Fjórtán fluttir með loftförum Landhelgisgæslunnar

Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða á sjúkrahús eftir rútuslys við Hof í Öræfum.

  • Hof
16.5.2019 Kl: 22:44


Fjórtán voru fluttir slasaðir með loftförum Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík og Akureyri eftir rútuslys sem varð við Hof í Öræfum. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð frá lögreglu klukkan 15:11 og þegar í stað var TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, kölluð út. 

Þá var ákveðið að senda flugvél Landhelgisgæslunnar sömuleiðis austur en upphaflega var gert ráð fyrir að meðlimir Flugbjörgunarsveitarinnar færu með flugvélinni ásamt sérstökum stórslysabúnaði sem til stóð að varpa á slysstað. Ekki reyndist þörf á búnaðinum og tók flugvélin á loft með fjögurra manna áhöfn auk tveggja sjúkraflutningamanna á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 

TF-LIF flutti fjóra alvarlega slasaða á Landspítalann í Fossvogi og TF-SIF flutti tíu frá Höfn í Hornafirði á sjúkrahús á Akureyri. 

Þá var þyrla danska varðskipsins Hvítabjarnarins kölluð út frá Reykjavík en hún flutti þrjá slasaða á Landspítalann.

Hof2Stórslysabúnaður Flugbjörgunarsveitarinnar klár í flugskýli Landhelgisgæslunnar.