Fréttayfirlit: maí 2005

Landhelgisgæslumenn tóku þátt í flugmessu

Sunnudagur 30. maí 2005. Landhelgisgæslumenn tóku þátt í flugmessu í Grafarvogskirkju 30. maí sl. Þetta var fyrsta guðþjónusta þeirrar tegundar sem haldin hefur verið hér á landi. Séra Vigfús Þór Árnason sóknarprestur og séra Bjarni Þór Bjarnason þjónuðu fyrir altari.  Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni flutti hugleiðingu.   Ritningarlestra lásu Signý Pétursdóttir, flugumferðarstjóri og bænir fluttuHertvig Ingólfsson, flugvirki og Rafn Jónsson, flugstjóri. Lokabæn flytur Björn Þverdal, flugvirki. Organisti er Ólafur W. Finnsson, flugstjóri.Flugfreyjukórinn syngur ásamt félögum úr kvartett flugstjóra. Einsöng syngur Þuríður Sigurðardóttir, myndlistamaður og fv. flugfreyja, Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugmaður, leikur á fiðlu, Sigrún Hermannsdóttir, flugfreyja, leikur á flautu, Jón Hörður Jónsson, flugstjóri, leikur á kontrabassa og á trompet leika þau Berglind Jóna Þráinsdóttir, flugfreyja, Ingibjörg Lárusdóttir, flugfreyja og Sigurður Wiium, flugmaður.Upp úr kl 10:00 munu fallhlífastökkvarar lenda við Grafarvogskirkju.Listflug verður við kirkjuna um kl. 13:00. Flugvélar í áætlunarflugi munu fljúga yfir Grafarvoginn. LÍTIL ÞYRLA VERÐUR staðsett við Grafarvogskirkju. Flugfólk er beðið að mæta í sínum einkennisbúningum þau sem eiga slíka og nota þá við störf sín. Rekstaraðilar, starfsmannafélög og lífeyrissjóðir er tengjast flugrekstri bjóða upp á “flugkaffi” eftir messu. Allir hjartanlega velkomnir! Björn Erlingsson 25/5 2005  

Áhöfn TF-LIF sótti slasaðan vélsleðamann á Langjökul

Föstudagur 27. maí 2005.Læknir í Borgarnesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 21:57 og óskaði eftir aðstoð vegna manns sem hafði lent í vélsleðaslysi á suðvestanverðum Langjökli.Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 22:24.  Hún lenti með manninn við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 23:20.Sjá meðfylgjandi mynd sem áhöfn TF-LIF tók á Langjökli í kvöld.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr. Frá slysstað. 

Dómsmálaráðherra tekur þátt í björgunarsýningu

Laugardagur 28. maí 2005. Landhelgisgæslan var bæði með varðskip og þyrlu á Akureyri er Landsþing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fór fram um síðustu helgi. Sameiginleg björgunarsýning Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hófst með því að Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fékk far með þyrlunni TF-LIF út að varðskipinu Tý og seig úr þyrlunni niður í skipið. Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn varðskipsins tók við það tækifæri.  Dómsmálaráðherra fylgdist með sýningunni frá varðskipinu en þar voru björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sýnd, TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, og léttbátar varðskipsins Týs.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.   Dómsmálaráðherra sígur úr TF-LIF niður í varðskipið Tý.Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti dómsmálaráðherra um borð í varðskipinu Tý. Skip og bátar Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar raða sér upp fyrir æfingu á svokallaðri breiðleit á Pollinum á Akureyri. Skipin og bátarnir komu siglandi inn Pollinn og röðuðu sér upp hlið við hlið en þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á undan.

Sjóræningjaskip á karfaslóð á Reykjaneshrygg

Föstudagur 27. maí 2005. Áhöfn TF-SYN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug út á karfaslóð á Reykjaneshrygg í dag.  Í eftirlitsfluginu sá áhöfnin 60 erlenda úthafskarfatogara að veiðum við 200 sjómílna lögsögumörkin suðvestur af Reykjanesi.  Af þessum 60 skipum voru 7 svokallaðir sjóræningjatogarar en það eru skip sem ekki eru með leyfi til veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar). Á meðfylgjandi myndum sem áhöfn TF-SYN tók í dag má sjá flutningaskipið Sunny Jane frá Belize taka við fiski frá einu af þessum sjóræningjaskipum. Um er að ræða skipið Okhotino sem skráð er í Dominika. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.  

