Fréttayfirlit: mars 2006

Þrjú erlend karfaskip á Reykjaneshrygg - þar af eitt sjóræningjaskip

Föstudagur 31. mars 2006.Karfaveiðar á Reykjaneshrygg eru nú að komast í fullan gang og þrjú erlend skip komin á slóðina. Í eftirlitsflugi Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar, í dag sá áhöfnin karfaskip sem skráð er í Georgíu á siglingu u.þ.b. 15 sjómílur utan við íslensku efnahagslögsöguna suðvestur af Reykjanesi. Það er innan fiskveiðistjórnunarsvæðis Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Skipið heitir Pavlovsk og er eitt af sjóræningjaskipunum sem skráð eru á lista NEAFC yfir skip sem veiða án leyfis og kvóta á fiskveiðistjórnunarsvæði nefndarinnar. Sjá listann yfir sjóræningjaskip á eftirfarandi slóð:http://neafc.org/measures/iuu_b.htm Syn flaug tvisvar yfir skipið og í bæði skiptin var það með veiðarfærin uppi á þilfari þannig að það var ekki staðið að ólöglegum veiðum að þessu sinni. Hin skipin tvö eru bæði lögleg og með leyfi. Annað rússneskt og hitt frá Lettlandi.Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri á Syn tók meðfylgjandi mynd af sjóræningjaskipinu Pavlovsk í eftirlitsfluginu í dag. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Sjóræningjaskipið Pavlovsk á siglingu. Veiðarfærin uppi á þilfari.

Týr 31 árs

Fimmtudagur 30. mars 2006.Síðastliðinn föstudag var liðið 31 ár frá því að varðskipið Týr kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur. Af því tilefni buðu skipherra og áhöfn Týs samstarfsfélögum hjá Landhelgisgæslunni í vöfflukaffi. Þetta var gott tækifæri fyrir starfsfólk Landhelgisgæslunnar að sjá Tý í upprunalegri mynd því skipinu verður siglt til Póllands í næsta mánuði þar sem breytingar og endurbætur verða gerðar á því.Jón Kr. Friðgeirsson bryti lét sér ekki nægja að töfra fram vöfflur handa öllum gestunum, hann sá einnig um myndatöku í boðinu.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.   Sigurður Steinar Ketilsson skipherra í kvennafans fyrir utan skipherrakáetuna. Þóra Sif Sigurðardóttir fulltrúi á rekstrarsviði og Eygló Ólöf Birgisdóttir launafulltrúi mættar í vöfflukaffi.Georg Kr. Lárusson forstjóri, Sólmundur Már Jónsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Ólafur Valur Sigurðsson fyrrverandi skipherra á Tý og Gylfi Geirsson forstöðumaður fjarskiptaþróunar og fjareftirlitsdeildar LHG ræða málin í skipherrakáetunni. Ragnhildur Magnúsdóttir gjaldkeri, Inga Hanna Guðmundsdóttir starfsmannastjóri, Arnbjörg Gunnlaugsdóttir bókari, Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Steinvör I. Gísladóttir ritari forstjóra og Ólafur Valur Sigurðsson skipherra.Starfsmenn gæða sér á vöfflum í borðsal Týs.  

