Fréttayfirlit: júlí 2004 (Síða 2)

Varðskipið Týr aðstoðaði færeyska dráttarbátinn Golíat

Fimmtudagur 1. júlí 2004.   Varðskipið Týr aðstoðaði í gær færeyska dráttarbátinn Goliat sem lenti í vandræðum á leið sinni með gröfu- og efnisflutningapramma í drætti frá Færeyjum til Grindavíkur.   Að sögn Sigurðar Steinars Ketilssonar skipherra hafði slitnað á milli bátsins og gröfuprammans í vonskuveðri en auk þess hafði dráttartaug á milli gröfuprammans og efnisflutningaprammans flækst í hældrifi annars prammans.    Varðskipið var komið að dráttarbátnum kl. tólf á hádegi.  Slæmt skyggni var á svæðinu, vindhraði 25-30 hnútar og ölduhæð 4-6 metrar.  Því var ákveðið að bíða með aðgerðir þar til sjór og veður gengi niður.  Um hálfþrjú hafði lægt og var þá hafist handa.  Þrír varðskipsmenn fóru með léttbát yfir í gröfuprammann og komu nýrri taug á milli hans og dráttarbátsins.  Verkinu miðaði vel áfram og gat dráttarbáturinn haldið áfram ferð sinni til Grindavíkur rúmri klukkustund síðar.   Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru frá varðskipinu Tý og léttbát þess.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.        
Síða 2 af 2