Nemendur úr Kvennaskólanum í heimsókn hjá Landhelgisgæslunni

Það var eldhress hópur nemenda úr Kvennaskólanum ásamt kennara sínum sem heimsótti Landhelgisgæsluna í dag til að kynna sér starfsemina og þá sér í lagi löggæslu- og eftirlitshlutverk Landhelgisgæslunnar. Hópurinn er nú að læra afbrotafræði og hefur að undanförnu kynnt sér réttarkerfið og hlutverk stofnana í lög- og réttarfarskerfinu.

Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar bauð hópinn velkominn til Landhelgisgæslunnar og sagði það afar mikilvægt að Landhelgisgæslan fengi tækifæri til að kynna ungu fólki sem væri að taka ákvörðun um framtíð sína, þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer hjá Landhelgisgæslunni enda mögulega tilvonandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar þar á ferð.

Síðan tók Henning Þór Aðalmundsson stýrimaður, sigmaður og kafari við og kynnti starfsemina, tækjabúnaðinn og hvernig Landhelgisgæslan sinnir eftirlits- og löggæsluhlutverki sínu sem og leit og björgun.

Hópurinn var einstaklega áhugasamur um starfsemina og spurði fjölmargra spurninga og fékk svo að sjálfsögðu að stíga um borð í þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar.

 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar býður hópinn velkominn.
 
Henning Þór Aðalmundsson segir frá starfseminni.
 
Þessar skelltu sér í flugstjóra- og flugmannssæti þyrlunnar TF-LIF.