Fréttayfirlit

Áhafnir þyrlunnar Lífar og flugvélarinnar Synjar björguðu skipverja af bandarískri skútu

Þriðjudagur 27. september 2005.   Neyðarkall barst kl. 2:17 í nótt um gervihnött frá neyðarsendi til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga.  Samkvæmt neyðarkallinu var neyðarsendirinn staðsettur rúmlega 90 sjómílur norðvestur af Straumnesi við Ísafjarðardjúp.  Í framhaldi af því var farið að kanna skipaferðir á svæðinu og athuga hvort þau væru í nauðum.  Einnig var samband við björgunarstjórnstöðvar í nágrannalöndunum til að spyrjast fyrir um uppruna neyðarbaujunnar og skipaferðir.    Þær upplýsingar fengust að lokum frá björgunarstjórnstöðinni í Norfolk í Bandaríkjunum að umrædd neyðarbauja tilheyrði bandarískri skútu sem heitir Vamos og að vitað væri að skútan væri á þessu hafsvæði með tvo menn um borð. Í framhaldi af því  náðist samband við norskan línuveiðara sem hélt sjó um fjórtán sjómílum frá þeim stað er neyðarbaujan var á. Vegna veðurs treysti skipstjórinn sér ekki til að athuga með skútuna enda var fárviðri á svæðinu, vindur um 30 metrar á sekúndu.  Sagðist hann hafa nóg með að halda skipinu til.  Að hans sögn var 10-15 metra ölduhæð á svæðinu og lélegt skyggni.   Líf, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, fór frá Reykjavík kl. 5:40 og Syn, flugvél Landhelgisgæslunnar kl. 6:13. Nauðsynlegt var að senda flugvélina auk þyrlunnar til að leita að skútunni fyrir þyrluna og jafnframt til öryggis fyrir þyrluáhöfnina. Áhöfn Synjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, fann skútuna kl. 8:07 og gat því leiðbeint þyrlunni á réttan stað.  Líf kom að skútunni um kl. 8:30 og var einn maður um borð.  Honum var bjargað um borð í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 11.  Samkvæmt upplýsingum skipverjans fékk skútan á sig brot um kl. 12:15.  Skútan lagðist þá á hliðina, mastrið brotnaði og annar skipverjinn féll fyrir borð.   Að sögn Björns Brekkan Björnssonar þyrluflugmanns var mótvindur alla leiðina og vindhraði um 20-30 metrar á sekúndu og þegar komið var á svæðið var áhöfn Synjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, búin að finna skútuna og kom það sér mjög vel enda hafði þyrlan takmarkað flugþol á svæðinu.  Þegar Líf kom að skútunni var hún á flatreki og mastrið brotið. Áhöfn flugvélarinnar Synjar hafði þá náð sambandi við skipverjann um borð og fengið upplýsingar um ástand hans. Hann kom því strax til skila að hann væri í góðu ásigkomulagi og sáu áhafnir Lífar og Synjar hann aftur í skut skútunnar.  Hann treysti sér til að koma sér sjálfur í björgunarlykkju og kom það sér vel því þá þurfti sigmaður ekki að fara niður til hans enda getur verið erfitt að athafna sig í kringum víra og möstur við svona aðstæður. Hífingin gekk mjög vel og tók aðeins 5 mínútur.  Eftir að maðurinn var kominn um borð var hafin leit að týnda félaga hans en sökum takmarkaðs flugþols þyrlunnar var aðeins hægt að leita í skamma stund á henni.  Flugvélin Syn hélt leit áfram í rúma klukkustund. Leitin bar ekki árangur.   Líf kom við á Rifi til að taka eldsneyti í bakaleiðinni og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 11:09.  Flugvélin Syn hafði lent  á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:24.   Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýs.ftr. Hafsteinn Heiðarsson flugmaður Synjar tók þessa mynd í morgun af þyrlunni Líf fyrir ofan skútuna Vamos. Áhafnir Synjar og Lífar. Efri röð frá vinstri: Guðmundur Emil Sigurðsson stýrimaður á flugvélinni Syn, Hafsteinn Heiðarsson flugmaður á Syn, Auðunn F. Kristinsson stýrimaður á Syn, Páll Geirdal yfirstýrimaður á Syn og Pétur Steinþórsson flugstjóri á Syn. Neðri röð frá vinstri: Hörður Ólafsson læknir þyrlunni Líf, Reynir G. Brynjarsson flugvirki/spilmaður á Líf, Björn Brekkan Björnsson flugmaður á Líf, Magnús Örn Einarsson yfirstýrimaður/sigmaður á Líf og Jakob Ólafsson flugstjóri á Líf.    

