Fréttayfirlit: október 2005

Starfsfólk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins heimsækir varðskipið Ægi

Föstudagur 28. október 2005.Síðastliðinn föstudag bauð Landhelgisgæslan Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra og starfsfólki dómsmálaráðuneytisins um borð í varðskipið Ægi til að skoða skipið eftir breytingar og endurbætur sem gerðar voru í Póllandi fyrr á árinu. Fyrirhugað var að fara í stutta siglingu en vegna veðurs var hætt við það. Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra þakkaði fyrir gott boð og af þessu tilefni gaf hann skipinu nýtt lagasafn sem hann afhenti Halldóri B. Nellett skipherra varðskipsins Ægis.Jón Páll Ásgeirsson tók meðfylgjandi myndir er starfsfólk ráðuneytisins heimsótti skipið.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra afhenti Halldóri Nellett skipherra nýtt lagasafn fyrir skipið um leið og hann þakkaði fyrir boðið. Lagasafnið kemur sér afskaplega vel því að áhafnir skipanna fara með lögregluvald á hafinu og oft og tíðum eru engir möguleikar á að komast á vefinn til að skoða lagasafnið þar þegar á þarf að halda. Georg Kr. Lárusson bauð gesti velkomna og þakkaði ráðherra fyrir góða gjöf. Hann sagði að það hafi verið ákveðið á sólbjörtum sumardegi að bjóða dóms- og kirkjumálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins í siglingu á varðskipinu Ægi en nú væru veður válynd og leit að neyðarsendi stæði yfir þannig að það væri vart þorandi eins og sakir stæðu að láta úr höfn því þá gæti ráðuneytisfólkið endað úti á hafi í björgunarleiðangri.  Halldór B. Nellett hafði orð á því að um borð í varðskipinu væri 18 manna áhöfn og þar af þrír starfsmenn konur.  Þótt þær væru ekki margar væri fjöldi þeirra um borð með mesta móti miðað við það það sem áður var. Georg Kr. Lárusson forstjóri hefði lýst því yfir að hann vildi auka hlut kvenna hjá Landhelgisgæslunni. Halldór taldi að það væri einstakt í íslenskri útgerðarsögu að hafa verið með sama skipsnafnið, Ægir, í notkun síðan 1929 og einungis notað til þess tvö skip.  Gamli Ægir hafi verið í notkun í tæp 40 ár og ,,nýi" Ægir orðinn 37 ára.  Einungis hafi örfáir mánuðir liðið á milli skipa.  Hluti af áhöfn Ægis frá vinstri, Jakob V. Guðmundsson vélstjóri, Birkir Pétursson smyrjari, Sævar Már Magnússon háseti, Linda Ólafsdóttir háseti og Guðrún Einarsdóttir háseti.Þórunn Lind Elíasdóttir háseti, Adrian King fagstjóri sprengjusveitar, Jónas Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar og Thorben J. Lund yfirstýrimaður.Í setustofu varðskipsins Ægis var sýnd kynning Gylfa Geirssonar á skipinu, þ.m.t. myndir af skipinu eins og það var fyrir breytingar, myndir frá Póllandi sem sýndu breytingarnar stig af stigi og síðan myndir af skipinu eins og það lítur út í dag. Frá vinstri: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Halldór B. Nellett skipherra, Jónas Ingi Pétursson rekstrarhagfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Jón Geir Jónatansson bílstjóri ráðherra, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri LHG, Gylfi Geirsson yfirmaður fjarskipta- og upplýsingatæknisviðs LHG og Þorsteinn Helgi Steinarsson verkefnisstjóri fjarskipta- og upplýsingatækni í dómsmálaráðuneytinu.Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Árni Vésteinsson deildarstjóri kortadeildar, Eygló Halldórsdóttir ritstjóri Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins og Einar H. Valsson yfirstýrimaður á varðskipinu Ægi skoða stjórntæki skipsins. Benóný var áður stýrimaður á varðskipinu Ægi og því þekkir hann vel stjórntæki skipa og loftfara. Reyndar hefur orðið mikil breyting á stjórnstækjunum síðan Benóný stóð vaktir á stjórnpalli Ægis á sínum tíma.Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý útskýrir hvernig tækin virka. Hlín Þórhallsdóttir rekstrarfulltrúi og Eygló Halldórsdóttir ritstjóri Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs fylgjast með af athygli ásamt Sólmundi Má Jónssyni framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Landhelgisgæslunni.Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi ræðir við Jónas Inga Pétursson rekstrarhagfræðing í dómsmálaráðuneytinu.Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók þessa mynd af Ægi nýlega. Brúin hefur verið stækkuð og endurbætt, þ.m.t. stjórntæki skipsins, vistarverur skipverja endurnýjaðar og skipið hefur nú nýtt og öflugra spil.   

