Mannbjörg suður af Snæfellsnesi

  • Mavanes_016

Miðvikudagur 22. Október 2008

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 18:43 í gærkvöldi tilkynning á rás 16 að eldur væri um borð í sjö tonna trillu Mávanesi 7169. Báturinn var staddur suður af Snæfellsnesi með tvo menn innanborðs, voru þeir fljótlega komnir í björgunarbát ómeiddir.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF hélt á slysstaðinn og haft var samband við Dragnótabátinn Sólborgu TF-US sem staðsett var í námunda við Mávanesið. Einnig var björgunarsveitum frá Akranesi til Hafnarfjarðar sem og björgunarbátum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar gert viðvart.  Veður var eins og best verður á kosið á svæðinu og voru skipbrotsmenn komnir heilu og höldnu um borð í Sólborgina kl. 1925. Þyrla LHG TF-Líf kom á staðinn um svipað leyti en var snúið tilbaka þegar ákveðið var að mennirnir færu til Reykjavíkurhafnar með Sólborginni.

Mávanesið var alelda stafna á milli og sökk um kl. 2000. Ekki er vitað um orsakir eldsins en Rannsóknanefnd Sjóslysa rannsakar málið.

Myndina tók áhöfn TF-Lífar.

22.10.08/HBS