Fréttayfirlit

Kynning á Northern Challenge 2005 á Keflavíkurflugvelli

Þriðjudagur 30. ágúst 2005.Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag er Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra, starfsmönnum ráðuneyta, opinberra stofnana og fjölmiðlum var boðið að skoða búnað sprengjueyðingarsveita sem taka þátt í æfingunni Northern Challenge 2005.  Einnig var sýnt þegar vélmenni eyddi bílasprengju sem komið hafði verið fyrir í nærstöddum bíl.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./fjölmiðlaftr.Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar ræða við Jan Eirik Finseth aðmírál í norska sjóhernum.Vélmennið að eyða bílasprengjunni.Sprengjusérfræðingar ásamt búnaði sínum.Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur afhenti Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra bol með áletruninni:  I survived EOD Exercise Northern Challenge Iceland 2005.Dönsku sprengjusérfræðingarnir ræða við Georg Kr. Lárusson forstjóra Landhelgisgæslunnar og Adrian King sprengjusérfræðing hjá Landhelgisgæslunni. Myndir DS.

Æfingin Northern Challenge 2005 hófst í morgun

Mánudagur 29. ágúst 2005.Fjölþjóðleg  æfing  sprengjueyðingarsveita,  Northern Challenge 2005, hófst í morgun og   stendur   til   2.  september  næstkomandi. Landhelgisgæslan stendur fyrir æfingunni í samvinnu við Varnarliðið.   Þetta  er  í  fjórða  skipti sem Northern Challenge-æfingin er haldin. Að þessu sinni verður megin markmið æfingarinnar að líkja eftir raunverulegum hryðjuverkum sem framin hafa verið t.d. í London, Írak og Afganistan og gefa þátttakendum kost á að æfa viðbrögð við þeim. M.a. verða æfð viðbrögð við sjálfsmorðssprengjuárásum og hryðjuverkasprengingum í flughöfnum, höfnum og um borð í skipum.   Að minnsta kosti 130 viðfangsefni verða sett á svið fyrir sprengjusérfræðingana til að bregðast við.  Sex erlendar sprengjueyðingarsveitir taka þátt í æfingunni að þessu sinni en þær eru ýmist frá sjó- eða landherjum þátttökulandanna, Danmörku, Noregi, Bretlandi og Svíþjóð. Að minnsta kosti 50 þátttakendur koma erlendis frá en auk þeirra eru u.þ.b. 50 þátttakendur frá Landhelgisgæslunni, lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, öryggissviði Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Tollgæslunni í Reykjavík auk varnarliðsins. Alls koma því um 100 manns að æfingunni með einhverjum hætti.   Allar sveitirnar hafa sprengjueyðingu að aðalstarfi og hafa flestar þeirra starfað á átakasvæðum, m.a. í Írak, Afganistan, á Balkanskaga og á Norður Írlandi auk þess að sjá um viðbrögð við hryðjuverkum í sínu heimalandi.   Æfingin hefur heppnast mjög vel undanfarin ár og það er ekki síst að þakka góðu samstarfi við Varnarliðið, lögreglu og öryggisfulltrúa á Keflavíkurflugvelli.  Mörg sviðsettu viðfangsefnin eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli og í höfnum á Reykjanesi og eru áhugaverð fyrir þá sem starfa að varnar- og öryggismálum á Íslandi.   Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sér lögum samkvæmt um sprengjueyðingu á Íslandi og sér einnig alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið.  Að mati sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar er mjög mikilvægt að halda slíkar æfingar til að viðhalda þekkingu og þjálfun og fylgjast með nýjustu tækni á þessu sviði.  Æfingar eins og Northern Challenge veita sprengjusérfræðingum tækifæri til að starfa við aðstæður sem eru eins raunverulegar og frekast er unnt, prófa tæki og tækni og læra hver af öðrum.Dagmar Sigurðardóttir lögfr./fjölmiðlaftr.