Flugtæknideild Landhelgisgæslunnar fær EASA vottun - merkisdagur í sögu Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 23. september 2005.Í dag hlaut flugtæknideild Landhelgisgæslunnar formlega EASA-vottun frá Flugmálastjórn Íslands. við það tækifæri hélt Oddur Garðarsson tæknistjóri flugdeildar eftirfarandi ræðu í kaffisamsæti sem haldið var í tilefni dagsins: Á þessu ári stendur fluggæslan á margvíslegum tímamótum.  Í ár eru 50 ár liðin frá því Landhelgisgæslan hóf flugrekstur, en hinn 10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél.  Það var Katalínaflugbátur sem hlaut einkennisstafina TF RAN.  Frá þeim tíma hefur Landhelgisgæslan óslitið stundað flugrekstur og jafnframt annast viðhald flugflota síns.    Það eru 20 ár síðan við fengum TF SIF og 10 ár síðan við fengum TF LIF   Og að lokum er það EASA Part 145 vottun á starfsemi flugtæknideildar, sem við erum að fá og það er af því tilefni, sem við erum hér saman komin í dag.     Við sem störfum í flugtæknideildinni teljum þetta heilmikinn áfanga í starfseminni.   Það hefur ekki farið mikið fyrir flugtæknideild Landhelgisgæslunnar í almennri umræðu og þannig viljum við reyndar hafa það.  Það er ekki nema helst ef eitthvað fer úrskeiðis eða þá að menn kvarta undan því hve dýrt viðhald flugflotans er að kastljósið beinist að okkur.     Við erum engu að síður hlekkur í keðju, sem allir landsmenn eru sammála um að þurfi að vera sterk og þessi vottun, sem við erum nú að taka á móti er sterk vísbending um að hlekkurinn okkar sé að styrkjast.   Flugtæknideildin sér um að viðhalda flugflota Landhelgisgæslunnar svo að tækin séu til taks helst alltaf þegar þörf krefur.  Þetta eru flókin tæki, fokdýr og það þarf að hafa sívökult auga með þeim, svo þau sinni þeim verkum, sem þeim eru ætluð þegar á reynir.    Landhelgisgæslan á því láni að fagna að hafa á umliðnum árum getað laðað til sín vel mentað, metnaðarfullt og dugmikið starfsfólk, sem er ekkert feimið við að láta í sér heyra, þegar á þarf að halda  til að  annast viðhald flugflotans af kostgæfni.    Það er í raun ekkert sjálfgefið og við megum aldrei gleyma því að hlúa að starfsfólkinu, og búa því aðstæður svo það geti unnið störf sín sem allra best. Sérhæfingin í starfseminni er mikil og tekur það mörg ár að þjálfa hvern starfsmann og það jafnt við um faglært og ófaglært starfsfólk.   Við þurfum ekkert að fara langt til að finna dæmi þess að menn hafi gefist upp við að halda þyrlum eins og okkar gangandi.   EASA er skammstöfun fyrir European Aviation Safety Agency, eða Flugöryggisstofnun Evrópu.  Stofnunin hefur það meginmarkmið að stuðla að bættu öryggi í almannaflugi og verndun umhverfisins.  EASA Part 145 er reglugerðabálkur, sem fjallar um kröfur, sem gerðar eru til viðurkenndra viðhaldsstöðva loftfara (flugvélaverkstæða) í atvinnuflugi.   Sú krafa er gerð (til að tryggja öryggi) til allra flugrekstrarleyfishafa, í ríkjum sem aðild hafa að EASA  að viðhaldsstöð með EASA Part 145 vottun sjái um viðhald véla þeirra. Aðild Íslands var staðfest með lögum frá alþingi og gengu í gildi í júní sl.   Þar sem Landhelgisgæslan er ekki handhafi flugrekstrarleyfis, eru viðlíka kröfu ekki gerðar um flugstarfssemi hennar.  Sú krafa er hinsvegar gerð til flugflota og flugáhafna gæslunnar að hún sé jafnan til taks, þegar neyð steðjar að,  og þá oft við skilyrði, þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar og veður válynd.  Jafnframt eru tækin tæknilega flókin og viðkvæm.   Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur LHG segir í nýlegri ritgerð sinni til meistaraprófs í sjávarútvegsfræðum með leyfi höfundar:    Þar sem Landhelgisgæslan hefur ekki flugrekstrarleyfi fellur starfsemi Landhelgisgæslunnar ekki undir nákvæmt eftirlit Flugmálastjórnar sem slíku leyfi fylgir.  Engar sérstakar reglur gilda um flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar fyrir utan almenn ákvæði laga um loftferðir nr. 60/1998 og laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 25/1967.    Fleiri rök styðja þessa fullyrðingu.  Á síðari hluta ársins 1985 gerði loftferðaeftirlitið úttekt á flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar og í kjölfarið var gefin út  skýrsla dagsett þann 28. febrúar 1986 og bar yfirskriftina “Könnun loftferðaeftirlitsins á flugdeild Landhelgisgæslunnar.”   Undir skýrsluna rita Grétar H. Óskarsson þáv. framkvæmdastjóri loftferðaeftirlitsins, Björn Björnsson þáv. deildarstjóri lofthæfideildar og Skúli Jón Sigurðarson þáv. deildarstjóri rannsóknardeildar lofthæfideildar.   