Hlustvörslu hætt á rás 9 frá og með 1. apríl

Fimmtudagur 30. mars 2006. Stjórn vaktstöðvar siglinga, í samráði við Siglingastofnun og Siglingaráð, hefur tekið ákvörðun um að hætta hlustvörslu á rás 9 á metrabylgju (VHF).Rás 9 hefur til nokkura ára verið notuð fyrir tilkynningaskyldu skipa og báta á Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum.  Skip og bátar í öðrum landshlutum hafa notað svokallaðar vinnurásir t.d. 25 og 26 fyrir sambærilegar tilkynningar.  Nú hefur því verið ákveðið að notast eingöngu við vinnurásir til þessara tilkynninga. Eins og fram kemur í Tilkynningu til sjófarenda nr. 1-2 2006 verður hlustvörslu formlega hætt frá og með 1. apríl. Þó mun Vaktstöð siglinga hafa þessa rás opna um nokkurra vikna skeið fram yfir þann  tíma til að vísa mönnum á aðrar rásir.   Bent er á að fjarskiptabúnaður fyrir vinnurás 26 er á fjallinu Þorbirni norður af Grindavík og hentar því vel fyrir Reykjanes og Faxaflóasvæðið.  Fjarskiptabúnaður fyrir rás 23 er á Sandi og hentar því vel fyrir t.d. Ólafsvík, Rif og utanverðan Breiðafjörð. Fjarskiptabúnaður fyrir rás 26 er einnig í Hænuvík og hentar vel fyrir t.d. Patreksfjörð, Tálknafjörð og fleiri staði á Vestfjörðum. Ef ekki næst samband á þessum rásum þá er þéttara net fyrir rás 16 og ætti því að vera auðvelt að ná sambandi til tilkynninga á þeirri rás.   Með tilkomu sjálfvirkra tilkynningarkerfa hefur mjög dregið úr notkun á rás 9 en töluverður sparnaður mun hljótast af því að hætta hlustvörslu á þeirri rás.  Sá sparnaður mun nýtast við uppbyggingu á öðrum þáttum í öryggismálum sjófarenda sem Vaktstöð siglinga ber ábyrgð á.   Landhelgisgæsla Íslands / Vaktstöð siglinga   Mynd: Ásgrímur Ásgrímsson yfirmaður vaktstöðvar siglinga. Starfsmenn vaktstöðvar siglinga við vinnu sína.

Yfirmaður Bandarísku strandgæslunnar í heimsókn

Miðvikudagur 29. mars 2006. Í fréttatilkynningu frá bandaríska sendiráðinu var greint frá fundi sem haldinn var í tilefni af komu yfirmanns bandarísku strandgæslunnar til Íslands. Þar segir:Yfirmaður bandarísku landhelgisgæslunnar, Thomas H. Collins aðmíráll, heimsótti Ísland þann 28. mars til að funda með Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar.  Stefán Eiríksson skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og aðrir íslenskir aðilar ræddu möguleikann á nánari samvinnu á milli Landhelgisgæslu Íslands annars vegar og bandarísku landhelgisgæslunnar hins vegar.Fundurinn er sá þriðji á milli Collins og Georgs Lárussonar síðan í mars 2005. Tilgangurinn er að reyna að styrkja viðbúnað þessara tveggja bandamanna gegn hryðjuverkum og smygli.  Ásamt, samvinnu í þjálfun og björgun.  Fulltrúar Bandaríkjanna á fundinum voru sendiherra Bandaríkjanna, Carol van Voorst, aðrir sendiráðsstarfsmenn, yfirmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, Craig Croxton ofursti, sem og Phillip Gibbons ofursti.  Fyrir Íslands hönd voru Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Stefán Eiríksson skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Bjarni Vestmann staðgengill skrifstofustjóra á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins ásamt Ásgrími Ásgrímssyni, yfirmanni Vaktstöðvar siglinga hjá Landhelgisgæslunni.Mynd varnarliðið / Carol van Voorst sendiherra Bandaríkjanna, Thomas H. Collins aðmíráll, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar og Georg Kr. Lárusson forstjóri.

Sif og Syn í erfiðu björgunarflugi norður í haf - veikur sjómaður af norsku selveiðiskipi fluttur til Reykjavíkur

