Fréttayfirlit: apríl 2006

Lávarðadeildin heimsækir forstjórann

Föstudagur 28. apríl 2006. Þeir skipstjórnarmenn sem vilja eiga kost á að starfa sem skipherrar hjá Landhelgisgæslunni þurfa að taka svokallaða varðskipadeild eða 4. stig á skipstjórnarsviði Fjöltækniskólans. Í gegnum árin hefur þetta stig verið kallað Lávarðadeildin eða Lordinn.Lávarðarnir eru um þessar mundir að klára síðustu tímana í skólanum og prófin framundan. Námið er fyrst og fremst foringjamenntun fyrir skipstjórnarmenn Landhelgisgæslunnar. Kennd er leit og björgun, löggæslufræði, lögfræði, hafréttur, tjáning, skýrslugerð, þjónustusiðir, enska, sjómælingar og fleira. Í dag litu Lávarðarnir við hjá Georgi Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar og gáfu honum könnu með skjaldarmerki deildarinnar og áletruninni ,,Lordinn" eins og vera ber. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Á myndinni eru Pálmi Jónsson, Guðmundur Rúnar Jónsson og Jón Páll Ásgeirsson skipstjórnarmenn hjá Landhelgisgæslunni, Andri Leifsson, Pétur Pétursson og Arnar Páll Ágústsson, þá Gunnar Örn Arnarson skipstjórnarmaður hjá LHG, Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs LHG, Georg Kr. Lárusson forstjóri og Thorben Jósef Lund skipstjórnarmaður hjá LHG. Kristján og Thorben sjá jafnframt um hluta kennslunnar á 4. stigi. Mynd: DS.Pálmi Jónsson afhenti Georgi Kr. Lárussyni könnuna fyrir hönd Lávarðanna og hélt stutta tölu af því tilefni. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson.

Úttekt heilbrigðisráðuneytisins á sjúkraflugi á Íslandi

Miðvikudagur 26. apríl 2006. Heilbrigðisráðuneytið hefur birt upplýsingar um sjúkraflug á Íslandi. Þar er meðal annars yfirlit yfir fjölda sjúkrafluga Landhelgisgæslunnar árin 2000-2004 sem birtist í töflunni hér fyrir neðan. Ár Útköll alls Þar af sjúkraflug Fjöldi sjúklinga 2000 152 103 110 2001 130 85 92 2002 113 78 80 2003 124 88 98 2004 111 80 90 Sjá umfjöllunina í heild á vef heilbrigðisráðuneytisins á slóðinni:http://heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2174Úr myndasafni. Sjúkraflug um borð í íslenskt skip. Úr myndasafni. Sigmaður að störfum í sjúkraflugi.

Léleg veiði á úthafskarfaslóð á Reykjaneshrygg - níu sjóræningjaskip á miðunum

Þriðjudagur 25. apríl 2006.Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar eru aflabrögð á úthafskarfaslóð á Reykjaneshrygg fremur dræm og aðeins var einn íslenskur togari á slóðinni í gærmorgun. Flestir voru íslensku togararnir 6 talsins í síðustu viku.Samkvæmt síðasta yfirliti voru 40 erlendir togarar tengdir úthafskarfaveiðum á veiðislóð, á siglingu í efnahagslögsögunni eða í höfn á Íslandi.  Fimmtán þeirra eru frá Rússlandi,  fjórir spænskir, níu svokölluð sjóræningjaskip og einn frá hverju eftirtaldra landa: Litháen, Lettlandi, Portúgal, Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Þýskalandi. Það er lögum samkvæmt óheimilt að veita sjóræningjaskipum þjónustu í íslenskum höfnum en svo eru skipin kölluð sem veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsráðsins án veiðiheimilda og kvóta.  Sjóræningjaskipin sem skráð eru í Georgíu heita: Carmen, Dolphin, Eva, Isabella, Juanita, Pavlovsk, Rosita og Ulla. Eitt sjóræningjaskip er skráð í Hondúras og heitir Santa Nikolas.Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn varðskipsins Ægis tók á hryggnum við eftirlit nú í apríl.  Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Það gefur á bátinn á Reykjaneshrygg. Mynd: Halldór Benóný Nellett skipherra á varðskipinu Ægi. Einar Örn Einarsson stýrimaður og Birgir H. Björnsson stýrimaður um borð í rússneska togaranum Omar ásamt skipstjóranum. Skipstjórinn á Omar var með allt á tæru og var vel tekið á móti NEAFC-eftirlitsmönnum Landhelgisgæslunnar í skipinu.Einar Örn stýrimaður kannar birgðirnar um borð í rússneskum togara. Allt í góðu lagi hjá Rússunum. Sjóræningjaskipið Ulla frá Georgíu. Mynd Halldór Benóný Nellett skipherra á varðskipinu Ægi. Sjóræningjaskipið Santa Nicolas frá Hondúras. Mynd: áhöfn Ægis. Sjóræningjaskipið Rosita frá Georgíu. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi.Sjóræningjaskipið Pavlovsk frá Georgíu. Mynd: áhöfn Ægis.Sigurður Óskarsson stýrimaður les sjóræningjaskipunum pistilinn. Sjóræningjaskipið Juanita frá Georgíu. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi.Sjóræningjaskipið Isabella frá Georgíu. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi. Sjóræningjaskipið Eva frá Georgíu. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi. Sjóræningjaskipið Dolphin frá Georgíu. Mynd: áhöfn Ægis. Sjóræningjaskipið Carmen frá Georgíu. Mynd: áhöfn Ægis.    