Leit að neyðarsendi hefur ekki borið árangur

Laugardagur 29. október 2005.Leit að neyðarsendi hefur engan árangur borið.  Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar, flaug yfir leitarsvæðið í gær og björgunarsveitir og björgunarskip af Suðurnesjunum leituðu einnig eins og fram kom í fréttatilkynningu í gær. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga heldur áfram að kanna hvort neyðarskeytin berast frá skipi eða flugvél í neyð en enn sem komið er bendir ekkert til að svo sé og engin skýring hefur fengist á því hvers vegna neyðarskeytin hafa borist.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Leitað að neyðarsendi suður af Reykjanesskaganum

Föstudagur 28. október 2005.Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór í loftið kl. 13:50 til að reyna að finna neyðarsendi sem hefur sent neyðarskeyti um gervihnött frá því í morgun.  Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddur V. Gíslason, hefur einnig verið sendur til leitar. Svo virðist sem neyðarsendirinn sé staðsettur suður af Reykjanesskaganum.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga hefur haft samband við skip og báta á svæðinu en enn er ekki vitað hvaðan neyðarskeytin koma. Flugvélar í aðflugi til Keflavíkur hafa flogið yfir svæðið og hafa ekki orðið varar við neyðarsendingarnar.  Björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Grindavík hefur einnig reynt að miða út neyðarsendingarnar úr bifreiðum í landi. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Kafarar Landhelgisgæslunnar vinna við að losa nótina úr skrúfu síldveiðiskipsins Hákons EA-148

Miðvikudagur 26. október 2005. Nú eru 6 kafarar frá Landhelgisgæslunni að vinna við að losa nótina úr skrúfu síldveiðiskipsins Hákons EA-148 í Sundahöfn en varðskipið Ægir kom með Hákon til Reykjavíkur snemma í morgun.  Vel gekk að draga skipið til hafnar að sögn Halldórs Nellett skipherra á Ægi og er búist við að köfurunum takist að ná nótinni úr skrúfunni í kvöld. Meðfylgjandi mynd tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Ægi af síldveiðiskipinu Hákoni er varðskipið var með það í drætti í gær.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.

Björgunarþyrlan Líf flutti hjartveikan mann á sjúkrahús

Miðvikudagur 26. október 2005.Læknir á Ólafsvík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 13:06 og óskaði eftir þyrlu til að sækja mann sem var með kransæðastíflu.  Áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 13:33.  Lent var á Rifi en þangað var sjúklingurinn fluttur með sjúkrabíl.  Þar sem flytja átti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut lenti þyrlan við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og þar beið sjúkrabíll eftir manninum.  Þyrlan lenti þar kl. 14:48.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.

Bandaríska skútan Vamos sennilega sokkin - neyðarsendir út skútunni fundinn

Þriðjudagur 25. október 2005.Þyrla frá danska  varðskipinu Hvidbjörnen fann nýlega neyðarsendi skútunnar Vamos skammt undan strönd Grænlands en eins og fram kom í fréttum 27. september sl. björguðu áhafnir þyrlunnar Lífar og flugvélarinnar Synjar einum skipbrotsmanni af skútunni en félagi hans fórst.Áður en Adam skipstjóri skútunnar var hífður frá borði gekk hann frá neyðarsendinum inni í lokaðri skútunni.  Þar af leiðandi er nokkuð víst að skútan er sokkin, þ.e. þar sem neyðarsendirinn fannst á floti í sjónum. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Varðskipið Ægir á leið til Reykjavíkur með síldveiðiskipið Hákon í togi