Óvenjuleg aðstoðarbeiðni

Mánudagur 29. ágúst 2005.Verkefni varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga geta verið mjög fjölbreytileg en eitt dæmi um það var verkefni sem kom upp í nótt er Lárus Jóhannsson varðstjóri átti þátt í að bjarga rússneskum farþega ferju á leið til Finnlands frá þrjótum sem ógnuðu lífi hans. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga fékk aðstoðarbeiðni um 112 neyðarnúmerið frá farþega í ferju sem var á leiðinni frá Rostock í Þýskalandi til Hangö í Finnlandi.  Farþeginn sem var rússneskur hafði hringt í 112 og sagðist óttast um líf sitt.  Það óvenjulega var að hringingin skyldi lenda á Íslandi en það kemur víst einstaka sinnum fyrir vegna svokallaðrar reikivillu í GSM-kerfinu erlendis að því að talið er.Maðurinn talaði mjög bjagaða ensku og sagðist vera staddur einhvers staðar á 7. eða 8. þilfari um borð í ferjunni en gat ekki sagt nákvæmlega hvar.  Hann var í mikilli geðshræringu og sagðist óttast um líf sitt.  Lárusi varðstjóra tókst að fá hann til að gefa upp nafn og símanúmer og hafði síðan samband við björgunarstjórnstöðina í Turku í Finnlandi en þar var gefið samband við björgunarstjórnstöðina í Tallin í Eistlandi þar sem rússneskumælandi menn starfa. Eftir að þeir náðu tali af skipstjóra ferjunnar fór slökkvilið hennar á stúfana að leita að manninum og fann hann heilan á húfi um kl. 4:30 og kom honum í öruggt skjól.   Maðurinn hafði lent í útistöðum og slagsmálum við einhverja náunga sem einnig voru farþegar um borð í ferjunni og taldi þá greinilega líklega til alls.  Maðurinn bað björgunarmenn fyrir kveðjur með þakklæti fyrir aðstoðina. Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Ritgerðir háskólanema um þorskastríðin birtar á heimasíðu Landhelgisgæslunnar

Ritgerðir háskólanema um þorskastríðin hafa nú verið birtar á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í dálkinum ,,Sagan” á slóðinni: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=38 Í formála með ritgerðunum segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur: Þær ritgerðir, sem hér eru birtar, voru skrifaðar í námskeiði um þorskastríðin og fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir sem ég kenndi við sagnfræðiskor Háskóla Íslands á vorönn ársins 2005. Í upphafi námskeiðsins stakk ég upp á því við nemendurna að við reyndum að setja saman nokkurs konar yfirlit um sögu þorskastríðanna. Því var vel tekið og sem betur fer heltust aðeins örfáir úr lestinni þegar á leið.  Við ákváðum því í námskeiðslok að athuga hvort unnt væri að gera yfirlitið aðgengilegt á netinu. Í ljósi þess hve Landhelgisgæsla Íslands kom mikið við sögu í átökunum um útfærslu fiskveiðilögsögunnar lá beint við að leita til hennar. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, samþykkti með ánægju að hýsa skrifin á vef hennar og á þakkir skildar fyrir það. Gunnar Páll Baldvinsson, einn nemenda námskeiðsins, tók að sér að búa yfirlitið til netútgáfu og gegndi því verki með miklum sóma. Auðvitað bera skrifin þess merki að þetta eru í raun námsritgerðir. Öllum athugasemdum og ábendingum um það, sem betur má fara, skal beint til mín, enda ber ég ábyrgð á því að ákveðið var að birta skrifin á netinu. Hugmynd okkar var hins vegar sú að í stað þess að hver nemandi skrifaði aðeins ritgerð, sem enginn læsi síðan nema kennarinn og kannski örfáir aðrir, myndum við stefna að því að auka aðeins við þekkingu manna á þorskastríðunum og fiskveiðideilum Íslendinga. Landhelgisgæsla Íslands og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands veittu verkefninu fjárstuðning og er hann þakkaður af heilum hug. Auk þess þakka ég nemendunum öllum sem tóku þátt í þessu verkefni og vona að lesendur verði einhvers fróðari um þennan merka þátt í sögu landsins. Guðni Th. JóhannessonHugvísindastofnun Háskóla Íslandsgudnith@hi.is