Spænskur sjómaður sóttur með þyrlu út á Reykjaneshrygg

Sunnudagur 22. maí 2005.   Vaktstöð siglinga og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá björgunarstjórnstöðinni í Madrid kl. 11:18 um aðstoð við veikan spænskan sjómann af togaranum Hermanos Gandon Quadro sem var staddur á úthafskarfaslóð 220 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.  Talið var nauðsynlegt að flytja sjómanninn sem fyrst á sjúkrahús þar sem hann var með öll einkenni botnlangakasts.   Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 11:35.  Einnig var haft samband við varnarliðið og óskað eftir aðstoð þar sem um svo langa vegalengd var að ræða. Varnarliðið samþykkti þegar að senda fygldarþyrlu með TF-LIF.   Að sögn Benónýs Ásgrímssonar yfirflugstjóra hjá Landhelgisgæslunni er þetta í fyrsta skipti sem varnarliðsþyrla fylgir TF-LIF í öryggisskyni.  Ástæðan er sú að minni þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF,  hefur ekki flugdrægi til að fylgja TF-LIF svo langa leið og flugvél Landhelgisgæslunnar ,TF-SYN, er í viðgerð.  Benóný sagði sjúkraflugið hafa tekist vel og samvinna við áhöfn varnarliðsþyrlunnar hefði verið eins og best verður á kosið.   TF-LIF fór í loftið kl. 12:48 og varnarliðsþyrlan nokkru síðar.  Kom TF-LIF að skipinu um kl. 14:30 og var hífingu lokið kl. 14:50. Þyrlurnar komu svo til baka um kl. 16:40 og lenti TF-LIF á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabíll sótti veika sjómanninn.   Sjá meðfylgjandi myndir sem Friðrik Sigurbergsson læknir í áhöfn TF-LIF tók þegar verið var að sækja spænska sjómanninn og ein myndin er af þyrlu varnarliðsins sem fylgdi TF-LIF.   Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.        

Heimsókn forstjóra Landhelgisgæslunnar til Færeyja

Föstudagur 20. maí 2005. Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson, fór nýlega í heimsókn til Færeyja ásamt yfirmanni gæsluframkvæmda, Kristjáni Þ. Jónssyni, auk áhafnarinnar á varðskipinu Tý.  Landhelgisgæslumenn fóru til Færeyja í boði danska sjóhersins og kynntu sér meðal annars flotastöð danska sjóhersins, flugratsjárstöðina á Sornfelli, sjóbjörgunarstjórnstöðina og fiskveiðieftirlitið.  Forstjóranum og yfirmanni gæsluframkvæmda var boðið í siglingu á færeyska varðskipinu Brimli og útsýnisferð um eyjarnar með þyrlu danska sjóhersins.Tilgangurinn með heimsókninni var að miðla reynslu og upplýsingum og skiptast á skoðunum um sameiginleg verkefni. Einnig voru skoðaðir möguleikar á auknu samstarfi.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr. Frá vinstri: Cdr. Eli Lyngvej-Larsen, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý, Lt. Col. Ole V. Friederich, Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Capt. Jan . Leisborch yfirmaður dönsku flotastöðvarinnar í Færeyjum, Cdr. Michael Kristensen DLO officer, Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Thorben J. Lund yfirstýrimaður á varðskipinu Tý. (Mynd: SCPO Henning Clemens Poulsen, Island Command Faroes). Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra yfirmenn v/s Tý standa heiðursvörð þegar varðskipið Brimill sigldi fram hjá með forstjóra Landhelgisgæslunnar og yfirmann gæsluframkvæmda inn í höfnina í Þórshöfn.  Frá vinstri : Guðjón Finnbogason bryti, Thorben Lund yfirstýrimaður, Gunnar Pálsson yfirvélstjóri og Guðmundur Rúnar Jónsson 2. stýrimaður . Uppi á brúarvæng er Sigurður Steinar Ketilsson skipherra. (Mynd: Ólafur Kjartansson háseti á varðskipinu Tý.) Ef vel er að gáð má greina forstjóra Landhelgisgæslunnar og yfirmann gæsluframkvæmda úti á brúarvæng færeyska varðskipsins Brimils að svara heiðursverði varðskipsins Týs er Brimill sigldi inn höfnina í Þórshöfn. (Mynd: Ólafur Kjartansson háseti á varðskipinu Tý.)

