Mjófirðingar heimsækja varðskipið Þór

Varðskipið Þór er nýkomið heim úr eftirlits- og löggæsluferð. Sinnti áhöfnin á Þór fjölmörgum og fjölbreyttum verkefnum í ferðinni. Þá tók varðskipið einnig á móti skemmtilegum gestum er það heimsótti Mjóafjörð.

Var Mjófirðingum boðið að skoða skipið og tók skipherrann, Sigurður Steinar Ketilsson ásamt áhöfn sinni vel á móti glaðbeittum gestunum. Voru gestirnir ferjaðir um borð á léttbátum varðskipsins þar sem bryggjan á Mjóafirði er heldur lítil fyrir skip eins og varðskipið Þór.

Landhelgisgæslan hefur veitt Mjófirðingum þjónustu í áratugi og minntust þeir þess tíma með þökk og hlýhug. Alls komu 19  gestir um borð sem þáðu dýrindis kaffimeðlæti að hætti brytans og spjölluðu við áhöfnina. Var mikil og góð stemning og margar góðar sögur rifjar upp frá liðnum árum.     

 
Gestir voru ferjaðir á léttbátum varðskipsins.
 
Sigurður Steinar Ketilsson skipherra tekur á móti gestunum.
 
Spjallað, hlegið og gamlar sögur rifjaðar upp.