Fréttayfirlit

Fréttavefur Landhelgisgæslunnar óvirkur um sinn

Bilun hefur verið hjá vefþjóni Landhelgisgæslunnar og því hefur ekki verið hægt að setja fréttir á vefinn síðastliðinn sólarhring.  Þetta stendur til bóta í dag.

Forval vegna smíði nýs varðskips og útboð á nýrri flugvél fyrir Landhelgisgæsluna auglýst á þessu ári

Eftirfarandi fréttatilkynning var birt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins í morgun: Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti ríkisstjórn í morgun að farið verði í forval á skipasmíðastöðvum sem uppfylltu ákveðin skilyrði m.t.t. rekstrarstöðu og reynslu af sambærilegum verkefnum vegna smíði nýs varðskips fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Í kjölfar forvals verði valdir 5-10 aðilar sem síðan fái að bjóða í smíði á nýju fjölnota varðskipi. Helstu kröfur til nýs varðskips eru, að það geti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, sinnt mengunarvörnum, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrlna á flugi og brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu. Skipið verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, nýst til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Í björgunarhlutverkinu felst m.a að draga skip og báta og við framkvæmd þess þarf að miða við, að umferð stórra flutningaskipa stóraukist um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum. Tímaáætlun verkefnisins er sem hér segir: Forval auglýst á EES                  24. nóvember nk. Opnun forvalsgagna                    12. janúar 2006 Þarfalýsing LHG lögð fram          15. febrúar 2006 Opnun verðtilboða                      14. maí 2006 Gert er ráð fyrir að samningagerð verði lokið í júní 2006 og að nýtt fjölnota varðskip Landhelgisgæslu Íslands verði afhent innan 30 mánaða frá undirritun samnings. Vinnuhópur Landhelgisgæslu Íslands hefur undanfarna mánuði unnið að tæknilýsingu fyrir útboð á nýrri flugvél fyrir gæsluna. Leitað hefur verið til Försvarets Materialverk (FMV) í Svíþjóð, en FMV hafði yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd útboðs sænsku strandgæslunnar á þremur eftirlitsflugvélum. Tímaáætlun verkefnisins er sem hér segir: Drög (1. útg) tilbúin                     15. des. 2005 Útboð auglýst á EES                  22. des. 2005 Tilboð opnuð þann                      8. mars 2006 Niðurstaða útboðs                      8. maí 2006 Samningur undirritaður                7. júní 2006 Afhending vélar til LHG               7. des. 2007 Reykjavík, 23. nóvember 2005

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar kallaðir til Eskifjarðar

Í dag var beðið um aðstoð sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar vegna tundurdufls sem áhöfn þýsks togara setti upp á bryggjunni á Eskifirði. Togarinn fékk duflið í netið og kom með það að landi.  Sprengjusérfræðingarnir fengu far með Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, til Egilsstaða og héldu svo til Eskifjarðar þar sem þeir gerðu duflið óvirkt og eyddu því.  

Almannavarnaæfing á Seyðisfirði

Mánudagur 21. nóvember 2005. Laugardaginn 19. nóvember fór fram hópslysaæfing á Seyðisfirði.  Margir viðbragðsaðilar tóku þátt í æfingunni.  Á heimasíðu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, http://www.almannavarnir.is, er mjög ítarleg frásögn af æfingunni en hún fólst í að æfa viðbrögð við alvarlegu slysi um borð í ferju á Seyðisfirði. Eins og fram kemur á heimasíðu Almannavarna er líkt eftir því að ferjan Sky Princess sé lögst að bryggju og afferming að hefjast.  Það verður sprenging í gaseldavél í húsbíl á bílaþilfari og talsverður eldur kviknar sem breiðist hratt út, farþegar fyllast skelfingu og reyna að ryðjast frá borði, margir troðast undir auk þess sem allmargir sem á bílaþilfarinu voru eru slasaðir og í mikilli hættu vegna elds og reyks.Varðskipið Ægir lék ferjuna Sky Princess að þessu sinni og tók áhöfn skipsins virkan þátt í æfingunni enda er hún sérstaklega þjálfuð í viðbrögðum við eldsvoða um borð í skipi.  Sjá nánari frásögn af æfingunni á heimasíðu Almannavarna.Meðfylgjandi myndir tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingafulltrúi. JViðbragðsaðilar á þyrlupalli varðskipsins Ægis. Eins og sjá má hefur verið sett upp tjald á pallinum og var þyrluskýlið og tjaldið fullt af reyk til að gera aðstæður eins eðlilegar og mögulegt var. Síðan þurfti að fara inn í þyrluskýlið og tjaldið og leita að slösuðu fólki.Yfirmenn viðbragðsaðila og fleiri fræðast um æfinguna.Gert að sárum fórnarlamba slyssins.Björgunarskipið Hafbjörg á Norðfirði kemur að varðskipinu Ægi (Sky Princess) með björgunarfólk. Reykkafarar koma út úr kófinu og aðrir halda inn í það.  Aðalskipuleggjendur æfingarinnar, Víðir Reynisson æfingarstjóri frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Einar Sigurgeirsson varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / Vaktstöð siglinga (keyrslustjóri æfingarinnar).Læknir að störfum inni í íþróttahúsinu þar sem slösuðu fólki var safnað saman. Fleiri slasaðir fá aðhlynningu.Sýslumaðurinn á Seyðisfirði, Ástríður Grímsdóttir og félagar hennar í aðgerðastjórn ráða ráðum sínum.  Aðgerðastjórnin hafði aðsetur í björgunarsveitarhúsinu á Egilsstöðum.Ástríður Grímsdóttir sýslumaður á Seyðisfirði ásamt kollegum sínum, Jóhanni Benediktssyni sýslumanni á Keflavíkurflugvelli og Sigríði Guðjónsdóttur sýslumanni á Ísafirði.Samhæfingarstöðin í Reykjavík tók virkan þátt í æfingunni en það er sameiginleg stjórn- og samræmingarstöð á landsvísu í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð.

