Fréttayfirlit: júlí 2005

Myndir af flutningi flugvélarinnar Cessna 180 TF-IOO sem hlekktist á í Fljótavík 15. júlí

Fimmtudagur 28. júlí 2005. Meðfylgjandi myndir voru teknar eftir að Cessna 180 flugvélinni TF-IOO hlekktist á í Fljótavík 15. júlí s.l.  Engin meiðsl urðu á fólki en TF-LIF flutti 2 menn frá Flugslysanefnd, 1 mann frá Flugmálastjórn og einn rannsóknarlögreglumann frá Ísafirði á staðinn.  Taka þurfti vélina í sundur og flytja hana út í varðskipið Óðinn sem lá skammt frá í Fljótavíkinni. Varðskipið flutti hana síðan til hafnar á Ísafirði.Myndirnar tóku áhafnir þyrlunnar TF-LIF og varðskipsins Óðins. Reynir G. Brynjarsson flugvirki og Sigurður Ásgeirsson flugstjóri taka eldsneyti af flugvélinni fyrir flutning út í varðskipið Óðinn. Annar vængur vélarinnar tekinn af. Góð samvinna áhafnar þyrlunnar TF-LIF og áhafnar varðskipsins Óðins. TF-LIF lögð af stað með skrokk flugvélarinnar. TF-LIF og léttbátur varðskipsins Óðins á leið með flugvélina að varðskipinu Óðni. Einar Valsson yfirstýrimaður og Linda Ólafsdóttir háseti bíða á pallinum á Óðni.  Búið að flytja skrokk vélarinnar út í varðskipið Óðinn og næsta skref að sækja vængina.      

Sprengikúla fannst í vegkanti við bæinn Vatnsenda í Eyjarfirði

Fimmtudagur 28. júlí 2005. Bóndi á Vatnsenda í Eyjarfirði fann nýverið sprengikúlu frá stríðsárunum í vegkantinum einn kílómetra frá bæjarhúsunum.  Hún taldi að kúlan gæti reynst hættuleg svo að hún kom henni í hendur lögreglunnar á Akureyri.  Lögreglan á Akureyri hafði þá strax samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem sendi tvo sprengjusérfræðinga til að eyða kúlunni.  Við athugun sprengjusérfræðinganna á staðnum þar sem kúlan fannst og miðað við ástand kúlunnar er líklegast að hún hafi borist þangað með malarefni sem notað var í viðgerð á veginum.  Við frekari athugun kom í ljós að malarefnið var tekið úr árbotni við Melgerðiseyri en þar var stór herflugvöllur í seinna stríði Um var að ræða bandaríska sprengjukúlu af gerðinni M54 með hlaupvídd 37 mm sem var notuð í loftvarnabyssur.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar vara fólk við að snerta hluti sem gætu hugsanlega verið sprengjur. Hafa skal samband við lögreglu eða Landhelgisgæslu ef torkennilegir hlutir, sem gætu reynst vera sprengjur, finnast. Adrian King sprengjusérfræðingur Mynd: Adrian King. 

Varðskipsnemar kynna sér starfsemi flugdeildar

Miðvikudagur 27. júlí 2005.   Eins og sagt hefur verið frá á heimasíðunni fara nemendur úr 10. bekkjum grunnskóla í námsferðir með varðskipum Landhelgisgæslunnar á sumrin.  Færri komast með í þessar ferðir en sækja um. Ferðirnar byrja ávallt með því að nemendurnir heimsækja starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar, höfuðstöðvarnar á Seljavegi 32 þar sem skrifstofa Landhelgisgæslunnar, Sjómælingar Íslands, varðskipatæknideild og sprengjudeild eru til húsa, flugdeildina á Reykjavíkurflugvelli og varðskýlið á Faxagarði. Stjórnstöðin er flutt í Skógarhlíð 14 þannig að starfsemi Landhelgisgæslunnar er nokkuð dreifð um þessar mundir.   Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók meðfylgjandi myndir þegar varðskipsnemar voru að kynna sér starfsemi flugdeildar og flugtæknideildar Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Á fyrri myndinni er Tómas Vilhjálmsson flugvirki að sýna varðskipsnemunum búnað TF-LIF og á seinni myndinni stilla varðskipsnemarnir sér upp fyrir framan þyrluna.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.   

