Fréttayfirlit: febrúar 2008

Piper Cherokee flugvélar, sem saknað hefur verið frá því á fimmtudag, leitað í dag - leitarskilyrði góð. Leitin enn árangurslaus

Sunnudagur 24. Febrúar 2008

Í dag, sunnudag, fór þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF í leitarflug á svæðinu þar sem leitað hefur verið að Piper Cherokee flugvél frá því á fimmtudag. Veður og sjólag var gott og aðstæður til leitar góðar en leitaraðstæður hafa verið mjög slæmar allt frá því slysið varð. Skip sem leið hafa átt um svæðið hafa einnig litast gaumgæfilega um. Enn hefur ekkert fundist sem bent gæti til afdrifa flugmannsins eða flugvélarinnar.

Skipulagðri leit að Piper Cherokee flugvél hætt, eftirgrennslan heldur áfram. Vonskuveður er á svæðinu.

Laugardagur 23. Febrúar 2008 Kl. 09:30

Skipulagðri leit að Piper Cherokee flugvél sem leitað hefur verið frá því á fimmudag hefur verið hætt. Vonskuveður er enn á svæðinu, vindur um 35 metrar/sek., um 10 metra ölduhæð og éljagangur.

Leitað hefur verið verið á öllu því svæði sem gera má ráð fyrir að björgunarbátur flugvélarinnar fyndist, miðað við veðurfarslegar aðstæður og sjólag. Leitarsvæðið var afmarkað eftir útreikningum sértæks leitarforrits sem tekur mið af áætluðum lendingarstað vélarinnar á sjónum og mögulegu reki. Eftirgrennslan heldur áfram og hefur þeim tilmælum verið beint til skipa og báta sem leið eiga um svæðið að þau litist gaumgæfilega um eftir hverju því sem bent gæti til afdrifa flugvélarinnar og flugmannsins. Auk þess munu skip og loftför Landhelgisgæslunnar svipast um á svæðinu í hefðbundnum eftirlitsferðum sínum.

Leit að Piper Cherokee flugvélinni heldur áfram fram í myrkur

Föstudagur 22. febrúar 2008 Kl. 16:00

Leit að bandarísku Piper Cherokee flugvélinni sem leitað hefur verið frá því í gær, er enn árangurslaus. Leit verður haldið áfram fram í myrkur. Varðskip hefur verið við leit á svæðinu frá því í gær ásamt Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar sem fór til leitar í birtingu. Aðstæður til leitar eru afar erfiðar, vindur er 25-35 metrar/sek., ölduhæð á bilinu 8-12 metrar og gengur á með dimmum éljum.

Leit að bandarískri flugvél heldur áfram

Föstudagur 22. febrúar 2008 Kl. 09:00

Leit að bandarísku flugvélinni sem saknað hefur verið frá í gær, hefur enn engan árangur borið. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar og þyrla, TF-LIF leituðu fram í myrkur í gærkvöldi og Nimrod flugvél breska flughersins leitaði fram eftir kvöldi, en hún er búin innrauðum búnaði til leitar í myrkri. Varðskip hefur verið við leit á svæðinu síðan um klukkan 20:00 í gærkvöldi og er enn við leit. Mjög hvasst er á svæðinu, ölduhæð mikil og aðstæður til leitar erfiðar.
Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, er á leið til leitar á svæðinu. Leitað er eftir sérstöku leitarskipulagi sem tekur mið af áætluðum lendingarstað vélarinnar á sjónum og mögulegu reki.

Leit að Piper Cherokee flugvél, Nimrod flugvél frá breska flughernum tekur þátt í leitinni

Fimmtudagur 21. Febrúar 2008 Kl. 15:45

Leit að Piper Cherokee flugvélinni sem saknað hefur verið síðan í morgun, hefur enn engan árangur borið. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN, og þyrla, TF-LIF, eru á leitarsvæðinu og verður leit haldið áfram fram í myrkur. Nimrod flugvél frá breska flughernum hefur verið fengin til að taka þátt í leitinni og er á leið á staðinn. Aðstæður til leitar eru erfiðar á svæðinu.

