Hressilegar vindhviður á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli

Landhelgisgæsla Íslands rekur ratsjár- og fjarskiptastöðvar NATO hér á landi og þar með taldar eru stöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli. Þessir vinnustaðir hafa talsverða sérstöðu þar sem þeir eru hæstu vinnustaðir landsins. Stöðin á Bolafjalli er í um 620 metra hæð og stöðin á Gunnólfsvíkurfjalli er í um 720 metra hæð. Það þarf því hrausta og öfluga starfsmenn til að sækja vinnu á fjallastöðvarnar þar sem fyrir kemur að vindhviður fari vel yfir 70 metra á sekúndu eins og raunin var þriðjudaginn 16. febrúar sl. á Bolafjalli og þriðjudaginn 8. desember sl. á Gunnólfsvíkurfjalli. Þá fóru meðal annars vindhviður yfir 75 metra á sekúndu á Gunnólfsvíkurfjalli.

Á ratsjár- og fjarskiptastöðvunum er ratsjárbúnaður og fjarskiptabúnaður Atlantshafsbandalagsins en ratsjárbúnaðurinn er einnig nýttur hér á landi til flugleiðsögu af Isavia. Þá er á ratsjárstöðvunum einnig hýstur margvíslegur fjarskiptabúnaður sem nýtist meðal annars við flugleiðsögu og leit og björgun.

Sýna meðfylgjandi myndir hve öflugar vindhviðurnar voru á stöðvunum er mest lét.

 
 Vindhviður á Bolafjalli þann 16. febrúar sl.
 
Vindhviður á Gunnólfsvíkurfjalli þann 8. desember sl.