NATO styrkir Northern Challenge æfingu Landhelgisgæslunnar gegn hryðjuverkum

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Adrian John King fagstjóri sprengjusveitar, heimsóttu höfuðstöðvar NATO í Brussel í síðustu viku. Á fundi þeirra með Marshall S. Billingslea, verkefnisstjóra NATO í vörnum gegn hryðjuverkum, kom fram að NATO myndi styrkja sprengjusveitaræfingu Landhelgisgæslunnar, Northern Challenge, á árinu 2006. Sprengjusérfræðingar frá NATO og öðrum ríkjum taka þátt í æfingunni, en á síðustu fjórum árum hefur hún orðið mikilvægur liður í þjálfun hjá NATO og PfP (Partners for Peace).   Æfinguna í ár sóttu sveitir frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Yfirmenn og sérfræðingar í vörnum gegn hryðjuverkum frá NATO fylgdust einnig með æfingunni. Styrkurinn til Landhelgisgæslunnar er hluti af víðtækum aðgerðum NATO til að styrkja tæknilega vinnu sem sérstaklega miðar að því að vinna gegn hryðjuverkum. Í henni felst m.a. að tryggja öryggi hafna og siglinga, vopna- og skotfæraeyðingu og verndun farþegaflugfélaga gegn t.d. flugskeytum sem skotið er af öxlinni (Man Portable Ground Launced Missiles). Landhelgisgæslan mun fá upplýsingar og framvinduskýrslur frá öllum þátttakendum í verkefninu og vonast er til að bæði þetta og samvinnan við aðrar þjóðir muni bæði gagnast Landhelgisgæslunni og öðrum öryggisstofnunum á Íslandi.   Þátttaka í vinnu sem þessari er mjög mikil áskorun fyrir Landhelgisgæsluna, þar sem hryðjuverkamenn hafa náð mikilli færni í sprengjugerð og mörg saklaus fórnarlömb verða fyrir þeim dag hvern. Styrkurinn mun verða notaður til að tryggja að æfingin verði í hæsta mögulega gæðaflokki til að veita sem besta þjálfun fyrir þá sem starfa við þau erfiðu og hættulegu verkefni að vinna með sprengjur hryðjuverkamanna.   Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar að störfum í Írak  

