Ekkert lát á fjölgun útkalla

Útköllin hjá flugdeild LHG voru samtals 257 árið 2017 og hafa aldrei verið fleiri

Bráðabirgðatölur frá flugdeild Landhelgisgæslu Íslands sýna að á nýliðnu ári voru útköll björgunarþyrla og flugvélar stofnunarinnar alls 257. Árið 2016 voru þau 251 og hefur því útköllunum fjölgað enn eitt árið. Aukningin undanfarin ár er jöfn og þétt en árið 2011 voru útköllin 155. Heildarfjöldi útkalla hjá flugdeild hefur því á þessu tímabili vaxið um 66 prósent, úr 155 í 257. Sérstaka athygli vekur fjölgun forgangsútkalla (Alfa). Árið 2016 voru þau 87 en í fyrra voru þau rúmlega eitt hundrað.

Flugferðir Landhelgisgæslunnar á árinu voru alls 628 og eru þá æfinga- og gæsluflug meðtalin, auk leitar og björgunarútkalla. Alls var þyrlum og loftförum Landhelgisgæslunnar flogið í 1551 tíma. Flugstundir á þyrlunum voru samtals 880 en 671 á flugvélinni TF-SIF. Tvær þyrluáhafnir voru til taks rétt rúmlega helming ársins (56 prósent) en það er forsenda þess að hægt sé að sinna leitar- og björgunarútköllum lengra en tuttugu sjómílur á hafi úti. Rétt er þó að undirstrika að oftast tekst að manna tvær áhafnir þegar mikið liggur við. Það er þó alls ekki sjálfgefið, kostar sitt og þýðir að þyrlusveitin tekst meiri skyldur á herðar en starfið býður.

Útköllin í fyrra tengdust margvíslegum verkefnum og stundum voru þyrlurnar kallaðar út oftar en einu sinni vegna sama málsins. Þannig tók þyrlusveitin virkan þátt í umfangsmikilli leit sem gerð var að Birnu Brjánsdóttur fyrir tæpu ári og þyrlurnar gegndu líka mikilvægu hlutverki í almannavörnum vegna flóðanna á Suðausturlandi í haust. Þá voru öll loftför Landhelgisgæslunnar, þyrlurnar þrjár og flugvélin, kölluð út vegna alvarlegs umferðarslys nærri Kirkjubæjarklaustri á milli jóla og nýárs. Það er einsdæmi og sýnir glöggt þörfina á því að bæði þyrlur og flugvél séu ávallt fullmannaðar og til taks.

Thyrlur-Klaustur

Útköllin voru fleiri en áætlanir Landhelgisgæslunnar gerðu ráð fyrir. Samkvæmt þeim var búist við að um fjórðungur flugtíma yrði vegna leitar- og björgunarverkefna en í reynd var þriðjungur allra flugtíma ársins 2017 vegna slíkra verkefna. Þetta hafði í för með sér að þyrlurnar sinntu löggæslu- og eftirlitsverkefnum og æfingum minna en áformað var.

Í útköllum ársins 2017 voru alls 173 sjúkir eða slasaðir einstaklingar fluttir með loftförum Landhelgisgæslunnar. Þar af voru 75 af erlendu þjóðerni en 98 Íslendingar. Erlendum sjúklingum hefur fjölgað á milli ára en íslenskum aftur á móti fækkað. Árið 2016 voru 59 sjúklingar af erlendum uppruna fluttir með loftförunum en 107 Íslendingar.


Flugvélin TF-SIF var við landamæraeftirlit fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex) á Miðjarðarhafi í fjóra og hálfan mánuð á árinu 2017. Fjórir af hverjum fimm (81 prósent) flugtímum hennar voru vegna þessara verkefna, samkvæmt bráðabirgðatölum flugdeildarinnar. Erfið fjárhagsstaða Landhelgisgæslunnar í upphafi árs réði mestu um að Frontex-verkefnin urðu svo fyrirferðarmikil. Tölurnar sýna að flugvélin nýttist þess vegna ekki sem skyldi við eftirlit og önnur verkefni á Íslandi því aðeins 14 prósent flugtíma TF-SIF á síðasta ári flokkuðust undir gæsluflug og fimm prósent þjálfun.