Þriðjudagur 28. mars 2006   Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Sif, og Fokkerflugvélin Syn, flugu norður fyrir land í dag til að sækja veikan sjómann af norska selveiðiskipinu Polarsyssel.  Syn fylgdi þyrlunni til að halda uppi fjarskiptum og öryggisins vegna. Sif fór frá Reykjavík kl. 10:33 og lenti með veika manninn við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 18:16 en þaðan var hann fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús.   Skipið var statt var í hafís 190 sjómílur norður af Skaga kl. 5 í morgun er beiðni um aðstoð barst.  Skipinu var siglt eins og veður leyfði í átt að landi en aftakaveður var á svæðinu, norðaustan 25 m. á sek., snjókoma og lélegt skyggni. Ekki gekk þrautalaust að koma skipinu út úr ísnum og tók það nokkurn tíma.   Drægi björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, Sifjar, er u.þ.b. 140 sjómílur út á haf frá síðasta eldsneytistökustað.  Sif lenti fyrst á Dalvík vegna slæms skyggnis og veðurs en skömmu eftir komuna þangað rofaði til og gat þyrlan lent á Akureyri kl. 13:18 eins og stefnt var að til að taka eldsneyti.  Ferð þyrlunnar norður gekk þokkalega þrátt fyrir slæmt veður og snjókomu.  Hún þurfti að þræða ströndina frá Húnaflóa og þaðan áleiðis til Akureyrar.   Syn gat ekki lent á Akureyri vegna veðurs og varð að lokum að halda til Sauðárkróks til að taka eldsneyti eftir að Sif var komin að skipinu.   Björgunarþyrlan Sif fór frá Akureyri kl. 15:25 en þá hafði veður aðeins skánað.  Sif var kominn með sjúklinginn um borð kl. 16:32 en þá var norska skipið 49 sjómílur norður af Siglunesi.   Sif ætlaði að fara með sjúklinginn til Akureyrar en varð síðan að hætta við það þar sem hún komst ekki inn Eyjafjörðinn vegna lélegs skyggnis. Syn lenti í Reykjavík um kl. 18 og Sif kl. 18:16. Sjúklingurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.   Syn, Fokkerflugvél Landhelgisgæslunnar, var alls 6 klst. og 30 mín. á flugi og mestallan tímann í snjókomu og norðaustan 20-25 m. á sek. Skýjahæð var lítil sem engin og skyggni lélegt.   Veiki sjómaðurinn er sænskur og var bæði sænska og norska sendiráðið í sambandi við Landhelgisgæsluna í dag vegna þessa.   Myndirnar af Polarsyssel tók Einar Örn Einarsson stýrimaður í áhöfn Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar.  Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.

Dómsmálaráðherra undirbýr eflingu þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 24. mars 2006. Í fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins í dag segir: ,,Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, greindi ríkistjórn frá því í morgun, hvernig staðið verður að undirbúningi til að efla þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Vegna þeirra tímamarka sem við blasa, eftir að Bandaríkjastjórn ákvað að kalla þyrlusveit sína frá landinu fyrir lok september, telur dóms- og kirkjumálaráðherra óhjákvæmilegt að leysa verkefnið í tveimur áföngum, það er til bráðabirgða með leigu á þyrlum og nánu samstarfi við nágrannaþjóðir, og síðan til langframa með kaupum eða leigu á nýjum þyrlum. Ráðherra hefur falið Stefáni Eiríkssyni, skrifstofustjóra í dóms-og kirkjumálaráðuneytinu, að leiða þetta starf á vegum ráðuneytisins í samráði við Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslu Íslands, og samstarfsmenn hans. Þá hefur Leifur Magnússon, verkfræðingur, tekið að sér að verða ráðgjafi dóms- og kirkjumálaráðherra um þá þætti málsins, sem lúta að vali á þyrlum, og í viðræðum við aðila, innlenda og erlenda. Stefnt er að því að tillögur um bráðabirgðalausn liggi fyrir innan þriggja vikna og tillögur um framtíðarskipulag innan tveggja mánaða. Að fengnum þeim tillögum mun dóms- og kirkjumálaráðherra leggja málið að nýju fyrir ríkisstjórn." Áhöfn danska varðskipsins Triton tók þessa mynd er þyrlusveit Landhelgisgæslunnar æfði eldsneytistöku í skipinu á síðasta ári.  Eldsneytisslöngur voru hífðar upp að þyrlunni, eldsneyti dælt á hana á flugi og slöngunum síðan slakað niður á skipið að nýju. Með þessari aðferð geta þyrlurnar flogið lengra út á haf en ella, þ.e.a.s. ef skipið er talsvert frá landi.  Sjá fréttatilkynnigu um æfinguna á slóðinni:http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1952  

Varðskip og loftför Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga í viðbragðsstöðu vegna almannavarnaæfingarinnar Bergrisans

