Fréttayfirlit: september 2017

Síðasti loftskeytamaðurinn kvaddur

Bergþór Atlason, varðstjóri í stjórnstöð LHG, vann sína síðustu vakt í nótt og af því tilefni var honum haldið kveðjuhóf nú síðdegis. Bergþór er menntaður loftskeytamaður og er einn sá síðasti með þá menntun sem starfað hefur óslitið í þeim geira. 

Tvær þyrlur LHG á flóðasvæðunum

Tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar aðstoða nú lögreglu og aðra viðbragðsaðila suðaustanlands en þar hafa mikil úrkoma og vatnavextir sett samfélagið úr skorðum. Önnur þyrlan verður á svæðinu fram á morgundaginn hið minnsta en þá verður ákvörðun tekin um framhaldið. 

Baldur staðsetti skipsflak í Breiðafirði

Áhöfn sjómælingabátsins Baldurs staðsetti með fjölgeislamælingum skipsflak í Breiðafirði í sumar. Allt bendir til að flakið sé af norska flutningaskipinu Nordpolen sem sökk á þessum slóðum árið 1926. 

Loftrýmisgæslu NATO lokið að sinni

Bandaríska flugsveitin sem sinnt hefur loftrýmisgæslu hér við land að undanförnu sneri aftur til síns heima á föstudaginn. Fyrr í mánuðinum var langveikum börnum boðið að kynna sér starfsemi flugsveitarinnar og skoða þotur og ýmsan búnað. 

TF-LIF sótti sjúkling til Eyja

Þyrlan fór í sjúkraflug til Vestmannaeyja síðdegis í gær. Mikil þoka gerði verkefnið erfiðara og varð þyrlan að færa sig frá Vestmannaeyjaflugvelli yfir á malarvöll í bænum til að eiga ekki á hættu að lokast inni. 

Tundurdufli eytt í Fáskrúðsfirði

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um síðastliðna helgi þegar Ljósafell SU-70 fékk tundurdufl í trollið austur af landinu. Vel gekk að eyða duflinu en ljóst var af sprengingunni að það var með fullri virkni.

Góðar gjafir bárust þyrlusveit LHG

Einn reyndasti þyrlulæknir okkar, Felix Valsson, var kvaddur með vöfflukaffi í morgun. Um leið fékk Landhelgisgæslan afhenta þrjá barkakýlisspegla með myndavél til að hafa um borð í þyrlunum. 

Rúm sjötíu hlöss af útbúnaði flutt úr Surtsey

Fyrr í vikunni var útbúnaður sem notaður var í tengslum við alþjóðlegt borunarverkefni í Surtsey fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir í varðskipið Þór. Skipið kom til hafnar í Reykjavík í fyrrakvöld og búnaðurinn með. 

Veikur maður sóttur í skútu

Þyrlan TF-GNA sótti sjúkling um borð í erlenda skútu djúpt suður af landinu á föstudagskvöldið. Aðgerðin gekk vel en hífingar úr skútum geta reynst varasamar.

Arctic Guardian 2017 lauk í dag

Góður árangur varð af leitar- og björgunaræfingunni Arctic Guardian sem lauk í blíðskaparveðri á Kollafirði í dag. Æfingin er sú fyrsta sem samtök strandgæsluríkja á norðurslóðum, Arctic Coast Guard Forum, gangast fyrir. 

Arctic Guardian stendur sem hæst

Skip og flugvélar æfa áfram leit og björgun á hafsvæðinu vestur af Íslandi. Æfingin er haldin undir merkjum samtaka strandgæslustofnana á norðurslóðum og hefur gengið mjög vel það sem af er. 

Skipin lögð af stað á æfingasvæðið

Alþjóðlega leitar- og björgunaræfingin Arctic Guardian 2017 hófst í dag en nú undir kvöld héldu skipin fimm sem taka þátt til æfingasvæðisins vestur af landinu. Samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum (ACGF) standa fyrir æfingunni.

Arctic Guardian 2017 hefst á morgun

Arctic Guardian, fyrsta sameiginlega leitar- og björgunaræfing samtaka strandgæslustofnana norðurslóðaríkja (e. Arctic Coast Guard Forum,) hefst þriðjudaginn 5. september. Markmið æfingarinnar er að þróa fjölþjóðlega samvinnu á þessu sviði og gera hana nánari en jafnframt sýna fram á getu aðildarríkjanna til að ráðast í sameiginlegar leitar- og björgunaraðgerðir á norðurslóðum. 

Leynivopnið komið í hendur Breta

Formaður öldungaráðs fyrrverandi starfsmanna Landhelgisgæslunnar afhenti fyrir helgi stjórnendum Sjóminjasafnsins í Hull togvíraklippur sem komu mjög við sögu í þorskastríðum síðustu aldar. 

Kanadískur ísbrjótur til sýnis í Reykjavíkurhöfn

Kanadíski ísbrjóturinn Pierre Radisson verður opinn almenningi á morgun, sunnudaginn 3. september. Skipið er hér á landi í tengslum við leitar- og björgunaræfingu samtaka strandgæslustofnana á norðurslóðum.