Fréttayfirlit: desember 2005

Vélsleðamaður fluttur með þyrlu á sjúkrahús

Fimmtudagur 29. desember 2005.   Vélsleðamaður sem hafði fallið niður um ís og orðið fyrir ofkælingu var í dag fluttur með Líf, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, á sjúkrahús í Reykjavík.Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 16:17 í vegna vélsleðamanns sem hafði fallið niður um ís og orðið fyrir ofkælingu en hann var í vélsleðaferð ásamt félögum sínum á Lyngdalsheiði við Kálfstinda.  Talið er að hann hafi verið um 5-10 mínútur í ísvatni áður en félagar hans náðu að bjarga honum upp úr vökinni.   Félagar vélsleðamannsins náðu að koma honum upp í jeppa og keyra þar til þeir komust í símasamband og hringja á Neyðarlínuna sem óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Var búið að koma manninum fyrir í sjúkrabíl við Gjábakkaveg er Líf kom á staðinn kl. 16:41.  Maðurinn var illa haldinn og meðvitundarlítill er þyrlan kom á staðinn en hresstist fljótt eftir að hann komst á sjúkrahús.  Þyrlan lenti með hann við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:13.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Útkall vegna slasaðs manns um borð í netabát

Laugardagur 17. desember 2005.Áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í morgun vegna aðstoðarbeiðni frá netabátnum Tjaldi SH-270 sem staddur var 60 sjómílur ( 111 km.) norður af Horni.  Skipverji hafði fallið um koll í lestinni og fengið höfuðhögg og aðra áverka.  Óttast var að hann væri alvarlega slasaður.Líf fór í loftið kl. 9:49.  Veður var fyrst þokkalegt en svo hvessti og fór vindhraði allt upp í 30 metra á sekúndu á leiðinni.  Vegna aðstæðna varð að fljúga fyrir Snæfellsnes og Bjargtanga og lenti þyrlan á Ísafirði kl. 10:30 til að taka eldsneyti.  Er þangað var komið fengust nýjar upplýsingar um ástand mannsins sem þá var orðinn hressari.  Með hliðsjón af því og vegna aðstæðna og veðurs var ákveðið að hætta við að sækja manninn.  Líf kom til baka til Reykjavíkur kl. 14:13.Vegna þoku og stöku ísjaka í sjónum var ekki hægt að sigla Tjaldi með fullri ferð til lands. Búist er við að báturinn komi til Bolungarvíkur um kvöldmatarleytið.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingafulltrúi

Fjareftirlit og verkefni varðskipanna

Fimmtudagur 15. desember 2005.Í gær birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu en fjallað var sérstaklega um fjareftirlit og verkefni varðskipanna. Fjareftirlit og verkefni varðskipanna   Í lok nóvember birti sá mæti maður, Helgi Laxdal, formaður vélstjórafélagsins pistil á heimasíðu félagsins undir fyrirsögninni ,,LHG í nútímanum".  Hluti pistilsins var síðan birtur í Morgunblaðinu. Ekki ætlum við að rekja efni hans í smáatriðum en okkur langar að svara nokkrum spurningum og fullyrðingum sem Helgi varpar fram. Meðal annars segir Helgi að það hlutverk sem gert hefur Landhelgisgæsluna að því sem hún er í augum almennings, þ.e. að standa skip að ólöglegum veiðum, og síðan í framhaldinu að færa þau til hafnar, sé löngu liðið undir lok í þeim mæli sem áður var þar sem nú liggi fyrir á skjá allar upplýsingar um skipaferðir innan 200 mílnanna.  Þetta sjónarmið hefur heyrst víðar.  Fjareftirlit kemur ekki í stað eftirlits varðskipa úti á hafiRétt er að hluti af þeim skipum sem sigla um efnahagslögsögu Íslands er í fjareftirliti. Skipin eru þá með sjálfvirkan sendingarbúnað um borð sem sendir upplýsingar um staðsetningu þeirra með reglulegu millibili um gervihnött til heimalandsins. Hluti íslenska skipaflotans er í fjareftirliti hjá Landhelgisgæslunni og Fiskistofu. Íslenska ríkið hefur gert milliríkjasamninga við nágrannalöndin um gagnkvæmt fjareftirlit með fiskiskipum. Í þeim felst að þegar skip samningsríkis siglir inn í íslensku efnahagslögsöguna fær Landhelgisgæslan sjálfkrafa upplýsingar frá eftirlitsstöð í heimalandi skipsins um staðsetningu þess. Sama máli gegnir um íslensk skip þegar þau sigla inn í efnahagslögu nágrannalandanna sem slíkir samningar hafa verið gerðir við.  Má þar nefna Færeyjar, Noreg, Rússland og Grænland. Fjareftirlitið er stórkostleg uppfinning og eykur bæði möguleika til fiskveiðieftirlits og björgunarstarfa og gerir alla skipulagningu markvissari. En það er ekki nóg að sjá hvar skip er staðsett, það verður að vera hægt að koma því og áhöfn þess til bjargar ef eitthvað kemur upp á og það verður að vera hægt að fara um borð til að rannsaka afla og veiðarfæri og standa skipstjóra þannig að verki ef hann hefur óhreint mjöl í pokahorninu. Þetta verður ekki gert með fjareftirliti. Um þessar mundir leikur t.d. grunur á um að slökkt sé á sjálfvirkum sendingarbúnaði í sumum erlendum fiskiskipum og þau laumist inn í íslenska lögsögu í skjóli nætur.  Erlend skip sem stunda ólöglegar veiðar verða ekki færð til hafnar með fjareftirlitsbúnaði. Þeir sem halda því fram gætu á sama hátt sagt að nú þurfi enga lögregluþjóna í miðbæ Reykjavíkur því búið sé að koma fyrir eftirlitsmyndavélum á hverju horni. Enn sem komið er sigla fjölmörg skip um íslenska lögsögu án þess að Landhelgisgæslan hafi nokkra möguleika á að fylgjast með þeim nema úr lofti eða af sjó því þau eru ekki í fjareftirliti.  Þar má nefna erlend fiskiskip sem sigla í gegnum lögsöguna (transit) sem ekki eru öll í fjareftirlitskerfinu, fjölda flutningaskipa þ.m.t. stórra olíuflutningaskipa og farþegaskipa auk margvíslegra annarra farartækja, stórra og smárra. Sumarið 2001 voru tekin 4 norsk loðnuskip í íslensku efnahagslögsögunni og færð til hafnar.  