Varðskipsnemar kynna sér starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudagur 27. júlí 2005.   Eins og sagt hefur verið frá á heimasíðunni fara nemendur úr 10. bekkjum grunnskóla í námsferðir með varðskipum Landhelgisgæslunnar á sumrin.  Færri komast með í þessar ferðir en sækja um. Ferðirnar byrja ávallt með því að nemendurnir heimsækja starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar, höfuðstöðvarnar á Seljavegi 32 þar sem skrifstofa Landhelgisgæslunnar, Sjómælingar Íslands, varðskipatæknideild og sprengjudeild eru til húsa, flugdeildina á Reykjavíkurflugvelli og varðskýlið á Faxagarði. Stjórnstöðin er flutt í Skógarhlíð 14 þannig að starfsemi Landhelgisgæslunnar er nokkuð dreifð um þessar mundir.   Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók meðfylgjandi myndir þegar varðskipsnemar voru að kynna sér starfsemi flugdeildar og flugtæknideildar Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Á fyrri myndinni er Tómas Vilhjálmsson flugvirki að sýna varðskipsnemunum búnað TF-LIF og á seinni myndinni stilla varðskipsnemarnir sér upp fyrir framan þyrluna.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.

Landhelgisgæslan hefur framleiðslu á rafrænum sjókortum - samningur gerður við Bresku sjómælingarnar

Þriðjudagur 26. júlí 2005.   Forstjóri Landhelgisgæslunnar skrifaði nýlega undir endurnýjun á tvíhliða samningi við Bresku sjómælingarnar (UKHO). Þar var m.a. bætt við samþykkt um að Ísland gangi til liðs við IC-ENC (International Centre for ENCs) og að IC-ENC sjái um dreifingu á rafrænum sjókortum fyrir Sjómælingar Íslands sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar.    Sjá frétt um þetta á heimasíðu IC-ENC á slóðinni:   http://www.ic-enc.org/page_news_articles2.asp?id=4   Einnig felst í samningnum að UKHO kemur fram fyrir hönd LHG/SÍ hvað varðar höfundaréttarmál gagnvart þeim fyrirtækjum sem nota gögn frá Landhelgisgæslunni/Sjómælingum Íslands.   LHG/SÍ hófu fyrir skömmu framleiðslu á rafrænum sjókortum (ENC, Electronic Navigational Chart). Þetta eru kort sem geta komið í stað hefðbundinna prentaðra sjókorta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. þeim að þau notist í ECDIS (Electronic Chart Display and Information System ) sjókorta- og upplýsingakerfi.   Á meðfylgjandi mynd eru Dr. Win Williams forstjóri Bresku sjómælinganna og Georg Kr. Lárusson forstjóri að undirrita framangreindan samning.   Texti: Níels Bjarki Finsen / Dagmar Sigurðardóttir      

Sjúkraflug TF-LIF vegna slasaðs skipverja um borð í skemmtiferðaskipinu Saga Rose

Þriðjudagur 26. júlí 2005. Skipstjóri skemmtiferðaskipsins Saga Rose óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar um kl. 22:40 í gærkvöldi vegna skipverja sem hafði skorist á hálsi.  Skipið var þá statt 69 sjómílur norðnorðaustur af Hornbjargi eða 200 sjómílur frá Reykjavík. Skipverjinn hafði misst mikið magn af blóði og erfiðlega gekk að stöðva blæðinguna.   Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og var skipstjóri Saga Rose beðinn að halda í átt til Ísafjarðar til móts við þyrluna. TF fór í loftið kl. 23:45 og var komin að skipinu kl. 20 mínútur yfir eitt í nótt og voru sigmaður og læknir í áhöfn TF-LIF komnir um borð í skipið kl. 1:30.  Þeir bjuggu hinn slasaða undir flutning og hlúðu að honum.  Var líðan hans stöðug.  Búið var að flytja hann um borð í þyrluna kl. 1:48 og lenti TF-LIF við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 3:06. Skemmtiferðaskipið Saga Rose er skráð á Bahamaeyjum. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.

Skátamót 2005

Fréttalína frá Flugdeild 24.7.2005   Laugardaginn 23. júlí tók þyrla LHG,  TF-LIF, þátt í Landsmóti Skáta við Úlfljótsvatn. Blíðskaparveður var þennan dag og mikill áhugi á þyrlunni hjá ungum skátum á mótssvæðinu. Byrjað var á að sýna björgun úr sjó með sigmanni, þar sem tveimur Dróttskátum var komið til bjargar úr Úlfljótsvatni. Því næst var sýnd björgun úr slöngubát þar sem aðrir tveir Dróttskátar voru hífðir upp með sigmanni. Að sýningu lokinni var lent á miðju mótssvæðinu, þyrlan sýnd og mörgum spurningum áhugasamra svarað eftir megni. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var fjöldi fólks á svæðinu og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu stóra móti.  Einnig var alveg ný reynsla áhafnarmeðlima þyrlunnar að fá að gefa “eiginhandaráritanir” eins og “hitt” fræga fólkið, en margir ungir skátastrákar vildu fá rithandarsýnishorn frá okkur....!

