Fréttayfirlit: maí 2017

Varðskipið í sorphreinsun í Aðalvík

Áhöfn varðskipsins Þórs tók þátt í sérstaklega skemmtilegu verkefni í friðlandinu á Hornströndum um helgina. Vaskur hópur sjálfboðaliða hreinsaði rusl í Aðalvík og var varðskipið notað til að ferja fólk á svæðið og flytja ruslið úr friðlandinu. 

Varðskipið Þór við eftirlit á Reykjaneshrygg

Að undanförnu hefur varðskipið Þór verið við eftirlitsstörf á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg, á NEAFC-svæðinu svonefnda. Yfir tuttugu skip voru að veiðum þar þegar varðskipið kom á vettvang. Engar athugasemdir voru gerðar við veiðar þeirra. 

Skipverja á Ross Cleveland minnst

Varðskipið Týr sigldi á dögunum með bróður skipstjórans á Ross Cleveland út á Ísafjarðardjúp þar sem áhafnar togarans var minnst. Skipið fórst í óveðri í febrúar 1968. Daginn eftir tóku skipverjar á Tý líka þátt í eldvarnaræfingum með áhöfn danska eftirlitsskipsins Ejnar Mikkelsen.

Þyrlan sótti veikan sjómann

TF-LIF sótti veikan sjómann af rússnesku fiskiskipi sem var að veiðum djúpt suðvestur af Reykjanesi. Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi um hálftvöleytið í dag. 

Þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í dag eftir að neyðarkall barst frá báti sem var vélarvana nærri Straumnesi. Undir kvöld var svo óskað eftir þyrluaðstoð þyrlu vegna bílslysa í Húnavatnssýslu og nærri Vík í Mýrdal. Þá var maður sem slasaðist við eggjatöku í bjargi á Langanesi fluttur á sjúkrahús.

Loftrýmisgæsla NATO við Ísland að hefjast

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er að hefjast að nýju með komu flugsveitar kanadíska flughersins. Flugsveitin kemur til landsins með sex Hornet CF-188 orrustuþotur. Ráðgert er að verkefninu ljúki miðjan júní. 

TF-SIF við eftirlit á Reykjaneshrygg

Í eftirlitsflugi sem TF-SIF fór á Reykjaneshrygg í nýliðinni viku var meðal annars grennslast fyrir um erlend fiskiskip sem voru á úthafskarfaveiðum rétt utan við lögsögumörkin. Þá var öldureksdufli varpað úr flugvélinni en það er hluti af útbúnaði sem notaður er við hafrannsóknaverkefni við Ísland.

Skosk, norsk og írsk skip í ferilvöktun LHG

Veðurskilyrði yfir landinu þýða að stjórnstöð LHG nemur AIS-merki frá skipum í Norðursjó og við Noregsstrendur. Yfir eitt þúsund skip voru í kerfum stjórnstöðvar nú í hádeginu. 

Allnokkrir bátar án lögskráningar

Landhelgisgæslan hvetur strandveiðisjómenn og aðra sjófarendur til að tryggja að lögskráning á bátana sé fullnægjandi. Annmarkar á því geta haft alvarlegar afleiðingar. Haft hefur verið samband við tugi báta vegna ófullnægjandi lögskráningar.

Strandveiðitímabilið hófst í morgun

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar áætlar að þegar mest lét hafi hátt í tvö hundruð strandveiðibátar verið að veiðum í morgun. Stjórnstöðin fylgist grannt með strandveiðibátum næstu vikurnar en eftirliti með þeim verður jafnframt sinnt af sjó og úr lofti.