Leitað að báti út af Reykjanesi

Föstudagur 26. ágúst 2005.   Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddur V. Gíslason frá Grindavík, leituðu í dag að báti sem horfið hafði af skjám sjálfvirku tilkynningarskyldunnar.  Báturinn var staddur 20 sjómílur suðvestur af Reykjanesi er hann hvarf af skjánum.  Báturinn er sómabátur skráður í Vestmannaeyjum en gerður út frá Sandgerði.Starfsmenn vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar urðu þess varir í morgun að báturinn hvarf af skjám sjálfvirku tilkynningarskyldunnar.  Þeir reyndu að ná sambandi við bátinn á fjarskiptarásum og höfðu uppi á símanúmeri um borð í bátnum en fengu engin svör.  Því var ekki um annað að ræða en að kalla út áhöfn björgunarbátsins Odds V. Gíslasonar frá Grindavík og stuttu síðar þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar til að leita að bátnum.   Leitað var til skipa á svæðinu og kannað hvort þau höfðu orðið vör við bátinn og töldu skipstjórar sumra þeirra sig hafa orðið vara við bát af þessari gerð en náðu ekki nafninu.  Sú staðsetning var mun sunnar en þar sem hann var staddur síðast samkvæmt upplýsingum úr sjálfvirka tilkynningarkerfinu og mun sunnar en hann hafði ætlað að vera.Áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, fann bátinn að lokum um tvöleytið í dag þar sem hann var að veiðum 50 sjómílur suðvestur af Reykjanestá.  Ekkert amaði að skipstjóranum sem var einn um borð í bátnum. Borið hefur á því undanfarið að skipstjórar sigla bátum sínum út fyrir drægi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar og gæta þess ekki að hlusta á fjarskiptarásir eða svara síma þar sem hann er innan þjónustusvæðis.  Þetta veldur því að Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan þurfa hvað eftir annað að leita að bátum sem eru ekki staddir í neyð.  Skipstjórar sem gera slíkt eiga yfir höfði sér kæru fyrir að fara út fyrir leyfilegt farsvið bátanna samkvæmt haffærisskírteini.   Dagmar Sigurðardóttirlögfr./fjölmiðlaftr.  

Umfangsmikil leit að hollensku skútunni Daisy

Mánudagur 22. ágúst 2005. Danska varðskipið Vædderen fann í morgun hollensku skútuna Daisy sem leitað hefur verið að síðan á laugardaginn. Ekkert amaði að áhöfninni, þýskum skipstjóra og tveimur öðrum í áhöfn skútunnar.Starfsmenn vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fengu upplýsingar frá björgunarmiðstöðinni í Falmouth í Englandi um neyðarkall sem barst um gervitungl sl. laugardag.  Neyðarkallið kom frá neyðarbauju sem staðsett var um 100 sjómílur austnorðaustur af Hvarfi á Grænlandi eða 530 sjómílur frá Keflavík og hafði neyðarkallið sérstakt auðkennisnúmer.  Aðeins barst eitt neyðarkall.  Í fyrstu var jafnvel talið að neyðarkallið væri ekki raunverulegt en samt sem áður var strax til vonar og vara óskað eftir að nærstaddur norskur togari færi á svæðið og leitaði þar.  Leit áhafnar togarans bar engan árangur. Starfsmenn vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar reyndu um helgina að ná sambandi við framleiðanda neyðarbaujunnar til að fá upplýsingar um auðkenni hennar og einnig var haldið upp fyrirspurnum hjá björgunarstjórnstöðvum í nágrannaríkjunum.  Í gærmorgun tókst loks að hafa uppi á framleiðanda baujunnar og kom þá í ljós að neyðarbauja með þessu auðkennisnúmeri hafði verið selt í skútu sem skráð er í Hollandi.  Skútan heitir Daisy og er 18 metra löng.    Lítið sem ekkert var vitað um ferðir skútunnar Daisy nema að talið var að hún hefði látið úr höfn á vesturströnd Grænlands 16. eða 17. ágúst sl. og að förinni hefði verið heitið til Reykjavíkur.  Staðsetning neyðarkallsins var langt fyrir utan drægi þyrlna Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins og um þessar mundir er TF-SYN, Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, óflughæf vegna reglubundinnar skoðunar sem stendur í nokkra daga.  Í gær var heldur ekki mögulegt að senda TF-FMS, flugvél Flugmálastjórnar til leitar. Landhelgisgæslan og Vaktstöð siglinga óskuðu liðsinnis nágrannaríkjanna og fór þyrla frá Grænlandi til leitar í gær og Nimrod-vél frá breska flughernum leitaði á svæðinu fram til miðnættis. Farþegaskipið Black Prince ráðgerði að sigla um leitarsvæðið og svipast um á leið sinni frá Grænlandi til Reykjavíkur.  Þá voru áhafnir farþegaflugvéla í áætlunarflugi, sem fljúga yfir svæðið, beðnar um að hlusta eftir neyðarsendingum.  Nimrod vélin átti síðan að hefja leit í morgun ásamt flugvél Flugmálastjórnar TF-FMS.  Til þess kom þó ekki því að danska varðskipið Vædderen, sem hélt af stað frá Íslandi til leitar í gærdag, fann skútuna kl. 6:20 í morgun, 160 sjómílur vestsuðvestur af Garðskaga og amaði ekkert að áhöfninni.  Hafði skútan misst neyðarbaujuna í sjóinn.Samkvæmt upplýsingum framleiðenda neyðarbaujunnar eru baujur af þessari gerð með sleppibúnaði sem gerir það að verkum að þær fljóta upp á yfirborðið og halda áfram að senda út neyðarköll eftir að skip sekkur.   Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Tvö sjúkraflug TF-LIF í gærkvöldi

