Landhelgisgæslan æfir með Vædderen

Fimmtudagur 4. september 2008

Samhliða æfingunni Norður-Víkingur æfði Landhelgisgæslan í gær löggæslu- og björgunarstörf á sjó, ásamt danska herskipinu HDMS Vædderen.

Æfingin fór fram á Faxaflóa en þátttakendur voru Brúarfoss sem lánaður var frá Eimskip, Flugdeild LHG, Varðskipið Ægir, HDMS Vædderen, Sprengjusveit LHG, Orion P3 og Vaktstöð siglinga. Alls tóku þátt í æfingunni um 140 manns.

Ferill æfingarinnar var sá að VSS hafði samband við varðskipið Ægi og sagði vísbendingu hafa borist um grunsamlegan gám um borð í Brúarfossi. Var áhöfn Ægis beðin um að skoða skipið til eftirlits. Neitaði skipstjóri Brúarfoss að stöðva skipið og neyddist Ægir til að beita valdi við stöðvun skipsins.

HDMS Vædderen sendi því næst menn um borð í Brúarfoss til að tryggja vetttvang og óskaði eftir aðstoð sprengjusveitar LHG við það verk. Var sprengjusveitin staðsett um borð í þyrlu LHG í nokkurri fjarlægð frá skipinu.Við skoðun á farmskrá skipsins kom í ljós að gámur með tilteknu númeri var ekki á farmskrá. Hófst þá leit og fannst gámurinn á dekki framan við yfirbyggingu. Var hann opnaður af sprengjusveit LHG og  í ljós komu vopn og sprengjur sem sprengjudeild LHG gerði óvirkar .

Tók þá við næsti hluti æfingarinnar sem fólst í að upp kom eldur í gámnum og óskaði áhöfnin eftir aðstoð frá Ægi sem sendi menn ásamt slökkvibúnaði um borð, einnig komu björgunarmenn frá Vædderen með slökkvibúnað og sameiginlega tókst þeim að ráða niðurlögum eldsins. Þar með var þeim hluta æfingarinnar formlega lokið.
Slokkvistorf

Þvínæst kom upp eldur í vélarrúmi Brúarfoss og lögðust allir aðilar á eitt við að leysa það vandamál m.a. var slökkvibúnaður fluttur úr varðskipinu Ægi yfir í Brúarfoss.

Fulltrúi LHG hafði umsjón með æfingunni og var hann staðsettur um borð í Brúarfossi. Sagði hann  æfinguna hafa gengið mjög vel, æfingar eru haldnar til að læra og þar leyfist að gera mistök.  Skila þær þá að sjálfsögðu hlutverki  sínu, enda er farið yfir æfinguna eftir á. Við þökkum Eimskip fyrir lán á skipinu og áhöfninni sem stóð sig mjög vel og jafnframt öllum öðrum sem komu að æfingunni.

04.09.2008/HBS
Myndirnar tók Sigurður Ásgrímsson, fagstjóri sprengjusveitar LHG.


Lif_asamt_Vadderen_og_bat_teirra.
Líf ásamt Vædderen og bát þeirra

Orion_P3_asamt_Vadderen
Vædderen og Orion P3
Lif_ad_storfum
Líf að störfum