Föstudagur 24. mars 2006.Viðamikil almannavarnaæfing, Bergrisinn, verður haldin nú um helgina bæði laugardag og sunnudag en hún snýst um að bregðast við ímynduðum hamförum vegna eldgoss, jökulhlaups og gjóskufalls. Landhelgisgæslan verður í viðbragðsstöðu vegna þessa og munu starfsmenn vaktstöðvar siglinga/stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar taka virkan þátt í æfingunni auk áhafna skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar.  Í fréttatilkynningu almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra segir:Almannavarnaæfingin Bergrisinn 2006 verður haldin um helgina en hún er lokahnykkurinn á gerð nýrra viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir áhrifasvæði eldgosa í og jökuklhlaupa og gjóskufalls frá Mýrdals- og Eyjafjallajöklum.  Mun verða látið reyna á alla þætti áætlananna, sem lúta að viðvörunum til íbúa, rýmingaráætlun, umferðar- og fjarskiptaskipulags, boðunaráætlun, samhæfingu o.fl.  Æfingin verður tvískipt; laugardaginn 25. mars verður æft í Vestur-Skaftafellssýslu og sunnudaginn 26. mars í Rangárvallasýslu.  Ef um raunverulegan atburð væri að ræða væru áætlanir virkjaðar fyrir bæði svæði í einu en í æfingaskyni var ákveðið að skipta þessu svona til þess að geta betur fylgst með framgangi æfingarinnar á hvoru svæði fyrir sig.  Þetta verkefni er margþætt og hefur verið undirbúið af kostgæfni til að markmiðum æfingarinnar verði náð.  Eitt af stærstu verkefnum Bergrisans er rýming íbúðarhúsnæðis á áhrifasvæði Kötlu.  Þannig er ætlunin að virkja íbúa sem eru á rýmingarsvæðunum til þess að rýma hús sín og skrá sig í fjöldahjálparstöðvum. Í kjölfar hættumats vegna eldgosa og hlaupa frá Mýrdals- og Eyjafjallajöklum hefur verið unnið að viðbragðsáætlun fyrir þau svæði í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu sem eru á áhrifasvæði þessara eldstöðva.  Til að tryggja samhæfingu allra þeirra sem gegna lykilhlutverki við slíka atburði er ritstjórn viðbragðsáætlana í höndum almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans.  Ljóst er að mörg sveitarfélög eiga hagsmuna að gæta þegar eldgos með tilheyrandi jökulhlaupi brýst út í Mýrdaljökli.Allir íbúar og sumarhúsaeigendur á svæðinu er hvattir til þess að taka þátt í æfingunni og hjálpa til við gera hana sem raunverulegasta.  Þeir munu fá boð frá Neyðarlínunni með SMS og talskilaboðum um að æfingin sé hafin og þeir beðnir að fara í fjöldahjálparstöðvar á viðkomandi svæði.  Mjög mikilvægt er að sem flestir taki þátt en það gefur raunverulegar upplýsingar um hversu langan tíma rýmingin tekur.  Það er von allra, sem standa að undirbúningi Bergrisans, að íbúar sjái sér hag í þátttöku.  Að undirbúningi æfingarinnar hafa komið fulltrúar frá öllum lögregluumdæmunum á áhrifasvæðinu auk fulltrúa fjölmargra viðbragðsaðila, stofnana og fyrirtækja.  Einnig hafa veitufyrirtækin á svæðinu komið að undirbúningi æfingarinnar og munu þau æfa sínar viðbragðsáætlanir samhliða Almennt markmið æfingarinnar er að hún sé sem raunverulegust og verkefnin valin með hliðsjón af vandamálum, sem líklegt er að komi upp í raunverulegu eldgosi og sem mikilvægt er að æfa, t.a.m. flutningur rúmliggjandi einstaklinga og þeirra sem neita að yfirgefa heimili sín.  Að öðru leyti eru markmiðin þau að: • Æfa alla þætti viðbragðsáætlunarinnar og gera þannig viðbragðsaðila og stjórnendur neyðaraðgerða hæfari til að takast á við þau verkefni, sem þeim eru ætluð í viðbragðsáætluninni.• Gera íbúa áhrifasvæðisins meðvitaða um sem réttust viðbrögð vegna eldsumbrota undir Mýrdals- og Eyjafjallajöklum og jökulhlaupa og öskufalls því tengdu.• Draga fram lærdóm, nýta lærdóminn til endurbóta á viðbragðsáætluninni. Báða æfingadagana mun Bergrisinn byrja milli kl. 09.00 og 11.00 og standa til kl.18:00.• Föstudaginn 24. mars kl.16:00 verður sameiginleg fjarskiptaæfing þar sem boðleiðir verða prófaðar á öllu svæðinu. • Laugardaginn 25. mars, milli kl. 09:00 og 18:00, fer fram vettvangsæfing í Vestur-Skaftafellssýslu.  Eldgos hefst í Mýrdalsjökli og rýma verður ákveðin svæði vegna hættu á hlaupi.  Einnig verður að bregðast við vandamálum sem öskufall kann að valda á svæðinu.• Sunnudaginn 26. mars, milli kl. 09:00 og 18:00, fer fram vettvangsæfing í Rangárvallasýslu.  Eldgos hefst í Mýrdalsjökli og rýma verður ákveðin svæði vegna hættu á hlaupi.  Einnig verður að bregðast við vandamálum sem öskufall kann að valda á svæðinu. • Mánudaginn 27. mars verða haldnir rýnifundir í héraði þar sem þátttakendur í æfingunni, stjórnendur og starfsfólk bakskipulags leggja fram athugasemdir til umræðu.  Þær fara síðan inn í skýrslu um niðurstöðu æfingarinnar sem verður gefin út í maí 2006. • Miðvikudaginn 29. mars verður sameiginlegur úrvinnslufundur í Reykjavík með stjórnendum í héraði, í samhæfingarstöð og æfingastjórn, þar sem farið verður yfir æfinguna og hún rýnd til gagns.  Niðurstöður fara í skýrslu um æfinguna sem gefin verður út í maí 2006.

