Gleðilegt nýár!

  • flugeldar_1

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis á gamlársdag eftir að vegfarandi tilkynnti um ljósmerki innarlega í Hvalfirði. Upplýsingar stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar bentu ekki til að bátur eða skip væru á ferð á þessum slóðum og hugsanlega væri um dufl að ræða en engu að síðar þótti vissara að leita á svæðinu.

Lögregla og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófu fyrstu eftirgrennslan og laust upp úr klukkan tvö var TF-LIF send á vettvang til að fá heildaryfirsýn. Eftir að hafa flogið yfir svæðið lenti þyrlan hjá lögreglumönnum á vettvangi til skrafs og ráðagerða. Var það mat áhafnar þyrlunnar og lögreglu að þar sem ekkert var að að sjá á vettvangi sem gæti bent til þess að slys hefði átt sér stað, og einskis var saknað, að óhætt væri að afturkalla aðgerðir. TF-LIF lenti aftur á Reykjavíkurflugvelli um klukkan þrjú.

Í upphafi ársins horfir Landhelgisgæslan björtum augum fram á veginn og hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem árið 2018 á eftir að bera í skauti sér. Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakkar auðsýnda velvild og stuðning í áranna rás.