Björgunaraðgerðir í nótt - Þyrlan Sif dregin á land

  • Björgun - SIF4
Þriðjudagur 17. júlí 2007.

Í nótt tókst að koma þyrlunni Sif á land og er hún nú í vörslu Rannsóknarnefndar flugslysa.

Björgunarstörfin í nótt fóru þannig fram að byrjað var á að setja lyftibelgi á vélina. Hver belgur ber 300 kg. og voru settir sex slíkir belgir á vélina til að tryggja að hún flyti. Að því loknu var hljóðritinn tekinn úr vélinni og flakið myndað að beiðni Rannsóknarnefndar flugslysa. Þar næst fóru kafarar niður undir vélina og tóku þyrluspaðana af henni og komu böndum á ásinn sem heldur spöðunum (rotorhead -þyrilkollur). Þá var kominn prammi með krana að vélinni og var hann notaður til að hífa vélina upp til að rétta hana af. Það tókst með ágætum. Ákveðið var að taka vélina ekki um borð í prammann til að forðast skemmdir.  Þar næst var vélin dregin upp að bryggju í Hafnarfirði.  Þar var hún hífð upp á bíl og flutt í húsnæði á vegum Rannsóknarnefndar flugslysa.
 
Landhelgisgæslan vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem tóku þátt í björgunaraðgerðum en það starf gekk með eindæmum vel.  Meðal þeirra sem komu að björgunaraðgerðum ásamt köfurum og öðrum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar voru kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, björgunarsveitarmenn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, lögreglan og Köfunarþjónusta Árna Kópssonar.
 
Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni tók meðfylgjandi myndir.
 
Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

 

Björgun - SIF1

Björgun - SIF3

Björgun - SIF4

Björgun - SIF5