Eftirlit og aðstoð vaktstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar VSS

Mánudagur 20. mars 2006.Í síðustu viku hafði línubátur sem staddur var útaf Ingólfshöfða samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (VSS) á fjarskiptarás 16.  Skipstjórnarmenn á línubátnum óskuðu eftir upplýsingum um nærstödd skip en þeir sáu skip í grenndinni sem stefndi næstum beint á þá.  Starfsmenn VSS sáu á skjá sjálfvirka auðkenningarkerfisins (AIS) að flutningaskipið Jumbo var á siglingu nálægt línubátnum og stefndi á hann.   Varðstjórar í VSS létu skipstjórnarmenn línubátsins strax vita hvaða skip væri að stefna á þá og þeir gátu í framhaldinu kallað skipið upp á rás 16.  Engin svör fengust frá flutningaskipinu en á skjá sjálfvirka staðsetningarkerfisins í VSS mátti greinilega sjá flutningaskipið beygja frá línubátnum.   Tilvik af þessu tagi koma reglulega inn á borð starfsmanna VSS. Einnig aðstoða og leiðbeina þeir oft skipum og bátum áleiðis til hafna þegar siglingatæki bila og skipin eiga erfitt með áframhaldandi siglingu af þeim sökum eða vegna lélegs skyggnis, náttmyrkurs eða takmarkaðrar landsýnar.   Með auknum alþjóðlegum siglingum innan íslenskrar efnahagslögsögu og jafnvel meðfram ströndum landsins ætti öllum að vera ljós þörfin fyrir aukið eftirlit.  Sjálfvirka auðkenningarkerfið (AIS) sem vaktað er í VSS gegnir nú þegar mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar.   Verið er að hanna gagnagrunn  og upplýsingarkerfi sem sameinar og tekur við upplýsingum frá öllum eftirlitskerfum VSS.   Það er íslenska sjálfvirka tilkynningarskyldan (STK) sem flestir þekkja, sjálfvika auðkenningarkerfið (AIS) og fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.  Þegar þessu lýkur verður hægt að  fylgjast með nær allri skipaumferð við Ísland á sama skjánum í  samræmdu viðmóti.     Upplýsingakerfi vaktstöðvar siglinga munu vafalítið verða sífellt mikilvægari fyrir varnir og öryggi landsins og gera eftirlit loftfara og skipa Landhelgisgæslunnar mun markvissara. Strandlengja Íslands er 4.800 km löng og því ljóst mikilvægi þess að fylgjast náið með allri skipaumferð umhverfis landið.  Erlend skip sem nálgast landið eiga mörg hver að vera útbúin sjálfvirku auðkenningarkerfi (AIS) en þó ekki öll. Í framtíðinni eru allar líkur á því að fleiri og fleiri skip verði skyldug til að hafa slíkan búnað um borð. Þegar varðskip og loftför Landhelgisgæslunnar koma að skipum sem eiga að vera útbúin sjálfvirkum auðkenningarbúnaði (AIS) en senda ekki merki, gefur það strax vísbendingu um að þetta skip þurfi að athuga nánar.Ásgrímur L. Ásgrímssonyfirmaður vaktstöðvar siglinga  Stöðumynd úr sjálfvirka auðkenningarkerfinu (AIS - Automatic Identification System) í janúar á þessu ári. Grænu þríhyrningarnir sýna skip sem stödd eru víðsvegar umhverfis landið.  