BRAVO Mánaberg

Fréttalína frá flugdeild nr.2,  24.7.2005   Kl.1615 var TF-LIF kölluð út vegna veikinda áhafnarmeðlims af Mánabergi ÓF sem staddur var djúpt vestur af Bjargtöngum. Haldið var af stað frá Reykjavík kl.1707 í þoku og súld, en þegar í loftið var komið og aðeins í nokkur hundruð feta hæð klifruðum við upp í glampandi sól og sumar, og mikinn hita! Höfðum við búið okkur vel, eða miðað við aðstæður eins og þær voru á vellinum og vorum í hlýjum og góðum fötum. Á leiðinni til móts við Mánabergið var ástandið í þyrlunni eins og í bakaraofni, og féllu allnokkrir svitadropar bara við að draga andann þarna uppi. Vel vestur af Snæfellsnesi, ca. 50 sjml. var glampandi sól og 19°c hiti í háloftunum (3000 fetum) svo ástandið var frekar “hot”!. 80 sjml. vestur af Bjargtöngum komum við til móts við Mánabergið ÓF, og hífðum við hinn sjúka upp í þyrluna. Komum á staðinn kl.1854 og lukum hífingu kl.1902. Sigmaður fór um borð og bjó manninn til flutnings. Hífingin gekk mjög vel, og héldum við til Reykjavíkur í 5000 feta hæð með sólina í bakið... Þegar til Reykjavíkur kom tók sjúkrabíll við hinum sjúka og flutti hann á LSH Hringbraut til frekari skoðunar, en á leiðinni var hann í ágætu standi og lífsmörk góð. Lent var í Reykjavík kl.2022 eftir velheppnað flug.

ALFA og BRAVO á þyrlur LHG

Fréttalína frá Flugdeild LHG 22.7.05   Kl. 1420 var þyrlan SIF kölluð út með forgangi ALFA vegna manns sem hafði fallið um 150 m í skriðum í Hvalvatnsfirði. Grjót hafði fallið á höfuð mannsins sem við það rotaðist og hrapaði af stað niður skriðuna. Staðnæmdist hann um 150 metrum neðar, þar sem félagar mannsins komu svo að honum nokkrum mínútum síðar. Þeir hlúðu að honum eftir megni og biðu aðstoðar. Maðurinn hlaut talsverða höfuðáverka og einhverja útlimaáverka. Björgunarsveitir og lögregla frá Húsavík og af Eyjafjarðarsvæðinu komu á staðinn rétt á undan þyrlunni og voru búnir að búa hinn slasaða til flutnings. Einnig voru þeir búnir að bera manninn talsverða leið eftir stórgrýttri fjörunni að þeim eina lendingarstað sem mögulegur var þarna á staðnum. Hinn slasaði var fluttur um borð í þyrluna og var þegar í stað haldið til Akureyrar þar sem Metro-flugvél frá Flugfélaginu tók við honum og flutti til Reykjavíkur. Lent var á Akureyrarflugvelli kl.1641. Þyrlulæknirinn, Hörður Ólafsson, var einnig með í flugvélinni til að hlúa að hinum slasaða.     Kl. 2017 var þyrlan SIF svo kölluð út aftur, nú með forgangi BRAVO. Maður hafði orðið undir skurðgröfu við bæinn Fitjar í Skorradal. Læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn og fluttu hinn slasaða til móts við þyrluna. Lenti þyrlan á lítilli eyri við Skorradalsvatn þar sem hinn slasaði var tekinn um borð og fluttur til Reykjavíkur. Lenti þyrlan við gamla Borgarspítalann kl. 2108. Aðeins liðu 15 mínútur frá útkalli þangað til þyrlan var komin á loft.