Í skýrslunni er bent á ýmislegt, sem  betur mætti fara í flugrekstri gæslunnar og  niðurlagi skýrslunnar segir orðrétt:    “ekki hefur legið skýlaust fyrir, hvort og að hve miklu leyti flugrekstur Landhelgisgæslunnar fellur undir valdsvið flugmálastjórnar lög/loftferðaeftirlitsins og að hve miklu leyti LHG beri að fara eftir lögum um loftferðir og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Úr þessu þarf að fást skorið á ótvíræðan hátt.”   Segja má að Flugmálastjórn hafi látið flugstarfsemi LHG að mestu afskiptalausa frá því þessi  skýrsla var birt þar til í upphafi árs 2002 að Flugmálastjórn kom í heimsókn og gerði vettvangskönnun á starfsemi flugtæknideildar, u.þ.b. 16 árum síðar.  Ég get ekki neitað því að heimsóknin kom okkur dálítið á óvart og  fyrstu viðbrögð okkar voru að spyrja okkur sjálfa hvað þeir væru eiginlega að vilja upp á dekk!   En eins og flestum má ljóst vera þá er engum hollt að ganga sjálfala og eftirlitslaus of lengi, og þegar við horfum til baka sjáum við mæta vel að við höfðum dregist aftur úr þróuninni.   Þegar hér var komið sögu hafði gæðastjórinn okkar Þorkell Guðmundsson  þegar hafist handa við að kynna sér JAR reglugerðirnar og var hann kominn vel á veg við að móta verklagsreglur fyrir starfsemina og skrifa gæðahandbók (MME bókin).  Stuðst var við gögn  fyrirtækja í sambærilegum rekstri m.a. á Norðurlöndunum.  Haft var að leiðarljósi að bókin skyldi verða raunsönn lýsing á starfseminni eins og við vildum hafa hana.  Það lá þó engin ákvörðun fyrir um að Gæslan ætlaði sér að biðja um vottun.  Menn voru heldur ekki á einu máli um að það væri þörf á að aðlaga starfsemina þessum reglum, því það var jú engin krafa um slíkt.    Það var svo á fyrri hluta árs 2003 að ákvörðun var tekin um að sótt yrði um starfsleyfi skv. JAR 145 reglugerðinni fyrir flugtæknideild LHG og sendi þáverandi forstjóri Hafsteinn Hafsteinsson flugmálastjórn ósk um að úttekt yrði gerð á starfseminni í júní 2003.      Starfsmenn tæknideildar hafa síðan jafnframt daglegum störfum sínum lagt hart að sér við að aðlaga starfsemina að JAR kröfunum,  nú EASA. Þetta hefur verið yfirgripsmikið verkefni, sem hefur tekið á öllum þáttum starfsemi okkar.    Starfslýsingar hafa verið skráðar og verksvið hvers starfsmanns afmarkað, svo skýrt sé hvaða verk hann megi inna af hendi.   Verklagsreglum hefur verið komið á um þjálfunar- og menntunarkröfur starfsfólks.   Varahlutalagerinn hefur verið marg yfirfarinn og þeir hlutir fjarlægðir, sem ekki hefur verið unnt að tryggja rekjanleika nægilega vel fyrir.    Öll verkfæri hafa verið yfirfarin og skráð og öll mælitæki, sem við notum við störf okkar hafa verið prófuð af þar til bærum aðilum og vottuð.  Komið hefur verið upp getulista (capability list), svo ljóst sé hvaða verk við ráðum við og hvaða verk við þurfum að leita til utanaðkomandi aðila við að framkvæma.   Vottunin, sem við erum að taka á móti í dag er staðfesting þess að starfsemin uppfyllir  skilyrði EASA Part 145 reglugerðarinnar og höfum yfir að ráða gæðakerfi, sem tryggir að farið sé eftir ákvæðum reglugerðarinnar.     Jafnframt tekst Flugmálastjórn á hendur eftirlitshlutverk á starfsemi flugtæknideildarinnar.  Þeir koma til með að gera úttektir a.m.k. árlega en ekki á 16 ára fresti.    Við fögnum því og teljum það koma til með að veita okkur aðhald og stuðla að öryggi.   Oft hafa spunnist fjörugar umræður og menn tekist á um túlkun reglugerðanna og verklag og sitt sýnst hverjum.   Jákvæðni og metnaður starfsmanna tæknideildar  í þessu uppbyggingarstarfi hefur vakið athygli og höfðu starfsmenn flugmálastjórnar orð á því eftir loka úttekt sína.    Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ykkur öllum samstarfsmönnum mínum óbilandi áhuga og þrautseigju í því að gera þetta mögulegt.   Ég er stoltur af ykkur.      Jafnframt þakka ég starfsmönnum flugöryggissviðs Flugmálastjórnar samstarfið og jafnframt fyrir hvatningu, stuðning og handleiðslu í þessu ferli öllu.   Oddur Garðarsson tæknistjóri í ræðupúlti. Á bak við hann standa Hilmar Ægir Þórarinsson yfirflugvirki, Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Daníel Hjaltason flugvirki, Reynir G. Brynjarsson flugvirki, Ragnar Ingólfsson rafeindavirki, Jón Pálsson flugvirki, Sigurjón Sigurgeirsson flugvirki og Þorkell Guðmundsson gæðastjóri.Í tilefni dagsins var starfsmönnum Landhelgisgæslunnar boðið í kaffi í flugskýli Landhelgisgæslunnar ásamt fulltrúum Flugmálastjórnar sem afhentu vottunarskírteinið en það voru þeir Pétur K. Maack framkvæmdastjóri flugöryggissviðs og Sigurjón Sigurjónsson deildarstjóri.Sólmundur Már Jónsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs mættur á svæðið.Ragnar Ingólfsson radíóflugvirki, Sigurjón Sigurgeirsson flugvirki, Jón Pálsson flugvirki, Helgi Rafnsson flugvirki og Sigurjón Sigurjónsson deildarstjóri frá Flugmálastjórn.Dagmar lögfr., Inga Hanna starfsmannastjóri og Eygló Ólöf launafulltrúi.

