Fréttayfirlit: apríl 2006 (Síða 2)

Slasaður vélsleðamaður sóttur með þyrlu

Laugardagur 8. apríl 2006.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 15:28 vegna vélsleðaslyss norð-vestur af Strúti norðan Mýrdalsjökuls. Vélsleðamaður hafði slasast við að falla 4-5 metra fram af hengju.   Sif, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, fór í loftið kl. 16 og var komin yfir slysstaðinn um 40 mínútum síðar.  Slysstaður var innarlega í djúpu gili og ekki aðgengilegur þyrlu og lenti þyrlan því um 500 metra frá slysstaðnum kl. 16:55. Þaðan fóru stýrimaður og læknir í áhöfn þyrlunnar á slysstaðinn með vélsleðamönnum sem voru á svæðinu.   Félagar hins slasaða höfðu í millitíðinni komið honum fyrir á sleða og lagt af stað til móts við þyrluna.  Eftir um 10 mínútna sleðaferð komu læknir og stýrimaður að hinum slasaða sem. Ekið var með hann á sleðanum í átt að Strúti og fundinn heppilegur lendingarstaður fyrir þyrluna. Hinn slasaði var kominn um borð í þyrluna kl. 17:35 og var hann fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík.   Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.

Kynning á dvergkafbátnum Gavia um borð í varðskipinu Óðni og sameiginleg æfing Landhelgisgæslunnar og lögreglu

Föstudagur 7. apríl 2006.   Nýlega hélt fyrirtækið Hafmynd kynningu á dvergkafbátnum Gavia sem fyrirtækið framleiðir. Kynningin var haldin um borð í varðskipinu Óðni. Starfsmenn sérsveitar lögreglu og sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar komu fyrir tundurduflum á botni Reykjavíkurhafnar sem kafbáturinn var látinn leita að og niðurstöður síðan skoðaðar.   Báturinn er útbúinn til rannsókna neðansjávar og er hægt að nýta hann í margvíslegum tilgangi. Landhelgisgæslumenn létu sig ekki vanta á kynninguna en þar voru einnig starfsmenn lögreglu og hafnaryfirvalda.   Í framhaldi af kynningunni nýttu kafarar Landhelgisgæslunnar og sérsveitar Ríkislögreglustjórans tækifærið og æfðu leitarköfun vegna hættulegra hluta.   Dagmar Sigurðardóttir                 Ásgrímur Ásgrímsson lögfr./upplýsingaftr.                     yfirmaður vaktstöðvar siglinga   Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Ægi tók þessa mynd þegar starfsmenn Landhelgisgæslunnar, lögreglu og hafnaryfirvalda kynntu sér nýtingarmöguleika dvergkafbátsins Gavia.

Viðbúnaður vegna fiskibáta í slæmu veðri út af Vestfjörðum

Miðvikudagur 5. apríl 2006. Skipstjórar þriggja línubáta sem staddir voru í vonskuveðri á Vestfjörðum höfðu samband við Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í hádeginu og óskuðu eftir að fylgst væri sérstaklega með þeim á meðan þeir sigldu að landi.  Þeir voru staddir í ísingu, kafaldsbyl og mjög hvassri norð-norðaustanátt u.þb. 10 sjómílur norðvestur af Kópanesi.  Þeir lýstu ekki yfir neyðarástandi en töldu rétt að láta vita af sér þar sem veðuraðstæður voru svo slæmar. Vegna veðurs og ísingar missti vaktstöðin bátana oft út af skjá sjálfvirku tilkynningarskyldunnar og fjarskiptasamband var stopult af sömu ástæðum. Varðstjórar í Vaktstöðinni athuguðu hvaða skip voru nærstödd og úr varð að togarinn Páll Pálsson var beðinn um að hífa og halda í átt til bátanna en hann var þá staddur 30 sjómílur vestur af Kópanesi. Einnig var kannað í sjálfvirka tilkynningarkerfinu hvaða skip voru í nærliggjandi höfnum á Vestfjörðum.   Að beiðni vaktstöðvar siglinga leysti áhöfn togbátsins Gunnbjarnar ÍS-302, sem var nýkominn inn til Flateyrar, landfestar og hélt til móts við bátana. Fiskiskipið Bjarni Gíslason, sem statt var á Patreksfjarðarflóa, gerði slíkt hið sama.  Vaktstöð siglinga setti einnig björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum í viðbragðsstöðu, þ.m.t. áhafnir björgunarbátanna Gunnars Friðrikssonar á Ísafirði og Varðar á Patreksfirði. Áhöfn Varðar færði sig yfir í togbátinn Vestra frá Patreksfirði sem talinn var henta betur til aðgerða vegna veðurs og beið átekta.  Áhafnir björgunarbátanna létu Vaktstöð siglinga vita að kolvitlaust veður væri á Patreksfirði og Ísafirði.  Vegna veðurs og ísingarhættu var ekki talið ráðlegt að senda Sif, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, af stað enda hafði neyðarástandi ekki verið lýst yfir. Varðskipið Ægir, sem statt var við sunnanvert Snæfellsnes, var hins vegar sent áleiðis norður yfir Breiðafjörðinn.  Skipstjórar fiskibátanna reyndu að vera í samfloti og miðaði þeim hægt og örugglega í átt að mynni Dýrafjarðar.  Samband náðist við þá af og til. Um kl. 13:30 tilkynntu bátarnir að þeir væru komnir á rólegri sjó í mynni Dýrafjarðar og smám saman var dregið úr viðbúnaði.  Síðustu björgunarskipin, varðskipið Ægir og togbáturinn Gunnbjörn, voru afturkallaðir kl. 13:45. Upp úr kl. 14:30 höfðu bátarnir þrír náð höfn á Þingeyri heilu og höldnu. Dagmar Sigurðardóttir                         Ásgrímur Ásgrímssonlögfræðingur/upplýsingaftr.                   yfirmaður Vaktstöðvar siglinga