Skipstjóri eins þeirra gaf upp of lítinn afla en þrjú þeirra voru að veiðum við miðlínu Íslands og Grænlands og tilkynntu skipstjórar þeirra Landhelgisgæslunni að allur afli um borð hafi verið tekinn Grænlandsmegin við miðlínu. Varðskipsmenn fóru um borð í skipin til að athuga fiskidagbók, leiðarbók, afla ofl. og í framhaldi af því voru skipin færð til íslenskar hafnar og skipstjórarnir kærðir. Við samanburð milli upplýsinga úr fjareftirlitskerfinu og annarra upplýsinga kom í ljós að skipin höfðu allan tímann verið inni í íslenskri lögsögu. Í þessu tilviki hefði sennilega ekki verið hægt að sanna brot skipstjóranna án fjareftirlitskerfisins og á móti hefði aldrei verið hægt að kæra skipin hefðu varðskip ekki verið á svæðinu. Skipstjórarnir voru dæmdir til að greiða háar sektir í Landhelgissjóð og einnig til upptöku afla í Ríkissjóð.   Verkefni varðskipannaSkip Landhelgisgæslunnar þurfa að vera til staðar úti á hafi ef eitthvað kemur upp á.  Sem betur fer hafa stjórnvöld ákveðið að kaupa nýtt skip fyrir Landhelgisgæsluna sem búið er fullkomnum mengunarvarnarbúnaði og öðrum nauðsynlegum tækjum sem henta þeim verkefnum sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á.  Í grein sinni segist Helgi vegna meðfæddrar forvitni vilja vita í öllum aðalatriðum í hvað varðskipin eyða tíma sínum í hinum hefðbundnu eftirlitsferðum og hver það er sem skipuleggur og stjórnar þeim. Ekki er hægt að telja upp öll þau verkefni í svo stuttri grein.  Það er framkvæmdastjóri aðgerðasviðs sem skipuleggur verkefni og ferðir varðskipanna í samráði við skipherrana og forstjórann, sinn yfirmann.  Yfirleitt er reynt að skipuleggja ferðir varðskipanna þannig að þau séu þar sem hlutirnir eru að gerast, úti á miðunum, þar sem flest skip eru.  Fylgst er með veiðum í efnahagslögsögunni og auk þess utan hennar þegar fleiri en 10 íslensk fiskiskip eru að veiðum á úthafsveiðisvæðum. Þegar varðskipsmenn fara til eftirlits um borð í skip, t.d. til að skoða afla og veiðarfæri, kanna þeir um leið hvort öryggisbúnaður skips er í samræmi við lög og reglur og hvort þeir sem bera ábyrgð á siglingu skipsins eru með tilskilin réttindi og hvort skipið er haffært og með skírteini sem sannar það.  Séu þessi atriði ekki í lagi eru kærur sendar til sýslumanns í heimabyggð skipstjórans. Komi í ljós að mikið er af smáfiski í afla, leiðir það oft til lokunar á því veiðisvæði sem um ræðir í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Varðskipsmenn verða auk þess að geta brugðist við neyðarástandi af ýmsu tagi og þurfa þess vegna að vera í stöðugri þjálfun.  Sem dæmi um æfingar sem varðskipsmenn taka þátt í má nefna nýafstaðna ferjuslyssæfingu á Seyðisfirði, reykköfunar- og brunaæfingar og margvíslegar samæfingar með öðrum viðbragðsaðilum t.d. vegna almannavarna.  Því fleiri úthaldsdagar varðskipa, því meira öryggi fyrir sæfarendur og íbúa afskekktra byggðarlaga. Í raun þyrftu úthaldsdagar varðskipa að vera mun fleiri og stöðugt þyrfti að hafa skip fyrir norðan land þar sem oft og tíðum sigla farþegaskip með mörg hundruð farþega innanborðs.  Björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar/íslenska ríkisins er gríðarlega stórt. Það er 1.800.000 ferkílómetrar en til samanburðar er íslenska efnahagslögsagan 754.000 ferkílómetrar.  Mikilvægt er að skipin séu staðsett þannig að það taki ekki langan tíma að sigla þangað sem neyðin er stærst.  Þegar rússneska farþegaskipið Maxim Gorky sigldi á ísjaka á milli Svalbarða og Jan Mayen árið 1989 skipti nærvera varðskips frá norsku Landhelgisgæslunni sköpum um að ekki varð manntjón en nokkur hundruð manns var bjargað um borð í varðskipið.  Þyrlur hafa margsinnis bjargað sjófarendum og geta verið eina vonin þegar hætta er á ferðum.  