Mannbjörg varð er fiskibáturinn Hildur sökk á Þistilfirði um hádegið

Föstudagur 20. maí 2005. Mannbjörg varð er fiskibáturinn Hildur ÞH-38 sökk á Þistilfirði um 7 sjómílur austsuðaustur af Raufarhöfn.  Tveir skipverjar höfðu komist í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Gunnbjörgu frá Raufarhöfn. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga bárust upplýsingar frá Flugstjórn um að flugvél hefði tilkynnt um neyðarsendingar kl. 12:43.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru þegar kölluð út.  Einnig bárust neyðarsendingar um gervitungl.   Þá hafði fiskibáturinn Hildur ÞH-38 frá Raufarhöfn horfið út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu. TF-LIF fór í loftið kl. 13:21 en var snúið við kl. 13:50 er staðfestar upplýsingar bárust um að tveimur skipverjum af Hildi ÞH-38 hefði verið bjargað um borð í björgunarskipið Gunnbjörgu frá Raufarhöfn.  Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:14 en björgunarskipið Gunnbjörg er væntanlega komið til Raufarhafnar með skipbrotsmennina. Talsverður sjór var á Þistilfirði er báturinn sökk, norðaustan kaldi og vindhraði um 8-10 m. á sek. Hildur ÞH-38 er 20 tonna eikarbátur, smíðaður á Fáskrúðsfirði 1973. Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Mannbjörg varð er kviknaði í fiskibátnum Hrund í nótt

Mánudagur 16. maí 2005.Mannbjörg varð er kviknaði í fiskibátnum Hrund BA-087 í nótt.Skipstjóri fiskibátsins Seifs BA-17 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Vaktstöð siglinga kl. 4:47 og tilkynnti að mikill reykur væri á Patreksfjarðarflóa.Nokkrum mínútúm síðar, kl. 4:55, bárust þær upplýsingar frá skipstjóranum á fiskibátnum Ljúfi BA-302, að hann sæi logandi bát í norðvesturátt frá sér og síðar sást neyðarflugeldur á lofti yfir staðnum.  Nærliggjandi bátar voru þegar kallaðir út á rás 16 og beint að staðnum.Fljótlega kom í ljós að um fiskibátinn Hrund BA-87 frá Patreksfirði var að ræða.  Báturinn datt út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni kl. 5:02 og var hann þá staddur 37 sjómílur norðvestur af Patreksfirði.  Björgunarbátar frá Ísafirði og Patreksfirði voru kallaðir út.Skipstjóri fiskibátsins Ljúfs hafði samband kl. 5:12 og tilkynnti að eini skipverji Hrundar væri kominn um borð í Ljúf og hann væri allþrekaður.  Skipstjóri Ljúfs hélt þegar með manninn til Patreksfjarðar og var reiknað með komu bátsins þangað um sjöleytið í morgun.  Björgunarsveitarbátar voru afturkallaðir eftir að þessar upplýsingar höfðu borist.Skipstjóri fiskibátsins Kríu BA-75 hafði samband kl. 5:20 og sagðist vera við flakið af Hrund sem væri alelda.  Ætluðu skipverjar á Kríunni að taka að landi björgunarbát Hrundar sem var á floti við bátinn.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.    

