Stefnt að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála

  • Eir björgunaræfing með Ægi sumarið 2007

Í fréttatilkynningu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu kemur fram að vegna forsíðufréttar í Fréttablaðinu 22. desember um sparnað í ríkisrekstri og sameiningu stofnana vill ráðuneytið taka fram: Ríkisstjórnin féllst hinn 16. desember sl. á tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að stefnt yrði að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála.

Var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu falið að hafa forgöngu um viðræður dóms- og kirkjumálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis í því augnamiði að sameina krafta ríkisstofnana, sem tengjast siglingum, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirliti, sjúkra- og neyðarflugi sem og sjómælingum og rannsóknum í hafinu. Markmiðið er að auka hagræði og skilvirkni í rekstri þeirra stofnana sem hér um ræðir, en það eru einkum Landhelgisgæslan, Varnarmálastofnun, Siglingastofnun, Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun, Vaktstöð siglinga auk þeirra, sem sinna sjúkraflugi.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 14. nóvember sl. er ráðuneytum falið að leita allra leiða til að draga úr ríkisútgjöldum með hliðsjón af forgangsröðun brýnustu verkefna og kjarnastarfsemi og huga að hagræðingu og skipulagsbreytingum eins og sameiningu stofnana. Með samþættingu verkefna löggæslu- og öryggisstofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og annarra stofnana má að mati ráðuneytisins treysta öryggisviðbúnað hér á landi auk þess sem veigamikil fjárhagsleg rök mæla með því að starfsemi þessara aðila lúti samhæfðri stjórn. Á það einnig við um einstök verkefni er lúta að rekstri ratsjáreftirlitskerfa, tæknilegum rekstri gagnatenginga og greiningarstarfs sem og samskiptum við erlend öryggismálayfirvöld. Með þeim viðræðum, sem nú fara í hönd á grundvelli tilmæla ríkisstjórnarinnar, takast ráðuneytin sameiginlega á við að móta leiðir til að tryggja sem best öryggi landsmanna og nýtingu opinberra fjármuna.

Myndina tók Guðmundur St. Valdimarsson