Útkall ALFA í Little Swan

Fimmtudagur 21. júlí.   Kl.1012 barst kall frá ástralskri skútu að nafni LITTLE SWAN sem var stödd við Fjallaskaga utarlega við norðanverðan Dýrafjörð. Skipstjórinn hafði fengið hjartaáfall og var óskað tafarlausrar aðstoðar. Þyrla LHG, TF-LIF, var þegar kölluð út ásamt björgunarbát SL frá Ísafirði. Kl.1033 hélt TF-LIF af stað vestur til móts við skútuna. Kl.1045 kom skemmtiferðaskipið Explorer að skútunni og sendi lækni um borð. Við athugun kom í ljós að full þörf var á að koma manninum í land en líðan hans var þó stöðug. Sjúklingurinn var fluttur um borð í Explorer, þaðan sem hann var hífður um borð í þyrluna um kl.1144. Einnig var ung kona úr áhöfn skútunnar tekin með til Reykjavíkur, hinum sjúka til halds og trausts. Þyrlan lenti í Reykjavík um kl.1250 þar sem sjúkrabifreið frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tók við sjúklingnum og flutti á LSH Hringbraut. Alls voru 5 menn í áhöfn seglskútunnar, 1 ástralskur, 2 danskir og tveir breskir. Þeir þrír sem eftir voru um borð ætluðu að sigla skútunni til Reykjavíkur.

Áhöfn TF-SIF í laxaeftirliti á Hornströndum

Föstudagur 15. júlí 2005.   Áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, aðstoðaði lögregluna á Ísafirði við laxaeftirlit í gær. Flogið var um Hornstrandir og ólöglegra netalagna leitað. Tvö net fundust og voru gerð upptæk ásamt afla, en í þeim reyndust 3 laxar. Áhöfn varðskipsins Óðins kom til aðstoðar þegar netin voru tekin upp.   Meðfylgjandi myndir tók Páll Geirdal, yfirstýrimaður. Á fyrri myndinni sjást f.v. Sigurður Ásgeirsson, flugstjóri, Pétur Björnsson, lögregluvarðstjóri, Jóhannes Friðrik Ægisson, háseti og Reynir G. Brynjólfsson, flugvirki.    

Leit að vélbátnum Blika

Vaktstöð siglinga hóf eftirgrenslan eftir vélbátnum Blika um kl. 1600 sem kallað hafði upp vaktstöð siglinga á rás 16, neyðar- og uppkallsrásinni, en ekkert heyrðist svo meira í þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir vaktstöðvar sigling til að hafa samband. Kallað var á Björgunarsveitina Berserki í Stykkishólmi sem ætlaði að sjósetja slöngubát og hefja leit á Hrúteyjaráli á Breiðafirði þar sem talið var að báturinn væri staddur. Baldur, sjómælingabátur LHG, sem var í Ólafsvík bjó sig einnig til leitar. Þyrlu LHG, TF-LIF, var snúið við þar sem hún var á leið frá Rifi til Reykavíkur og fann hún Blika um kl 1700 þar sem hann var í námundan við Miðleiðarsker á Hrútaðfjarðaráli. Ekkert amaði að. Virðist hafa verið um bilun að ræða í fjarskiptatækjum um borð í Blika.

Heiðursskot

Sunnudaginn 10. júlí s.l. skutu starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslu Íslands 21 heiðursskoti með 5 sekúndna millibili til heiðurs rússnesku þjóðinni og vegna heimsóknar rússneska herskipsins Admiral Levchenko til Reykjavíkur.  Heiðursskotunum var skotið úr varðskipinu Tý, sem svar við 21 skoti frá hinum erlendu gestum sem skutu til heiðurs íslensku þjóðinni og fána hennar. Tíðkast hefur sem virðuleg hefð milli þjóða að skjóta slíkum heiðursskotum til að sýna virðingu fyrir fána landsins og fólki þess.  Heiðursskotum er einnig skotið til heiðurs sérstökum opinberum viðburðum, konungsheimsóknum og forsetaheimsóknum, til minningar um mikilvægan sögulegan atburð og jafnvel við jarðarfarir ríkisarfa eða mikilvægrar persónu. Heiðursbyssur Landhelgisgæslu Íslands eru sérstaklega hannaðar í þeim tilgangi að skjóta mörgum heiðursskotum í röð og eru þær breytt útgáfa af 40 mm Bofor byssu, sem er aðal varnarvopn um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar.  Adrian King