Þriðjudagur 25. október 2005.Skipstjórinn á síldveiðiskipinu Hákoni EA-148 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga í morgun og óskaði eftir aðstoð þar sem skipið hafði fengið nótina í skrúfuna.  Skipið hafði verið að síldveiðum í Jökuldýpi sem er suðvestur af Snæfellsjökli.Varðskipið Ægir hélt þegar af stað í átt til skipsins og kom að því um kl. 8 í morgun.  Köfurum varðskipsins tókst ekki, vegna kviku, að ná veiðarfærunum úr skrúfu skipsins og var því Hákon tekinn í tog.  Skipin eru nú á siglingu í átt til Reykjavíkur. Hákon EA-148 er gerður út frá Grenivík og er 1553.6 brúttórúmlestir og 76 metrar að lengd. Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, flaug yfir skipin í morgun, rétt í þann mund er Ægir tók Hákon í tog, og þá tók Tómas Helgason flugstjóri meðfylgjandi myndir.  Einnig fylgir mynd Bjarna Hákonarsonar sem hann tók af varðskipinu Ægi er það hélt frá Reykjavík í gær. Myndina kallar hann Mission to the Moon og sendi hann Landhelgisgæslunni myndina með kveðju til áhafnar Ægis. Afabróðir Bjarna var Eiríkur Kristófersson skipherra hjá Landhelgisgæslunni svo hann á ekki langt að sækja áhuga á varðskipum.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Varðskipið Ægir með síldveiðiskipið Hákon EA-148 í togi. Mynd: Tómas Helgason.Varðskipið Ægir á leið frá Reykjavík í gærkvöldi. Mynd: Bjarni Hákonarson.

Ný mynd af Kolbeinsey

Föstudagur 21. október 2005Flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, var í eftirlitsflugi úti fyrir Norðurlandi í dag og flaug meðal annars yfir Kolbeinsey sem sjá má á meðfylgjandi mynd sem Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar tók.Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók myndir af eyjunni 27. apríl í fyrra er Týsmenn stigu þar á land.  Myndirnar eru hér á heimasíðunni á slóðinni: /displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1236  

Norsku varðskipsmennirnir á heimleið eftir að hafa verið nauðugir í haldi í rússneska togaranum Elektron

Fimmtudagur 20. október 2005.Varðskipsmennirnir tveir sem hafa verið nauðugir í haldi áhafnar rússneska togarans Elektron síðan á mánudag var sleppt í morgun kl. 8 og eru þeir á heimleið. Elektron er kominn inn í rússneska landhelgi og veltur framhald málsins á því hvernig rússnesk yfirvöld taka á málinu.Þetta kemur fram á heimasíðu norska dagblaðsins Aftenposten í dag á slóðinni:http://www.aftenposten.no Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Viðamikil samæfing Landhelgisgæslunnar, Vaktstöðvar siglinga og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins - viðbrögð við bruna um borð í skipi