Starfsmenn Vaktstöðvar siglinga kynna sér starf björgunarsveitarinnar Ársæls

Síðastliðinn laugardag fóru starfsmenn Vakstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í kynnisferð hjá björgunarsveitinni Ársæli sem meðal annars sér um rekstur á björgunarbátnum Ásgrími S. Björnssyni fyrir hönd Slysavarnafélgsins Landsbjargar.  Björgunarsveitin á sjálf einnig harðbotna slöngubát og tvo sérútbúna slöngubáta.   Farið var í siglingu um Kollafjörð og Skerjafjörð og fengu starfsmennirnir að kynnast aðstöðunni um borð, heyra sjónarmið áhafnanna og gafst tækifæri til að sigla með slöngubátunum.  Með í för var samskiptafulltrúi Varnarliðsins við Landhelgisgæsluna ásamt tveimur Svíum frá systursamtökum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Svíþjóð.    Þegar að rökkva tók var gerð prófun á svifblysi sem ætlað er að lýsa upp hafflötinn í leitaraðgerðum en slík blys voru nýlega keypt í Ásgrím S. Björnsson að fenginni reynslu við leitaraðgerðir í slæmu skyggni.    Í lokin var öllum boðið í pizzu í Skógarhlíð í boði Vaktstöðvar siglinga en við það tækifæri var áhöfnum björgunarbátanna kynnt starfsemi stöðvarinnar. Áætluð er önnur ferð næstkomandi laugardag með þá starfsmenn Vakstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar sem ekki komust síðastliðinn laugardag vegna skyldustarfa. Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri, Hafsteinn Þorsteinsson varðstjóri, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður VSS, Ebenezar Bárðarson varðstjóri, Einar Sigurgeirsson varðstjóri, Bergþór Atlason varðstjóri. Árni Sigurbjörnsson varðstjóri, Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri, Hafsteinn Þorsteinsson varðstjóri, Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður VSS, Ebenezar Bárðarson varðstjóri.

Búið að eyða duflinu sem kom upp með veiðarfærum Þórunnar Sveinsdóttur VE

Laugardagur 12. nóvember 2005. Vel gekk að eyða tundurdufli sem kom upp með veiðarfærum togarans Þórunnar Sveinsdóttur í gær. Sprengjusérfræðingar höfðu lokið sínu verki kl. 23:30 og komu þeir til baka til Reykjavíkur með björgunarþyrlunni Líf kl. 2:20 í nótt.Sjá meðfylgjandi myndir sem Adrian King fagstjóri sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar tók.  Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.Sprengiefnishleðslan sem inniheldur 227 kg. af TNT sprengiefni. Forsprengja duflsins.

Ægismenn á reykköfunarnámskeiði hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Föstudagur 11. nóvember 2005.   Áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar þurfa að vera í stakk búnar til að bregðast við margvíslegum vandamálum á hafi úti.  Meðal annars þurfa áhafnirnar að geta slökkt eld um borð í skipum og jafnvel sækja fólk inn í brennandi skip.   Til þess að kunna réttu viðbrögðin fara reykkafarar og vettvangsstjórar varðskipanna reglulega á námskeið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) og þjálfa sig í reykköfun og slökkvistörfum á æfingasvæði þess við Úlfarsfell.  Starfsmenn SHS sjá um þjálfunina. Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Ægi tók meðfylgjandi myndir á námskeiði sem Ægismenn fóru á nýlega.  Að þessu sinni var æfð leit og björgun, leitað var í gámum fullum af reyk og fólki bjargað út úr þeim.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  Hásetarnir á Ægi, Hinrik og Óskar, nýkomnir út úr reiknum, sótugir og fínir. Þrír reykkafarar að koma út úr kófinu í fullum herklæðum

Tundurdufl í togara - Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar flutt með björgunarþyrlunni Líf austur fyrir land

Föstudagur 11. nóvember 2005.Tveir menn úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar héldu um þrjúleytið í leiðangur með björgunarþyrlunni Líf til að gera óvirkt tundurdufl sem kom upp með veiðarfærum togarans Þórunnar Sveinsdóttur VE-401.  Skipið er statt á Skrúðsgrunni út af Austfjörðum.  Ekki er talið að skipverjum sé hætta búin en nauðsynlegt er að sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar geri tundurduflið óvirkt áður en hreyft er við því. Skipstjóri Þórunnar Sveinsdóttur hafði fyrst samband við varðskipið Tý sem var í grenndinni og óskaði eftir aðstoð vegna torkennilegs hlutar sem komið hafði upp með vörpu togarans.  Taldi hann að e.t.v. væri um að ræða tundurdufl eða hlustunardufl.  Í framhaldi af því fóru varðskipsmenn frá Tý um borð í Þórunni og staðfestu í samráði við sprengjusveit Landhelgisgæslunnar að um tundurdufl væri að ræða, nánar tiltekið sprengiefnistunnu úr tundurdufli ásamt forsprengju og hvellhettu. Talið var nauðsynlegt að fá sprengjusérfræðing til aðstoðar án tafar og eru tveir menn úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar  á leiðinni með björgunarþyrlunni Líf austur fyrir land þar sem þeir munu síga niður í varðskipið Tý og fara þaðan um borð í Þórunni Sveinsdóttur.Skipin stefna í átt til Reyðarfjarðar.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Skólabörn á Seyðisfirði í heimsókn um borð í varðskipinu Ægi

