Þrjár vélar Landhelgisgæslunnar á lofti á sama tíma vegna þriggja útkalla

  • Gná sjúkraflug í skemmtiferðaskipið Saga Rose 170807
Föstudagur 17. ágúst 2007.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo sjúklinga út á haf í kvöld. Óskað var aðstoðar vegna sjómanns um borð í þýska togaranum Sebastes M. en talið var að hann væri með einkenni frá botnlanga. Einnig óskaði skemmtiferðaskipið Saga Rose eftir aðstoð vegna konu sem talið var að væri með hjartaáfall.
Landhelgisgæsluþyrlan Gná fór í loftið kl. 17:15 og henni til fylgdar og öryggis fór eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, en hún fór í loftið kl. 17:30. Bæði skipin voru á svipuðum slóðum u.þ.b. 215 sjómílur suðvestur af landinu.  Flugið gekk vel og lenti þyrlan með sjúklingana á Reykjavíkurflugvelli kl. 21:24. 
 
Þriðja útkallið barst kl. 19:07 gegnum Neyðarlínuna vegna konu sem hafði fallið af hestbaki á Kjalvegi milli Hofsjökuls og Langjökuls og slasast. Áhöfn Landhelgisgæsluþyrlunnar Eirar var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 19:48.  Hún lenti með hina slösuðu við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 21:18.
 
Við þetta má bæta að Landhelgisgæsluþyrlan Gná sótti konu sem hafði lent í bílveltu milli Hellna og Arnarstapa sl. nótt.  Beiðni um aðstoð kom kl. 1:30 um nóttina og fór þyrlan í loftið kl. 2:07.  Hún lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 3:30.

Meðfylgjandi myndir tók áhöfnin á eftirlitsflugvélinni Syn.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.
 
Sjúkraflug Gnár í Sebastes M. 170807
Landhelgisgæsluþyrlan Gná á flugi yfir þýska togaranum Sebastes M.  Myndin er tekin úr eftirlitsflugvélinni Syn sem fylgdi þyrlunni.

Sjúkraflug Gnár í Sebastes M. 170807

Sama.

Gná sjúkraflug í skemmtiferðaskipið Saga Rose 170807
Landhelgisgæsluþyrlan Gná sækir sjúkling í skemmtiferðaskipið Saga Rose.

Gná sjúkraflug í skemmtiferðaskipið Saga Rose 170807
Sama.