Miðvikudagur 19. október 2005. Í gær héldu Landhelgisgæslan, Vaktstöð siglinga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sameiginlega æfingu í viðbrögðum við bruna í skipi. Æfingin hófst með því að varðskipið Ægir hafði samband við Vaktstöð siglinga og tilkynnti að kviknað hefði í skipinu.  Vaktstöð siglinga kallaði þá út Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins í gegnum Neyðarlínuna. Einnig voru áhafnir varðskipsins Týs og þyrlunnar Lífar kallaðar út. Þyrlan flutti svo slökkviliðsmenn með reykköfunartæki um borð í varðskipið Tý.  Þaðan fóru slökkviliðsmenn ásamt varðskipsmönnum á léttbát um borð í varðskipið Ægi.  Léttbáturinn var við síðuna á Ægi með dælur sem notaðar voru við slökkvistörfin. Um borð í Ægi beið slökkvliðismanna og reykköfunarmanna varðskipsins það verkefni að bjarga fimm mönnum sem ekki höfðu komist út úr skipinu, slökkva eldinn og reykræsta skipið.Alls unnu 15 slökkviliðsmenn og varðskipsmenn við reykköfun en 5 aðrir slökkviliðsmenn voru um borð í Ægi við stjórnun aðgerða og aðhlynningu slasaðra.  Eftir að mönnunum fimm sem saknað var hafði verið náð út úr skipinu, kom í ljós að 3 þeirra voru á lífi en tveir látnir.  Þyrlan flutti þá sem voru lifandi í land.  Meðfylgjandi myndir tóku yfirstýrimennirnir Thorben J. Lund og Jón Páll Ásgeirsson.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Líf og Ægir. Ef vel er að gáð má sjá reykinn leggja frá skipinu. Ýmislegt var gert til að láta æfinguna vera sem raunverulegasta. Mynd TJL. Líf að slaka slökkviliðsmönnum niður í varðskipið Tý. Mynd JPA. Hlúð að þeim sem komust líf af.  Magnús Örn Einarsson yfirstýrimaður í flugdeild, Hlynur Þorsteinsson læknir í áhöfn þyrlunnar Lífar ásamt sjúkraflutningamönnum frá SHS. Mynd JPA. Týr og léttbátar. Mynd JPA.Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn frá SHS.  Samvinna varðskipsmanna og slökkviliðsmanna tókst með ágætum. Mynd JPA. Halldór Nellett skipherra í brúnni á varðskipinu Ægi að fylgjast með varðskipinu Tý. Mynd JPA. Léttbátur Týs á fleygiferð í átt að varðskipinu Ægi og vatnsdælan í fullum gangi. Mynd TJL. Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn bera saman bækur sínar um borð í Ægi. Mynd JPA. Ægir og Líf. Mynd TJL.Vaskir slökkviliðsmenn frá SHS: Aftari röð frá vinstri: Höskuldur Einarson, Jörgen Valdimarsson, Guðjón S. Magnússon, Björgvin S. Jónsson, Hörður Halldórsson, Ragnar Guðmundsson, Gestur Pétursson og Björn Á. Björnsson. Fremri röð frá vinstri: Katla Hjartardóttir (nemi frá Svíþjóð), Eggert Guðmundsson, Pétur Arnþórsson, Kristján Þ. Henrysson og Sigurjón Hendriksson. Mynd: JPA.

Skipherrann á Tromsø íhugar að beita rússneskan togara vopnavaldi inni í rússneskri efnahagslögsögu

Mánudagur 17. október 2005.Skipherra norska strandgæsluskipsins KV Tromsø íhugar að beita rússneska togarann Elektron vopnavaldi þar sem skipstjóri rússneska skipsins neitaði að hlýða fyrirmælum og sigldi frá strandgæsluskipinu með tvo norska varðskipsmenn um borð í gærmorgun.Togarinn var stöðvaður vegna eftirlits sl. laugardag og tveir norskir fiskveiðieftirlitsmenn frá strandgæsluskipinu fóru um borð.  Þá voru skipin stödd á Barentshafi nálægt landamærum svæðis þar sem deilur standa um rétt til fiskveiða. Skipstjóri Elektron fékk fyrirmæli um að halda til Tromsø eftir að varðskipsmennirnir höfðu komist að raun um að togarinn notaði ólögleg net og veiddi undirmálsfisk á eftirlitssvæðinu sem Norðmenn telja vera undir lögsögu Noregs.  Norska strandgæslan hafði lýst því formlega yfir við skipstjóra rússneska togarans að hann væri handtekinn og hann samþykkti þau fyrirmæli að sögn Steve Olsen yfirmanns norðurdeildar norsku strandgæslunnar.   Eftir það sigldi skipstjóri togarans í átt til Tromsø eins og fyrir hann var lagt en breytti svo skyndilega um stefnu í gærmorgun.  Áhöfn togarans heldur því fram að hún hafi fengið tilmæli frá rússneskum yfirvöldum að hunsa fyrirmæli norskra yfirvalda.  Seinna kom áhöfnin með aðra yfirlýsingu þar sem því var haldið fram að rússnesk stjórnvöld hefðu skipað áhöfninni að sigla inn í rússneska lögsögu.Norska strandgæsluskipið KV Tromsø hélt í humátt á eftir rússneska togaranum í gegnum umdeilda veiðisvæðið og inn í 200 sjómílna rússnesku efnahagslögsöguna í Barentshafi og eru skipin nú að nálgast 12 sjómílna landhelgi Rússlands.  Norðmenn hafa lagalegt vald til að beita rússneska skipið valdi þar til það kemst inn í 12 sjómílna landhelgina en veðrið er svo slæmt að strandgæslan hefur ekki komið fleiri mönnum um borð í togarann.  Þess vegna eru Norðmennirnir að velta því fyrir sér að skjóta á togarann til að stöðva hann.  Einnig hefur skipherrann á Tromsø þann möguleika að nota þyrlu til að koma fleiri varðskipsmönnum um borð í togarann.Utanríkisráðuneyti Noregs og Rússlands hafa verið í sambandi síðan á laugardagsmorgun. Talsmaður norska sjóhersins sagði að ekkert benti til þess að illa væri farið með norsku varðskipsmennina um borð í Elektron.  Þetta kemur fram á heimasíðu Aftenposten í dag á slóðinni:http://www.aftenposten.no/ Lausleg þýðing: DS.

