Mælitækin yfirfarin í blíðskaparveðri

TF-LIF flaug með starfsfólk Veðurstofunnar á fjöll í grennd við Kötlu og Bárðarbungu

Það viðraði vel til viðhaldsverkefna á fjöllum í gær. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar auk starfsfólks Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sættu því lagi og yfirfóru mælitæki og búnað í grennd við Kötlu og Bárðarbungu. Sem kunnugt er hefur jarðskjálftavirkni verið talsverð á þessum slóðum að undanförnu og því vilja vísindamenn fylgjast grannt með því sem fram fer í jarðskorpunni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli um hálfeittleytið í gær og um 45 mínútum síðar var lent í Grænufjöllum sunnan Mýrdalsjökuls. Þar yfirfóru sérfræðingar Veðurstofunnar og almannavarnadeildar mælibúnað. Hálftíma síðar fór þyrlan aftur í loftið og var stefnan þá tekin á Kistu í Vonarskarði.


Á Grænafjalli

Ákveðið var að kanna athugunarstöðina á Hamrinum, ofan Gráöldu, og sjá hvers vegna hún sendi ekki lengur upplýsingar til bækistöðvar. Þegar flogið var yfir staðinn kom í ljós að allar sólarsellurnar voru á kafi í snjó og ís. Þá hafði vindrella stöðvarinnar fokið niður.

Um hálfþrjúleytið lenti þyrlan á Kistu og þar var mannskapur og búnaður settur út. Skínandi gott farsímasamband var á fjallinu enda útsýni gott til allra átta. Því var ákveðið að á meðan viðhaldsvinnan færi fram flygi áhöfn þyrlunnar til Akureyrar og tæki eldsneyti. Þegar verkið væri komið vel á veg yrði svo einfaldlega hringt í þyrluna. Allt þetta tók rétt tæpa tvo klukkutíma.


Á Hamrinum

Sökum þess að veður var gott, vinnan hafði gengið vel og ekki var mjög áliðið var ákveðið að koma við hjá Hamrinum. Þar var lent laust fyrir klukkan fimm, snjórinn hreinsaður af sólarsellunum og vindrellunni sem fannst í snjónum kippt með í bæinn. TF-LIF lenti svo á Reykjavíkurflugvelli rúmri klukkustund síðar.