Námskeið í viðbrögðum við stórslysum á sjó

Fimmtudagur 22. september 2005. Vaktstöð siglinga stendur fyrir námskeiði um þessar mundir fyrir starfsmenn sína um viðbrögð við stórslysum á sjó, neyðarfjarskipti, samhæfingu aðgerða viðbragðsaðila og fleira. Meðal annars hefur verið fenginn erlendur sérfræðingur sem sér um hluta kennslunnar.  Námskeiðið er haldið í Fjöltækniskólanum í Reykjavík.Hluti námskeiðsins fjallar um viðbrögð vegna stórslysa á sjó t.d. björgun farþega og áhafna ferja og skemmtiferðaskipa.  Fleiri viðbragðsaðilum var boðið að taka þátt í þessum hluta námskeiðsins, þ.á.m. Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Ríkislögreglustjóra og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins auk skipstjórnarmanna frá Landhelgisgæslunni og annarra starfsmanna frá Siglingastofnun og Neyðarlínunni.Á námskeiðum sem halda áfram á næstu vikum munu varðstjórar í vaktstöð siglinga, þ.e. varðstjórar Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð og fyrrum starfsmenn tilkynningarskyldunnar og loftskeytamiðstöðvarinnar í Gufunesi (nú starfsmenn Neyðarlínunnar), kynna fyrir hver öðrum þá starfsemi sem hver og einn ber ábyrgð á í vaktstöð siglinga þannig að stöðin verði betur undirbúin að gegna hlutverki sínu.  Meðal efnis á námskeiðunum verður einnig fræðsla Siglingastofnunar um siglingavernd, kynning Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á sjódeild félagsins og björgunarskipum sem félagið hefur á sínum snærum.Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga, Þórður Þórðarson fulltrúi hjá Siglingastofnun, Björn Júlíusson sviðsstjóri hjá Neyðarlínunni og Harald Holsvik varðstjóri í vaktstöð siglinga hafa haft veg og vanda af skipulagningu námskeiðsins.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Sigvaldi Torfason frá Slysavarnaskóla sjómanna, Einar K. Sigurgeirsson varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga, og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý. Á næsta borði fyrir aftan glittir í Þór Kristjánsson deildarstjóra frá Siglingastofnun og Árna Sigurbjörnsson varðstjóra í vaktstöð siglinga.Baldur Bjartmarsson forstöðumaður frá Siglingastofnun, Leif K. Bryde varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga, Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild LHG, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður vaktstöðvar siglinga, Jakob Jónsson varðstjóri í vaktstöð siglinga, Björgólfur Ingason varðstjóri í vaktstöð siglinga og Friðrik H. Friðriksson varðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga og kafari.  Á bak við þá eru Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga og Halldór B. Nellett skipherra á varðskipinu Ægi.Guðmundur R. Jónsson stýrimaður á varðskipinu Tý, Thorben Lund yfirstýrimaður á varðskipinu Tý, Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.