Landhelgisgæslan auglýsir laus störf

Landhelgisgæsla Íslands hefur auglýst störf laus til umsóknar. Um er að ræða störf flugrekstrarstjóra, flugmanna, flugvirkja, stýrimanna og afleysingastarf lögfræðings. Auglýsinguna í heild má sjá á vefslóðinni /displayer.asp?cat_id=85 og umsóknareyðublöð má nálgast á eftirfarandi slóð /upload/files/ATVINNUUMSÓKN%20-%202006.doc. Umsóknarfrestur er til 8. maí n.k. Inga Hanna Guðmundsdóttirstarfsmannastjóri

Bráðabirgðalausn um eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands

Fréttatilkynning frá dómsmálaráðuneytinu 18. apríl 2006 nr. 19/2006 Ríkisstjórnin fjallaði í morgun um tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, að bráðabirgðalausn um eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands. Í tillögunni felst, að leigðar verði til landsins tvær þyrlur af sambærilegri gerð og nú eru í rekstri hjá landhelgisgæslunni, starfsfólki gæslunnar verði fjölgað til að unnt verði að reka fleiri þyrlur og halda úti tveimur þyrluvöktum allan sólarhringinn allan ársins hring. Þá verði búnaði til töku eldsneytis fyrir þyrlur komið fyrir um borð í varðskipum landhelgisgæslunnar. Tillagan miðar að því, að ekki dragi úr þyrlubjörgunargetu hér við land við brotthvarf þyrla varnarliðsins. Tillagan var unnin í samráði við forstjóra og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands undir forystu Stefáns Eiríkssonar, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, með ráðgjöf frá Leifi Magnússyni verkfræðingi. Jafnframt hefur verið haft samráð við samstarfsnefnd ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Áfram verður unnið að tillögu um framtíðarskipulag þyrlubjörgunarsveitar hér á landi og að því stefnt að þær liggi fyrir í næsta mánuði. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,18. apríl 2006  

Sif í skoðun og endurbótum í Noregi

Þriðjudagur 18. apríl 2006.Björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, Sif, var flogið til Færeyja í gær og nú er hún á leið til Stavanger í Noregi þar sem vélin fer í skoðun og endurbætur.  Verið að fullgilda ýmsan búnað í vélinni og bæta við búnaði til að gera hana hæfari til að gegna hlutverki sínu. Þar má nefna endurbætur á fjarskipta- og tölvubúnaði vélarinnar, aðstöðu fyrir áhöfn og fleira. Eins og kunnugt er kom stóra björgunarþyrlan Líf úr 3000 tíma skoðun 12. apríl sl. Á meðan Sif er í skoðun í Noregi um eins mánaðar tíma verður notast við stóru björgunarþyrluna Líf og einnig má minna á að Landhelgisgæslan er með samning við Varnarliðið og danska sjóherinn um gagnkvæma aðstoð við leit og björgun.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Alls 42 skip að karfaveiðum á Reykjaneshrygg - þar af 9 sjóræningjaskip

