Fulltrúar Landhelgisgæslunnar taka þátt í North Atlantic Coast Guard Forum

  • NACGF_logo

Fimmtudagur 13. mars 2008

Dagana 3. til 6. mars s.l. sóttu 5 starfsmenn Landhelgisgæslunnar verkefnahópafund Samtaka strandgæsla við Norður-Atlantshaf (North Atlantic Coast Guard Forum) í Kaupmannahöfn. Stofnfundur samtakanna var haldinn í Svíðjóð í október á síðasta ári og tóku Danir við formennsku í samtökunum fyrsta árið. Ísland mun síðan taka við formennsku í september á þessu ári, að afloknum fundi yfirmanna strandgæslanna sem haldinn verður á Grænlandi.

NACGF_mars_2008_2
Allir fundarmenn fyrir utan fundarstaðinn í Eigtveds Pakhus í Kaupmannahöfn
(mynd: Gylfi Geirsson)

Í Svíþjóð var ákveðið að stofna sex verkefnahópa, sem aðilar að samtökunum sendu sína sérfræðinga í viðkomandi málaflokkum, til að starfa í. Þessir verkefnahópar eru fiskveiðaeftirlit, leit og björgun, umhverfiseftirlit, öryggiseftirlit, fíkniefnaeftirlit og eftirlit með ólöglegum innflytjendum. Um er að ræða eftirlit á hafi úti en þessar strandgæslustofnanir eru allar í nánu samstarfi við ýmsar stofnanir í sínum heimalöndum sem sinna þessum málaflokkum á landsvísu. Að hálfu Landhelgisgæslunnar var ákveðið að taka þátt í fjórum fyrst töldu verkefnahópunum og er einn fulltrúi stofnunarinnar í hverjum þeirra en auk þess fer Landhelgisgæslan með formennsku í fiskveiðieftirlits hópnum, en formaðurinn er Gylfi Geirsson forstöðumaður sem hefur mikla reynslu af slíkum störfum á alþjóðavísu. Einar H. Valsson yfirstýrimaður er fulltrúi í fiskveiðieftirlits hópnum, Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður er fulltrúi í umhverfiseftirlits hópnum, Magnús Ö. Einarsson stýrimaður er fulltrúi í leitar- og björgunar hópnum og Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður Vaktstöðvar siglinga fulltrúi í öryggiseftirlits hópnum.

NACGF_mars_2008_3
Formenn sendinefnda Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar. Frá vinstri:
Gylfi Geirsson, frá Íslandi Jan Leisborch Danmörku og Staffan Kvarnström
frá Svíþjóð. Svíar höfðu upphaflega formennsku, Danir tóku svo við og
Íslendingar taka við í haust. (mynd: Gylfi Geirsson)

Það var Captain Jan Leisborch sem setti fundinn í fjarveru Níels Wang Aðmíráls, yfirmanns danska sjóhersins. Aðmírállinn, sem jafnframt er formaður samtakanna þetta árið, ávarpaði fundarmenn engu að síður í gegnum gervihnattarfjarskiptakerfi þaðan sem hann var staddur í Singapore en að því búnu hófst vinna í verkefnahópum. Hópunum var ætlað að skrásetja skip, loftför og annan tækjabúnað sem væri að finna í hverju landi fyrir sig og nýst getur til samstarfs í hverjum málaflokki fyrir sig en auk þess að ákvarða hvernig og hvaða upplýsingum strandgæslur þessara landa gætu skipst á þannig að samhæfa mætti starfsemi þeirra þar sem við á og þörf er til. Einnig var íhugað hvort grundvöllur væri fyrir því að þessar strandgæslur aðstoðuðu lönd utan Norður-Atlanshafs við að þróa eða koma á fót sambærilegum stofnunum. Vinnuhóparnir skulu gefa stöðuskýrslu fyrir 1. maí n.k. og lokaskýrslu fyir 1. ágúst. Formenn vinnuhópanna munu síðan kynna niðurstöður sínar á aðalfundi samtakanna í september.

NACGF_mars_2008
Plenary fundur (mynd: Gylfi Geirsson)

Innan vinnuhópanna kom það fram, að hlutverk strandgæslanna er mismunadi eftir löndum þó að í flestum tilfellum megi finna sameiginlegan grunn. Breytingar á þessu hafsvæði undanfarna áratugi kalla á meira vægi löggæslustofnanna við eftirlit utan sem innan landhelgi og efnahagslögsögu. Flestar ef ekki allar eiga stofnanirnar það sameiginlegt að hafa forystu um leit- og björgunarþjónustu á ábyrgðasvæði sinna landa og er Norður-Atlanshafinu skipt í slík svæði með tilliti til þess. Sumar strandgæslanna eiga við stór og mikil úthafsvæði að glíma en önnur eru takmörkuð við innhöf og strandlengjur. Ábyrgðarsvæði Íslands er gríðarlega stórt og því mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna að eiga mikil og góð samskipti við þessar systurstofnanir varðandi upplýsingaöflun um skipaumferð ásamt því að vita af tækjabúnaði sem þessar þjóðir geta lagt til ef á þarf að halda á svæðinu.

Vinnan í verkefnahópunum mun halda áfram í gegnum nútíma samskiptatækni undir forystu formanna hópanna. Vegna formennsku Íslands í samtökunum, frá september nk. þá verður næsti vinnunefndafundur haldinn á Íslandi að ári og síðan aðalfundur haustið 2009. Reikna má með að á annað hundruð manns sæki vinnunefndafundinn miðað við þátttökuna í Kaupmannahöfn.

Logo__NACGF

13.03.2008 SRS