Umfangsmikil leit að neyðarsendi - Fannst að lokum bak við verslun í Sandgerði

Miðvikudagur 21. september 2005. Neyðarskeyti bárust um gervihnött rúmlega 11 í gærmorgun og var gefin upp staðsetning suðvestur af Reykjanesi.  Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi kom upplýsingum um neyðarsendingarnar til vaktstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Í framhaldi af því fóru starfsmenn þar að grennslast fyrir um báta og skip á svæðinu og kanna hvort allt væri í lagi hjá þeim.  Einnig var haft samband  og samráð  við  Flugstjórn  eins og vant er þegar neyðarsendingar sem þessar fara í gang. Fleiri skeyti héldu áfram að berast yfir daginn en ómögulegt reyndist að finna upptök þeirra.  Flugmálastjórn óskaði eftir því við flugvélar sem flugu yfir svæðið að hlusta á þeirri tíðni sem neyðarsendingarnar bárust á og kanna hvort hægt væri að staðsetja neyðarsendinn betur.  Einnig var kallað til skipa og óskað eftir að þau fylgdust með sendingunum.  Björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Sandgerði, Hannes Þ. Hafstein, var kallaður út til að kanna málið og einnig varðskip Landhelgisgæslunnar.     Um kl. 18:40 tilkynnti  Flugstjórn um sendingar norður af Keflavíkurflugvelli, að öllum líkindum í Sandgerði, sem flugvél hafði numið er hún flaug yfir svæðið.  Skömmu síðar tilkynnti flugstjórn að flugvél í aðflugi inn til Keflavíkurflugvallar hefði heyrt í neyðarsendi yfir Sandgerði.  Í framhaldi af þessu var farið að leita út af Sandgerði og var einnig óskað eftir því við áhöfn Sifjar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, að hún hlustaði eftir neyðarsendingum.  Sif var um það leyti á leið í þriðja útkallið í gær. Varðskipsmenn tilkynntu um kl. 20 að þeir væru að skoða skip og báta út af Sandgerði og höfðu þeir meðal annars samband við eiganda eins skipsins, sem helst kom til greina, og óskuðu eftir því við hann að hann athugaði málið.  Rétt fyrir kl. 21 tilkynntu varðskipsmenn að ekki væri þörf á þyrlu þar sem verið væri að leita í bátum í Sandgerðishöfn og líklegast væri sá bátur fundinn sem neyðarsendingarnar bærust frá. Fljótlega kom í ljós að sendingarnar gátu vart komið frá sjó en sést hafði til unglinga að leik við björgunarbát í fjörunni í Sandgerði og var búið að fjarlægja neyðarsendinn úr honum þegar betur var að gáð.  Leitarflokkur frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg var kallaður út til að leita að sendinum í fjörunni.Um kl. 21:30 tilkynnti björgunarsveitin í Sandgerði að neyðarsendirinn hefði fundist bak við verslun í bænum. Seinna kom í ljós að unglingar í bænum höfðu tekið neyðarsendinn úr bátnum og er málið nú í höndum lögreglu.   Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.    

Þrjú útköll sama daginn - Tvö sjúkraflug þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar út á land og út á haf

Miðvikudagur 21. september 2005.   Áhöfn Sifjar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í þrígang í gær og var einnig í viðbragðsstöðu vegna neyðarsendinga sem bárust um gervihnött.  Fyrsta útkallið var vegna neyðarkalls frá skipstjóra Þjóðbjargar, sem sagt var frá í fréttatilkynningu í gær.  Þyrlan kom á staðinn um svipað leyti og bátar sem höfðu verið í grenndinni og hélt til baka til Reykjavíkur þegar tryggt var að skipstjórinn var ekki í hættu.  Þetta gerðist milli kl. 9 og 10 í gærmorgun.    Neyðarlínan gaf síðan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við lögreglu á Blönduósi kl. 11:35 en lögreglan óskaði eftir þyrlu í samráði við lækni á svæðinu vegna manns á sveitabæ í Hrútafirði sem hafði fengið metangaseitrun og var meðvitundarlaus.  Beðið var um að þyrlan kæmi á móti sjúkrabíl sem sendur hafði verið af stað með manninn.  Áhöfn Lif  flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en þar lenti þyrlan kl. 13.  Næst var þyrluáhöfnin kölluð út með bráðaútkalli kl. 19:36 vegna sjómanns um borð í skipinu Ósk KE-5, en talið var að hann væri með botnlangakast.  Skipið var þá statt rétt utan við Faxaflóa eða 15 sjómílur norðvestur frá Reykjavík. Sif fór í loftið kl. 19:58.  Vel gekk að ná sjómanninum um borð í þyrluna og lenti Sif á Reykjavíkurflugvelli við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 20:32.  Þangað kom sjúkrabíll sem flutti sjómanninn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.  Talið er líklegt að það hafi bjargað lífi mannsins að hægt var að sækja hann með þyrlu enda kom síðar í ljós að hann var með rifna ósæð en ekki sprunginn botnlanga eins og í fyrstu var talið.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Björgun Þjóðbjargar