Áhöfn björgunarþyrlunnar Sifjar sótti slasaða vélsleðakonu á Langjökul

Sunnudagur 19. mars 2006.  Vaktstöð siglinga / stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk boð í gegnum Neyðarlínuna um kl. 17:08 um að kona hefði slasast á vélsleða á Langjökli.  Áhöfn, Sifjar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út. Þyrlan fór í loftið kl. 17:35.  Það tók talsverðan tíma að finna fólkið sem kallaði eftir aðstoðinni enda var skyggni lélegt.  Þyrlan lenti á jöklinum um kl. 19 og nokkrum mínútum síðar var slasaða konan komin um borð í þyrluna. Lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 19:38.Meiðsli konunnar voru mun minni en upphaflega var talið og fékk hún að fara heim að lokinni skoðun á spítalanum.   Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann neyðarsendi og aðstoðaði flugvél sem lenti í erfiðleikum

Laugardagur 11. mars 2006 Áhöfn Sifjar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í dag kl. 14:55 til að leita að neyðarsendi og tókst að staðsetja sendinn í smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Þyrlan var einnig kölluð út til að leiðbeina flugvél sem lenti í vandræðum yfir Þingvöllum. Leit að sendinum hófst í gær en hann sendi stöðugt neyðarsendingar um gervihnött sem bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga.  Þegar leitin bar ekki árangur var að lokum brugðið á það ráð að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að miða út neyðarsendinn. Sif fór í loftið kl. 15:38 og gat áhöfnin skömmu síðar bent á svæðið þar sem neyðarsendirinn fannst. Starfsmaður Póst- og fjarskiptastofnunar og lögreglan fundu síðan sendinn og slökktu á honum. Sif lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 en stuttu síðar var áhöfnin kölluð út að nýju vegna flugvélar sem lenti í vandræðum yfir Þingvöllum.  Þetta var flugvél sem eingöngu var búin til sjónflugs en vegna veðurs og skyggnis voru sjónflugsskilyrði ekki til staðar lengur og var óskað eftir þyrlu til að leiðbeina vélinni. Þyrlan og flugvélin mættust síðan í mynni Borgarfjarðar kl. 16:44. Sif fylgdi flugvélinni til Reykjavíkur. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Tilkynnt um neyðarblys í Eyjafirði

Laugardagur 11. mars 2006 Maður á Svalbarðsströnd hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga kl. 20:10 og tilkynnti að hann hefði séð blys á lofti innarlega í Eyjafirði. Við nánari athugun kom í ljós að ekki var um eiginlegt neyðarblys að ræða en lögreglan á Akureyri kannar málið betur. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Kolbeinsey að hálfu hrunin - ekki lengur hægt að lenda þyrlu á eyjunni

Fimmtudagur 9. mars 2006. Tæplega helmingur af þyrlupalli Kolbeinseyjar er hruninn og nú er ekki lengur hægt að lenda þyrlu á eyjunni. Áhöfn Synjar, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, var í venjubundnu gæsluflugi í dag og kom í ljós er flogið var yfir Kolbeinsey að tæpur helmingur af þyrlupalli eyjarinnar var horfinn.  Áhöfn varðskipsins Óðins og starfsmenn Vita- og Hafnamálastofnunar byggðu þyrlupallinn árið 1989 og hefur eyjan jafnt og þétt minnkað síðan þá.  Til að mynda er þyrlupallurinn nú hæsti punktur eyjarinnar en þegar hann var byggður voru aðrir hlutar eyjarinnar hærri.  Nú má sjá steypustyrktarjárnin stingast út úr pallinum þar sem hann brotnaði.   Syn flaug yfir Kolbeinsey fyrir um einum og hálfum mánuði síðan og var þyrlupallurinn þá í heilu lagi að sögn Tómasar Helgasonar sem var flugstjóri í eftirlitsfluginu í dag.   Landhelgisgæslumenn hafa skoðað eyjuna bæði úr lofti og neðansjávar.  Jónas Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar Landhelgisgæslunnar er einn af þeim sem kafað hefur við eyjuna.  Hann segir að það kæmi ekki á óvart þótt eyjan hyrfi í nánustu framtíð því að undirstöður hennar eru mjög rýrar.  Þær líta næstum út eins og grannur stilkur undir blómi. Sjá meðfylgjandi myndir en með því að bera saman myndir sem hafa verið teknar undanfarin ár má greinilega sjá hvernig eyjan er smám saman að hverfa.Kolbeinsey 9. mars 2006. Ljósmynd: Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild LHG. Kolbeinsey 9. mars 2006. Ljósmynd: Páll Geirdal.Kolbeinsey 9. mars 2006. Ljósmynd: Páll Geirdal. Kolbeinsey 3. janúar 2006. Þarna er þyrlupallurinn í heilu lagi. Ljósmynd: Páll Geirdal.Kolbeinsey 21. október 2005.  Þarna er þyrlupallurinn mjög greinilegur og í heilu lagi. Ljósmynd: Páll Geirdal. Uppsláttur í Kolbeinsey árið 1989.  Áhöfn Óðins og starfsmenn Vita- og hafnamálastofnunar byggðu þyrlupallinn. Ljósmynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi.Bygging þyrlupalls í Kolbeinsey árið 1989. Ljósmynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi.Þyrlupallurinn tilbúinn í Kolbeinsey. Ljósmynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Rúnar vélstjóri kveður Landhelgisgæsluna eftir 17-18 ára starf