Þriðjudagur 19. apríl 2006. Landhelgisgæslan hefur upplýsingar um 42 karfaskip á NEAFC svæðinu á Reykjaneshrygg.  Skip frá aðildarlöndum NEAFC, öðrum en Íslandi, eru 27 talsins og eru frá eftirtöldum ríkjum:  5 skip frá Spáni, 15 skip frá Rússlandi, 1 skip frá Litháen, 1 skip frá Lettlandi, 1 skip frá Portúgal, 1 skip frá Noregi, 1 skip frá Færeyjum, 1 skip frá Þýskalandi, 1 skip frá Grænlandi.  Auk þess eru 6 íslensk skip á svæðinu. Sjóræningjaskipin eru 9 talsins en þar af eru 8 skráð í Georgíu.  Það eru skipin Carmen, Dolphin, Eva, Isabella, Juanita, Rosita, Pavlovsk og Ulla.  Svo er eitt sjóræningjaskip frá Hondúras en það heitir Santa Nikolas. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, fór nú síðdegis í eftirlitsflug um svæðið og er væntanleg seint í kvöld.  Upplýsingar úr því flugi um sjóræningjaskip verða birtar við fyrsta tækifæri. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Sjóræningjaskip halda uppteknum hætti á Reykjaneshrygg

Mánudagur 17. apríl 2006. Meðfylgjandi eru mynd tók Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipi Landhelgisgæslunnar í fyrradag af sjóræningjaskipinu Dolphin (kallmerki 4LEQ) þar sem skipið var að ólöglegum karfaveiðum við 200 sjómílna mörkin á Reykjaneshrygg.Samkvæmt upplýsingum frá skipherra varðskipsins, Halldóri Nellett, var skipstjóranum tilkynnt að hann væri að ólöglegum veiðum á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir vegna þess. Alls eru nú 6 sjóræningjaskip við ólöglegar karfaveiðar (IUU veiðar - illegal, unregulated, unreported fishing á NEAFC svæði) rétt utan við  200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Sjóræningjaskipið Dolphin.    

Umfangsmikil leit að tveimur vélsleðamönnum á Langjökli í nótt - Þeir fundust heilir á húfi

Föstudagur 14. apríl 2006.   Mikil leit var gerð að tveimur vélsleðamönnum í nótt en ættingjar létu vita í gærkvöldi að þeirra væri saknað eftir að þeir höfðu ekki skilað sér úr vélsleðaferð á Langjökli. Neyðarlínan lét stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga vita rétt upp úr miðnætti að mannanna væri saknað. Ekki var strax óskað eftir þyrlu.  Ekki leið þó á löngu þar til talið var nauðsynlegt að senda þyrlu á svæðið og kom beiðni um það kl. 00:45.  Áhöfn Lífar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í framhaldinu.  Hún fór í loftið kl. 1:43.  Einnig var óskað eftir aðstoð flugvélar Flugmálastjórnar, TF-FMS, og fór hún af stað kl. 3:47.  Flugmálastjórnarvélin var bæði notuð við leit og sem endurvarpi við fjarskipti á leitarsvæðinu. Líf kom aftur til Reykjavíkur kl. 4:20 til að taka eldsneyti og var skipt um einn mann í áhöfn.  Síðan hélt þyrlan aftur til leitar.  Um kl. 5:30 var óskað eftir þyrlu Varnarliðsins til aðstoðar. Er áhöfnin hafði kynnt sér aðstæður og fengið úthlutað leitarsvæði, fór þyrlan í loftið eða kl. 7 í morgun. Kl. 7:08 tilkynnti áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar að hún hefði fundið tvo yfirgefna vélsleða í Hallmundarhrauni 3.3 mílur norðan við Eiríksjökul. Við það breyttist leitarsvæðið talsvert og fann þyrla Varnarliðsins mennina um tíuleytið 4 mílur austur af staðnum þar sem sleðarnir fundust. Þeir voru heilir á húfi.Líf, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, var þá komin til Reykjavíkur og önnur áhöfn komin út á flugvöll rétt í þann veginn að fara í loftið á björgunarþyrlunni Sif. Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna og annarra viðbragðsaðila tók þátt í leitinni. Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Úr myndasafni. Líf á Langjökli.