Miðvikudagur 9. nóvember 2005.Það var líf og fjör um borð í varðskipinu Ægi á dögunum þegar grunnskólabörn á Seyðisfirði komu í heimsókn í varðskipið og skoðuðu það hátt og lágt.Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi átti þátt í að skipuleggja heimsókn yngri bekkja grunnskólabarna á Seyðisfirði og tók við það tækifæri meðfylgjandi myndir.  Að hans sögn komu tæplega 60 manns í allt í heimsókn, eða 59 með kennurum. Fyrri hópurinn kom kl. 10 og var tekið á móti þeim við landganginn og farið með þau undir skutfánann og tekin hópmynd. Eftir það var talað við krakkana um daginn og veginn og spurningum svarað um marga skemmtilega hluti þar sem athyglin var allstaðar og mjög einbeittur vilji til þess að fá svör við hlutunum. T.d kom spurning um af hverju okkar fáni væri eins og rifinn, skemmtileg spurning, og var henni svarað á þann hátt að þessi fáni væri ríkisfáni og væri því aðeins öðruvísi en venjulegur fáni. Næst var gengið um skipið úti og margir spennandi hlutir skoðaðir, bátar, fallbyssa, o.fl. sem er á skipinu. Þegar þessu var lokið var hópnum skipt í tvennt og skipið skoðað að innan. Inni í skipinu var brúin skoðuð og vélarrúmið. Í lokin var svo farið niður í eldhús þar sem brytinn og háseti í eldhúsi voru búin að setja smá sælgæti í poka handa gestunum. Eftir það fór hópurinn í land og kvaddi og þakkaði fyrir sig. Þá var klukkan orðin 11 og næsti hópur tilbúinn að koma um borð.Leikurinn var svo endurtekinn og allt gert eins og með fyrri hóp. Guðmundur lét kennarana fá skriflegar upplýsingar um skipið sem hann hafði útbúið og var tjáð að það myndi koma sér vel þar sem krakkarnir fara svo í hópavinnu um heimsóknina. Seinni hópur fór svo í land kl. 12 og tveggja tíma skemmtilegri morgunheimsókn lokið. Að sögn Guðmundar er mjög gaman að fara um skipið með börnum á þessum aldri úti á landi því það eru börnin sem búa við höfnina og sjá því skipin og áhöfnina oft. Eftir að hafa komið um borð og séð hvað er inni í skipinu öðlast þau nýja sýn á skipið og fólkið um borð.  Guðmundur skráði hjá sér nokkur gullkorn sem hann heyrði frá börnunum á meðan á heimsókninni stóð:  Svakalega eru margar tölvur um borð í svona skipi (allir skjáir, radarar og siglingarskjáir flokkaðir sem tölvur).Þarf svona marga síma á einni skrifstofu (talstöðvar og símtól í brúnni sett undir sama hatt). Ég ætla sko að verða stýrimaður þegar ég verð stór, það þarf að tala í svo marga síma.   Sævar Már háseti spurði börnin hvernig þeim litist á svona varðskip.  Ein stúlkan svaraði mjög skemmtilega: Þetta er svo sem ekkert merkilegt, nokkrar skrifstofur og einn matsölustaður. Hópur 1 á framdekki. Margt að skoða.Hópur 1 stillir sér upp á þyrlupalli.Hópur 2 á framdekki.Hópur 2 stillir sér upp á þyrlupalli.  Ef vel er að gáð má sjá að sumir strákarnir heilsa að hermannasið.Erna Hörn Davíðsdóttir með nammipoka sem hún fékk hjá brytanum.

Ferjuslysaæfing undirbúin - Ægismenn æfa með sýslumanninum á Seyðisfirði

Mánudagur 7. nóvember 2005.Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri í fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra nýlega á Seyðisfirði er varðskipsmenn á Ægi voru ásamt fleiri viðbragðsaðilum á upprifjunarnámskeiði og skrifborðsæfingu fyrir vettvangsstjórnun.  Þetta er hluti af undirbúningi vegna almannavarnaæfingarinnar Seyðisfjörður 2005 þar sem líkt verður eftir ferjuslysi.   Skrifborðsæfingin fjallaði almennt um vettvangsstjórn, til dæmis þegar skriðuföll eða snjóflóð verða.  Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Einar H. Valsson yfirstýrimaður á varðskipinu Ægi, Ástríður Grímsdóttur sýslumaður, Halldór Benóný Nellett skipherra á varðskipinu Ægi, Einar Sigurgeirsson varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og hafnarstjórinn á Seyðisfirði.  Þau notuðu leikfangabíla og kubba til að sviðsetja aðstæður og gera þær sem eðlilegastar.  Ferjan Norræna og varðskipið Ægir í höfn á Seyðisfirði.  Greinilegt er að á þeim er talsvert mikill stærðarmunur.  Varðskipið Ægir er um 1000 brúttótonn en Norræna 35.966 brúttótonn. 

