Útköll vegna slasaðrar konu í Víti, ferðamanns í sjálfheldu í Tungnaá, og leit að þýskum ferðamönnum

  • Tungnaá - útkall v. þýskrar ferðakonu í sjálfheldu 180807

Sunnudagur 19. ágúst 2007.

Tvær hjálparbeiðnir bárust Landhelgisgæslunni í dag, annars vegar vegna tveggja þýskra ferðamanna sem saknað er og hins vegar vegna konu sem lent hafði í grjóthruni í Víti við Öskjuvatn.

Áhöfn Landhelgisgæsluþyrlunnar Eirar var í dag kölluð út til leitar að þýsku ferðamönnunum sem saknað hefur verið. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra stjórnar leitinni og sér um samhæfingu með öðrum björgunaraðilum.

Skömmu eftir að áhöfn Gnár var komin út á flugvöll, kom önnur hjálparbeiðni, vegna ítalskrar konu sem hafði lent í grjóthruni í Víti við Öskjuvatn. Þyrlan fór í loftið kl. 15:30 og var komin að Víti kl. 16:45. Þegar þangað var komið fóru stýrimaður og læknir niður til konunnar og bjuggu um hana og gáfu henni nauðsynleg lyf.

Þyrlan lenti með konuna á Egilstaðaflugvelli kl. 19:15 og var hún flutt yfir í sjúkraflugvél frá Mýflugi sem flutti hana á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Eftir að eldsneyti hafði verið tekið á Egilsstöðum var haldið af stað í leitina að þýsku mönnunum sem saknað er. Byrjað var í Herðubreiðarlindum, þaðan að Kverkfjöllum yfir norðanverðan Brúarjökul og upp að Þjófahnúk. Þá Snæfell austur með að Illakambi.  Leitin bar ekki árangur.

Þyrlan lenti á Hornafirði um níuleytið um kvöldið, tók eldsneyti þar, og var hún komin til Reykjavíkur kl. 23.

Meðfylgjandi myndir voru hins vegar teknar í gær, laugardaginn 18. ágúst. er áhöfnin á Eir var kölluð út vegna konu sem var í bíl sem var fastur í Tungnaá.  Fyrir brottför þyrlunnar fengust þær upplýsingar að konan væri ómeidd en ekki væri hægt að komast að bílnum frá landi til að ná henni.  Eiginmaður hennar hafði synt í land og kallað eftir hjálp, kaldur og hrakinn.

Þyrlan fór í loftið um kl. 20.  Er þyrlan kom á staðinn kl. 20:45 kom í ljós að húsbíll hjónanna var sokkinn í aur í miðri á og var konan í stýrishúsi bílsins.  Sigmaður þyrlunnar seig niður á topp bílsins og þaðan inn í hann.  Konan var við góða heilsu og var hún sett í björgunarlykkju og hífð með sigmanni frá bílnum yfir á árbakkann.  Áhöfnin á Eir kom konunni í skálann í Jökulheimum í faðm eiginmanns síns.  Læknir í áhöfn Eirar gekk síðan úr skugga um að hjónin væru ómeidd áður en þyrlan hélt til baka til Reykjavíkur þar sem hún lenti um tíuleytið um kvöldið.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Tungnaá - útkall v. þýskrar ferðakonu í sjálfheldu 180807

Tungnaá - útkall v. þýskrar ferðakonu í sjálfheldu 180807


Tungnaá - útkall v. þýskrar ferðakonu í sjálfheldu 180807