Enn leitað að Piper Cherokee flugvél um 130 sjómílur SSA af Hornafirði

Fimmtudagur 21. febrúar 2008 Kl. 14:30

Leit að Piper Cherokee, eins hreyfils flugvél sem hvarf af ratsjá um klukkan 11:30 í dag, um 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði, stendur yfir. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar , TF-SYN, kom á leitarsvæðið klukkan 13:30 í dag og þyrla, TF-LIF stuttu síðar. Veður og sjólag á svæðinu gerir erfitt fyrir með leit, mikill vindur er á svæðinu og ölduhæð 7-9 metrar. Enn hefur ekkert sést til flugmannsins eða vélarinnar. Vélin er skráð í Bandaríkjunum og flugmaðurinn er bandarískur.

Eins hreyfils flugvél hvarf af ratsjá um 130 sjómílur SSA af landinu

Fimmtudagur 21. Febrúar 2008 Kl. 12:30

Í dag um klukkan 11:30 bárust boð um að eins hreyfils flugvél hefði misst afl og horfið af ratsjá um 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði. Þyrla og Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar eru á leið á staðinn. Skipum á svæðinu hefur verið tilkynnt um slysið og beðin að svipast um. Varðskip er á leið á staðinn. Upplýsingar um þjóðerni liggja ekki fyrir.

TF-SYN í ískönnunarflugi - ís 30 sjómílur norður af Horni

Iskonnunarflug_18022008
Þriðjudagur 19. febrúar 2008

Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fór í reglubundið ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi í gær. Ísröndin, á hafinu milli Íslands og Grænlands reyndist vera næst landinu um 30 sjómílur norður af Horni, um 62 sjómílur vestnorðvestur af Straumnesi og um 50 sjómílur vestur af Kolbeinsey. Skyggni var nokkuð gott, vindur SSV 20 hnútar og lofthiti 8°- 9°C. Ísinn virtist vera bráðnandi og ísbreiðan þunn. Með í för var Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í Landfræði við Háskóla Íslands.

Vefsíða um framkvæmd samstarfs Norðmanna og Íslendinga um þyrlukaup

Mánudagur 18. febrúar 2008

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, skrifuðu undir samkomulag um samstarf Íslands og Noregs um kaup og rekstur nýrra langdrægra björgunarþyrla 30. nóvember 2007. Nú hafa Norðmenn opnað vefsíðu, www.nawsarh.dep.no, um framkvæmd þessa samstarfs, sem þeir nefna NAWSARH-verkefnið. Á síðunni verður unnt að fylgjast með framvindu þess. Verkefnið miðast við að Ísland kaupi þrjár nýjar björgunarþyrlur og Noregur tíu til tólf.

Norsk loðnuskip farin af miðunum

Norska_lodnuskipid_Saebjorn_dreginn_til_Nordfj_13022008_2
Mánudagur 18. febrúar 2008

Eins og kunnugt er hafa Norðmenn lokið loðnuveiðum hér við land á þessari vertíð, kvóti þeirra var 39.125 tonn og varð endanlegur afli bátanna þegar veiðum lauk s.l. föstudagskvöld þann 15.feb. 37.250 tonn. Brælur töfðu norsk loðnuskip talsvert frá veiðum og töpuðu þau því dýrmætum tíma en annars gengu veiðar þeirra yfirleitt vel. Þó varð varð eitt norsku skipanna, SÆBJÖRN, fyrir því óhappi þann 13 feb. að fá loðnunótina í skrúfuna og kom varðskip Landhelgisgæslunnar skipinu til hjálpar og dró það til Norðfjarðar þar sem nótin var hreinsuð úr skrúfunni. Skipið var erfitt í drætti þar sem talsvert af nótinni var í sjó, skipin komu til hafnar að kvöldi 13. Febrúar, eftir um 10 tíma ferðalag af miðunum.

Varðskip dregur vélarvana flutningaskip til hafnar

Reykjafoss_dreginn_til_REK_16022008
Laugardagur 16. febrúar 2008

Síðastliðna nótt kl. 02:41 barst Vaktstöð siglinga/Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá flutningaskipinu Reykjafossi sem er 7541 brúttórúmlestir og 127, 4 metrar að lengd og orðið hafði vélarvana um 10 sjómílur norðvestur af Reykjanesi. Varðskip var sent á staðinn. Vel gekk að koma taug á milli skipanna, þó að töluverð þoka sé á svæðinu, og er gert ráð fyrir að skipin komi til Reykjavíkur þegar líður á daginn.