Sýn kölluð út vegna neyðarskeyta frá skútu við Vestur-Grænland - Aðstoðarbeiðni afturkölluð

Mánudagur 7. nóvember 2005. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga barst neyðarskeyti frá neyðarsendi um Cospas Sarsat gervihnattakerfið kl. 6:47 í morgun.  Staðfest staðsetning (resolved position) kom síðan með neyðarskeyti kl. 8:05 en samkvæmt skeytinu var neyðarsendir staðsettur um 60 sjómílur suðvestur af Nassasuaq á Suður Grænlandi.  Staðsetningin er innan grænlenska leitar- og björgunarsvæðisins.  Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi hafði síðan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og upplýsti að neyðarsendirinn tilheyrði ástralskri skútu, Fine Tolerance. Björgunarstjórnstöðin í Grönnedal á Grænlandi hafði reynt án árangurs að ná sambandi við skútuna.  Mjög slæmt veður var á þessum slóðum, 10-11 vindstig, og ölduhæð 10-12 metrar.  Björgunarstjórnstöðin í Halifax hafði þarnæst samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og óskaði eftir upplýsingum um flugvélakost Varnarliðsins og Landhelgisgæslunnar til langflugs í leit og björgun. Send var Hercules-flugvél frá Halifax til leitar á svæðinu en áætlað var að hún kæmi þangað um kl. 14-16.   Um tíuleytið óskaði björgunarstjórnstöðin í Grönnedal eftir Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, til leitar á svæðinu en 750 sjómílur voru frá Reykjavík til leitarsvæðisins.  Áhöfn Sýnar var þegar kölluð út ásamt útkikksmönnum frá flugbjörgunarsveitinni.   Rétt fyrir hádegið, er Sýn var að halda af stað til leitar, var aðstoðarbeiðnin afturkölluð þar sem skútan hafði fundist og allt var í lagi um borð.  Talið var að sjór hefði komist í neyðarsendinn og hann hafi þess vegna farið í gang.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Varðskipið Ægir stóð skip að meintum ólöglegum veiðum

Sunnudagur 6. nóvember 2005.Varðskipið Ægir tók skip fyrir meintar ólöglegar togveiðar út af Norðurlandi um helgina. Skipið var að veiðum inni á svæði þar sem smáfiskaskilja er áskilin en skipið var ekki með slíka skilju.   Skipið var fært til hafnar á Siglufirði þar sem sýslumaður tók við málinu. Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingafulltrúi

Kona féll af hestbaki og slasaðist - áhöfn Lífar flutti hana á sjúkrahús

Föstudagur 4. nóvember 2005. Læknir í Laugarási hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á tólfta tímanum í dag og óskaði eftir þyrlu til að sækja konu sem hafði fallið af hestbaki en talið var að hún væri alvarlega slösuð.  Konan hafði verið á hestbaki við Syðra Langholt í Hrunamannahreppi.  Áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út kl. 11:29 og fór í loftið kl. 11:55.  Þyrlan lenti við bæinn Birtingaholt tuttugu mínútum síðar en þar beið konan í sjúkrabíl.  Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 12:41.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Björgunarþyrlan Líf sótti veikan sjómann um borð í togarann Guðmund í Nesi

Í morgun hafði áhöfnin á togaranum Guðmundi í Nesi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og óskaði eftir þyrlu til að sækja sjómann sem talinn var alvarlega veikur.  Eftir að læknir í áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, hafði kynnt sér ástand mannsins og veitt leiðbeiningar um aðhlynningu hans var talið nauðsynlegt að flytja hann á sjúkrahús sem fyrst. Skipið var þá statt 85 sjómílur út af Patreksfirði. Áhöfn Lífar var kölluð út kl. 8:48 og var óskað eftir því við skipstjóra Guðmundar í Nesi að hann sigldi skipinu í átt að Rifi á Snæfellsnesi.  Líf fór í loftið kl. 9:41 og var komin að skipinu um ellefuleytið. Vel gekk að flytja sjúklinginn um borð í þyrluna og hélt hún til Reykjavíkur kl. 11:10.   Líf lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 12:20 og var sjómaðurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.