væri að leita að honum, sendirinn fyrir sjálfvirka tilkynningarskyldukerfið væri dottinn út vegna bilunar.  Í ljós kom að skipverjar á Eskey höfðu ekki opna rás 16, sem er neyðarbylgja sem öllum skipum og bátum ber að hlusta á. Sama máli virtist gegna um aðra nærstadda báta. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Áhyggjuefni hversu margir skipstjórar vanrækja hlustvörslu á rás 16

Sunnudagur 4. júlí 2004Áhyggjuefni er hversu margir skipstjórar láta hjá líða að hlusta á rás 16, sem er neyðarbylgja fyrir skip og báta, og öllum sjófarendum er skylt að hlusta á.  Óhætt er að segja að það dragi verulega úr öryggi sjófarenda. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa ber sérhverju skipi á sjó að halda stöðugri hlustvörslu eftir útsendingum á öryggistilkynningum fyrir sjófarendur á viðeigandi tíðnum þar sem slíkum upplýsingum er útvarpað til þess svæðis sem skipið siglir um.  Einnig er skylt að hafa hlustvörslu á kall- og neyðartíðninni fyrir metrabylgju, rás 16 (VHF). Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu þess varir rétt fyrir kl. þrjú í gærdag að verið var að grennslast fyrir um sómabátinn Eskey og nærstaddir bátar beðnir um að veita upplýsingar um ferðir hennar.  Varðstjórarnir höfðu þegar samband við Tilkynningarskylduna og þá kom í ljós að Eskey hafði dottið út úr tilkynningarskyldukerfinu um kl. 11:41 og tilraunir til að ná sambandi við bátinn höfðu ekki borið árangur.  Síðast var vitað um bátinn 19 sjómílur norðvestur af Rifi á Snæfellsnesi.Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð kl. 15 og fór TF-SIF í loftið hálftíma síðar.  Þá var björgunarbáturinn Björg frá Ólafsvík einnig á siglingu í átt að svæðinu.  Er þyrlan kom á svæðið þar sem síðast var vitað um Eskey sáust nokkrir smábátar að veiðum.  Tilkynningarskyldan hafði þá óskað eftir því við báta á svæðinu að þeir hæfu leit en ekkert fararsnið var á þessum bátum.  Í ljós kom að Eskey var einn þessara báta. Eftir að þyrlan hafði sveimað yfir Eskey skamma stund hafði skipverji á honum samband gegnum talstöð og spurðist fyrir um hvort verið væri að leita að honum, sendirinn fyrir sjálfvirka tilkynningarskyldukerfið væri dottinn út vegna bilunar.  Í ljós kom að skipverjar á Eskey höfðu ekki opna rás 16 og sama máli virtist gegna um aðra báta í grenndinni. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sprengjusérfræðingar fjarlægðu tundurdufl úr togaranum Brettingi

Laugardagur 3. júlí 2004. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægðu í gær tundurdufl úr togaranum Brettingi og eyddu sprengiefninu úr því, 227 kílóum af TNT. Togarinn Brettingur fékk tundurdufl í vörpuna snemma í gærmorgun þar sem hann var að veiðum út af Austfjörðum á svokölluðu Tangaflaki.  Skipstjórinn hringdi strax í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem gaf honum samband við sprengjusérfræðing.  Samkvæmt lýsingu skipstjórans var um sprengihleðslu ásamt forsprengju að ræða og hafði hún fallið niður í fiskimóttökuna.  Skipstjóranum var leiðbeint um frágang og ráðlagt að koma að landi. Brettingi var siglt til Seyðisfjarðar og voru sprengjusérfræðingarnir komnir þangað kl. 10 um morguninn.  Þeir fóru á báti út í togarann og fjarlægðu forsprengjuna frá aðalsprengjuhleðslunni.  Þá var hægt að sigla togaranum að bryggju.  Lögreglan stöðvaði alla umferð um höfnina áður en togarinn lagðist að og duflið var tekið í land.  Duflið var síðan flutt á afvikinn stað þar sem sprengiefnið var brennt.  Þetta var breskt tundurdufl úr seinni heimstyrjöldinni og innihélt það 227 kíló af TNT. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlafulltrúi. Hleðsla úr tundurdufli um borð í Brettingi Forsprengja og hluti sprengiefnis hennar.
Síða 1 af 2