Glæsileg afmælisveisla flugdeildar

Mánudagur 17. október 2005 Meðfylgjandi myndir voru teknar í afmælisveislu flugdeildar Landhelgisgæslunnar sl. föstudag.  Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fagnaði afmælinu með starfsfólki Landhelgisgæslunnar og hafði á orði að gaman væri að sjá gamla vinnufélaga í salnum en hann var sem unglingur háseti á varðskipi Landhelgisgæslunnar.  Hann tók einnig fram að hann hefði ekki heyrt eina einustu gagnrýnisrödd vegna ráðstöfunar fjár til kaupa á varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Í ræðu sinni minnti hann á stuðning Slysavarnarfélagins Landsbjargar við kaup á tækjakosti fyrir Landhelgisgæsluna í gegnum tíðina. Georg Kr. Lárusson forstjóri setti hátíðina og bauð gesti velkomna.  Hann sagði stórhuga menn hafa átt frumkvæði að því að hefja flug á vegum Landhelgisgæslunnar. Einn þeirra forvígismanna hafi verið Guðmundur Kjærnested skipherra og hans væri minnst með söknuði og virðingu. Flugdeildin hafi allt frá upphafi verið öflug og helgist það fyrst og fremst af þeim ágæta mannskap sem Landhelgisgæslan hefur, alla tíð, haft á að skipa. Hjá Landhelgisgæslunni vinni fólk ekki aðeins af brennandi áhuga heldur einnig af hugsjón.  Georg hafði orð á því að þótt sum tæki Landhelgisgæslunnar væru ekki af nýjustu gerð þá væri þeim einstaklega vel við haldið. Að síðustu minnti hann á nýtt slagorð Landhelgisgæslunnar: ,,Við erum til taks". Júlía Björnsdóttir, Hafsteinn Hafsteinsson fyrrverandi forstjóri og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fylgjast með dagskrá kvöldsins. Hafsteinn flutti ávarp og þakkaði starfsfólki Landhelgisgæslunnar fyrir gott samstarf og óskaði til hamingju með áform um nýtt skip og flugvél. Hann sagði að einnig væri kominn tími til að huga að nýrri og öflugri björgunarþyrlu. Gunnar Bergsteinsson fyrrverandi forstjóri flutti ávarp og minntist uppbyggingar Landhelgisgæslunnar.  Sérstaklega þó uppbyggingu flugskýlisins sem hafist var handa við byggingu á eftir að þyrlan Rán og áhöfn hennar fórst. Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Guðjón Jónsson fv. yfirflugstjóri, Páll Halldórsson fv. yfirflugstjóri og Dagmar Sigurðardóttir lögfr.  Yfirflugstjórarnir tóku þátt í athöfn sem fólst í því að festa í sessi nöfn loftfara Landhelgisgæslunnar en með þessari athöfn afhjúpuðu yfirflugstjórarnir nöfn vélanna hafa nú verið máluð á loftförin auk skýringa á uppruna þeirra.  Benóný og Páll flugu þyrlunum Sif og Líf til landsins en Guðjón flaug flugvélinni Syn heim.Meðal gesta afmælishátíðarinnar voru flugvélasérfræðingar frá sænsku strandgæslunni og flutti Dóróthea Lárusdóttir fulltrúi í flugdeild ávarp á móðurmáli þeirra og bauð þá velkomna.  Í þakkarskyni fyrir gott samstarf gáfu þeir Landhelgisgæslunni lukkudýr sem er Örn merktur sænsku strandgæslunni. Á myndinni er Ake Dannevik að flytja ávarp og afhenda lukkudýrið góða.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.           

