Fréttayfirlit: júní 2006

Ritháttur á staðsetningum í baughnitum

Föstudagur 30. júní. Undanfarið hefur gætt misskilnings vegna mismunandi ritháttar á staðsetningum sem eru gefnar upp í breidd og lengd í opinberum tilkynningum, lögum eða reglugerðum. Landhelgisgæsla Íslands hefur mælst til þess að ráðuneyti og opinberar stofnanir sameinist um að samræma rithátt á staðsetningum sem upp eru gefnar í baugahnitum til einföldunar fyrir notendur. Landhelgisgæslan og Siglingastofnun Íslands, hafa nú sammælst um að umræddur ritháttur verði samræmdur innan stjórnsýslunnar og víðar þannig að ekkert fari á milli mála í þessum efnum. Einnig er mikilvægt að rithátturinn sé í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar að teknu tilliti til hefða sem þar ríkja, svo sem þeirri að í enskumælandi löndum eru brot úr mínútu rituð með punkti til aðgreiningar en með kommu í germönskum málum eins og íslensku, þýsku og Norðurlandamálunum. Landhelgisgæslan og Siglingastofnun leggja til að staðsetningar verði ritaðar í gráðum, mínútum og hlutum úr mínútu með teknu tilliti til þeirrar nákvæmni í framsetningu sem krafist er hverju sinni og sem hér segir: 1. Breiddargráður verði ávallt ritaðar með a.m.k. fjórum tölustöfum, t.d. 64°00'N. Lengdargráður verði ávallt ritaðar með a.m.k. fjórum tölustöfum, t.d. 06°15'V, og fimm tölustöfum þegar það á við, t.d. 135°00'V. Heiti breiddar (N eða S) eða lengdar (V eða A) verði til áherslu ávallt ritað með hástaf eins og tíðkast t.d. í ensku. 2. Ef aukastafur er notaður verði breiddar- og lengdargráður ritaðar þannig að mínútutáknið komi ávallt síðast, t.d.: 39°06,1'N, 14°00,2'V. Mínútur og tíundu hlutar úr mínútu verði ritaðar þannig: 67°05,6'N, 123°16,7'V eða ef notuð er meiri nákvæmni, t.d. 145°53,24'V. 3. Nauðsynlegt er að gera greinarmun á því hvort staðsetningar eru gefnar upp miðað við enska hefð (alþjóðlega) eða germanska (íslenska). Dæmi á íslensku: 64°18,7'N, 035°25,3'V Dæmi á ensku: 64°18.7'N, 035°25.3'W Ennfremur er mælst til þess að stefnur eða miðanir séu ætíð gefnar upp með þriggja stafa tölu, t.d. 075°. Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri sjómælingasviðs LHG

Sjómælingar við Vestmannaeyjar

Fimmtudagur 29. júní 2006.   Undanfarnar vikur hefur mælingabáturinn Baldur verið við dýptarmælingar við Vestmannaeyjar í samstarfi við jarðvísindamennina Ármann Höskuldsson og Einar Kjartansson. Ýmislegt hefur fundist, m.a. tveir  óþekktir neðansjávardrangar, 9,8 m dýpi vestan við Stórhöfða og 15,1 m dýpi rétt vestan við Faxasund. Nokkrir klakkar, þekktir meðal heimamanna, eins og Þorsteinsklakkur, Faxaklakkur og Gerðisklakkar hafa nú verið staðsettir og verða settir í sjókort. Áætlað er halda áfram mælingum við Vestmannaeyjar að ári.   Baldur er nú við dýptarmælingar milli Dalvíkur og Hríseyjar fyrir RARIK vegna lagningar á sæstreng. Hann fer síðan til mælinga við sunnanverða Vestfirði fyrir nýtt sjókort nr. 43.   Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri sjómælingasviðs LHG.   Mælingar við Vestmannaeyjar 2006   Heimaklettur.   Hver er við stjórn? Gunnar Örn Arnarson (t.v.), stýrimaður og Ágúst Magnússon, skipstjóri.   Óperuhöllin.           Gestir og gangandi.     Skipstjóri í skóviðgerðum.

Björgunarþyrlan Líf og flugvélin Syn farnar til Neskaupstaðar vegna slyss í sundlaug Eskifjarðar

Þriðjudagur 27. júní 2006.Björgunarþyrlan Líf og flugvél Landhelgisgæslunnar Syn hafa verið sendar til Neskaupstaðar vegna mengunarslyssins sem átti sér stað í sundlaug Eskifjarðar um tvöleytið í dag.Líf fór í loftið kl. 14:32 og Syn upp úr kl. þrjú. Auk áhafnar Syn eru um borð í flugvélinni fjórir læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og þrír sjúkraflutningamenn.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar vegna mengunarslyss á Eskifirði