Miðvikudagur 8. mars 2006. Rúnar Jónsson vélstjóri á varðskipinu Ægi hætti nýlega störfum hjá Landhelgisgæslunni. Hann hóf störf á gamla Ægi sumarið 1959 og því eru liðin 47 ár frá því að hann kom fyrst til Landhelgisgæslunnar. Það telst til tíðinda þegar menn, sem hafa svo lengi tengst Landhelgisgæslunni, hætta störfum. Rúnar var 1. vélstjóri á varðskipinu Ægi þegar hann hætti en hafði einnig oft gegnt yfirvélstjórastarfinu. Rúnar hóf nám í Vélskóla Íslands árið 1958 og lauk námi árið 1961.  Hans fyrsta starf hjá Landhelgisgæslunni var því sumarstarf milli fyrsta og annars bekkjar í Vélskólanum. Sumarið 1959 var gamli Ægir að mestu við síldarleit.  Þórarinn Björnsson var skipherra og yfirvélstjórarnir voru þeir Lárus Magnússon og Andrés Jónsson. Sumarið 1960 kom Rúnar svo til starfa á varðskipinu Þór en þá var meginverkefnið fiskveiðieftirlit og að verja 12 sjómílna Landhelgina. Rúnar starfaði hjá ýmum útgerðum og öðrum vinnuveitendum bæði hérlendis og erlendis á árunum 1961-1989 og var því með fjölbreytta reynslu er hann kom að nýju til Landhelgisgæslunnar árið 1989. Hann fór strax á varðskipið Ægi og hefur starfað þar síðan. Samanlagt hefur Rúnar starfað hjá Landhelgisgæslunni í um 17-18 ár og aðspurður um hvað sé minnisstæðast frá þessum tíma segir hann að það sé svo margt að það væri efni í langan texta.  Hann segist alltaf hafa haft gaman af starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni og sér ekki eftir einum einasta degi sem fór í það enda hefur hann kynnst þar mörgum góðum félögum. Landhelgisgæslan þakkar Rúnari vel unnin störf í þágu stofnunarinnar og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Georg Kr. Lárusson forstjóri, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra, Rúnar Jónsson vélstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson fyrrverandi forstjóri og Halldór Benóný Nellett skipherra á varðskipinu Ægi.  Fyrrverandi forstjóra var boðið til að skoða varðskipið Ægi eftir breytingar og endurbætur á því í Póllandi og því gat Rúnar kvatt tvo forstjóra á einu bretti í hádegisverði um borð í Ægi um það leyti sem hann lét af störfum.Rúnar vélstjóri.  Mynd: Jón Páll Ásgeirsson.        