Hálfrar aldar afmæli flugdeildar Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 14. otkóber 2005.Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag: Á þessu ári er liðin hálf öld frá því að Landhelgisgæslan eignaðist fyrstu flugvélina en það gerðist 10. desember 1955. Landhelgisgæslan hafði áður leigt Grumman Goose flugbát til landhelgisgæslustarfa af Flugfélagi Íslands sumarið 1948-1949 sem bar einkennisstafina TF-ISR.  Fyrsta flugvél Landhelgisgæslunnar, sem flugdeildin miðar afmælisár sitt við, var Katalínaflugbátur, sem bar einkennisstafina TF-RAN, og var af gerðinni Consolidated PBY-6A.  Rán var notuð til ársins 1962 en þá eignaðist Landhelgisgæslan Douglas DC-4, Skymasterflugvél, sem bar einkennisstafina TF-SIF og var í eigu Landhelgisgæslunnar þar til hún var seld til Bandaríkjanna í október 1971.  Þyrlur komust á spjöld flugsögu Landhelgisgæslunnar árið 1965 en stofnunin eignaðist sína fyrstu þyrlu í apríl það ár.  Þyrlan fékk einkennisstafina TF-EIR en hún var af gerðinni Bell Ranger 47-J og dugði í ríflega 6 ár eða allt þar til hún brotlenti á Skíðamannaafrétti á Rjúpnafelli í 830 metra hæð 9. október 1971.  Tveir menn sem voru um borð í þyrlunni slösuðust ekki.  Í ársbyrjun 1972 keypti Landhelgisgæslan flugvél af gerðinni Fokker F-27-200 sem bar einkennisstafina TF-SYR og var hún í notkun til ársins 1982.  Fyrsta eiginlega björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar var einnig keypt árið 1972 og fékk hún einkennisstafina TF-GNA.  Hún var af gerðinni Sikorsky S-62 og var sérstaklega hönnuð til gæslustarfa yfir sjó.  Gná brotlenti á Skálafelli 3. október 1975 eftir að öxull í stélskrúfu brotnaði en áhöfnina sakaði ekki. Þyrlufloti Landhelgisgæslunnar var nokkuð öflugur árið 1973 en þá eignaðist Landhelgisgæslan einnig tvær þyrlur af gerðinni Bell.  Þær báru einkennisstafina TF-HUG og TF-MUN.  Upphaflega voru þær keyptar þar sem þær þóttu henta vel til eftirlits, gæslustarfa og krókvinnu.  Þær gátu smæðar sinnar vegna lent á palli varðskipanna og þóttu hafa góða burðargetu miðað við stærð.  Reynslan af þessum þyrlum var þó ekki góð og var hætt að nota þær í desember 1974 eftir að ýmis óhöpp höfðu átt sér stað. Árið 1976 var enn ein þyrlan keypt en hún var af gerðinni Hughes 500 C og bar einkennisstafina TF-GRO.  Hún brotlenti fjórum árum síðar, 19. nóvember 1980, við Búrfellsvirkjun eftir að hún hafði flogið á loftlínu. Enginn slasaðist við það óhapp.  Árið 1976 var einnig keypt flugvél af gerðinni Fokker Friendship F-27, sem hlaut einkennisstafina TF-SYN.  Syn er enn í notkun hjá Landhelgisgæslunni en ríkisstjórnin hefur ákveðið að kaupa nýja eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæsluna og er reiknað með að hætt verði að fljúga Syn á næsta ári.  Sama ár og TF-GRO brotlenti, 1980, eignaðist Landhelgisgæslan þyrlu af gerðinni Sikorsky S-76 og bar hún einkennisstafina TF-RAN.  Rán var vel útbúin og hafði meðal annars öflug spil til björgunarstarfa. Sá hörmulegi atburður gerðist  8. nóvember 1983 að Rán fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum og með henni fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þeir Björn Jónsson flugstjóri, Þórhallur Karlsson flugstjóri, Bjarni Jóhannesson flugvélstjóri og Sigurjón Ingi Sigurjónsson stýrimaður.  Árið 1981 eignaðist Landhelgisgæslan þyrlu af gerðinni Hughes 500 D en hún var nokkuð svipuð og TF-GRO sem brotlenti við Búrfellsvirkjun og hlaut sömu einkennisstafi og hún.  Þriðja þyrlan með þessum einkennisstöfum, TF-GRO, kom til Landhelgisgæslunnar árið 1986 og var þá nafna hennar seld.  Nú hefur Landhelgisgæslan tvær þyrlur, þ.e. Sif (af gerðinni Aerospatiale Dauphin II SA-365 N) sem tekur 8 farþega í sæti og hefur 400 sjómílna hámarksflugdrægi og Líf (af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1) sem tekur 20 farþega í sæti og hefur 625 sjómílna hámarksflugdrægi.  Landhelgisgæslan eignaðist Sif, sem ber einkennisstafina TF-SIF, árið 1985 og á hún því 20 ára afmæli en Líf sem ber einkennisstafina TF-LIF, kom til landsins árið 1995 og er því 10 ára gömul. Landhelgisgæslan hefur valið daginn í dag til að halda hátíð af því tilefni að 50 ár eru liðin frá því að fyrsta flugvélin var keypt til Landhelgisgæslunnar, 40 ár frá því að fyrsta þyrlan kom og Sif er 20 ára og Líf 10 ára. Landhelgisgæslan fagnaði því einnig nýverið að flugtæknideildin hlaut EASA-vottun en það er til marks um að deildin uppfylli öryggisstaðla Flugöryggisstofnunar Evrópu.  Það er eitt af meginmarkmiðum Landhelgisgæslunnar að stuðla að sem mestu öryggi í flugrekstri sínum, starfsfólki, landsmönnum og sjófarendum, sem þessi öflugu björgunartæki þjóna, til heilla.Höfundur: Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur og upplýsingaftr. Landhelgisgæslu Íslands