Þriðjudagur 20. september 2005.Einn maður bjargaðist í morgun er bátur hans Þjóðbjörg GK-110 tók inn á sig sjó 13 sjómílur norðvestur af Garðskaga.  Nærstaddir bátar náðu til hans í tæka tíð.  Gott veður var á svæðinu. Skipstjóri Þjóðbjargar GK-110 kallaði upp vaktstöð siglinga á rás 16 sem er neyðarútkallsrás skipa um kl. 9:19. Sagðist þurfa aðstoð strax því að leki væri kominn að bátnum. Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði til nærstaddra báta og óskaði eftir að þeir héldu í átt til Þjóðbjargar.  Sá sem var næstur var 7 sjómílur í burtu frá Þjóðbjörgu og hélt hann þegar af stað.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein, frá Sandgerði.  Einnig var kallað til varðskipsins Ægis sem var statt í norðanverðum Faxaflóa. Reiknað var með að það yrði um einn og hálfan tíma á leiðinni á staðinn. Báturinn Gunnþór ÞH-75 kom fyrstur að Þjóðbjörgu eða um kl. 9:50 og tveir aðrir bátar um svipað leyti. Var þá skipstjóri Þjóðbjargar kominn í björgunarbúning en ekkert amaði að honum.  Skömmu síðar kom þriðji báturinn á staðinn og Lif, þyrla Landhelgisgæslunnar.  Fiskibáturinn Óli Gísla var kominn með Þjóðbjörgu í tog um kl. 10:20.  Þá var skipstjóri Þjóðbjargar enn í bátnum en í flotbúningi. Friðrik Höskuldsson stýrimaður/sigmaður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, Lif, tók meðfylgjandi myndir í morgun af Þjóðbjörgu og þeim bátum sem komu að henni. Friðrik segir að þegar þyrlan kom á svæðið hafi báturinn verið mjög siginn en í lagi með þann eina mann sem var um borð í bátnum.  Þrír bátar hafi verið á svæðinu og hafi þeir verið að undirbúa að taka bátinn í tog áleiðis til Sandgerðis.  Ætluðu bátarnir að fylgjast að og aðstoða hinn nauðstadda til hafnar. Þyrlan sneri við um tíuleytið þegar ljóst var að skipstjóri Þjóðbjargar var ekki í hættu. Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Kiddi Lár og Hannes Þ. Hafstein, voru komnir að Þjóðbjörgu um kl. 10:37.   Þegar varðskipið Ægir kom á svæðið voru dælur varðskipsins notaðar til að dæla sjó úr bátnum og gekk það vel.  Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein tók svo Þjóðbjörgu í tog komu bátarnir að bryggju í Sandgerði um kl. 13:17. Skipverji á björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Kidda Lár, hafði samband við Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftir að björgun hafði tekist og lýsti ánægju sinni með hversu björgunaraðilar frá Landhelgisgæslunni, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og Vaktstöð siglinga störfuðu vel saman við björgunaraðgerðir. Það hefði tryggt að hægt var að bjarga bátnum til hafnar því að dæla hans hafði ekki undan lekanum og skipti þar sköpum að hægt var að nota dælur varðskipsins.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Útför Guðmundar H. Kjærnested skipherra

Þriðjudagur 13. september 2005. Guðmundur H. Kjærnested skipherra var borinn til grafar í dag en hann lést 2. september sl. 82 ára að aldri. Útförin fór fram frá Hallgrímskirkju. Guðmundur var oft nefndur þjóðhetja vegna vasklegrar framgöngu í þorskastríðunum.  Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra segir um hann í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:Guðmundur varð þjóðfrægur fyrir skipstjórn sína og ávann sér mikla virðingu og vinsældir fyrir framgöngu á hættu- og spennutímum.  Hann var fylginn sér af hógværð og festu og farsæll skipherra. Mér er ljúft að votta minningu Guðmundar virðingu og færa honum þakkir fyrir ómetanleg störf í þágu íslensku þjóðarinnar.  Fyrir framgöngu manna á borð við hann nýtur Landhelgisgæsla Íslands óskoraðs trausts.Í Morgunblaðinu er birt æviágrip Guðmundar. Þar segir: Guðmundur stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni 1939-41. Hann lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1949 og skipstjóraprófi á varðskipum ríkisins árið 1953. Guðmundur var háseti á Belgaum, Dettifossi og síðar á varðskipinu Ægi á árunum 1940-49. Stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar 1949-53 og skipherra frá 1954-84. Guðmundur tók virkan þátt í uppbyggingu fluggæslunnar á fyrstu árum hennar frá 1955. Guðmundur var alla tíð virkur í félagslífi og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina. Hann sat í trúnaðarráði Stýrimannafélags Íslands á árunum 1950-53, var formaður Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar 1959-65, ritari Skipstjórafélags Íslands 1962-66 og formaður þess 1971-75. Hann var einnig forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands á árunum 1973-75. Guðmundur lét af störfum hjá Landhelgisgæslunni 28. apríl 1984. Guðmundur var starfsmaður utanríkisráðuneytisins 1984-1995. 1984 og 1985 gaf Guðmundur út endurminningar sínar í bókinni "Guðmundur skipherra Kjærnested", sem Sveinn Sæmundsson skráði.  Guðmundur var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1984, hann var sæmdur danska riddarakrossinum 1973, og 1974 var hann sæmdur orðunni riddari av St. Olavs Orden. Guðmundur var sæmdur gullmerki sjómannadagsráðs 1998.Guðmundur Kjærnested skipherra í brúnni á Tý er hann lagði upp í síðustu sjóferðina sem skipherra.Kristján Þ. Jónsson, Tómas Helgason, Ingvar Kristjánsson og  Hjalti Sæmundsson til vinstri og Halldór Gunnlaugsson, Hafsteinn Heiðarsson, Ólafur Pálsson og Leif Brydde til hægri bera kistuna.  Myndina tók Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Slys á Viðeyjarsundi - Þrír björguðust er skemmtibátur sökk en tveggja er saknað