Fimmtudagur 18. ágúst 2005. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sinnti tveimur útköllum í gærkvöldi.  Um kl. 19:45 fengu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að líklega yrði óskað eftir þyrlu að rannsóknarbúðum við Kringilsárrana norðan við Brúarjökul í Vatnajökli en þar var maður með hjartverk.  Átta mínútum síðar var tilkynnt að læknir á Egilsstöðum óskaði eftir þyrlu til að sækja  hjartveika manninn.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 20:26. Þyrlan lenti við vinnubúðirnar á Kringilsárrana kl. 21:46 og fór aftur í loftið fjórum mínútum síðar með sjúklinginn innanborðs.  TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 23:14 og þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.  Rétt áður en þyrlan lenti fékk áhöfnin boð frá stjórnstöð um að halda strax af stað út á Snæfellsnes en þar hafði 3 ára stúlkubarn slasast við að falla að því er talið var u.þ.b. 5 metra niður á steinsteyptan pall í hlöðu.  Þegar TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli var þegar hafist handa við að setja eldsneyti á vélina og fór hún aftur í loftið kl. 23:22.  Þá var sjúkrabíll lagður af stað með stúlkuna í átt til Reykjavíkur og var ákveðið að hann kæmi til móts við þyrluna á Vegamótum á Snæfellsnesi.  Þyrlan lenti með stúlkuna um kl. 00:18 við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

TF-SYN æfir gúmmíbátadropp

Þriðjudagur 16. ágúst 2005. Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Óðni tók þessa flottu mynd á Stakksfirði í gær þegar áhöfn TF-SYN æfði sig í að kasta út björgunarbátum nálægt varðskipinu. Eins og kunnugt er fylgir TF-SYN stundum þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar hún fer í löng björgunar- eða sjúkraflug og þá er gott öryggisins vegna að TF-SYN er þannig úr garði gerð að hægt er að kasta út úr henni björgunarbátum. Sama gildir einnig þegar TF-SYN er send til leitar að bátum sem hafa sent út neyðarkall eða dottið út úr sjálfvirka eftirlitskerfinu hjá Vaktstöð siglinga eða úr fjareftirliti stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingftr.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, aðstoðar við leit að þýskum ferðamanni

Þriðjudagur 16. ágúst 2005. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í dag leitarhunda og björgunarsveitarmenn til Hælavíkur á Hornströndum til að leita að þýskum ferðamanni sem hafði orðið viðskila við félaga sína. Maðurinn fannst um þrjúleytið í dag og amaði ekkert að honum. Samkvæmt upplýsingum sem stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga bárust í morgun hafði maðurinn orðið viðskila við ferðahóp sinn kl. 19 í gærkvöldi.  Félagar hans leituðu að honum í nótt án árangurs og sendu síðan út neyðarkall frá björgunarskýli í Hornvík um kl. 9 í morgun.  Áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út en þyrlan fór ekki af stað fyrr en kl. 11:15 þar sem beðið var eftir björgunarsveitarmönnum með leitarhunda sem lögreglan á Ísafirði óskaði eftir. Þyrlan lenti á Ísafirði kl. 12:50 og fór þaðan kl. 13:15 með 9 björgunarsveitarmenn og fjóra leitarhunda.  Þyrlan flutti þá til Hælavíkur og hélt síðan aftur til Ísafjarðar til að sækja fleiri leitarmenn.  Síðan kom tilkynning frá leitarmönnum um þrjúleytið um að maðurinn væri fundinn og kominn um borð í bát í Hornvík.  Þyrla Landhelgisgæslunnar fór þá aftur til Hornvíkur að sækja björgunarsveitarmennina og er búist við henni til Reykjavíkur milli kl. 17 og 19.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.  