Þriðjudagur 27. júní 2006.Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 14:32 frá Reykjavíkurflugvelli. Í áhöfn voru að þessu sinni tveir læknar en venjulega er einn læknir í áhöfninni.  Líf lenti á Neskaupstað kl. 16:06.  Þar voru fjórir sjúklingar teknir um borð og fluttir til Egilsstaða þar sem þyrlan lenti kl. 17:37.  Á Egilsstöðum voru sjúklingarnir fluttir um borð í Syn, flugvél Landhelgisgæslunnar.  Um borð í henni var auk áhafnar greiningarsveit frá Landspítala háskólasjúkrahúsi sem samanstóð af 4 læknum og tveimur hjúkrunarfræðingum. Í Syn voru einnig þrír sérhæfðir sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Syn flutti fjóra sjúklinga á sjúkrahús í Reykjavík.  Syn lenti í Reykjavík kl. 19:22 en Lif kom til Reykjavíkur kl. 20:53.Annar læknanna í áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar fór með sjúkraflugvél Mýflugs til Akureyrar með sjúklinga.Meðfylgjandi mynd tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar er björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Líf, kom með fjóra sjúklinga til Egilsstaða þar sem þeir voru fluttir yfir í flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Skipherra og yfirvélstjóri í jómfrúrferð

Mánudagur 26. júní 2006 Hjá Landhelgisgæslunni eru fjórir skipherrar sem skiptast á að sigla varðskipunum og sinna stöðu framkvæmdastjóra aðgerðasviðs.  Það eru þeir Halldór Gunnlaugsson, Halldór Benóný Nellett, Kristján Þ. Jónsson og Sigurður Steinar Ketilsson.  Halldór Benóný Nellett er nú framkvæmdastjóri aðgerðasviðs og gegnir þeirri stöðu til ársins 2008.Yfirstýrimenn hafa sumir hverjir gegnt stöðu skipherra í afleysingum og nú hefur einn skipherrann bæst í hópinn en það er Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður sem nú leysir af sem skipherra á varðskipinu Ægi. Það kallast að fara í jómfrúrferðina þegar þeirri stöðu er gegnt í fyrsta sinn.Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók meðfylgjandi mynd af Jakobi V. Guðmundssyni vélstjóra sem nú gegnir stöðu yfirvélstjóra í fyrsta sinn og nýja skipherra Landhelgisgæslunnar, Auðunni F. Kristinssyni, er þeir voru að leggja upp í jómfrúrferðina.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Jón Páll smellti líka mynd af varðskipsnemum sem fara með nýja skipherranum og yfirvélstjóranum í jómfrúrferðina.

Varðskipsnemar hjá Landhelgisgæslunni

Laugardagur 24. júní 2006 Landhelgisgæslan og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa samstarf um að veita 10. bekkingum í grunnskólum landsins tækifæri til að sigla með varðskipi og kynnast störfum um borð.  Allt sumarið eru því að jafnaði sex nemar um borð í hverju varðskipi og hver nemi fær að fara eina ferð. Hjá Landhelgisgæslunni hefur nemunum verið vel tekið og vonast menn til að sumir þeirra skili sér til starfa hjá Landhelgisgæslunni þegar fram líða stundir. Nemarnir fá sérstakan fatnað og húfur sem gefur til kynna stöðu þeirra um borð. Á meðfylgjandi myndum má sjá nema sem fóru með Halldóri Gunnlaugssyni skipherra á varðskipinu Ægi í síðustu ferð en þau tóku m.a. þátt í hátíðahöldunum á sjómannadaginn með áhöfninni á Ægi.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Frá vinstri eru Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður og varðskipsnemarnir Albert Þórir Guðlaugsson, Hrannar Már Ómarsson, Björgvin Vilbergsson, Gróa Lísa Ómarsdóttir og Anna Marta Þorsteinsdóttir en Halldór Gunnlaugsson skipherra er lengst til hægri.  Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson 2. stýrimaður. Hér er sami hópurinn með Vilhjálmi Óla Valssyni stýrimanni lengst til vinstri en Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður tók myndina.  

Forseti Íslands, forstjóri Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á Óðni við afhjúpun minnismerkis um sjómenn í Hull

