Eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar svipast um eftir tveimur fiskibátum

Eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF var send í morgun út á Reykjaneshrygg vegna tveggja fiskibáta sem voru fyrir utan drægi ferilvöktunarkerfa og fjarskipta. Náði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ekki í þá þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, til að ganga úr skugga um að allt væri í góðu lagi með bátana. Þá hafði stjórnstöðin bátana ekki heldur í ferilvöktun þar sem þeir voru komnir út fyrir það svæði.

Önnur skip á svæðinu höfðu verið að tilkynna um að þau sæju til fiskibátanna en að mati Landhelgisgæslunnar var fullreynt að ná sambandi við þá og því ekkert annað í stöðunni en að senda flugvélina á vettvang. Þegar flugvélin var komin á svæðið náði hún sambandi við bátana og gaf þeim fyrirmæli um að halda inn fyrir mörk langdrægis ferilvöktunar- og fjarskiptakerfa. Landhelgisgæslan er með það til skoðunar hvernig tekið verður á máli fiskibátanna í framhaldinu en um er að ræða brot á lögum og reglugerðum.