Landhelgisgæslan vinnur með Clint Eastwood

Mánudagur 15. ágúst 2005. Landhelgisgæslan tók að sér að aðstoða kvikmyndafyrirtækið Warner Bros og íslenska fyrirtækið True North með ýmsum hætti vegna töku á kvikmyndinni Flags of our Fathers.  Fyrirtækin leituðu til Landhelgisgæslunnar fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum og föluðust eftir því að hafa varðskip úti fyrir Stóru Sandvík á Reykjanesi á meðan á tökunum stæði.  Óskað var eftir tveimur varðskipum.  Landhelgisgæslan taldi víst að hægt yrði að leggja til eitt varðskip en bauðst til að gera það sem hægt yrði með góðu móti.Gerður var samningur um leigu á gamla varðskipinu Óðni sem nú er aðeins notað þegar varðskipin Ægir og Týr eru í viðgerð eða endurbótum. Einnig var samþykkt að annað varðskip kæmi að verkefninu ef önnur og brýnni verkefni Landhelgisgæslunnar kæmu ekki í veg fyrir það og þess vegna var Týr í Stóru Sandvík ásamt Óðni sl. föstudag. Fyrirvari var gerður við þáttöku Landhelgisgæslunnar þannig að varðskipin gætu siglt í burtu ef þörf krefði vegna lögregluaðgerða eða björgunarstarfa.  Landhelgisgæslan aðstoðaði kvikmyndafyrirtækin einnig með flutninga og geymslu á sprengiefnum og vopnum sem notuð eru í myndinni og a.m.k. einn yfirmaður hjá Landhelgisgæslunni var á launaskrá hjá Warner Bros sem tengiliður vegna varðskipanna á svæðinu.Fyrir varðskipin fékk Landhelgisgæslan u.þ.b. eina milljón króna fyrir daginn en þau lágu að mestu við akkeri á meðan á tökum stóð og voru notuð sem nokkurs konar leikmynd.  Varðskipin voru í Stóru Sandvík einnig af öryggisástæðum og voru áhafnir þeirra reiðubúnar að grípa inn í ef hættuástand skapaðist.Í upphafi var gert ráð fyrir að varðskipin yrðu í Stóru Sandvík fram til 17. ágúst en nú er ljóst að kvikmyndataka heppnaðist svo vel sl. föstudag að væntanlega er ekki frekari þörf á nærveru Óðins og Týs.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.Kvikmyndaleikararnir Óðinn og Týr. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður.Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur, Clint og fleiri á Kjarvalsstöðum í svokölluðu "kick off partýi" vegna byrjunar á kvikmyndatökum hérlendis. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.Dagmar og Clint við sama tækifæri. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs á Kjarvalsstöðum. Hilmir Snær leikari í baksýn. Mynd: Sveinbjörg Guðmarsdóttir.Clint ásamt ljósmyndaranum Sveinbjörgu Guðmarsdóttur, eiginkonu Kristjáns Þ. Jónssonar.  

Sjúkraflug vegna alvarlegs bílslyss á þjóðveginum við Hallormsstaðaskóg

Miðvikudagur 10. ágúst 2005.Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:57 í gær og tilkynnti um alvarlegt bílslys á þjóðveginum við Hallormsstaðaskóg.  Tveir voru látnir og ein kona alvarlega slösuð eftir að fólksbíll og vörubíll höfðu skollið saman á veginum. Lögreglan á Egilsstöðum óskaði eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar sækti slösuðu konuna. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 16:19.  Hún lenti á Egilsstaðaflugvelli kl. 18:07 og og fór þaðan aftur með hina slösuðu kl. 18:14.  Þyrlan lenti svo við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 19:57.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Hættuleg merkjablys