Laugardagur 24. júní 2006. Forseti íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhjúpaði minnismerki um sjómenn á Íslandsmiðum undanfarnar aldir í Hull í Englandi í gærmorgun. Var minnst sjómanna, bæði íslenskra og breskra, sem höfðu farist við Íslands strendur, einnig þeirra sem bjargað var og björgunarmanna þeirra. Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara. Samsvarandi minnismerki verður afhjúpað í Vík í Mýrdal 30. júní næstkomandi.  Við sama tækifæri var þess minnst að 30 ár eru liðin frá lokum síðasta þorskastríðsins milli Íslendinga og Breta. Athöfnin var liður í hátíðahöldum sem borgaryfirvöld í Hull efndu til og borgarstjórinn í Hull stýrði. Forstjóri Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á varðskipinu Óðni tóku þátt í athöfninni.Meðfylgjandi myndir tók Agnes Vala Oddsdóttir.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands við afhjúpunina. Varðskipið Óðinn í baksýn. Viðstaddir að lokinni afhjúpun minnismerkisins. Borgarstjórinn í Hull flytur ræðu. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara, borgarstjóranum í Hull, Georgi Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar og Pálma Jónssyni stýrimanni á varðskipinu Óðni auk erlendra gesta. Jón Árni Árnason bátsmaður á Óðni lengst til hægri. Georg Kr. Lárusson forstjóri ásamt Sigurði Steinari Ketilssyni skipherra Óðni um borð í varðskipinu. Varðskipið Óðinn fánum prýtt í höfninni í Hull. Borgarstjórinn í Hull og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ræðast við að athöfn lokinni. Minnismerkið um sjómenn við Íslands strendur komið á sinn stað.

Landhelgisgæslan stendur fleiri sjóræningja að verki

Fimmtudagur 22. júní 2006.Í gær fór flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, í eftirlitsflug yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg.  Alls voru 53 togarar að veiðum á slóðinni rétt við mörk íslensku efnahagslögsögunnar en þar af voru 43 erlendir og 10 íslenskir. Í hópnum var einnig eitt erlent birgðaskip. Af þessum 43 erlendu skipum voru 7 sjóræningjaskip á slóðinni en það voru skipin Dolphin, Pavlovsk, Eva, Isabella, Rosita og Carmen sem skráð eru í Georgíu og Santa Nicolas sem er skráð í Honduras.   Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar kom síðan að áttunda sjóræningjaskipinu, Ulla frá Georgíu, þar sem það lá bundið utan á frystiskipinu Polestar frá Panama og verið var að lesta á milli skipanna. Skipin voru stödd 152 sjómílur suðsuðvestan við meginflotann sem var að veiðum við lögsögumörkin.  Polestar er nú komið á svarta lista Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins vegna þjónustu sinnar við sjóræningjaskip.   Þegar Syn nálgaðist skipin Polestar og Ulla sást að skipverjar lokuðu lestum í hasti og reyndu þannig að koma í veg fyrir að upp kæmist um hvað áhafnir voru að aðhafast.  Er áhöfn Synjar kallaði upp skipstjórann á Polestar héldu skipverjar því fram að þeir væru að flytja umbúðir og veiðarfæri yfir í Ulla. Þegar Landhelgisgæslan hefur komið að skipum sem þjónusta sjóræningjaskip hefur það gerst fjarri meginflotanum eins og í gær en þannig eru minni líkur á að upp komist um athæfi þeirra.   Landhelgisgæslumenn hafa grun um að ýmsu fleiru sé umskipað enda ólíklegt að stórt frystiskip eins og Polestar sé eingöngu notað til að flytja umbúðir og veiðarfæri.  Polestar var fyrst staðið að verki við að þjónusta sjóræningjaskip í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar 9. júní sl.  Sjá frétt um það á slóðinni: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=2922   Skýrsla um málið verður send til sjávarútvegsráðuneytisins og Norðaustur- Atlantshafsfiskveiðiráðsins þar sem málið verður tekið fyrir.   Meðfylgjandi myndir tók Tómas Helgason flugstjóri í áhöfn Synjar. Dagmar Sigurðardóttir                      Halldór Benóný Nellettlögfræðingur/upplýsftr.                      framkvæmdastjóri aðgerðasviðs     Hér má greinilega sjá tóm bretti (pallettur) aftan við eina lestarlúguna. Slík bretti eru venjulega notuð til að umskipa fiskikössum.  

Yfirheyrslur vegna meintra brota færeysks togaraskipstjóra standa yfir hjá sýslumanninum á Eskifirði

Þriðjudagur 20. júní 2006 Rannsókn meintra brota skipstjórans á Sancy standa nú yfir hjá sýslumanninum á Eskifirði en þegar skipsskjöl og önnur gögn hafa verið rannsökuð og framburður skipstjórans metinn, verður fyrst hægt að taka ákvörðun um ákæru. Rannsóknin beinist meðal annars að því að kanna hvar afli skipsins var tekinn. Skipstjórnarmaður frá Landhelgisgæslunni, sem kom með Sancy til hafnar á Eskifirði í gær, aðstoðar lögregluna við rannsókn málsins. Fleiri myndir hafa nú borist frá varðskipinu Óðni sem er á siglingu í blíðviðri á leið til Hull í Bretlandi.  Myndirnar tók Vala Agnes Oddsdóttir.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Sif flaug með tvo skipstjórnarmenn Landhelgisgæslunnar austur fyrir land þar sem þeir sigu niður í Óðinn og fóru síðan með léttbát yfir í Sancy.Georg Kr. Lárusson forstjóri, Thorben Lund yfirstýrimaður og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra að fara yfir stöðuna. Skipstjórnarmenn frá Landhelgisgæslunni á leið yfir í Sancy til að leysa félaga sína úr áhöfn Óðins af.