Laugardagur 10. september 2005. Um klukkan tvö barst Neyðarlínu neyðarkall frá fólki um borð í skemmtibát sem í nauðum á Viðeyjarsundi, staðsettning var ókunn. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út, þyrla frá Landhelgisgæslu, bátar og kafarar frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. Þremur var bjargað af bátnum en tveggja er saknað og stendur leit yfir. Kafarar eru við leit á slysstað, bátar leita í nágrenni og byrjað er að ganga fjörur.   Sameiginleg fréttatilkynning frá Lögreglunni í Reykjavík, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslu Íslands og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Kona fannst látin eftir sjóslysið á Viðeyjarsundi - eins manns saknað

Laugardagur 10. september 2005.Staðan í aðgerðum á Viðeyjarsundi er að kafarar frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum fundu konu sem leitað var að eftir að skemmtibátur lenti á skeri og sökk á Viðeyjarsundi í nótt. Konan var látin. Leit stendur nú yfir af karlmanni sem saknað er og eru fjörur gengnar frá Geldinganesi út á Seltjarnarnes ásamt því að leit fer fram á sjó og úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Nú er unnið að því að lyfta bátnum upp með pramma og koma honum í land. Sameiginleg fréttatilkynning frá Lögreglunni í Reykjavík, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Áhöfn TF-SIF heldur leit áfram - fjórir kafarar frá Landhelgisgæslunni bætast við leitarhópinn

Laugardagur  10. september 2005 kl. 13.   Eins og fram hefur komið í sameiginlegum fréttatilkynningum viðbragðsaðila í morgun er eins manns saknað eftir sjóslys á Viðeyjarsundi í nótt en ein kona hefur fundist látin. Þremur var bjargað.   Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl.2:30, með bráðaútkalli, og fór TF-SIF í loftið kl. 3:04.  Þyrlan var við leit í u.þ.b. 3 klst. og fór síðan aftur í loftið um kl. 9:40 í morgun.   Áhöfn TF-SIF er enn við leit og er flogið eftir leitarferlum sem fundnir eru út með sérstöku leitarforriti sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða.  Meðal annars hefur verið flogið yfir fjörurnar í Engey og Viðey og út undir sjöbauju. Fjórir kafarar frá Landhelgisgæslunni bætast við leitarhópinn um kl. 14. Skemmtibáturinn sem um er að ræða var nýkeyptur til landsins og sigldi undir breskum fána.  Báturinn var 9.9 metra langur af gerðinni Skilsö, smíðaður í Noregi.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.

Vaktstöð siglinga kynnt á sjávarútvegssýningunni

Föstudagur 9. september 2005.Margt var um manninn á sjávarútvegssýningunni í dag en þar var meðal annars kynnt vaktstöð siglinga sem Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg reka í sameiningu samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun.  Vaktstöðin er til húsa í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð. Neyðarlínan sér um húsnæðismál og fjármál stöðvarinnar og á fulltrúa í stjórn hennar, Slysavarnarfélagið lagði til starfsmenn og tæki frá sjálfvirku tilkynningarskyldunni og er með fulltrúa í stjórn stöðvarinnar og Landhelgisgæslan fer með faglega stjórn í stöðinni og á fulltrúa í stjórn hennar ásamt því að reka stjórnstöð sína frá vaktstöðinni.  Siglingastofnun ber stjórnsýslulega ábyrgð á stöðinni og hefur eftirlit með rekstri hennar samkvæmt þjónustusamningi.Á meðfylgjandi mynd má sjá forsvarsmenn þeirra stofnana, félaga og fyrirtækja sem eiga aðild að vaktstöðinni.Dagmar Sigurðardóttirlögfr./upplýsingaftr.Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna, Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður vaktstöðvar siglinga, Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, Baldur Bjartmarsson forstöðumaður rekstrarsviðs Siglingastofnunar, Stefán Eiríksson skrifstofustjóri á dómsmála- og löggæsluskrifstofu dómsmálaráðuneytisins og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý. (Mynd DS)Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður vaktstöðvar siglinga segir frá starfseminni. Með honum á myndinni eru Inga Hanna Guðmundsdóttir sem verður starfsmannastjóri Landhelgisgæslunnar næsta árið í afleysingum fyrir Svanhildi Sverrisdóttur og Björn Júlíusson starfsmaður vaktstöðvar siglinga sem kynnti vef vaktstöðvarinnar á sjávarútvegssýningunni en hann hefur m.a. unnið við hönnun vefsins.Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar bera saman bækur sínar. (Mynd: Birkir Agnarsson kennari - yfirstýrimaður Slysavarnaskóla sjómanna).