Skrúfan af tundurspillinum Skeena endurheimt af hafsbotni

Fimmtudagur 12. maí 2005.Eins og sagt var frá á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í fyrra komu hingað til lands nokkrir eftirlifendur úr áhöfn kanadíska tundurspillisins Skeena í tilefni af því að 60 ár voru liðin frá því að Skeena strandaði við Viðey í ofsaveðri 25. október 1944.  Sjá frásögn af heimsókninni á eftirfarandi slóð:http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1516 Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra hjá Landhelgisgæslunni fórust fimmtán manns er Skeena strandaði en þeir höfðu yfirgefið skipið í lífbátum og björgunarflekum.  Hundrað nítíu og átta manns, sem eftir urðu í skipinu, var bjargað með fluglínutækjum en björgunaraðgerðum var frækilega stjórnað af Einari Sigurðssyni skipstjóra sem oft hefur verið kenndur við skip sitt Aðalbjörgu RE.Skeena náðist af strandstað og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar var hún dregin frá Reykjavík og átti að fara í brotajárn erlendis en týndist úti á hafi og sökk.  Vegna vísbendinga um að djúpsprengjum hafi verið varpað fyrir borð þegar Skeena strandaði, gerði sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í samstarfi við sjómælingadeild stofnunarinnar, ítarlega leit á hafsbotni umhverfis strandstað.  Er sú leit fór fram kom í ljós að önnur skrúfa skipsins og skrúfuöxull höfðu orðið eftir á hafsbotni er skipið strandaði.Landhelgisgæslan lét kanadíska sendiráðið vita um fundinn og sendiráðið hafði samband við hermálayfirvöld í Kanada sem leiddi til þess að Landhelgisgæslan var beðin að ná skrúfunni af hafsbotni.  Vegna sjólags og veðurs hefur það ekki reynst unnt fyrr en nú og gekk vel að koma skrúfunni að landi í dag en áhöfn varðskipsins Óðins og sprengjudeild Landhelgisgæslunnar unnu að því ásamt Kjartani Haukssyni kafara, eiganda prammans sem sést á meðfylgjandi myndum.Kanadíska sendiráðið ætlar að koma skrúfunni fyrir í Viðey, sem minnismerki um þá sem létust í sjóslysinu.Landhelgisgæslan telur talsverðar líkur á því að skotfæri og jafnvel djúpsprengjur kunni að leynast á svæðinu þar sem Skeena strandaði og er mælst til þess að kafarar láti vera að athafna sig þar. Sjá meðfylgjandi myndir DS sem teknar voru í dag þegar skrúfan var hífð upp á bryggju á Faxagarði, Reykjavíkurhöfn. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Skrúfan af Skeena hífð upp úr sjónum. Jónas Þorvaldsson kafari og sprengjusérfræðingur sem fann skrúfuna þegar verið var að leita að djúpsprengjum á svæðinu þar sem Skeena strandaði. Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt Kjartani Haukssyni á prammanum sem dró skrúfuna að landi. Léttbátur varðskipsins Óðins fylgdi prammanum til hafnar. Óttar Sveinsson höfundur Útkallsbókanna og afkomandi Viðeyinga, Richard Tetu sendiherra Kanada á Íslandi, Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir barnabarn Einars Sigurðssonar skipstjóra sem bjargaði áhöfn Skeena 1944, Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi og Viðeyingur, Kristbjörg starfsmaður kanadíska sendiráðsins og starfsmaður Málmsteypunnar sem kanadíska sendiráðið ætlar að fá til að útbúa minnismerkið.

Áhafnir varðskipsins Týs og þyrlunnar TF-LIF æfa með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Þriðjudagur 10. maí 2005.   Nýlega æfði áhöfn varðskipsins Týs og áhöfn TF-LIF viðbrögð við eldsvoða í skipi með c-vakt Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  Slökkviliðsmenn voru fluttir með þyrlu út í varðskip og hafði áhöfn varðskipsins undirbúið komu þeirra og fyrirhugað verkefni, m.a. með vatnsöflun og fleira.  Síðan æfðu slökkviliðsmenn reykköfun í skipi ásamt reykköfurum varðskipsins.   Að sögn Jörgens Valdimarssonar vaktstjóra c-vaktar SHS gekk æfingin mjög vel og vonast hann til að áframhald verði á sameiginlegum æfingum.  Sjá meðfylgjandir mynd sem Jörgen Valdimarsson tók á æfingunni. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Fallbyssuæfing á varðskipinu Tý

Þriðjudagur 10. maí 2005. Á meðfylgjandi mynd eru Landhelgisgæslumenn á varðskipinu Tý að prófa fallbyssuna um borð en reglulega eru haldnar æfingar í notkun hennar.  Á myndinni eru Guðmundur Rúnar Jónsson, 2. stýrimaður og vopnaforingi varðskipsins (standandi), Hreinn Vídalín háseti sitjandi til vinstri og Ólafur Kjartansson háseti sitjandi til hægri. Lengst til hægri stendur Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur og fylgist vel með öllu.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.(Mynd: Hreggviður Símonarson stýrimaður.)

Björgunarbátuinn Sigurvin bjargaði tveimur mönnum er línubáturinn Ásdís Ólöf sökk í nótt

Mánudagur 9. maí 2005.   Tilkynningaskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um tvöleytið í nótt og lét vita að neyðarkall hefði borist frá línu- og handfærabátnum Ásdísi Ólöfu sem staddur var 6 sjómílur norður af Fljótavík.  Ásdís Ólöf er 5 tonna plastbátur sem gerður er út frá Siglufirði.    Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út, með bráðaútkalli, og fór TF-LIF í loftið kl. 2:37.   Tilkynningaskyldan hafði aftur samband um þrjúleytið og lét vita að búið væri að bjarga tveimur skipverjum af Ásdísi Ólöfu um borð í björgunarbátinn Sigurvin frá Siglufirði og var þá TF-LIF snúið til baka til Reykjavíkur. Sigurvin kom með skipbrotsmennina til hafnar á Siglufirði kl. 8:25 í morgun.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Nýir léttbátar á varðskipunum

