Rafrænt tilkynningakerfi fyrir skip, Safe Sea Net, tekið upp

  • SafeSeaNet

Landhelgisgæslan/Vaktstöð siglinga hefur nú tekið í notkun nýtt rafrænt tilkynningakerfi fyrir skip sem koma til hafnar hér á landi og um flutning hættulegs farms.

Siglingastofnun og Landhelgisgæslan hafa unnið að gerð kerfisins undanfarin tvö ár en kerfið er smíðað af Samsýn ehf. Innleiðing kerfisins byggir á lögum um Vaktstöð siglinga og tilskipun Evrópusambandsins 2002/59/EB. Öll ríki Evrópusambandsins, sem liggja að sjó eða reka kaupskip undir eigin fána, auk Íslands og Noregs vinna að eða hafa komið sér upp slíku kerfi. Kerfi allra landanna eru tengd miðlægum tilvísunargrunni þar sem hægt er að sækja upplýsingar um farm og ferðir skipa milli landa. Kerfið hefur verið nefnt Safe Sea Net.

Notendaviðmótið er að finna á vefsíðunni www.safeseanet.is Þar geta skipstjórnendur, útgerðaraðilar, umboðsmenn og aðrir þeir sem senda upplýsingar fyrir hönd skips, sótt um aðgang að kerfinu. Í vefkerfinu geta viðkomandi aðilar komið öllum þeim upplýsingum á framfæri sem koma þarf til yfirvalda vegna komu eða brottfarar skips.

Nýja kerfið leysir nú, að mestu leiti, af hólmi tilkynningaskjal fyrir skipakomur sem verið hefur í notkun til þessa.

Skipstjórnendur, útgerðaraðilar og aðrir sem þurfa að senda inn tilkynningar um skipaferðir eru hvattir til að kynna sér kerfið. Ennfremur veitir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga aðstoð við innskráningu, sé þess óskað.


SafeSeaNet
Viðmót rafræna tilkynningakerfisins á www.safeseanet.is

29.04.2008 SRS