Mál Landhelgisgæslunnar m.a. rædd á fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda

Þriðjudagur 20. júní 2006.Í fréttatilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag er sagt frá umfjöllunarefni fundar dómsmálaráðherra Norðurlanda.  Þar segir: Dómsmálaráðherrar Norðurlanda hittust á fundi í Utstein-klaustri skammt frá Stavanger í Noregi í dag, 20. júní 2006. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sat fundinn og gerði ráðherrunum m.a. grein fyrir breytingum á skipan lögreglumála, sem alþingi samþykkti 2. júní sl. Ráðherrann ræddi einnig um aukin verkefni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana á þess vegum, lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarmiðstöðvar vegna brottfarar varnarliðsins. Hann fagnaði góðu samstarfi við danska varnarmálaráðuneytið vegna öryggisgæslu og björgunarverkefna á sjó og landi, samvinnu við Svía við ákvarðanir vegna nýrrar flugvélar fyrir landhelgisgæsluna og við Norðmenn við ákvarðanir um björgunaþyrlur auk þess sem Danir og Norðmenn hefðu veitt mikla aðstoð við ákvarðanir um nýtt varðskip. Að frumkvæði Svía ræddu ráðherrarnir heimildir lögreglu til að beita sérstökum rannsóknaraðferðum og nauðsyn þess, að skýr lagaákvæði stæðu að baki slíkum heimildum. Þá var rætt um aukið samstarf saksóknara á Norðurlöndum, Finnar gerðu grein fyrir áherslum sínum í Evrópusambandinu þegar þeir fara með forsæti þar síðari hluta ársins. Í umræðum um þessar hugmyndir tók Björn Bjarnason fram, að hann teldi það geta skapað vanda bæði innan Evrópusambandsins og Schengensamstarfsins að flytja refsirétt og samstarf á því sviði undir meirihlutaákvarðanir innan Evópusambandsins.  Úr myndasafni: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fjallar um samning um leigu á þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.

Ráðist til uppgöngu í færeyskan togara - inni í íslenskri lögsögu án lögboðinna tilkynninga

Mánudagur 19. júní 2006.Á meðfylgjandi mynd sjást fjórir menn úr áhöfn varðskipsins Óðins fara um borð í færeyska togarann Sancy í nótt. Skipið var þá á 9 sjómílna ferð og hafði skipstjórinn neitað að hlýða fyrirmælum skipherra varðskipsins.  Áhöfn Óðins stóð Sancy að því að vera inni í íslensku efnahagslögsögunni án þess að hafa sent tilkynningar til Landhelgisgæslunnar eins og krafist er í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998.  Skipstjórinn neitaði að hlýða fyrirmælum skipherra varðskipsins um að stöðva skipið og var þá gripið til þess ráðs að ráðast um borð í skipið á ferð.  Skipið hefur engin veiðileyfi í íslenskri efnahagslögsögu og var með slökkt á fjareftirlitsbúnaði sem þó er um borð. Skipstjórinn hætti öllum mótþróa eftir að menn úr áhöfn Óðins voru komnir um borð.   Þyrla Landhelgisgæslunnar, Sif, flaug í nótt með tvo skipstjórnarmenn austur fyrir land og setti um borð í varðskipið Óðinn og þaðan fóru þeir á léttbát varðskipsins yfir í Sancy.  Þeir leystu menn úr áhöfn Óðins af en varðskipið hélt síðan áfram ferð sinni.  Skipstjórnarmennirnir sjá til þess að Sancy komi til hafnar á Austfjörðum þar sem mál skipstjórans verður rannsakað frekar af lögregluyfirvöldum.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Mynd: Vala Agnes Oddsdóttir.

Varðskipið Óðinn í sinni síðustu ferð?

