Fréttayfirlit: maí 2005 (Síða 2)

Guðni Skúlason hættir hjá Landhelgisgæslunni eftir 41 og hálft ár í starfi

Miðvikudagur 4. maí 2005. Guðni Skúlason varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hætti störfum nú um mánaðarmótin eftir 41 og hálfs árs starf hjá stofnuninni. Í grillveislu sem haldin var í hádeginu þakkaði Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, honum fyrir vel unnin störf í þágu stofnunarinnar og einnig fyrir að vera brautryðjandi í stjórnstöðvarmálum Landhelgisgæslunnar.  Guðni þakkaði félögum sínum hjá Landhelgisgæslunni fyrir samstarfið. Guðni hóf störf hjá Landhelgisgæslunni sem loftskeytamaður 18 ára að aldri og starfaði á varðskipunum, í flugdeild og síðast í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.  Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Georg Kr. Lárusson forstjóri þakkaði Guðna fyrir vel unnin störf í þágu stofnunarinnar og fyrir að vera brautryðjandi í stjórnstöðvarmálum. Guðni flutti skemmtilega ræðu og rifjaði upp þær breytingar sem hann hefur upplifað í starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni. Starfsmenn skemmtu sér yfir tölu Guðna. Við viljum vera á heimasíðunni!!!  Sigurður Heiðar Wiium þyrluflugmaður og Sverrir Erlingsson flugvirki. Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra, Sigríður Ólafsdóttir matráðskona og Eygló Ólöf Birgisdóttir launafulltrúi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti slasaðan björgunarsveitarmann frá Rifi til Reykjavíkur

Sunnudagur 1. maí 2005. Neyðarlínan tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:11 að ungur maður hefði slasast á björgunarsveitaræfingu og gaf samband við lækni á Ólafsvík.  Hann óskaði eftir að maðurinn yrði sóttur með þyrlu.   Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 15:23 eftir að læknir í áhöfn þyrlunnar hafði fengið upplýsingar um ástand mannsins. TF-LIF fór í loftið kl. 15:41 og var komin til Rifs kl. 16:22.  Þar var hinn slasaði fluttur um borð í þyrluna ásamt aðstandanda.  Ungi maðurinn hafði verið við æfingar úti á sjó með unglingasveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Ólafsvík og fótbrotnaði er hann fékk bát yfir sig og lenti í skrúfunni á honum.   TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:07.   Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.
Síða 2 af 2