Samningur við Landmælingar um aukna notkun landupplýsinga við björgunarstörf

Þriðjudagur 4. apríl 2006.Fyrir helgina var undirritað samkomulag milli Landmælinga Íslands og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð um aukna notkun landupplýsinga við björgunarstörf. Í sameiginlegri fréttatilkynningu segir: Til þessa hafa venjuleg landakort verið notuð, en með samkomulaginu er stefnt að því að auka notkun á  stafrænum kortum, gervitunglamyndum og öðrum landupplýsingum sem Landmælingar Íslands hafa yfir að ráða. Gögnin munu þannig nýtast þeim sem kallaðir eru út vegna slysa, eldsvoða, löggæslu, leitar, björgunar og náttúruhamfara hvort sem er á landi, sjó eða í lofti. Samstarf þetta er þróunarverkefni í þágu almannaöryggis og stendur yfir í 6 mánuði.   Þeir sem að samkomulaginu standa munu vinna að því að innleiða kort og aðrar stafrænar landupplýsinga frá Landmælingum Íslands til notkunar í gagnagrunn Neyðarlínunnar 112, Fjarskiptamiðstöðvar lögreglu, Vaktstöðvar siglinga, Samhæfingarstöðvarinnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Markmið þessa er að bæta og auka upplýsingar til viðbragðsaðila auk þess sem viðbragðsaðilar skuldbinda sig að miðla til Landmælinga Íslands athugasemdum sem berast vegna gagnanna svo sem um örnefni, vegi eða mannvirki.   Samkomulagið undirrituðu Magnús Guðmunsdson frá  Landmælinum Íslands, Þórhallur Ólafsson frá Neyðarlínunni, Jón Gunnarsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Georg Kr. Lárusson frá Landhelgisgæslunni.  Frá vinstri: Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Skipt um innsiglingardufl á Tálknafirði

Þriðjudagur 4. apríl 2006.Landhelgisgæslan sér um ýmis verkefni fyrir Siglingastofnun samkvæmt sérstökum samningi þar um. Í honum felst m.a. að aðstoða við viðhald á duflum og vitum.Í síðustu ferð varðskipsins Ægis skipti áhöfnin um innsiglingardufl á Tálknafirði. Duflið sem fyrir var, var tekið upp af skipinu, en því nýja var lagt út af tveimur léttbátum varðskipsins. Þegar duflinu var lagt út var hitastig um -7° C og fjörðurinn ísi lagður. Harðbotna bátur var notaður til að brjóta leið fyrir slöngubátana að þeim stað sem duflinu var lagt út.Birgir H. Björnsson yfirstýrimaður á Ægi mundaði myndavélina á meðan félagar hans skiptu út duflinu.Halldór Nellett skipherra á Ægi     Hér er duflinu komið fyrir á milli tveggja báta við varðskipið Ægi. Í svarta bátnum eru Vilhjálmur Ó. Valsson stýrimaður og Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður. Í gráa bátnum eru Baldur Árnason og Rafn Sigurðsson hásetar. Ef vel er að gáð má sjá ísinn sem lagði yfir fjörðinn.   Hér er verið að draga duflið á staðinn með aðstoð harðbotna bátsins, sem þurfti að brjóta ísinn fyrir þá. Í harðbotna bátnum eru Gunnar Kristjánsson og Hinrik Haraldsson hásetar. Í slöngubátunum eru þeir sömu og á fyrri mynd.  

Flutt með þyrlu til Reykjavíkur eftir bílslys við Svínavatn

4. apríl 2006. Kona slasaðist er hún varð undir bíl við Apavatn og var hún flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík. Sif, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug um kl. 11:16. Um kl. 11:30 kallaði vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á áhöfnina og tilkynnti um bílslys við Apavatn. Kona hafði slasast er bíl var ekið yfir hana. Þyrlan flaug þá til Reykjavíkur til að sækja lækni sem er í áhöfn þyrlunnar og fór aftur í loftið kl. 11:44. Flogið var um Þrengsli og var varðskipið Týr staddur út af Þorlákshöfn og aðstoðaði við fjarskipti. Þyrlan lenti við Svínavatn kl. 12:07 því ekki var hægt að komast nær slysstaðnum vegna þoku. Sjúkrabíll flutti konuna frá Apavatni til Svínavatns og fór þyrlan í loftið með hina slösuðu kl. 12:20. Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 12:44.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.
Síða 2 af 2