Mánudagur 19. júní 2006.Færeyski togarinn Sancy er nú kominn til hafnar á Eskifirði þar sem lögreglan er að rannsaka meint brot skipstjórans í samstarfi við Landhelgisgæsluna.  Eins og fram hefur komið í fréttum notaði skipherrann á varðskipinu Óðni tækifærið, er hann sigldi skipinu áleiðis til Hull í Bretlandi, að sigla um svæði þar sem erlendir togarar hafa verið grunaðir um að halda sig án leyfis og tilkynninga.Meðfylgjandi myndir tók Vala Agnes Oddsdóttir um borð í varðskipinu Óðni í gærkvöldi og nótt en þar lenti forstjórinn Georg Kr. Lárusson óvænt í vinnu við skýrslugerð og að gefa lögfræðilegar ráðleggingar er áhöfn Óðins stóð færeyskan togara að því að sigla inni í íslenskri efnahagslögsögu án þess að tilkynna sig eða hafa veiðileyfi.Forstjórinn var um borð í Óðni þar sem varðskipið er á leiðinni til Hull í Bretlandi þar sem fyrirhugað er að afhjúpa minnisvarða eftir Steinunni Þórarinsdóttur listakonu.  Með því er minnst breskra og íslenskra sjómanna sem hafa farist á Íslandsmiðum, einnig þeirra sem bjargað hefur verið og björgunarmanna þeirra.  Jafnframt er verið að minnast þess að 30 ár eru liðin frá lokum síðasta þorskastríðs.  Athöfnin verður 23. júní í Hull í Bretlandi. Óðinn heldur svo til baka til Íslands þar sem skipið verður úti fyrir Vík í Mýrdal þann 30. júní en þar verður samskonar minnisvarði afhjúpaður. Reiknað er með að þetta verði síðasta ferð Óðins í þágu Landhelgisgæslunnar þótt erfitt sé að fullyrða um það á þessari stundu.  Óðinn kom til Íslands 27. janúar 1960 og því eru liðin 46 ár frá því að hann var fyrst gerður út í nafni íslenska ríkisins.Fyrsti júlí verður svo stór dagur í sögu Landhelgisgæslunnar en þá taka ný lög um Landhelgisgæslu Íslands gildi.  Þau voru samþykkt á Alþingi 3. júní sl.  Sjá lögin á heimasíðu Alþingis á slóðinni: http://althingi.is/altext/132/s/1520.html og lagafrumvarpið með greinargerð á slóðinni:http://www.althingi.is/altext/132/s/1024.html Þar kemur fram að daginn sem lögin taka gildi á Landhelgisgæsla Íslands 80 ára afmæli.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Georg Kr. Lárusson lenti óvænt í skýrslugerð og lögfræðilegum pælingum í nótt.Sigurður Steinar Ketilsson skipherra ræðir við varðstjóra í stjórnstöðinni.Forstjórinn fylgir sínum mönnum úr hlaði er þeir voru að gera sig klára til að halda út í Sancy.Hreinn Vídalín háseti, ........................ og Pálmi Jónsson stýrimaður. 

Lög um Landhelgisgæslu Íslands birt á vef Alþingis

Miðvikudagur 14. júní 2006.Ný lög um Landhelgisgæslu Íslands, sem samþykkt voru á Alþingi 3. júní sl., hafa nú verið birt á vef Alþingis.  Þau hafa þó ekki hlotið númer ennþá þar sem þau eiga eftir að birtast í Stjórnartíðindum.Lögin taka gildi 1. júlí næstkomandi. Í þeim eru fjölmörg ákvæði um reglugerðir sem setja þarf um starfsemina.Lögin eru svohljóðandi: Lög um Landhelgisgæslu Íslands. I. KAFLIStjórn Landhelgisgæslu Íslands, starfssvæði og verkefni.1. gr.Hlutverk.     Landhelgisgæsla Íslands sinnir öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerða á grundvelli þeirra og öðrum lögbundnum fyrirmælum. 2. gr.Stjórn.     Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.    Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Forstjóri stjórnar daglegum rekstri Landhelgisgæslu Íslands og er ráðherra til ráðgjafar og aðstoðar um allt er lýtur að málefnum hennar.    Skipurit Landhelgisgæslu Íslands skal staðfest af ráðherra. 3. gr.Starfssvæði.     Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld. 4. gr.Verkefni.     Verkefni Landhelgisgæslu Íslands eru eftirfarandi:    1.      Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.     2.      Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra.     3.      Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó.     4.      Leitar- og björgunarþjónusta við loftför.     5.      Leitar- og björgunarþjónusta á landi.     6.      Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila.     7.      Aðstoð við almannavarnir.     8.      Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara.     9.      Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.     10.      Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi.     11.      Sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum.     12.      Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu.     Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd einstakra verkefna í reglugerð. 5. gr.Samningsbundin þjónustuverkefni.     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að gera þjónustusamninga, m.a. um eftirtalin verkefni:    1.      Fiskveiðieftirlit.     2.      Fjareftirlit með farartækjum á sjó.     3.      Almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu.     4.      Mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu.     5.      Sprengjueyðingu og hreinsun skotæfingasvæða.     6.      Eftirlit með skipum á hafinu og aðstoð við framkvæmd vitamála.     7.      Rekstur vaktstöðvar siglinga.     8.      Móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum.     9.      Tolleftirlit.     10.      Rannsóknir og vísindastörf á hafinu eftir því sem aðstæður leyfa.     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt í samráði við ráðherra að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum þegar sérstaklega stendur á. II. KAFLILögregluvald og valdbeitingarheimildir.6. gr.Lögregluvald.     Eftirtaldir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögum þessum í efnahagslögsögu Íslands:    1.      Forstjóri og löglærðir fulltrúar hans.     2.      Áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.     3.      Sprengjusérfræðingar.     4.      Yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga.     Við löggæslustörf skulu starfsmenn fara eftir lögreglulögum og lögum um meðferð opinberra mála eftir því sem við á. 7. gr.Skylda til að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.     Áhöfnum farartækja á sjó eða hafstöðva er skylt að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands. 8. gr.Vopnaburður.     Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem ráðherra setur. 9. gr.Rannsókn um borð í skipi og yfirtaka á stjórn skips.     Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að fara um borð í farartæki á sjó eða hafstöð til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot og til að sinna lögbundnu eftirliti. Þeim er heimilt að vísa farartækjum til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða til að binda enda á brotastarfsemi. Þeim er jafnframt heimilt að yfirtaka stjórn skips.    Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að banna stjórnanda farartækis að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot gegn lögum um siglingavernd og framkvæma öryggisleit í vistarverum og á farþegum skips. 10. gr.Skylda til að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands.     Skipstjórum og öðrum sem aðstoð geta veitt er skylt að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands við löggæslustörf og björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu. 11. gr.Bann við að tálma Landhelgisgæslu Íslands í störfum sínum.     Enginn má á nokkurn hátt tálma því að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sinni störfum sínum. 12. gr.Þjóðaréttur.     Landhelgisgæsla Íslands skal virða ákvæði alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að þegar erlend skip eða hafstöðvar eiga í hlut. III. KAFLINánar um verkefni Landhelgisgæslu Íslands.13. gr.Björgun og aðstoð við sæfarendur.     Landhelgisgæsla Íslands stjórnar og ber ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum á hafinu.     Landhelgisgæsla Íslands og starfsmenn hennar eiga rétt á björgunarlaunum samkvæmt siglingalögum og loftferðalögum.    Ráðherra setur reglugerð um stjórnun björgunaraðgerða og samvinnu við aðra björgunaraðila. 14. gr.Björgun og aðstoð við loftför.     Landhelgisgæsla Íslands aðstoðar við leit að loftförum sem lenda í flugatvikum, flugslysum eða er saknað yfir sjó. Flugmálastjórn stjórnar leitarstarfi fram til þess að slysstaður finnst en Landhelgisgæsla Íslands tekur ábyrgð á vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu. 15. gr.Sprengjueyðing.     Landhelgisgæsla Íslands sér um að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem almenningi getur stafað hætta af bæði til sjós og lands.    Ráðherra setur reglugerð um starfsemi sprengjusérfræðinga. Í reglugerðinni skal kveðið á um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sprengjusérfræðinga. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.    Landhelgisgæsla Íslands getur með samningum tekið að sér sprengjueyðingu og eyðingu hættulegra efna sem ekki teljast til lögbundinna verkefna stofnunarinnar. 16. gr.Innflutningur og varsla sprengiefna og skotvopna.     Landhelgisgæsla Íslands hefur heimild til að flytja inn, geyma og nota sprengiefni og skotvopn vegna starfa handhafa lögregluvalds. Fylgt skal verklagsreglum sem samþykktar eru af ráðherra um skráningu sprengiefnis og skotvopna í eigu stofnunarinnar, geymslu þeirra og notkun. 17. gr.Sjómælingar.     Ríkið er eigandi að öllum höfundaréttindum sem Landhelgisgæsla Íslands og Sjómælingar Íslands hafa öðlast. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög.    Landhelgisgæsla Íslands miðlar upplýsingum og er heimilt að veita aðgang að gögnum á sviði sjómælinga.    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að afla sér tekna með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar. Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna, sbr. 1. og 2. mgr., þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.    Ráðherra setur reglugerð um sjómælingar, sjókorta- og hafnakortagerð og annað efni á sviði sjómælinga sem Landhelgisgæsla Íslands gefur út. Í reglugerðinni skal kveðið á um kröfur um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sjómælinga- og sjókortagerðarmanna. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.    Heimilt er að semja við innlend og erlend fyrirtæki og stofnanir um framkvæmd ákveðinna verkefna sjómælinga og stofna hlutafélag um starfsemina. 18. gr.Fjareftirlit með fiskiskipum.     Landhelgisgæsla Íslands annast fjareftirlit með íslenskum fiskiskipum og móttekur og miðlar upplýsingum um íslensk og erlend fiskiskip úr fjareftirlitskerfinu í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. 19. gr.Móttaka tilkynninga og miðlun upplýsinga.     Tilkynningar frá farartækjum á sjó sem Landhelgisgæslu Íslands er falið að taka á móti skulu berast á þar til gerðu eyðublaði. Þar skulu koma fram allar upplýsingar sem stjórnendum farartækja á sjó eða útgerðum þeirra er skylt að veita.    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að veita öðrum opinberum stofnunum upplýsingar um farartæki á sjó vegna lögboðins eftirlits þeirra. Einnig er heimilt að veita erlendum ríkjum upplýsingar um farartæki á sjó í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gert.    Heimilt er að nýta allar upplýsingar um farartæki á sjó sem berast stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands til björgunarstarfa, fiskveiðieftirlits, löggæslustarfa og annars eftirlits á vegum ríkisins. IV. KAFLISkipulag, stjórn og starfsmenn.20. gr.Ráðning starfsliðs.     Forstjóri ræður aðra starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands og ákveður starfssvið þeirra í samræmi við þarfir stofnunarinnar, sérþekkingu þeirra og réttindi. 21. gr.Einkennisfatnaður og skilríki handhafa lögregluvalds.     Við störf sín skulu starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands bera einkennisbúninga samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Handhafar lögregluvalds skulu bera á sér sérstök skilríki við framkvæmd starfa sinna. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun skilríkja með reglugerð. 22. gr.Bann við verkföllum.     Þeir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sem sinna löggæslustörfum mega hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. 23. gr.Bætur vegna líkams- eða munatjóns.     Ríkissjóður skal bæta starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands, sem áhættusöm störf vinna, líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir við störf sín. Greiða skal bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta. 24. gr.Trúnaðarlæknir.     Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands skulu gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar samkvæmt fyrirmælum yfirmanns ef þurfa þykir.    Ráðherra er heimilt að setja reglur um lágmarkskröfur til heilsufars og líkamlegs atgervis starfsmanna sem teljast til starfsgengisskilyrða þeirra. V. KAFLIRekstur skipa og loftfara.25. gr.Skip, loftför og önnur farartæki Landhelgisgæslu Íslands.     Landhelgisgæsla Íslands gerir út skip og rekur loftför auk annarra farartækja sem nauðsynleg eru til gæslu landhelginnar og annarra verkefna stofnunarinnar. Bjóða má út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu Landhelgisgæslu Íslands með skilyrðum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum stofnunarinnar. Þá geta tæki verið eign Landhelgissjóðs.    Skip og loftför Landhelgisgæslu Íslands skulu auðkennd með skjaldarmerki Íslands á áberandi stað. Skip skulu einkennd nafni en loftför með nafni og skrásetningareinkennum.     Ráðherra ákveður með reglugerð lit og önnur einkenni farartækja Landhelgisgæslu Íslands.    Landhelgisgæsla Íslands skal hafa tilskilin leyfi fyrir þeirri starfsemi sem stunduð er á hverjum tíma og lúta eftirliti Flugmálastjórnar eftir því sem við á. 26. gr.Leynd yfir ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.     Óheimilt er að greina opinberlega frá ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands nema með samþykki stofnunarinnar. Einnig er óheimilt með öðrum hætti að veita áhöfnum skipa slíkar upplýsingar í þeim tilgangi að forða þeim frá rannsókn og kæru vegna lögbrots á hafinu. 27. gr.Landhelgissjóður.     Í sjóð, er nefnist Landhelgissjóður Íslands, skal renna sektarfé og andvirði upptækra verðmæta vegna brota gegn fiskveiðilöggjöfinni, og enn fremur hlutur Landhelgisgæslu Íslands af björgunarlaunum.    Fé úr Landhelgissjóði skal varið til að fjármagna kaup eða leigu á skipum, loftförum eða öðrum tækjum til að sinna verkefnum Landhelgisgæslu Íslands.    Ráðherra getur ákveðið að hluta af árlegum tekjum og vöxtum sjóðsins megi verja til rekstrarútgjalda Landhelgisgæslu Íslands. VI. KAFLIÝmis ákvæði.28. gr.Nánari reglur um framkvæmd laganna.     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara. 29. gr.Refsingar.     Brot gegn 7., 9., 10., 11. og 26. gr. laga þessara varða eins árs fangelsi eða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. 30. gr.Gildistaka.     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967, með síðari breytingum, og lög um ráðstafanir til varnar því, að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar, nr. 83 23. júní 1936, með síðari breytingum. Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006. Sjá allan feril málsins, frumvarpið með greinargerð, breytingatillögur og umsagnir á vef Alþingis á slóðinni: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=694 Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.  

Fagmannleg vinnubrögð - sjúkraflug út á Reykjaneshrygg

Miðvikudagur 14. júní 2006. Skipherrann á færeyska varðskipinu Brimil sendi Landhelgisgæslunni nýlega meðfylgjandi myndir sem teknar voru frá skipinu er áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar sótti slasaðan sjómann um borð í Brimil úti á Reykjaneshrygg um mánaðarmótin síðustu. Þess ber að geta að sjómanninum heilsast ágætlega eftir hremmingarnar. Sjómaður á norska togaranum Koralen hafði slasast og var færður yfir í Brimil. Áhöfn Lífar sótti hann þangað. Sjúkraflugið tók tæpar þrjár klukkustundir.Skipherrann á Brimli hafði orð á því í tölvupósti með myndunum að þarna hafi verið mjög fagmannlega að verki staðið og óskaði upplýsinga um börurnar sem áhöfn Lífar notar.Áhöfnina á Líf skipaði að þessu sinni Jakob Ólafsson þyrluflugstjóri, Björn Brekkan Björnsson þyrluflugmaður, Friðrik Höskuldsson stýrimaður/sigmaður, Reynir G. Brynjarsson flugvirki/spilmaður og Friðrik Sigurbergsson læknir.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Sjóræningjaskipum bannað að koma til hafnar - samstarf ríkja við Atlantshaf gegn sjóræningjaskipum

Sjávarútvegsráðuneytið gaf út eftirfarandi fréttatilkynningu í gær:Sjá heimasíðu ráðuneytisins á slóðinni:http://sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/nr/1216 Fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið Í síðustu viku tók Einar K. Guðfinnsson þátt í árlegum fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins, sem fram fór Noregi. Auk Einars tóku þátt í fundinum sjávarútvegsráðherrar Noregs, Færeyja og Grænlands, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins og fulltrúar sjávarútvegsráðherra Kanada og Rússlands. Með Einari í för voru Jón B. Jónasson ráðuneytisstjóri og Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri.Meginefni fundarins voru tvö. Annars vegar styrking svæðisbundins samstarfs við fiskveiðistjórnun og hins vegar aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum.Varðandi fyrra efnið lagði Einar m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa gegn þróun í átt að hnattrænni nálgun við fiskveiðistjórnun. Samþykktu ráðherrarnir að þar sem ný þróun væri að eiga sér stað, svo sem varðandi vistkerfisnálgun og vernd viðkvæmra hafsvæða, ætti frekar að víkka og styrkja svæðisbundið samstarf en að þróa nýtt hnattrænt samstarf. Aðeins þannig er hægt að taka nægjanlegt mið af mismunandi aðstæðum á hverjum staða og hindra að lausnir staðbundinna vandamála séu ekki fluttar að óþörfu yfir á önnur hafsvæði. Í þessu sambandi má nefna að tillögur hafa verið settar fram innan vettvangs allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að banna togveiðar með botnvörpu alls staðar á úthöfunum. Ráðherrarnir töldu að í þessu hentaði svæðisbundin nálgun betur. Að því leyti sem þörf er á hnattrænni umræðu um þessi mál ítrekuðu ráðherrarnir að rétti vetvangurinn væri Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. en ekki allsherjarþingið.Mestur tími fór í umræður um aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Ráðherrarnir voru sammála um að samstarf hefði eflst til muna í þessum málaflokki undanfarin misseri, en enn hefði þó ekki tekist að binda enda á þetta vandamál.Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndin (NEAFC) samþykkti nýlega að banna skipum sem stunda ólöglegar veiðar að koma til hafnar aðildarríkja sinna. Hingað til hefur alþjóðlegt samkomulag takmarkast við að banna löndun afla slíkra skipa og að neita þeim um þjónustu. Ráðherrarnir fögnuðu þessari ákvörðun NEAFC og samþykktu að þetta skyldi verða sú nálgun sem notuð yrði annarsstaðar. Má því búast við að sambærilegt hafnbann verði samþykkt innan Norðvestur Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, og jafnvel víðar, strax næsta haust.Til að gera alþjóðlegt samstarf gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum enn skilvirkara samþykktu ráðherrarnir að koma á fót lista yfir svonefnd sjóræningjaskip, sem næði til alls Atlantshafsins. Verður þetta gert með samstarfi allra svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana Atlantshafsins, sem halda nú þegar utan um slíka lista hver fyrir sig. Ef vel tekst til gæti þetta skilað sér í hafnbanni og öðrum samhentum aðgerðum sem næðu frá Íslandi, Grænlandi, Kanada og Noregi í Norðri til Namibíu, Suður Afríku og Argentínu í suðri. Ráðherrarnir ræddu m.a. einnig um aðgerðir til að hindra að afurðir ólöglegra veiða komist á markað og um betri samvinnu og samhæfingu varðandi eftirlit með fiskveiðum á úthafinu.

Valdimar loftskeytamaður heiðraður á sjómannadaginn

Mánudagur 12. júní 2006. Valdimar Jónsson loftskeytamaður sem starfaði hjá Landhelgisgæslunni í 25 ár var heiðraður á Sjómannadaginn í gær. Hann starfaði hjá Landhelgisgæslunni frá 1960-1985.  Hann er ekki eingöngu þekktur fyrir störf sín sem loftskeytamaður því hann er afbragðs ljósmyndari og tók þúsundir mynda í starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni.Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra gaf Landhelgisgæslunni myndasafn Valdimars Jónssonar á tölvutæku formi í tilefni af flutningi höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar frá Seljavegi 32 í Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð.Sjá frétt um það á heimasíðunni á slóðinni:/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=2708 Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr. Valdimar á Sjómannadaginn. Myndina tók Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi.  
Síða 1 af 2