Stundum eru skip þó í svo mikilli fjarlægð frá landi er þau lenda í hættu að þau eru fyrir utan flugdrægi þyrlna. Ef hægt er að komast framhjá þeirri hindrun með eldsneytistöku úti á sjó getur það tekið þyrluna margar klukkustundir að komast á vettvang og  Líf, stóra þyrla Landhelgisgæslunnar, tekur í mesta lagi 20 farþega. Það dugar skammt þegar stór farþegaskip eiga í hlut. Varðskipin og áhafnir þeirra eru fyrst og fremst á siglingu til öryggis, löggæslu og eftirlits.  Um leið sinna þau ýmsum öðrum brýnum verkefnum þegar tækifæri gefst til, eins og t.d. að sinna viðhaldi á ljósduflum, ölduduflum og skerjavitum í samstarfi við Siglingastofnun. Með nýjum lögum um siglingavernd eiga varðskipin og áhafnir þeirra að geta brugðist við hryðjuverkum úti á hafi og með nýjum lögum um verndun hafs og stranda, hefur Landhelgisgæslan fengið íhlutunarrétt til að bregðast við þegar mengunarslys vofa yfir en ekki þarf að fjölyrða um hversu alvarlega afleiðingar eitt stórt mengunarslys gæti haft fyrir markaðssetningu íslenskra sjávarafurða erlendis.  Verkefnum hefur fjölgað en ekki fækkað.  Undanfarin ár hefur Landhelgisgæslan ekki getað sinnt nægjanlega vel eftirliti á Reykjaneshrygg vegna skipaskorts. Úthafskarfaveiðin á Reykjaneshrygg hefst venjulega í apríl og stendur fram í júlí og það líða ofta dagar og vikur án þess að varðskip séu á svæðinu. Það orsakast af því að ýmsu öðru þarf að sinna, lögsagan er gríðarlega stór og einungis 2 skip í rekstri en það þýðir að stundum er aðeins eitt skip að gæta lögsögunnar þegar hitt skipið er í inniveru. Varðskip þyrftu auk þess mun oftar að vera við eftirlit austur af landinu í maí - júní, á lögsögumörkum Íslands og Færeyja, en þar hafa erlend síldarskip verið að veiðum á vorin og norður af landinu þegar loðnuveiðar eru stundaðar á lögsögumörkum Íslands og Grænlands.  Þar hafa auk Íslendinga verið að veiðum færeysk, norsk og dönsk skip.    Hagsmunamál allra sjómanna að auka úthald varðskipa Það er til marks um framsýni Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og samráðherra hans í ríkisstjórninni hversu mikinn metnað þeir hafa í málefnum Landhelgisgæslunnar sem meðal annars birtist í því að Landhelgisgæslan fær nýtt skip og nýja flugvél til að sinna mikilvægum verkefnum í efnahagslögsögunni. Vonum við að spurningum Helga Laxdal sé að einhverju leyti svarað með þessari grein og þökkum við honum fyrir að opna umræðu um þessi mál því nauðsynlegt er að stjórnvöld og almenningur fái upplýsingar um hversu mikilvægt starf fer fram hjá Landhelgisgæslunni.  Við vonum einnig að Helgi, sem forsvarsmaður stórs hluta sjómannastéttarinnar, gangi í lið með Landhelgisgæslunni og berjist fyrir auknu úthaldi varðskipanna og þar með auknu öryggi sjómanna og allra landsmanna.   Höfundar:Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur og upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands   Halldór Nellett skipherra á Ægi, varðskipi Landhelgisgæslu Íslands   Björgunarsvæði íslenskra ríkisins/Landhelgisgæslunnar er mun stærra en efnahagslögsagan, en björgunarsvæðið nær yfir Jan Mayen, Færeyjar og langt upp að ströndum Grænlands. Aðrar björgunarstjórnstöðvar eru einnig merktar inn á myndina, t.d. Grönnedal, Clyde og fleiri en eins og sjá má ber björgunarstjórnstöðin í Clyde ábyrgð á hluta af íslensku efnahagslögsögunni.  Björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar er 1.800.000 ferkílómetrar en til samanburðar er íslenska efnahagslögsagan 754.000 ferkílómetrar.        

