Leitarköfun á stysta degi ársins

Kafarar LHG æfðu leitarköfun í Reykjavíkurhöfn í gær

Hafið í kringum Ísland er bæði dimmt og kalt og alveg sérstaklega á þessum árstíma þegar sólargangurinn er hvað stystur og hitastigið lægst. Þrír kafarar í köfunarsveit Landhelgisgæslunnar nýttu þessar óblíðu aðstæður til æfinga í gær, á vetrarsólstöðum. 

Þeir Andri Rafn Helgason, Sverrir Harðarson og Jón Marvin Pálsson vörðu gærmorgninum í ísköldum sjónum við mælingabátinn Baldur í Reykjavíkurhöfn og æfðu þar leitarköfun við krefjandi skilyrði. Eins og myndin með fréttinni sýnir var skyggnið í vatninu harla lítið, það er rétt svo að sjáist niður á læri kafaranna. 

Það fer að verða árviss viðburður að kafarar Landhelgisgæslunnar dýfi sér niður í hafdjúpin á vetrarsólstöðum því 21. desember í fyrra var efnt til köfunarnámskeiðs um borð í varðskipinu Tý á Hvalfirði. Verkefni kafaranna var þá að kafa niður á fimmtíu metra dýpi og voru þeir Andri Rafn og Sverrir á meðal þeirra sem það gerðu.