Björgunarþyrlan Sif til taks á ný

Miðvikudagur 8. mars 2006. Sif, minni björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, er komið í gagnið á ný eftir viðgerð.  Ófyrirséð viðhald gerði það að verkum að ekki var hægt að nota þyrluna um tíma en svo óheppilega vildi til að á sama tíma er stærri björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar í mjög viðamikilli skoðun, svokallaðri 3000 tíma skoðun, sem gert er ráð fyrir að ljúki í seinni hluta þessa mánaðar.Eftir prófun kl. 21 í gærkvöldi var Sif til taks á ný.  Landhelgisgæslan hefur í millitíðinni treyst á danska sjóherinn og Varnarliðið en þyrlur frá Varnarliðinu og danska varðskipinu Triton hafa komið til bjargar á meðan þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið óvirkar. Landhelgisgæslan er með samstarfssamninga bæði við Varnarliðið og danska sjóherinn um gagnkvæma aðstoð við leit og björgun.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Vélsleðaslys á Langjökli - þyrla Varnarliðsins flutti hinn slasaða á sjúkrahús

Laugardagur 4. mars 2006.Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga fékk tilkynningu um vélsleðaslys á Langjökli um kl. 12:30.  Þar hafði maður fallið um 40 metra niður af snjóhengju og slasast.Stjórnstöðin hafði strax samband við Varnarliðið og óskaði eftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Um það bil 17 mínútum síðar óskaði lögreglan eftir því að þyrla yrði send af stað.Þyrla Varnarliðsins fór í loftið rétt fyrir kl. 14.  Flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, fór í loftið stuttu síðar til að halda uppi fjarskiptum milli þyrlunnar og vettvangs meðan á aðgerðum stæði, þ.e. hún var notuð sem endurvarpi fyrir fjarskipti. Um kl. 14:30 voru báðar vélarnar komnar á slysstað og voru menn úr björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á staðnum.  Þyrla Varnarliðsins lenti með slasað vélsleðamanninn við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 15.  Að sögn varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga skipti sköpum við björgunarstörfin að flugvél Flugmálastjórnar bar boð milli Varnarliðsþyrlunnar og annarra björgunaraðila. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Landhelgisgæslan/Sjómælingar Íslands gefa út rafræn sjókort í fyrsta sinn

Föstudagur 3. mars 2006.Fyrir um hálfu ári var greint frá því að Landhelgisgæslan / Sjómælingar Íslands hafi samið við Bresku sjómælingarnar (UKHO) um dreifingu á rafrænum sjókortum ENC (Electronic Navigationl Chart) í gegnum dóttur fyrirtæki þeirra, IC-ENC. Nú um áramótin kom svo út fyrsta ENC kortið og annað er rétt ókomið. Kortin sem um ræðir eru rafrænar útgáfur af sjókortum nr. 31 og 81.ENC kort eru vigur kort (vector kort) á S57 formi, sem er alþjóðlegur staðall. Rasta-  og vigurkort hafa verið á markaðnum um nokkurn tíma. Umrædd ENC kort eru fyrstu „löglegu“ tölvukortin sem geta koma í stað hefðbundinna pappírskorta um borð í skipum, svo fremi sem þau eru notuð í ECDIS, rafrænu sjókorta- og upplýsingakerfi.   ECDIS (Electronic Chart Display & Information System) er í raun landupplýsingakerfi (e. GIS) þar sem skipstjórnarmenn geta valið upplýsingar sem birtast. Þær geta verið aðrar en kortin, s.s. upplýsingar frá radar, GPS, veður, skipaumferð (AIS) o.fl. Aðrar gerðir af rafrænum sjókortakerfum, ekki ECDIS, eru kallaðar ECS (Electronic Chart System) og koma ekki í stað pappírskorta um borð í skipum.   Stefnt er að því að öll yfirsiglingakort (1:300 000) verði komin á rafrænt form innan árs. Að því búnu verður innsiglingin til Reykjvíkur tekin fyrir.   IC-ENC (www.ic-enc.org) sér um yfirferð og dreifingu ENC korta fyrir Sjómælingar Íslands í gegnum valda söluaðila (http://www.ic-enc.org/page_vars.asp). Athugið að kortin fást ekki hjá Sjómælingum Íslands. ENC kortaskrá Alþjóða sjómælingastofnuninnar (IHO) má finna hér: http://services.ecc.as/ihocc/public.   Níels Bjarki Finsenverkefnisstjóri rafrænna sjókortahjá Landhelgisgæslu Íslands.   Huti af rafrænu sjókorti af suðvesturhorni landsins. Kort nr. IS00031.   Samsett tvö rafræn sjókort fyrir Suðurland. Kort nr. IS00031 og IS00081.
Síða 1 af 2