Selskersviti kominn í gagnið á ný

Miðvikudagur 12. október 2005.Áhafnir varðskipa sinna fjölbreytilegum verkefnum. Meðal annars sér Landhelgisgæslan um viðhald vita fyrir Siglingastofnun.  Á meðfylgjandi myndum sem Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður á Tý tók á dögunum má sjá léttbát varðskipins Týs við Selsker á Húnaflóa. Selskersviti var hættur að lýsa og við athugun varðskipsmanna kom í ljós að ljósnemi í vitanum var bilaður.  Hreggviður Símonarson stýrimaður og Unnþór Torfason vélstjóri fóru því upp í vitann og skiptu um ljósnema svo nú er hann farinn að vísa sjófarendum veginn á ný. Í bátnum eru Hreinn Vídalín bátsmaður og Rögnvaldur K. Úlfarsson háseti.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Sjúkraflug Lífar vegna slasaðrar konu í Borgarfirði

Mánudagur 10. október 2005.Læknir í Borgarnesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gegnum Neyðarlínuna kl. 19:49 á laugardagskvöldið vegna sextugrar konu sem hafði fallið niður stiga á sveitabæ á Mýrum. Konan hafði fengið höfuðáverka og var meðvitunarlítil.  Læknir í áhöfn þyrlunnar Lífar taldi nauðsynlegt að sækja konuna með þyrlu eftir að hann hafði fengið upplýsingar um ástand hennar og var áhöfn Lífar kölluð út kl. 19:53.  Líf fór í loftið kl. 20:20 og sjúkrabíll fór af stað með konuna áleiðis á móti þyrlunni.  Líf lenti við Bretavatn, norðnorðvestur af Borgarnesi, kl. 20:39 þar sem konan var flutt yfir í þyrluna.  Líf lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 21:01.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Björgunaræfingar flugáhafna í Aberdeen