Þyrluflugmaður frá Landhelgisgæslunni fer til starfa á hamfarasvæðunum í Pakistan yfir jólin

Miðvikudagur 14. desember 2005.Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár haft talsvert samstarf við norska fyrirtækið Air Lift en það er með svipaðan þyrlurekstur og Landhelgisgæslan á Svalbarða samkvæmt samningi við sýslumanninn þar.  Þar sem Landhelgisgæslan og Air Lift eru með sams konar þyrlur, eru bæði möguleikar á samnýtingu varahlutalagers og einnig hefur það tíðkast að flugmenn Landhelgisgæslunnar starfi fyrir Air Lift í fríum og fái þannig ómetanlega reynslu.Nú í desember fer einn af þyrluflugmönnum Landhelgisgæslunnar, Þórarinn Ingi Ingason, til starfa fyrir Air Lift á hamfarasvæðunum í Pakistan en þar bíður hans það hlutverk að fljúga með vistir og nauðsynjar upp í þorpin í fjöllunum í kringum bæinn Abbottabad sem sjá má á meðfylgjandi korti. Einnig að fljúga með slasað fólk á sjúkrahús úr fjallaþorpunum. Þórarinn Ingi mun fljúga þyrlu af gerðinni Super Puma en Líf, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, er af þeirri gerð.  Air Lift vinnur fyrir Alþjóða Rauða krossinn sem starfar í Pakistan en nú er einmitt mikið kapphlaup við tímann að koma fólki í öruggt skjól áður en veturinn skellur á af öllum sínum þunga.  Þórarinn Ingi fer utan 16. desember næstkomandi og kemur til baka 30. desember.  Hann mun því eyða jólunum í Pakistan. Sjá nýjustu frásagnir frá Rauðakrossliðum á svæðinu á slóðinni:http://www.icrc.org/web/eng/siteeng0.nsf/iwpList603/C456354229F0642FC12570CF0044DBA5 Einnig má sjá kort af svæðinu á slóðinni:http://www.icrc.org/web/eng/siteeng0.nsf/htmlall/map-south-asia-earthquake-101005 Þórarinn Ingi inni í Super Pumu Air Lift á Svalbarða í júní síðastliðnum.Þórarinn Ingi ásamt félögum sínum í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að fara í æfingaflug á Super Pumu Air Lift á Svalbarða í júní sl.  Á myndinni eru frá vinstri:  Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild LHG, Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki LHG, Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður LHG, starfsmaður Airlift (í rauða og svarta gallanum) og Friðrik Höskuldsson stýrimaður í flugdeild LHG.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingafulltrúi 

Slysavarnarskóli sjómanna og Landhelgisgæslan æfa saman

Mánudagur 12. desember 2005.Mjög gott samstarf hefur verið milli Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem rekur m.a. Slysavarnarskóla sjómanna. Fyrr á þessu ári var undirritaður samstarfssamningur LHG og SL og hefur verið leitast við að auka allt samstarf og samnýtingu eins og kostur er.Nemendur í Slysavarnarskóla sjómanna fá þjálfun í að taka á móti þyrlu og eru hífðir upp í þyrluna. Meðfylgjandi myndir voru teknar á slíkri æfingu sem haldin var nýlega.  Venjulega er björgunarskipið Ásgrímur S. Björnsson notaður við æfingarnar en að þessu sinni var hann ekki tiltækur og því bauð Landhelgisgæslan skólanum afnot af sjómælingaskipinu Baldri ásamt áhöfn. Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar yfirmanns vaktstöðvar siglinga tókst æfingin vel og voru allir sammála um að Baldur hentaði ágætlega til slíkra æfinga.  Þrátt fyrir að Baldur hafi verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni í yfir 14 ár hefur hann aldrei áður verið notaður við þyrluæfingar.Á miðri æfingu renndi síðan varðskipið Týr inn á ytri höfnina til að skila viðgerðarmanni í land og því hefur vegfarendum sem leið hafa átt um hafnarsvæðið og nágrenni þess sjálfsagt þótt mikið um að vera í Rauðarárvíkinni þennan desembermorgun. Björgunarþyrlan Sif sveimar yfir Baldri. Sjúkrabörur látnar síga niður í skipið.Nemendur í Slysavarnarskóla sjómanna tilbúnir á þilfarinu á Baldri.Baldur á siglingu og Týr í baksýn á leið inn á ytri höfnina.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingafulltrúi.  