Norskur lóðs sóttur um borð í 300 metra gasflutningaskip undan Meðallandsbugt

Gasflutningaskip_Arctic_Discoverer
Föstudagur 15. febrúar 2008

Í byrjun vikunar bárust Vaktstöð siglinga/Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá 300 metra löngu, norsku gasflutningaskipi sem hafði tekið lóðs um borð, á Melköya við Hammerfest í Noregi, sem ekki hafði tekist að komast aftur í land vegna veðurs. Þess var því farið á leit við Landhelgisgæsluna að maðurinn yrði sóttur um borð í skipið þegar það væri sem næst landi, á leið sinni um íslenskt hafsvæði.
Það varð úr að þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sem var í eftirlitsflugi, sótti manninn um undan Meðallandsbugt. Aðstæður voru góðar og var maðurinn hífður af skipinu og um borð í þyrluna.

Gera má ráð fyrir mjög aukinni umferð slíkra risa olíu- og gasflutningaskipa um íslensk hafsvæði á næstu árum í kjölfar vaxandi olíu- og gasvinnslu í Rússlandi og Noregi.

Skipulagðri leit að Cessna 310 flugvél hætt - eftirgrennslan heldur áfram

Miðvikudagur 13. febrúar 2008 Kl. 15:30


Skipulagðri leit að bandarísku flugvélinni sem hvarf af ratsjá 50 sjómílur vestur af Keflavík, síðastliðinn mánudag, hefur verið hætt.

Leitað hefur verið verið á öllu því svæði sem gera má ráð fyrir að björgunarbátur flugvélarinnar fyndist, miðað við veðurfarslegar aðstæður og sjólag. Leitarsvæðið var afmarkað eftir útreikningum sértæks leitarforrits sem tekur mið af áætluðum lendingarstað vélarinnar á sjónum og mögulegu reki.
Eftirgrennslan heldur áfram og hefur þeim tilmælum verið beint til skipa og báta sem leið eiga um svæðið að þau litist gaumgæfilega um eftir hverju því sem bent gæti til afdrifa flugvélarinnar og flugmannsins. Auk þess munu skip og loftför Landhelgisgæslunnar svipast um á svæðinu í hefðbundnum eftirlitsferðum sínum.

In English: Organized search for Cessna 310 has ended

Leit stendur enn yfir að Cessna 310 flugvél

Þriðjudagur 12. febrúar 2008 Kl. 15:10

Leit stendur enn yfir að bandarísku ferjuflugvélinni sem talið er að hafi hrapað í sjó um 50 sjómílur vestur af Keflavík í gær.

Aðstæður til leitar hafa batnað eftir því sem liðið hefur á daginn. Varðskip Landhelgisgæslunnar er við leit á staðnum og Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, ásamt Challenger flugvél danska flughersins eru við leit úr lofti. Ekkert hefur fundist af vélinni. Leit verður haldið áfram fram í myrkur.

Cessna 310 flugvélar enn saknað

Þriðjudagur 12. febrúar 2008 kl. 09:30

Leit heldur áfram að bandarísku Cessna 310 flugvélinni sem leitað hefur verið síðan í gær. Varðskip Landhelgisgæslunnar er á staðnum og stýrir leit á svæðinu eftir leitaráætlun sem gerð hefur verið eftir útreikningum sértæks leitarforrits sem tekur mið af væntanlegum lendingarstað vélarinnar á sjónum og mögulegu reki. Dönsk herflugvél leitar úr lofti. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar er væntanleg á staðinn og munu báðar vélarnar leita á svæðinu, eftir fyrrgreindri áætlun. Veður og sjólag á svæðinu er enn óhagstætt til leitar.

Bandarískrar Cessna 310 flugvélar saknað

Mánudagur 11. febrúar 2008 Kl. 19:50

Í dag klukkan 15:50 barst Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur um að bandarísk Cessna 310 flugvél hefði misst afl af öðrum hreyfli, gæti ekki dælt eldsneyti á milli tanka vélarinnar og gerði ráð fyrir að missa afl af seinni hreyfli vélarinnar bráðlega. Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur setti af stað viðbúnaðarstig í Keflavík og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ræsti út þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-LIF og TF-GNA.
Síða 1 af 2