Ægir endurbættur - nýtt varðskip - ný eftirlitsflugvél

Fimmtudagur 8. september 2005. Dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslan stóðu í dag fyrir fréttamannafundi um borð í varðskipinu Ægi þar sem kynntar voru hugmyndir um kaup á nýju varðskipi og eftirlitsflugvél og einnig nýafstaðnar endurbætur og breytingar á varðskipinu Ægi.Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Halldór Nellett skipherra á varðskipinu Ægi taka á móti Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra um borð í Ægi í dag.Í sameiginlegri fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar kemur eftirfarandi fram:Endurbætur og breytingar á varðskipinu Ægi Varðskipið Ægir kom í gær frá Póllandi þar sem gerðar voru á því endurbætur og breytingar í pólsku skipasmíðastöðinni Morska Stocznia Remontova . Varðskipið Týr fer til Póllands á næsta ári þar sem samskonar breytingar og endurbætur verða gerðar á því.  Breytingarnar fólust í því að sett var í skipið ný og stærri brú ásamt samtengdum og samhæfðum siglinga- og fjarskiptatækjum (integrated bridge system).  Ný stjórnborð voru sett í fremri hluta brúar auk stjórnborðs fyrir flugumsjón ásamt fjarskiptaborði í afturhluta brúar.  Íbúðir áhafnar voru endurnýjaðar fyrir utan setustofur og eldhús. Öll íbúðaherbergi eru nú eins manns herbergi. Björgunar- og dráttarvinda var endurnýjuð og stækkuð. Vindan er nú með 47 tonna vinnuátaki og 90 tonna bremsu.  Ný stjórntæki voru sett fyrir akkeris- og dráttarvindur í brú og við vindur.  Ný stjórntæki voru einnig sett upp fyrir aðlavélar í brú og stjórnými véla.  Verkið hófst þann 18. apríl og því lauk þann 3. september.  Verkið tók því samtals 139 daga.  Því átti samkvæmt tilboði að ljúka þann 25. ágúst en afhending dróst til 3. september eða um 10 daga.  Skipasmíðastöðin Morska greiddi u.þ.b. 2 milljónir í dagsektir vegna seinkunar.   Að jafnaði unnu um 85-90 manns við verkið.  Tveir eftirlitsmenn frá Landhelgisgæslunni ásamt yfirvélstjóra skipsins sáu um eftirlit með verkinu og skiptu með sér verkum þannig að jafnaði voru tveir eftirlitsmenn frá Landhelgisgæslunni á verkstað.   Tilboð Morska hljóðaði upp á 1.558.065 Evrur eða 127.761.330 kr. fyrir varðskipið Ægi. Gengið á tilboðsdegi var 82,00 en það hafði lækkað talsvert er reikningar voru greiddir.  Heildarkostnaður við tilboðs- og aukaverk því tengdu nam samtals 1.662.510 Evrum á meðalgengi 78,9 eða 131.172.039 krónum.  Heildarkostnaður við verkið var því um 3.5 milljónum hærri en tilboðið hljóðaði upp á í upphafi en inni í þeirri tölu eru nokkur aukaverk sem kom í ljós að þurfti að framkvæma.  Fargjöld og dagpeningar áhafnar voru áætlaðir 1.203.200 en urðu 1.694.685.  Hækkun um 392.485 kr. stafaði af seinkun á afhendingu skipsins.  Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók þessa mynd af varðskipinu Ægi þegar það kom frá Póllandi eftir endurbætur og breytingar.Nýtt varðskip Þær kröfur sem gera þarf til nýs varðskips eru helstar að það geti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu  Íslendinga, mengunarvörnum, siglt í ís, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrla á flugi og brugðist við almannavarnarástandi hvar sem er á landinu. Það verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, átt samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Það felur  í sér að draga skip og báta þar sem umferð stórra flutningaskipa mun stóraukast um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum.  Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir, m.a. nýjasta skip Norsku strandgæslunnar, sem sagt er frá á slóðinni:http://www.mil.no/start/aktuelt/pressemeldinger/article.jhtml?articleID=93696 og aðrar útgáfur af því. Harstad. Nýjasta skip Norsku strandgæslunnar. Ný flugvélHelsta krafan til flugvélar Landhelgisgæslunnar er að hún búi yfir nútíma greiningar- og samskiptatækni og hafi nægjanlegt flugþol til að sinna ofangreindu eftirliti í stórri efnahagslögsögu, þar sem m.a. þarf að fylgjast með ferðum skipa, mengun og hafís.  TF-SYN, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, er orðin 30 ára gömul og miklar tækniframfarir hafa átt sér stað síðan hún var keypt.  Með  nútíma eftirlitsflugvélum er hægt að sjá um eftirlit á mun stærra svæði með sama flugstundafjölda og TF-SYN. Ný eftirlitsflugvél þarf auk þess að hafa nægilegt þol til að taka þátt í löngum björgunar- og leitaraðgerðum og geta sinnt vettvangsstjórn og sjúkraflugi. Flugvélin þarf einnig að geta flogið utan vegna alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarmála. Ennfremur þarf vélin í ákveðnum tilfellum að sinna flugi á vegum stjórnarráðsins. Ýmsar flugvélategundir koma til greina og má þar nefna flugvélar eins og ATR 42, Dornier 328, Casa 235 og DASH 8. Valið var á milli þessara flugvélategunda í útboði vegna flugvélakaupa Sænsku strandgæslunnar á síðasta ári og er ljóst að þarfir Landhelgisgæslunnar eru svipaðar.  Sjá myndir af flugvélunum í myndaleit á google.com. Dash 8 sem Sænska strandgæslan keypti í kjölfar útboðs.