Æfðu björgun úr björgunarbát á hvolfi

Kafarar um borð í varðskipinu Tý æfðu

  • Kristinn

28.3.2020 Kl: 10:40

Landhelgisgæslan hefur á að skipa öflugum köfurum sem hlotið hafa sérþjálfun og öðlast réttindi til að vinna við köfun. Kafararnir starfa til dæmis í séraðgerðasveit, þyrlusveit og á varðskipunum. Um borð í varðskipinu Þór eru til að mynda þrír kafarar og tveir um borð í Tý. 

Kafararnir um borð í Tý, Kristinn Ómar Jóhannsson og Jón Smári Traustason, æfðu á dögunum hvernig bjarga á manni úr björgunarbát á hvolfi. Það skiptir afar miklu máli að kafararnir æfi björgun sem þessa reglulega enda getur björgunarbátum hvolft og þá þurfa handtökin að vera snör. 

Kafarar varðskipanna halda að lágmarki eina köfunaræfingu í hverri ferð auk þess sem þeir eru ætíð til taks þegar þyrlusveit og áhafnir varðskipanna æfa saman á sjó. Við verkefni kafaranna eru því aldrei færri en tveir kafarar sem sinna hverju verkefni. Til að tryggja hámarksöryggi er ætíð kafað með línu, einn kafar en hinn sér um eftirlit með lofti og heldur uppi stöðugum samskiptum við þann sem er að kafa. 

Á björgunaræfingunni fyrr í mánuðinum voru kafararnir með myndavél á sér og meðfylgjandi myndband sýnir hvernig þeir bera sig að. 

Æfðu björgun úr björgunarbát á hvolfi