Æfing í tengslum við Björgun 2008

Mánudagur 27. október 2008

Wilson Muuga 281206aSlysavarnarfélagið Landsbjörg stóð um helgina fyrir ráðstefnunni Björgun 2008. Á ráðstefnunni voru ýmsir áhugaverðir fyrirlestrar um viðbúnað, leitar og björgunarmál.

Þar á meðal var fyrirlestur Auðuns F. Kristinssonar, yfirstýrimanns  og Björns Brekkan Björnssonar flugstjóra hjá LHG en þeir lýstu björgunaraðgerðum við strand Wilson Muuga (WM) rétt sunnan við Sandgerði 19. desember 2006.  Átta áhafnarmeðlimir danska strandgæsluskipsins Triton höfðu farið út á bát til þess að freista þess að aðstoða áhöfn flutningaskipsins en bátnum hvolfdi og féllu allir útbyrðis.

Áhöfn Líf, þyrlu Landhelgisgæslunnar, tókst á frækilegan hátt að bjarga úr sjónum 7 mönnum en sá áttundi var látinn þegar að var komið og var tekinn um borð í þyrluna síðar um morguninn. Ljóst er að nætursjónaukar skiptu sköpum við þessa björgun.

Í tengslum við ráðstefnuna fór einnig fram skrifborðsæfing í Samhæfingarstöðinni við Skógarhlíð þar sem sett var á svið  stórslys á sjó eða árekstur farþegaskips og togara undan Reykjanesi og þurfti að flytja um 900 manns í land.  Æfingin sem LHG, Landsbjörg,  SHS ofl. tóku þátt í tókst vel en umsjónarmaður og skipuleggjandi æfingarinnar var fyrrverandi skipherra í bandarísku strandgæslunni, Paul Culver.

27.10.08/HBS