Farþegabátur fór ítrekað út fyrir leyfilegt farsvið

Var einnig með of marga um borð

  • _33A8672

7.2.2019 Kl: 16:22

Borið hefur á því að skipstjórar farþegaskipa hafi ekki virt leyfilegt farsvið sitt og hefur Landhelgisgæslan þurft að áminna og kæra skipstjóra.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar höfði um helgina afskipti af farþegabáti sem hafði farið út fyrir leyfilegt farsvið sitt. Skipstjórinn var áminntur og beðinn um að halda sig innan þeirra marka sem tilgreind eru reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum. Degi síðar var sami bátur aftur kominn út fyrir farsviðið.

Á mánudag endurtók skipstjóri þessa sama báts leikinn í þriðja sinn og fór út fyrir leyfilegt farsvið. Landhelgisgæslan kallaði út séraðgerðasveit sem tók á móti bátnum þegar hann kom til hafnar í Reykjavík og taldi farþega um borð. Skipstjórinn hafði tjáð Landhelgisgæslunni að 12 farþegar væru í bátnum en við talningu kom í ljós að þeir voru tæplega tvöfalt fleiri, eða 27 talsins, en máttu aðeins vera með 12. Skipstjórinn á yfir höfði sér kæru fyrir athæfið.

Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar leggja menn metnað sinn í að vakta umferð báta og skipa í öryggisskyni. Því er afar mikilvægt að skipstjórnarmenn virði leyfilegt farsvið og standi rétt að skráningu farþega. Það skiptir viðbragðsaðila miklu máli að vita fjölda farþega um borð ef neyðarástand skapast.

Í kjölfar atvikanna ákvað Landhelgisgæslan að senda eftirlitsmenn frá varðskipinu Þór til sérstaks eftirlits með farþegabátum í grennd við Reykjavík í dag. Við þá athugun kom í ljós að einn farþegabátur hafði farið lítillega út fyrir leyfilegt farsvið og var skipstjórinn áminntur í kjölfarið. Landhelgisgæslan vill brýna fyrir skipstjórnarmönnum að virða lög og reglur sem gilda um fjölda farþega og leyfilegt farsvið.