Líf sækir slasaðan sjómann út á Reykjaneshrygg

Fimmtudagur 13. apríl 2006.   Björgunarstjórnstöðin í Madrid hafði samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 7:16 í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs sjómanns um borð í spænska togararanum Farruco sem hefur verið að karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Skipið var statt 210 sjómílur suðvestur af Reykjanesi er beiðni um aðstoð barst.   Varðstjóri Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga fékk þær upplýsingar frá Madrid að sjómaðurin væri með alvarlega brjóstholsáverka. Læknir í áhöfn Lífar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, taldi nauðsynlegt að sækja manninn um leið og skipið væri komið nægilega nálægt landi til að þyrlan gæti sótt hann.    Þær upplýsingar fengust frá skipinu að þar væri enginn enskumælandi um borð en skipverjar hefðu reynslu af móttöku þyrlu og hífingum. Skipstjóranum var sagt að sigla í átt að landi.   Líf fór í loftið kl. 12:51 en þá var skipið 150 sjómílur frá Reykjanesi. Þyrlan kom að togaranum á þriðja tímanum.  Hífing gekk vel og var maðurinn kominn um borð kl. 15. Flugstjóri áætlar að þyrlan lendi við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli um kl. 16:45.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Úr myndasafni: Líf á flugi yfir hafinu.

Líf komin í gagnið á ný

Miðvikudagur 12. apríl 2006. Stærri björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Líf, er komin í gagnið á ný eftir svokallaða 3000 tíma skoðun sem hefur tekið nokkrar vikur.Vélin var prufukeyrð í morgun og lögðu flugvirkjar Landhelgisgæslunnar síðustu hönd á verkið eftir hádegið. Sjá meðfylgjandi myndir frá flugdeild Landhelgisgæslunnar.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Sjóræningjaskip á Reykjaneshrygg

Miðvikudagur 12. apríl 2006. Í eftirlitsflugi Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslu Íslands, á svæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) á Reykjaneshrygg kom áhöfnin auga á þrjú svokölluð sjóræningjaskip sem skráð eru í Georgíu.  Þetta eru skipin Pavlovsk 4LNI, Dolphin 4LEQ og Ulla 4LLA.   Aðeins sást til eins þeirra að veiðum.  Það var sjóræningjaskipið Pavlovsk. Sjá lista yfir svokölluð IUU-skip (Illegal, unreported, unregulated fishing) á heimasíðu NEAFC sem Ísland er aðili að: http://www.neafc.org/Listinn er undir dálkinum scheme 2006 lengst til hægri en staðfesti listinn er IUU-B list.Skýrsla um málið ásamt myndum af skipunum er send til sjávarútvegsráðuneytisins sem kemur upplýsingunum á framfæri við aðalskrifstofur NEAFC. Meðfylgjandi er mynd sem áhöfn Synjar tók í gær af sjóræningjaskipinu Ullu á reki inni á fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC á Reykjaneshrygg.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingftr. Sjóræningjaskipið Ulla á reki úti á Reykjaneshrygg.

Nýtt lagafrumvarp og efling þyrlusveitar til umfjöllunar í vefriti dómsmálaráðuneytis

Mánudagur 10. apríl 2006. Í nýjasta vefriti dómsmálaráðuneytisins er meðal annars sagt frá því að Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hafi nýverið lagt fram nýtt frumvarp að lögum um Landhelgisgæslu Íslands og og að bráðabirgðatillögur um eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar liggi fyrir fljótlega eftir páska.  Nálgast má veftímaritið á slóðinni: http://www.domsmalaraduneyti.is/media/vefrit/2006_02_tbl.pdf

Tveir vélsleðamenn lentu í snjóflóði í Hoffellsdal inn af Fáskrúðsfirði- viðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni

Mánudagur 10. apríl 2006.   Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni í kvöld vegna snjóflóðs sem féll í Hoffellsdal inn af Fáskrúðsfirði en tveir menn sem voru á vélsleðum á svæðinu lentu í flóðinu og var annars þeirra saknað um tíma.  Björgunarsveitarmaður með leitarhund fann manninn u.þ.b. tveimur klukkustundum eftir að hann lenti í flóðinu. Ekki er hægt að greina frá ástandi hans að svo stöddu.   Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð og var fulltrúi Landhelgisgæslunnar þar á meðan á aðgerðum stóð.   Áhöfn Sifjar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út  kl. 18:44.  Óskað var eftir að þyrlan færi austur til þess að flytja björgunarmenn frá Austfjörðum á vettvang. Áhöfn þyrlunnar mat aðstæður svo að þegar þyrlan kæmi austur myndi hún ekki nýtast í þetta verkefni vegna myrkurs þar sem nætursjónaukabúnaður þyrlunnar hefur ekki verið vottaður og því ekki hægt að nota hann sem stendur. Þyrlan var því afturkölluð um kl. 19:16.  Ákveðið var að hafa hana tilbúna til leitar í dagrenningu ef á þyrfti að halda.   Þá var brugðið á það ráð að óska eftir aðstoð Varnarliðsins.  Áhöfn þyrlu Varnarliðsins fór þegar að meta aðstæður og gera sig klára í verkefnið.  Ákveðið var að kalla einnig út áhöfn Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar, til að flytja auka björgunarlið af suðvesturhorninu.   Varnarliðsþyrlan var í þann veginn að fara í loftið þegar þær fréttir bárust um kl. 20:20 að maðurinn sem saknað hafði verið væri fundinn. Voru þá bæði þyrla Varnarliðsins og Syn afturkallaðar.  Þess ber er að geta að búið er að breyta ljósabúnaði Sifjar, minni björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, svo hægt sé að nota nætursjónauka í henni. Norskt fyrirtæki sá um verkið og er næsta skref að fá vottun flugmálayfirvalda.  Nætursjónaukar hafa verið í Líf, stærri björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, síðan árið 2002 og verður Líf komin í gagnið um páskana eftir 3000 tíma skoðun.   Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.  

Slasaður sjómaður um borð í Júlíusi Geirmundssyni sóttur með þyrlu

Sunnudagur 9. apríl 2006.   Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 16:30 vegna slasaðs manns um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS sem staddur var 90 sjómílur vestur af Látrabjargi. Þyrlan hélt af stað kl. 17:19 og var stefnan sett á Rif  þar sem taka þurfti eldsneyti áður en haldið var út á haf. Lent var á Rifi kl. 17:56 og haldið þaðan til móts við Júlíus kl. 18:15.  Komið var að skipinu kl. 18:50.  Sigmaður seig með börur niður í skipið til að búa um sjúklinginn en hann var slasaður á baki.  Sjúklingurinn var kominn um borð í þyrluna kl. 19:05 og var lent við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 20:24.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.Reynir G. Brynjarsson flugvirki við spilið og Þengill Oddsson læknir um borð í Sif.  Sigmaður í fluginu var Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild.Þyrlan yfir togaranum Júlíusi Geirmundssyni.  

Björgunarþyrlan Sif sótti veikan sjómann

Sunnudagur 9. apríl 2006   Haft var samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 18:35 og óskað efitr þyrlu til að sækja veikan mann um borð í togarann Þór sem staddur var 10 sml. suður af Reykjanesi.  Óskað var eftir aðstoð þyrlu varnarliðsins þar sem Sif, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, var upptekin í öðru útkalli.  Þyrla varnarliðsins fór í loftið kl. 20:20 og var komin að skipinu um korteri síðar. Ekki tókst að hífa manninn um borð.Sif, þyrla Landhelgisgæslunnar, sem var nýkomin úr sjúkraflugi vestur af Látrabjargi, fór í loftið kl. 22:26.  Haldið var fyrir Reykjanes að skipinu og var komið að því kl. 22:55.  Sigmanni var slakað niður auk björgunarlykkju og eftir að búið var að meta ástand sjúklingsins var hann hífður um borð í þyrluna ásamt sigmanni. Þeir voru komnir um borð í þyrluna kl. 23 og var lent við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 23:25.   Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.
Síða 1 af 2