Fimmtudagur 6. október 2005.Eins og gefur að skilja þurfa flugáhafnir Landhelgisgæslunnar að vera í stöðugri þjálfun til að vera reiðubúnar að sinna björgunarstörfum við erfiðar aðstæður úti á hafi og einnig er nauðsynlegt fyrir starfsmenn í flugáhöfnum að kunna að bjarga sjálfum sér við slíkar aðstæður.Í því skyni fara flugáhafnir á tveggja ára fresti til Aberdeen í þjálfun í að bjarga sér úr sökkvandi þyrlu.  Einnig eru starfsmenn þjálfaðir í að nota loftflöskur og að bjarga sér um borð í gúmmíbjörgunarbáta við erfiðar aðstæður.  Til samanburðar má geta þess að starfsmenn olíuborpalla í Norðursjó verða reglulega að fara í samskonar þjálfun til að viðhalda réttindum sínum.Æfingarnar fara fram hjá fyrirtækinu Nutec í Aberdeen.  Fyrst er byrjað á venjulegum björgunaræfingum, björgunarsundi með mismunandi aðferðum, æfingu í að komast upp í björgunarbáta og helstu aðferðum sem nota á þegar skip eða þyrla sekkur.  Menn eru æfðir í að komast í björgunarvesti í sjó og þegar hópurinn er kominn upp í björgunarbáta eru tveir í áhöfn látnir róa bátnum þar til komið er að krana sem hífir alla upp í björgunarlykkju.  Reynt er að líkja eftir aðstæðum á sjó með því að framkalla öldugang og hávaða, slökkva ljósin og sprauta á menn með háþrýstislöngum þegar þeir eru að reyna að bjarga sér.Eftir að hefðbundnum björgunarbátaæfingum er lokið er hópnum skipt í tvennt.  Annar æfir sig í að nota loftflösku í vatninu á meðan hinn fer í þyrlulíkan sem er hvolft í sundlauginni.  Loftflöskurnar eru litlar og duga aðeins skamma stund á meðan menn eru að bjarga sér út úr þyrlunni. Lokastig æfingar í þyrlulíkani felst í því að mönnum er sökkt í líkaninu ofan í laugina, líkanið er látið snúast í hálfan hring og síðan fyllist það af vatni.  Við þær aðstæður þurfa menn að bjarga sér út úr því og tókst öllum það bærilega í þessari ferð.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri kominn upp á gúmmíbjörgunarbátinn sem er á hvolfi en þá á hann eftir að snúa honum við.Aftari röð frá vinstri: Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild, Sigurður Heiðar Wiium þyrluflugmaður og Gísli E. Haraldsson læknir. Fremri röð: Sverrir Erlingsson flugvirki og Viggó M. Sigurðsson kafari, starfsmaður í sprengjudeild.  Á stönginni er Jakob Ólafsson þyrluflugstjóri æfður í því að fara afturábak í kaf og nota loftflöskuna á hvolfi í lauginni.Gaman, gaman! Sverrir er greinilega í banastuði í lauginni.Stund milli stríða.  Auðunn  F. Kristinsson yfirstýrimaður, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Þengill Oddsson læknir og Gísli E. Haraldsson læknir. Komnir inn í þyrlulíkanið. Nú fer að versna í því.Þyrlulíkanið fer á bólakaf, og snýst í hálfhring í vatninu og fyllist af vatni. Við þessar aðstæður er hætt við að menn ruglist í ríminu en allir komust þó heilir frá þessu.Eftir volkið skellir maður sér í sturtu. Björn Brekkan Björnsson flugrekstrarstjóri gætir þó fyllsta velsæmis á meðan myndatökumenn eru á stjái.
Síða 1 af 2