Þriðjudagur 9. ágúst 2005.Á undanförnum vikum hafa sprengjudeild Landhelgisgæslunnar borist tilkynningar um merkjablys eða svokallaða markera sem hafa verið að finnast víða á Snæfellsnesi og á Reykjanesi.   Merkjablys eru mikið eru notuð af herjum og björgunaraðilum til sjós, bæði til æfinga og við björgun. Þeir innihalda efni sem heitir fosfór sem getur verið hættulegt vegna sjálfsíkveikju sem verður þegar efnið þornar og kemst í snertingu við súrefni, hvort sem blysið hefur verið notað eða ekki.   Fosfór brennur  hratt og getur valdið miklum eldsvoða sé það geymt nálægt eldfimum efnum og gefur jafnframt frá sér eitraðan reyk sem er mjög hættulegur.  Finnist svona blys á víðavangi ber að merkja staðinn og tilkynna það til Landhelgisgæslunnar eða lögreglu.   Ekki skal snerta blysið heldur reyna að lesa merkingar sem kunna að vera á því og taka niður upplýsingar um helstu mál, lengd og breidd, ef mögulegt er.  Ef viðkomandi hefur myndavél í fórum sínum er gagnlegt að fá myndir sendar til sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar.   Ef blysið finnst úti á sjó ber að geyma það utandyra fjarri öllum eldfimum efnum. Undir engum kringumstæðum skal geyma þessi blys innandyra.   Frekari upplýsingar veitir sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í síma 5452100.  Einnig eru upplýsingar undir fyrirsögninni sprengjudeild á heimasíðu Landhelgisgæslunnar á slóðinni: http://www.lhg.is Marvin Ingólfsson ftr. sprengjudeild     Bandarísk Mark 6 og Mark 25 merkjablys sem fundust á Haffjarðareyju við Snæfellsnes síðastliðinn sunnudag og var svo eytt af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar.  

Varðskipið Týr til sýnis á Fiskideginum mikla á Dalvík

Mánudagur 8. ágúst 2005. Varðskipið Týr var í höfn á Dalvík um helgina og þar gátu gestir Fiskidagsins mikla komið um borð og skoðað skipið. Áhöfn varðskipsins tók meðfylgjandi myndir á meðan á hátíðahöldunum stóð en alls komu um 4600 gestir um borð í skipið. Sjá heimasíðu Fiskidagsins mikla á slóðinni:http://fiskidagur.muna.is/ Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.Sæunn háseti vaktar landganginn. Alls komu 4600 manns að skoða varðskipið Tý. Margt forvitnilegt að skoða, m.a. blómum skrýdd fallbyssa. Flugeldar lýsa upp varðskipið Tý við höfnina á Dalvík.

Áhöfn varðskipsins Týs æfir notkun björgunarstóls

Föstudagur 5. ágúst 2005.Áhöfn varðskipsins Týs æfði nýlega notkun björgunarstóls eða fluglínutækis við Sveinseyri á Dýrafirði.Að sögn Thorbens J. Lund yfirstýrimanns tókst æfingin mjög vel og björguðust allir í land nema skipherrann, Sigurður Steinar Ketilsson, sem yfirgefur að sjálfsögðu aldrei skip sitt enda tryggur gæslumaður.  Þrátt fyrir að þyrla sé aðalbjörgunartæki Landhelgisgæslunnar við skipströnd geta þær aðstæður komið upp að þyrla geti ekki athafnað sig og því er nauðsynlegt að viðhalda þekkingu á notkun björgunarstólsins segir Thorben.  Hann tók meðfylgjandi myndir á meðan æfingin stóð yfir.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hefur verið ráðinn til starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands

Ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Landhelgisgæslunni. Hann heitir Sólmundur Már Jónsson og er viðskiptafræðingur að mennt, fæddur árið 1965. Sólmundur hefur starfað sem hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun og verið kennari í hagfræði við Verslunarskóla Íslands auk þess að vera fjármálastjóri hjá Fangelsismálastofnun og í dómsmálaráðuneytinu. Frá árinu 1999 hefur hann verið  framkvæmdastjóri rekstrar- og þjónustusviðs hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík og var valinn úr hópi 41 umsækjanda um starfið.  Sólmundur hefur störf hjá Landhelgisgæslunni 1. september næstkomandi.  

Sjúkraflug vegna slasaðs manns um borð í Akureyrinni

Fimmtudagur 4. ágúst 2005. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti slasaðan mann um borð í togarann Akureyrina í gærkvöldi.  Skipið var statt á Halamiðum, 50 sjómílur norðvestur af Ísafirði. Skipstjórinn á Akureyrinni hringdi kl. 18:45 og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs manns um borð í skipinu.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LIF hafði fengið nánari upplýsingar um ástand mannsins var ákveðið að sækja hann með þyrlu. Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 18:55 og fór þyrlan í loftið kl. 19:25.  Hún var komin að skipinu kl. 20:46.  Klukkan 21:20 voru sjúklingur og læknir hífðir um borð í þyrluna og lenti hún við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 22:30. Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn TF-LIF tók í sjúkrafluginu. Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.
Síða 1 af 2