Landhelgisgæslan veitir Færeyingum ráð í sjókortagerð

Upplýsingar veittar um hvernig Landhelgisgæslan skipuleggur og stendur að sjómælingum.

  • Torshavn
21.11.2018 Kl: 11:04

Á dögunum barst Landhelgisgæslunni fyrirspurn frá Færeyjum þar sem óskað var eftir upplýsingum hvernig stofnunin skipuleggur og stendur að sjómælingum og sjókortagerð. 

Það var Jónas Tór Næs lögfræðingur í Heilbrigðis- og innanríkisráðuneytinu í Færeyjum sem hafði samband við Árna Þór Vésteinsson, deildarstjóra og sérfræðing í sjókortagerð, um miðjan ágúst s.l. og óskaði í framhaldinu eftir því að Árni Þór kæmi til Færeyja í lok september til fundar við fulltrúa ráðuneyta og stofnana í boði Færeyinga.

Færeyingar eru þessi misserin að vinna í því að yfirtaka sjómælingar og sjókortagerð frá Dönum. Lögþingið í Færeyjum tók ákvörðum um að yfirtaka málaflokkinn og er undirbúningur í fullum gangi.

Fulltrúar Færeyinga hafa þegar átt nokkra fundi með starfsmönnum Geodatastyrelsen í Danmörku.

Árni hélt til Færeyja í lok september og átti fund með starfsmönnum. Á fundinum voru fulltrúar frá opinberum stofnunum; Landsverk, Sjóvinnustýrið og Umhvørvisstovan auk Jónasar Tór Næs.