Námskeið starfsmanna stjórnstöðvar LHG í Bretlandi

Tveir starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga, Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri og Jón Ebbi Björnsson varðstjóri sóttu nýlega viku námskeið í þjálfunarstöð bresku strandgæslunnar í Highcliffe Christchurch nærri Bournemouth á Englandi. Auk þeirra sóttu námskeiðið tveir starfsmenn neyðarlínunnar í vaktstöð siglinga, þeir Harald Holsvik og Björn Júlíusson og Þórður Þórðarson frá Siglingastofnun Íslands. Björn Júlíusson sótti námskeiðið skömmu áður.   Námskeiðið fjallaði um fjölmargt sem tengist starfsemi sjóbjörgunarstjórnstöðva og var í samræmi við alþjóðlegar kröfur í því efni. Auk þess kynntust við nokkuð vel vinnubrögðum breskra sjóbjörgunarstjórnstöðva sem viðurkennt er að eru í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Námskeiðið var hluti af endurmenntunarferli fyrir starfsmenn vaktstöðvar siglinga.   Mynd tekin fyrir framan þjálfunarstöðina í Steamer Point frábæru veðri, talið frá vinstri: Jón Ebbi Björnsson LHG, Paul Cardell MCA aðalkennari, Þórður Þórðarson Siglingastofnun, Harald Holsvik NL og Hjalti Sæmundsson LHG. Mynd: Jón Ebbi Björnsson.     Þjálfunarstöðin er staðsett á efri hæð nýs tveggja hæða húss við ströndina á Steamer Point. Staðsetning og fyrirkomulag er dæmigerð fyrir sjóbjörgunarstjórnstöðvar víðast hvar. Mynd: Jón Ebbi Björnsson.   Vinnuaðstaðan er frábær, björt og rúmgóð. Menn voru á einu máli um að frábærlega hefði tekist til með húsnæði og vinnuaðstöðu í stöðinni, og að hún væri glæsileg fyrirmynd annarra sjóbjörgunarstjórnstöðva. Mynd: Hjalti Sæmundsson.   Hjalti Sæmundsson Aðalvarðstjóri stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands

Tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta á Austurlandi lokið - Nú hægt að ganga formlega frá afmörkunarsamningi við Færeyjar um lögsögumörk milli landanna

Föstudagur 1. júlí 2005.Landhelgisgæslan hefur nú lokið tæknilegri mælingu grunnlínupunkta á Austurlandi í samstarfi við fyrirtækið Loftmyndir ehf. sem er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að ganga formlega frá samkomulagi Íslands og Færeyja um afmörkun hafsvæðisins milli landanna.  Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra og Anfinn Kallsberg, lögmaður Færeyja, komust að samkomulagi um afmörkun umdeilda hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja 25. september 2002. Þar með var lokið afmörkun efnahagslögsögu Íslands gagnvart lögsögu nágrannalandanna, en áður hafði verið gengið frá afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu Jan Mayen, Grænlands og Bretlands. Sagt er frá samningsgerðinni og aðdraganda hennar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins á slóðinni: http://utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/159 Forsenda fyrir því að hægt væri að ganga frá formlegum afmörkunarsamningi milli Íslands og Færeyja, sem næði til lögsögunnar allrar, var að ljúka tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta hvors lands um sig.  Landhelgisgæslan og Loftmyndir luku því verkefni seinni partinn í júní og sér utanríkisráðuneytið um að ganga formlega frá samkomulaginu við Færeyinga. Verkefnið var framkvæmt þannig að áhöfn TF-SIF flaug með starfsmann á vegum Loftmynda ehf. út í eyjar og sker frá Reyðarfirði og suður að Jökulsárlóni og þar notaði hann GPS landmælingatæki til að staðsetja þau nákvæmlega (statisk mæling).  Annar starfsmaður Loftmynda keyrði um Austurlandið og setti upp viðmiðunarstöðvar í grunnstöðvapunktum Landmælinga Íslands. Áhöfn varðskipsins Týs og þyrlunnar TF-SIF unnu að verkefninu af hálfu Landhelgisgæslunnar í samstarfi við sjómælingasvið stofnunarinnar.  Nauðsynlegt var að hafa varðskip á svæðinu þar sem þyrlan gat lent og tekið eldsneyti eftir þörfum.   Páll Bjarnason tæknifræðingur sem starfar á Verkfræðistofu Suðurlands tók þátt í verkefninu sem undirverktaki Loftmynda ehf. með áhöfn TF-SIF og tók hann nokkuð skemmtilegar myndir sem hann hefur sett á heimasíðu Verkfræðistofunnar.  Þær er að finna á slóðinni: http://www.verksud.is/heimasidur/palli/grunnlina/ Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók meðfylgjandi myndir.Áhöfn TF-SIF ásamt verktaka Loftmynda: Frá vinstri: Sverrir Erlingsson flugvirki, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður í flugdeild, Sigurður Heiðar Wiium þyrluflugmaður og Páll Bjarnason tæknifræðingur undirverktaki Loftmynda ehf.Jón Árni Árnason háseti á varðskipinu Tý að setja eldsneyti á TF-SIF.TF-SIF að koma inn til lendingar á varðskipinu Tý.  Geirlaug Jóhannesdóttir háseti fylgist með við eldsneytistankinn.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingaftr.