Fréttayfirlit: júní 2006 (Síða 2)

Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

Sunnudagur 11. júní 2006. Í dag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðahöldunum með ýmsum hætti en meðfylgjandi myndir tala sínu máli. Athöfn við Minningaröldur Sjómannadagsins við Fossvogskapellu í Fossvogskirkjugarði. Minnst var sérstaklega sjómanna sem drukknuðu í seinni heimstyrjöldinni en þá fórust á þriðja hundrað íslenskir sjómenn og farþegar á íslenskum skipum af völdum stríðsins. Nöfn þeirra allra hafa nú verið skráð á Minningaröldurnar, en á þær er nú skráð 441 nafn.  Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra stóð heiðursvörð með starfsfólki Landhelgisgæslunnar. Myndina tók Vilbergur Magni Óskarsson.Linda Ólafsdóttir háseti á varðskipinu Ægi og Heimir Týr Svavarsson háseti á Tý leggja blómsveig að Minningaröldum Sjómannadagsins. Mynd: VMÓ. Skrúðganga frá safnaðarheimili dómkirkjunnar að kirkjunni sjálfri en þar var haldin sjómannaguðþjónusta.  Mynd: VMÓ.Mynd: VMÓ. Fánaberar voru: Rögnvaldur K. Úlfarsson háseti, Baldur Örn Árnason háseti og Guðmundur Ragnar Magnússon háseti. Mynd: VMÓ.Mynd: VMÓ. Mynd: DS.Hákon Örn Haraldsson vélstjóri og Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður sáu um ritningarlestur í sjómannaguðþjónustunni.  Biskup Íslands séra Karl Sigurbjörnsson og séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur önnuðust guðþjónustuna. Mynd: DS. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra ganga út úr dómkirkjunni. Mynd: DS.Fríður hópur Gæslumanna að athöfn lokinni: Á myndinni eru Árni Ólason smyrjari og vaktmaður í varðskýli LHG, Vilhjálmur Óli Valsson stýrimaður, Halldór Gunnlaugsson skipherra, Georg Kr. Lárusson forstjóri, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra, Halldór Benóný Nellett framkvæmdastjóri aðgerðasviðs LHG, Rögnvaldur K. Úlfarsson háseti og Thorben Jósef Lund yfirstýrimaður. Mynd DS.Guðmundur, Thorben, Baldur Örn, Linda og Rögnvaldur fyrir utan kirkjuna. Mynd: DS.Georg, Sigurður Steinar og Halldór Nellett. Mynd: DS.Á hafnarbakkanum var mikið um dýrðir. Þar gátu börnin farið í leiktæki og ýmsar tegundir fiska voru til sýnis.  Þessi litla hnáta vorkenndi grey fiskinum að liggja þarna á klakabeði og reyndi að hugga hann. Mynd: DS. Varðskipið Ægir var til sýnis milli kl. 13 og 16 og nýttu fjölmargir sér það tilboð. Mynd: Gizur Sigurðsson. Jóhannes F. Ægisson háseti var hress að vanda þrátt fyrir að hafa staðið vaktina í nokkrar klukkustundir í hellirigningu.  Mynd: G.S. Áhöfnin á Sif sýndi snilldartakta er þyrlubjörgun úr sjó var sýnd við hafnarbakkann. Félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu tóku þátt í æfingunni og voru fórnarlömbin í sjónum sem bjargað var. Sjá björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á siglingu fyrir neðan þyrluna. Mynd GS. Mynd: GS.      

Gengið frá samningi um leigu á þyrlu

Föstudagur 9. júní 2006. Sameiginleg fréttatilkynning frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Landhelgisgæslu Íslands.Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Georg Kr. Lárusson forstjóri LHG undirrituðu í dag samning við forsvarsmenn fyrirtækisins Air Lift þá Bjarne Slapgard framkvæmdastjóra og Erlend Folstad markaðsstjóri um leigu á Super Puma þyrlu frá og með 1. október næstkomandi. Landhelgisgæslan hefur um árabil verið í talsverðum samskiptum við Air Lift og hafa þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar m.a. starfað á Svalbarða og á hamfarasvæðunum í Pakistan á vegum Air Lift í fríum sínum til að öðlast meiri reynslu. Samstarf Landhelgisgæslunnar og Air Lift hefur einnig falist í samnýtingu á varahlutum. Air Lift er bæði með þyrlur af gerðinni Super Puma og Aerospatiale Dauphin líkt og Landhelgisgæslan. Þyrlan er leigð til eins árs með möguleika á framlengingu. Samningurinn hljóðar upp á 14 milljónir króna á mánuði og 150 þúsund krónur fyrir hvern floginn flugtíma.  Áætlaður kostnaður við samninginn til eins árs er um 210 milljónir króna. Ríkiskaup hafði umsjón með samningsgerðinni. Fyrirhugað er að ganga frá samningum um aðra þyrlu fyrir nk. mánaðamót. Þá kynnti Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra í ræðu sinni í tilefni undirritunarinnar að það er stefna ríkisstjórnarinnar að kaupa tvær sambærilegar þyrlur á næsta ári.  Auk þess er fyrirhugað að endurnýja flugvél Landhelgisgæslunnar og varðskip á næstunni eins og áður hefur verið kynnt. Þórhallur Hákonarson frá Ríkiskaupum, Erlend Folstad markaðsstjóri Air Lift, Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Bjarne Slapgard framkvæmdastjóri Air Lift. Mynd: DS/LHG.Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flutti ræðu í tilefni af undirrituninni. Mynd: Friðjón R. Friðjónsson vefstjóri DKM.   Þórhallur Hákonarson frá Ríkiskaupum, Erlend Folstad markaðsstjóri Air Lift, Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Bjarne Slapgard framkvæmdastjóri Air Lift og Geirþrúður Alfreðsdóttir nýráðinn flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar. Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar var fundarstjóri.

Flutningaskip staðið að því að þjónusta sjóræningjaskipið Carmen

Föstudagur 9. júní 2006.   Áhöfn eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, Synjar, stóð flutningaskip að því að þjónusta sjóræningjaskipið Carmen í eftirlitsflugi yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg í dag. Þetta mun væntanlega valda því að flutningaskipið, sem heitir Polestar og er skráð í Panama sem frystiskip, fer á svarta lista NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins).   Er Syn flaug yfir skipin voru þau stödd 480 sjómílur frá Reykjavík eða 190 sjómílur frá mörkum efnahagslögsögu Íslands þar sem yfir 50 erlend skip eru að veiðum.  Þar sem Ísland er aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu tekur Landhelgisgæslan þátt í eftirliti með fiskveiðum á svæðinu.  Greinilegt er að skipin reyna að athafna sig eins fjarri lögsögumörkum og hægt er til að verða síður staðin að verki.   Áhöfnin á Syn tilkynnti skipstjóra Polestar að ef það þjónustaði skip sem væri að veiðum án kvóta á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, færi það á svartan lista ráðsins og það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir skipið og útgerð þess.  Skipstjórinn sagðist eingöngu vera að láta skipið hafa umbúðir.  Á þessari stundu er ekki ljóst hvort Polestar var að taka við afla frá Carmen eins og áhöfn Synjar grunaði en samkvæmt reglunum má ekki veita sjóræningjaskipum neina þjónustu, þar með talið að útvega því umbúðir. Polestar er 120 metra langt og 4574 brúttótonn að stærð og er skráð sem frystiskip. Skýrsla um málið verður send frá Landhelgisgæslunni til sjávarútvegsráðuneytisins sem kemur upplýsingunum á framfæri við aðalskrifstofu Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins í London. Þar verður síðan tekin ákvörðun um framhaldið.Annað sjóræningjaskip, Dolphin, lónaði mitt á milli úthafskarfaveiðiflotans og Polestar.Meðfylgjandi myndir tók Hafsteinn Heiðarsson flugmaður á Syn eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar.Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr.Halldór Benóný Nellett framkvæmdastjóri aðgerðasviðsFlutningaskipið Polestar er stærra skipið. Sjóræningjaskipið Carmen er bláa skipið í forgrunni.Öflug fríholt utan á flutningaskipinu sem koma í veg fyrir að skipin sláist saman í úthafsöldunniCarmen (minna skipið) hefur fært stjórnborðshlerann svo að hann valdi ekki skemmdum á flutningaskipinu þegar skipin liggja saman. 

Landhelgisgæslan og lögreglan hafa eftirlit með utanvegaakstri

Mánudagur 5. júní 2006.Þeir sem stunda utanvegaakstur geta átt von á eftirliti úr lofti en lögreglan og Landhelgisgæslan hafa tekið höndum saman um að stemma stigu við slíkum akstri. Nokkrir brotlegir voru bókaðir af lögreglunni um helgina og geta átt von á sektum.Æfingatími flugáhafna er notaður í þessum praktíska tilgangi en mikið af sjúkraflugi Landhelgisgæslunnar er einmitt á svipaðar slóðir svo að með þessu fá áhafnir Landhelgisgæslunnar dýrmæta reynslu um leið og samskipti við lögregluna eru efld og lögbrjótar eru staðnir að verki.Meðfylgjandi myndir voru teknar í eftirlitsferð áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar, Lífar, með Selfosslögreglunni um helgina.  Friðrik Höskuldsson stýrimaður í áhöfn Lífar sendi skýringar með myndunum.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.Þessi mynd er tekin til norðurs við vestanverðan Hengil.  Hér hefur fjöldinn allur af hjólum verið að spæna upp gróðurinn bæði nú og fyrr. Förin eru orðin ansi djúp, hálfur metri og víða dýpri en það.Fimm mótorhjól koma akandi niður vesturhlíðar Hengils. Þessi eru langt utan vega.Lögreglumaður frá Selfossi og handhafi lögregluvalds í áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, ræða við mótorhjólaknapa. Jeppi með vélsleðakerru að koma suður Bláfellsháls. Vegurinn (Kjalvegur) er lokaður allri umferð frá Bláfellshálsi að Hveravöllum, sem þýðir einnig að ekki er hægt að komast akandi að Hagavatnsskála nema virða lokunina að vettugi.Bílaleigubíll á Bláfellshálsi.  Þessi var einnig á suðurleið á hálsinum og sýndi engin merki iðrunar þegar þyrlan kom aðvífandi.

Ný lög um Landhelgisgæslu Íslands samþykkt á Alþingi

Laugardagur 3. júní 2006Lög um Landhelgisgæslu Íslands voru samþykkt á Alþingi í dag.  Ferill þingmálsins er birtur á vef Alþingis en lögin hafa ekki verið birt þar enn.Sjá feril málsins á slóðinni:http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=694Lögin öðlast gildi 1. júlí næstkomandi en í greinargerð með frumvarpinu segir:  Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 2006 en þann dag á Landhelgisgæsla Íslands 80 ára afmæli. Íslenska ríkið tók við rekstri björgunarskipsins Þórs 1. júlí 1926 af Björgunarfélagi Vestmannaeyja og hefur sá dagur verið valinn stofndagur Landhelgisgæslu Íslands.Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.

Svar við gagnrýni vegna skipulagningu björgunaraðgerða á Hvannadalshnjúki

Fimmtudagur 1. júní 2006.Í Kastljósþætti í gær var rætt við Júlíus Guðmundsson formann björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Í kynningu á viðtali við hann var sagt að hann gerði athugasemdir við aðgerðir Landhelgisgæslunnar þegar slys varð á Hvannadalshnjúk um síðustu helgi. Í kynningu á viðtalinu var sagt að enginn björgunarsveitarmaður hafi verið með þyrlunni þrátt fyrir að björgunarsveitirnar hafi um árabil reynt að koma á samstarfi við Landhelgisgæsluna.  Vegna þessa vill Landhelgisgæslan koma því á framfæri að hún hefur áhuga á að starfa eins náið með björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eins og kostur er. Allt það óeigingjarna starf sem þau samtök hafa innt af hendi í áratugi er virðingarvert.  Einnig hafa samtökin átt stóran þátt í að byggja upp Landhelgisgæsluna í gegnum tíðina.   Í því tilfelli sem hér um ræðir var ekki hægt að bjóða björgunarsveitarmönnum frá Reykjavík að fara með þyrlunni. Hámarksflugtaksþyngd vélarinnar er 8600 kg. Þyngd vélarinnar í þessu tilfelli við flugtak í Reykjavík var 8547 kg. og því einungis 53 kg. uppá að hlaupa.  Það var því ekki með nokkru móti hægt að taka björgunarsveitarmenn með í þyrluna.Þegar starfsmenn Landhelgisgæslunnar komu út á flugvöll var byrjað á að taka sjúkrastellið svokallaða úr þyrlunni til að létta hana en það vegur 124 kg.  Jafnframt var bætt við 400 kg. af eldsneyti þar sem fyrir lá að um 30 mínútna flug var til Hornafjarðar til eldsneytistöku frá slysstað og 50 mínútur til Vestmannaeyja. Tilgangurinn með þessu var einnig að geta verið lengur á slysstað vegna óvæntra uppákoma eins of oft vill verða og kom á daginn í þessu tilfelli.   Vandinn sem þyrluáhöfnin stóð frammi fyrir með þessa aukaeldsneytisþyngd var hvort að þyrlan væri of þung og hefði afköst til að geta farið beint í hangflug er komið var á staðinn í þessari hæð þ.e. yfir 7000 fetum en snjóflóðið féll á mennina er þeir voru í um 2000 metra hæð í hlíðum Hvannadalshnjúks.  Hafa ber í huga að hér er ekki hægt að bera saman önnur björgunarflug því þyrlan er hlaðin í hvert sinn miðað við það verkefni sem fyrir liggur hverju sinni.   Slysavarnarfélagið Landsbjörg og fleiri björgunaraðilar, sem sýnt hafa áhuga á að senda fólk með þyrlunni, verða að treysta því að fagmenn sem í áhöfninni eru, hafi vit og þekkingu á því sem þeir eru að gera.  Oft og tíðum er ekki hægt að ákveða fyrirfram hvaða búnað og mannskap er heppilegast að hafa með í útkall þyrlu.  T.d. þegar fólks er saknað.  Stundum er ekki vitað hvort slys hafa orðið á fólki, hvort þörf er á sérstökum tækjum t.d. klippum til að losa fólk úr bifreiðum og fl.  Í áhöfn þyrlunnar eru flugstjóri, flugmaður, flugvirki/spilmaður, stýrimaður/sigmaður og læknir.  Þetta er hluti af björgunarsveit Landhelgisgæslunnar og því ekki hægt að segja að enginn björgunarsveitarmaður hafi verið með í för.   Landhelgisgæslan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa rætt um mögulega samningsgerð varðandi framangreind mál og fleiri aðilar hafa sýnt slíkum samningum áhuga.  Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan eru þegar með samstarfssamning um margvíslega þætti starfseminnar sem eru sameiginlegir.  Það er af hinu góða.  Vandinn sem Landhelgisgæslan stendur frammi fyrir er að vafasamt er fyrirfram að binda í samninga hverjir fara með þyrlu í verkefni því þau geta verið margslungin og breytileg og þau þarf að skipuleggja miðað við aðstæður hverju sinni.  Að lokum skal þess getið að öllum aðgerðum var stjórnað af Samhæfingarstöðinni í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð en þar voru fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar.  Þessir aðilar komu sér saman um að þessi háttur yrði hafður á varðandi björgunaraðgerðir. Fréttatilkynning frá Landhelgisgæslunni.               

30 ár frá lokum síðasta þorskastríðs

Fimmtudagur 1. júní 2006 Eins og auglýst var á heimasíðunni var haldin ráðstefna á vegum Hafréttarstofnunar Íslands í tilefni af því að í dag eru 30 ár liðin frá lokum síðasta þorskastríðsins.  Ráðstefnan var haldin í hátíðarsal Háskóla Íslands og voru meðfylgjandi myndir teknar við það tækifæri. Í ræðum ráðherranna þriggja í upphafi ráðstefnunnar lögðu þeir m.a. áhersu á mikilvægi þess að Ísland berjist gegn hnattrænni fiskveiðistjórnun og taki með öflugum hætti þátt í starfi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarnefnda sem stjórna veiðum á úthafinu.Í framhaldi af ráðstefnunni fjölmenntu þorskastríðshetjur og Landhelgisgæslumenn auk fleira fólks á Kaffi Reykjavík þar sem gömlu góðu árin voru rifjuð upp. Starfsmannafélag Landhelgisgæslunnar stóð fyrir þeirri samkomu.Landhelgisgæslan mun minnast þessara tímamóta með margvíslegum hætti á árinu m.a. í tengslum við 80 ára afmæli Landhelgisgæslunnar en stofndagur Landhelgisgæslunnar var valinn 1. júlí 1926.  Þann dag tók íslenska ríkið við við rekstri skipsins Þórs af björgunarfélagi Vestmannaeyja. Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur/upplýsingaftr. Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi og Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar. Mynd: DS. Guðmundur H. Garðarsson fyrrverandi alþingismaður, Matthías Bjarnason fyrrverandi ráðherra, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Geir H. Haarde utanríkisráðherra og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Mynd: DS.Halldór Benóný Nellett framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý og Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar mættu í viðeigandi klæðnaði til ráðstefnunnar í tilefni dagsins. Mynd: DS.Jón Ármann Héðinsson fyrrverandi alþingismaður og Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra létu sig ekki vanta á ráðstefnuna. Mynd: DS.
Síða 2 af 2