Mánudagur 9. maí 2005. Varðskipin hafa fengið nýja harðbotna léttbáta af gerðinni Valiant 570 en þeir koma í stað eldri báta af gerðinni Avon 540 sem hafa verið á varðskipunum í 12-14 ár og reynst vel.  Kominn var tími til að skipta þeim út vegna aldurs og slits.Varðskipsmenn eru harla ánægðir með nýu bátana, a.m.k. eftir fyrstu tilraunasiglingar á þeim. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Hér er verið að prufukeyra léttbátinn á Tý en hann er í daglegu tali kallaður Prinsinn. (Mynd: Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður) Léttbátur Óðins prufukeyrður (mynd Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.)  

Sjúkraflug með spænskan sjómann

Laugardagur 7. maí 2005   Björgunarstjórnstöðin í Madrid hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10 og tilkynnti að spænski togarinn Eirado do Costal væri með veikan mann um borð sem þyrfti að komast á sjúkrahús.  Togarinn var þá staddur á Reykjaneshrygg, 240 sjómílur suðvestur af Reykjavík.    TF-LIF fór í loftið kl. 11:37 og TF-SYN kl. 12:41 en flugvélin fylgdi þyrlunni til öryggis .  Sigmaður í áhöfn TF-LIF náði sjúklingnum um borð í þyrluna kl. 13:30.    TF-SYN lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 15:17 og TF-LIF kom tíu mínútum síðar.  Á flugvellinum beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.       Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði að trillu sem saknað var út af Akranesi - Trillan fannst í Hafnarfirði

Föstudagur 6. maí 2005.   Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11:35 og lét vita að trilla hefði dottið út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni skammt vestur af Akranesi.  Ekkert samband náðist við trilluna.  Haft var samband við annan bát sem var nánast á sama stað og síðast var vitað um trilluna en skipstjórinn á þeim bát hafði ekki orðið var við hana.   Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 11:38 og fór þyrlan í loftið kl. 11:57.  Hún leitaði á svæðinu án árangurs.  Skömmu eftir að þyrlan hóf leit hafði Tilkynningarskyldan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að trillan sem saknað var hefði fundist í Hafnarfirði.    Ekki er vitað hvernig stóð á því að trillan sendi upplýsingar um staðsetningu út af Akranesi.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Áhöfn varðskipsins Óðins fann bandarískt veðurdufl 99 sjómílur vestsuðvestur af Reykjanesi

Föstudagur 6. maí 2005.   Áhöfn varðskipsins Óðins fann á dögunum veðurdufl 99 sjómílur (183 km) vestsuðvestur af Reykjanesi.  Veðurduflið er í eigu bandarísku Hafrannsóknastofnunarinnar (NOAA).   Duflinu var lagt út í júlí 2004 155 sjómílur (287 km) austur af Hvarfi á Grænlandi en þar er um eða yfir 3000 metra dýpi.  Fyrstu sendingar frá duflinu bárust um Argos gervitungl 24. júlí 2004.  Legufæri duflsins slitnaði í óveðri 8. desember 2004 og hefur það verið á reki allt þar til Óðinn fann það sl. sunnudag.  Með duflinu fylgdu 1500 metrar af legufærum, restin hafði slitnað frá.  Vegalengdin frá þeim stað er duflið slitnaði frá legufærum og að þeim stað er Óðinn tók það um borð er 419 sjómílur (775 km).   Á svipuðum tíma og veðurduflið slitnaði frá legufærunum, slitnuðu tvö önnur dufl bandarísku Hafrannsóknastofnunarinnar frá legufærum undan austurströnd Bandaríkjanna en skip bandarísku strandgæslunnar náðu þeim um borð áður en þau rak á land.  Hvert dufl er metið á um 250.000 bandaríkjadali.  Veðurduflin eru í raun fljótandi veðurstöðvar og mæla þau vindstefnu, vindhraða, loftþrýsting, lofthita, sjávarhita, hafstrauma og ölduhæð.  Að sögn Halldórs Nellett skipherra á varðskipinu Óðni var duflið sem Óðinn fann fyrst og fremst sett út til að kanna hvernig slíkum duflum reiðir af í slæmu veðri.  Staðurinn þar sem það var sett út er algjört veðravíti yfir vetrartímann að hans sögn.  Þar getur verið mikil ísing og ölduhæð og jafnvel ísrek.Meðfylgjandi myndir tók Árni Ólason smyrjari á Óðni er verið var að hífa duflið um borð í varðskipið. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.
Síða 1 af 2