Jólaball Landhelgisgæslunnar

Mánudagur 12. desember 2005. Um helgina var haldið árlegt jólaball Landhelgisgæslunnar.  Þar mættu starfsmenn ásamt börnum sínum og skemmtu sér konunglega. Það var fyrir tilviljun að jólaballið var haldið á afmælisdegi flugdeildar Landhelgisgæslunnar en það var einmitt 10. desember 1955 sem Landhelgisgæslan fékk sína fyrstu flugvél en það var Katalínaflugbátur sem bar einkennisstafina TF-RAN og var af gerðinni Consolidated PBY-6A.Ballið hófst með söng og spili Þuríðar Sigurðardóttur og hljómsveitar hennar og var dansað í kringum jólatréð.  Eftir nokkra stund heyrðist mikill hávaði úr háloftunum og þar komu tveir jólasveinar ásamt Birtu og Bárði úr Stundinni okkar fljúgandi með þyrlu. Annar jólasveinninn var mjög flinkur og flaug þyrlunni.Það voru flugvirkjarnir Reynir G. Brynjarsson og Sverrir Erlingsson sem skipulögðu hátíðahöldin með miklum sóma og vilja þeir koma á framfæri þökkum til Þyrluþjónustunnar ehf. og flugstjórans Sigurðar Ásgeirssonar sem var mjög jólalegur þennan dag.Talið er að yfir 300 manns hafi mætt á jólaballið og er það besta mæting hingað til.  Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingafulltrúi Þuríður Sigurðardóttir söngkona og hljómsveit hennar sungu og léku jólalögin. Birta og Bárður komu ásamt jólasveinunum með þyrlu.  Og við sungum jólalögin með jólasveininum. Dansað í kringum jólatréð. Rosa fyndinn jólasveinn. Birta og Bárður fóru á kostum eins og venjulega.Gaman að horfa á Birtu og Bárð og jólasveinana. Jólahundarnir Tinni og Fróði mættu í sparifötunum og vöktu mikla lukku hjá ungu kynslóðinni.Kurteisir krakkar búnir að raða sér upp til að fá fund hjá konunglega hundinum Tinna (aðstoðarmanni framkvæmdastjóra rekstrarsviðs).Þessi jólasveinn flaug þyrlunni og kom með fullt af nammi.Sveinki hitti voða sæta stelpu.Jólasveinarnir kvaddir í dyrum flugskýlisins.Bless jólasveinar! Bless krakkar og sjáumst á næsta ári.        

Gagnrýni á Landhelgisgæsluna svarað

Vegna forsíðufréttar í Fréttablaðinu 6. desember 2005.   Í Fréttablaðinu í dag kemur fram í fyrirsögn að Landhelgisgæslan sé að þrotum komin.  Jafnframt kemur fram í fyrirsögn að Einar Oddur, varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýnir fjármálastjóra Landhelgisgæslunnar.   Í fréttinni er haft eftir Einari Oddi að „... Landhelgisgæslan eins og aðrar fjárfrekar stofnanir, gerir náttúrulega kröfur um peninga.  Þeir réðu þarna nýjan fjármálastjóra og þá lagðist einhvern veginn niður innheimtan.“  Landhelgisgæslan telur að þessar fullyrðingar hljóti að byggjast á misskilningi.  Þess ber að geta að starf fjármálastjóra hjá Landhelgisgæslunni var lagt niður með skipulagsbreytingu í sumar og var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs ráðinn frá og með 1. september sl.   Meint gagnrýni virðist beinast að því að þegar nýr fjármálastjóri/framkvæmdastjóri rekstrarsviðs tók til starfa hafi innheimta lagst niður, annars vegar innheimta úr Landhelgissjóði og hins vegar innheimta björgunarlauna.  Landhelgisgæslan ræður ekki yfir Landhelgissjóði heldur dómsmálaráðherra og getur ekki fengið fé úr Landhelgissjóði nema með samþykki dómsmálaráðherra.    Varðandi innheimtu björgunarlauna þá koma þau rekstri Landhelgisgæslunnar ekki við þar sem björgunarlaun fara annars vegar til áhafnar og hins vegar í Landhelgissjóð. Lögfræðingur Landhelgisgæslunnar sér um innheimtu björgunarlauna og er eitt slíkt mál útistandandi og í eðlilegum farvegi.  Störf fjármálastjóra/framkvæmdastjóra rekstrarsviðs koma þar af leiðandi þessu máli ekkert við.Í fréttinni er Landhelgisgæslunni líkt við gjaldþrota fyrirtæki.  Staðreyndin er sú að Landhelgisgæslan hefur fengið 40 milljónir í aukafjárveitingar samkvæmt fjáraukalögum og er unnið að endurbótum á rekstri fyrirtækisins í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið.    Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingafulltrúi.